26.12.2006 | 03:20
Guð og grjót
1986 fór ég ásamt frænda mínum Hlé Guðjónssyni að taka viðtal við Sveinbjörn Beinteinsson allsherjargoða fyrir skólablað MR. Það var skemmtileg kvöldstund sem við áttum með goðanum í fábreyttum húsakynnum hans uppi á Draghálsi. Viðtalið var langt og miklu lengra en við áttum til segulbandsspólur í en ein af þeim spurningum sem okkur, menntaskólastrákum, datt í hug að spyrja Sveinbjörn var hvort hann tryði á Óðinn, Þór og þá fjölskyldu alla í raun og veru.
Hann útskýrði af þolinmæði að í raun hefðu gömlu goðin öll aðeins verið táknmyndir fyrir ákveðin goðmögn í náttúrunni og lífinu sjálfu. Fyrir gróandann, ástina, skáldskapinn, líf og stríð. Hann bætti við að nútíminn væri á hraðri leið frá náttúrunni og að það væri hætta á að nútímamaðurinn týndi rótum sínum í manngerðu umhverfi sínu. Þess vegna væri þörf á að viðhalda tengslum við gömlu goðin, við náttúruna.
Ein Lesbók Morgunblaðins í fyrra var sérstaklega tileinkuð Ólafi Elíassyni og náttúru Íslands. Þar var margt athyglisvert en eitt það markverðasta var að mínu mati sú skoðun Ólafs að það verðmætasta við öræfi Íslands væri máttur þeirra til að breyta þeim sem um þau ferðast. Svo sterkt orka þau á vitundina að þau geta breytt afstöðu ferðalangsins til lífins, fengið hann til að endurskoða líf sitt og jafnvel gefið honum svör við áleitnum spurningum.
Séra Gunnar á Reynivöllum skrifaði í Morgunblaðið á sömu nótum í grein sinni "Stríð streymir Jökla" og setti hálendisgöngur í samband við eyðimerkurgöngu Krists - sígilt þema í gyðing-kristinni menningarhefð. Reyndar afar viðeigandi dæmisaga á okkar tímum þar sem boðskapur hennar er að ekki er allt falt fyrir peninga.
Á sömu lund töluðu þeir Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og Pétur Gunnarsson, rithöfundur, á sólstöðuhugvekju í Hallgrímskirkju þann 21. desember sl. Fyrr á öldum þegar fólk bjó við þröngan kost í húsum sem nánast voru holur í jörðinni var upplifunin eflaust yfirþyrmandi að sjá musteri guðs, himinháar glæsibyggingar á biskupsstólum í Skálholti og á Hólum. Þær hafa vakið með fólki lotningu fyrir hinu eilífa guðs ríki.
Nú má hvarvetna sjá glæsibyggingar en þær eru reyndar fæstar reistar guði til dýrðar og þær vekja ekki í brjóstum okkar lotningu. Miklu frekar þá tilfinningu að manninum sé allt mögulegt. Drottnunartilfinningu. Spurningin um eilífðina er þó aldrei langt undan og jafnvel yfirverkfræðingur við gerð stærstu mannvirkja hlýtur að velta fyrir sér tilganginum með lífinu þegar hann sér endalok þess nálgast.
Í ágætri barnabók dreymir söguhetjuna Palla að hann er einn í heiminum og getur gert allt sem honum sýnist. Hann uppgötvar þó fljótt að það er lítið gaman að mega allt en hafa engann til að deila því með. Draumurinn breytist í martröð, Palli vaknar skælandi og er huggaður af móður sinni. Maðurinn er bráðum einn í heiminum og getur í raun gert allt sem honum sýnist. Samt er tómleikatilfinningin skammt undan - hver er tilgangurinn með þessu öllu? Til hvers er lifað?
Við höfum þörf fyrir að finna til lotningar og til þeirrar tilfinningar að vera partur af stærra sköpunarverki, hver svo sem skaparinn er og hvort sem hann er til í raun og veru. Þessa tilfinningu er auðvelt að finna á ferð um stórbrotin öræfi landsins, helgidóm hins náttúruskerta nútímamanns. Á mælikvarða þeirra er æfi okkar aðeins sandkorn á strönd eilífðarinnar og þau vekja með okkur áleitnar spurningar um réttmæti þess að gjörbreyta ásýnd náttúrunnar bara af því við getum það og enginn er til að banna okkur það.
Ég held að allsherjargoðinn hafi haft rétt fyrir sér í því að tengslin við náttúruna yrðu okkur æ mikilvægari eftir því sem hinn daglegi heimur okkar verður ónáttúrulegri. Hann taldi ásatrúna mikilvæga við að rækta þau tengsl. Það er e.t.v. ekki fjarri sanni hjá þjóð sem auk þess að trúa á Krist játar trú á álfa og huldfólk og spjallar við framliðna ættingja sína í gegnum miðla - stundum jafnvel í gegnum fjölmiðla.
Séra Gunnar vitnaði einnig í merka rannsókn Þorvarðar Árnasonar náttúrufræðings sem sýnir að náttúran og landslag er mikilvægasta atriðið í þjóðarvitund Íslendinga. Ef við fórnum náttúrunni til að græða í skamman tíma dálítið af peningum sem við nú þegar eigum nóg af, hvaða áhrif mun það hafa á þjóðarvitund og sjálfsmynd Íslendinga? Hver verður þá okkar helgidómur og til hvers höfum við lifað?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er þakklát þér Dofri að hugsa svona og skrifa svona, barátta fyrir landið og sálarheill okkar mannanna! Skrif og hugsanir hafa mátt! Eins og þú sjálfur skrifar um að hafa lesið það sem efldi jákvæðar hugsanir þínar fyrir baráttu landverndar og þjóðarheillar, og lestur minn á þessari grein þinni sem fær mig til að senda þér línu. Takk fyrir. SS
Sigríður Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 26.12.2006 kl. 13:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.