27.12.2006 | 02:29
Ódrepandi ferðaþjónusta og kílóverð á hval
Það verður að segjast eins og er að ferðaþjónustan á sannarlega framtíðina fyrir sér. Það hefur hún sýnt svo ekki verður um villst. Hún hefur lifað af hágengis- og þenslustefnu undanfarinna missera og hún hefur eflst þrátt fyrir að ríkisstjórnin eyði meira fé í að auglýsa landið sem gósenland álrisa en sem náttúruparadís.
Síðast en ekki síst hefur ferðaþjónustunni tekist að vaxa á hverju ári þrátt fyrir núverandi og fyrrverandi formenn ferðamálaráðs, þá Einar Odd Kristjánsson og Einar K Guðfinnsson. Það er kannski mesta afrekið. Sá sem á slíka vini...
Whole Foods álítur orðspor Íslendinga orðið svo slæmt í umhverfismálum að verslunarkeðjan telur það hvorki sér né íslenskum vörum til framdráttar að auglýsa þær sem íslenskar. Orðin Iceland Naturally eru að verða alþjóðleg öfugmæli, þökk sé vanhugsuðum aðgerðum sjávarútvegsráðherra.
Í síðustu viku voru fréttir af því að íslensk stjórnvöld borga sérstöku ráðgjafafyrirtæki í Bandaríkjunum milljón á mánuði fyrir hagsmunagæslu. Einkum til að vega upp á móti óæskilegum áhrifum af ákvörðunum sjávarútvegsráðherra í hvalveiðum og andstöðu hans við tillögur alþjóðasamfélagsins um tímabundið bann við botnvörpuveiðum á alþjóðlegu hafsvæði utan lögsögu þjóðríkja. Sjálfsagt ekki vanþörf á þeim peningum.
Það er þörf á meiri peningum. Einar Oddur Kristjánsson, taldi sem formaður ferðamálaráðs í nóvember að 300 milljónir þyrfti í aukið fé til markaðsmála til að mæta óæskilegum áhrifum af hvalveiðum Íslendinga á ferðaþjónustuna. Sem varaformaður fjárlaganefndar virðist hann hins vegar ekki hafa sömu áhyggjur því niðurstaða fjárlaga varð ekki aukning á fé til markaðsmála heldur samdráttur. Traustur málsvari ferðaþjónustunnar, Einar Oddur.
Nú er í uppsiglingu herferð umhverfisverndarsamtaka vegna vanhugsaðrar og einstrengingslegrar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um að hefja tilgangslausar hvalveiðar í atvinnuskini. Án alls undirbúnings, án þess að vita hvort markaður væri fyrir afurðirnar og án þess að hafa minnsta samráð við ferðaþjónustuna.
Það verður dýrt kílóverðið á hvalkjötinu þegar upp er staðið. Enn er óvíst að hægt verði að selja kjötið til Japans en eins og kunnugt er taldi Japanski sendiherrann útilokað að Japanir hefðu áhuga á að flytja inn frá Íslandi eitthvað sem meira en nóg væri til af í Japan. Við vitum þó hver verður látin borga reikninginn á endanum - hin ódrepandi ferðaþjónusta!
Segir herferð gegn íslenskum vörum í undirbúningi í Bandaríkunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:44 | Facebook
Athugasemdir
Kemur alltaf betur og betur í ljós hversu illa ígrunduð ákvörðun þetta var hjá Herra Sjávarútvegisráðherra. En annað mál er að áróður umhverfisverndarsinna er einnig botnlaus pyttur sem varla er mark á takandi. Tölur um "hvalkjötsfjöll" í Japan eru teknar úr öllu samhengi og markaðurinn, en ekki sendiherra Japans, fær að eiga lokaorðið um hvort af Japanssölu verður...
Sigurður Ari (IP-tala skráð) 27.12.2006 kl. 11:12
Tveir þumlar
Agnar (IP-tala skráð) 27.12.2006 kl. 21:04
Er ekki einhver með þrjá þumla? Ekki veitir af til þess að dýrka þessa dómadags dellu þína um íslenska ferðaþjónustu versus hvalveiðar.
Herbert Guðmundsson, 27.12.2006 kl. 22:33
Samkvæmt fréttum dagsins, er ekki hægt að kenna hvalveiðum um slaka á bandarískum markaði. Sjávarútvegsráðherra metur það svo, að um lélegt afurðaverð sé að ræða.
Hér má sjá tilvitnanir í þrjá stóra markaðsaðila sem allir virðast sammála um eitt. Hvergi fæst betra afurðaverð en einmitt í Bandaríkjunum.
Baldur McQueen Rafnsson (IP-tala skráð) 27.12.2006 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.