Tveir litlir en mikilvægir sigrar

Um daginn fékk ég að sitja einn fund sem varamaður í stjórn Landsvirkjunar. Ég vildi nota tækifærið vel og undirbjó því tillögu um að Landsvirkjun kostaði rannsóknir á verndargildi íslenskra háhitasvæða.

Það er vandræðaleg staðreynd að enn er eftir að ljúka fjölmörgum nauðsynlegum rannsóknum til að hægt sé að meta verndargildi svæða eins og Brennisteinsfjalla, Torfajökulssvæðisins, Grændals og ótal annarra háhitasvæða. Þetta þýðir að við vitum alls ekki hvað ýmis svæði sem orkufyrirtækin sækja fast að fá að bora rannsóknarborholur í eru mikils virði sem náttúruperlur.

Það öfugsnúna í þessu er að það eru einmitt orkuyfirvöld sem eiga að útvega Náttúrverndarstofnun peningana til að klára þessar rannsóknir á verndargildi háhitasvæðana - en peningarnir eru aldrei til. Samt kostar það bara um 140 milljónir að klára rannsóknirnar - álíka mikið og ein tilraunaborhola. Það er hins vegar alltaf til peningur fyrir þeim!

Orkufyrirtækin liggja með réttu undir ámæli fyrir að ásælast þessi svæði í skjóli þess að ekki er búið að rannsaka verndargildi þeirra. Þess vegna lagði ég til að Landsvirkjun útvegaði þá peninga sem upp á vantar til að Náttúruverndarstofnun geti klárað verkefnið og sýndi með því góðan hug sinn til náttúruverndar í landinu. Til rökstuðnings benti ég á að Landsvirkjun hefði kostað opnun Þjóðminjasafnsins.

Tillagan fékk misjafnar undirtektir, jákvæðar frá stjórnarmönnum en heldur dræmar frá einum starfsmanni fyrirtækisins. Eftir nokkrar umræður var niðurstaðan engu að síður sú að tillagan var samþykkt með breytingu. Breytingin var sú að forstjóra var falið að leita eftir samstarfi við yfirvöld með það í huga að Landsvirkjun komi að því að klára grunnrannsóknir á verndargildi háhitasvæða landsins.

Einn lítill en mikilvægur sigur fyrir náttúruvernd. Mikilvægur af því að þarna fékkst viðurkenning stjórnar Landsvirkjunar á ójafnri stöðu náttúruverndar og orkugeirans og af því að nú er hægt að spyrjast fyrir á Alþingi hvernig gangi með framkvæmd tillögunnar.

Annan lítinn sigur en afar mikilvægan vann forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, Gunnar Svavarsson, nýlega. Sem stjórnarmaður í Hitaveitu Suðurnesja lagði hann til að stjórn HS drægi til baka umsókn sína um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Tillagan var samþykkt og nú erum við skrefi nær því að forða Brennisteinsfjöllum frá orkugræðginni.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar sendi frá sér þessa ályktun um málið.

 

Ályktunin - Hlífum Brennisteinsfjöllum

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar fagnar því að Hitaveita Suðurnesja hf. hafi riðið á vaðið með yfirlýsingu um að draga til baka sameiginlega umsókn sína með Orkuveitu Reykjavíkur hf. um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Á þennan hátt hefur Hitaveita Suðurnesja hf. sýnt hófsemd í verkum sínum og forðast að sækjast eftir rannsóknar- og virkjanaleyfum á svæðum sem hafa óumdeilt náttúruverndargildi. Brennisteinsfjöll á Reykjanesskaga eru dæmi um slíkt svæði þar sem enginn efast um náttúruverndargildi þess. Svæðið sem er eina óspillta víðerni höfuðborgarsvæðisins býr yfir miklum jarðfræðiminjum og landslagsfegurð í samspili við menningarminjar. Útivistargildi  Brennisteinfjalla mun einungis aukast í framtíðinni, fræðslu og vísindagildi þess er ótvírætt.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar vill hvetja stjórnir Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar að fylgja fordæmi Hitaveitu Suðurnesja. Með því gætu fyrirtækin sýnt samfélagslega ábyrgð sína í verki. Um leið að sótt verði í framtíðinni eftir rannsóknarleyfum á svæðum sem þegar hefur verið raskað en hinum hlíft. Þannig er sköpuð aukin virkari samræða um rannsóknarkosti hverju sinni.

Ályktunin var samþykkt samhljóða með öllum atkvæðum bæjarfulltrúanna í bæjarstjórn, en Samfylkingin er með sjö bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, Sjálfstæðisflokkur þrjá og Vinstri-Grænir einn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband