Af gefnu tilefni...

...er ástæða til að benda á að Trölladyngja var (og er kannski enn á pappírunum) eitt af helstu vonargullum Hitaveitu Suðurnesja. Átti að skila 80-100 MW. Þegar þessi skemmdarverk voru framin var það til að bora tvær rannsóknaholur. Þær hafa reynst þurrar.

HS stefndi að því að ná upp 400 MW í Trölladyngju, Sandfelli, Seltúni og Austurengjum. 100 MW á hverjum stað. Nú er Trölladyngja líkast til úr sögunni og Sandfell ku vera tengt svæði svo þar hafa raunverulegar vonir manna um orku dvínað verulega þótt reynt sé að láta á engu bera.

Rétt eins og í Trölladyngju og Sandfelli eru Austurengjar og Seltún gríðarlega falleg útivistarsvæði. Hitaveita Suðurnesja, Orkuveitan eða hver önnur fyrirtæki sem þar hyggjast leita að orku ættu ekki að gera sér vonir um að fá leyfi til að skemma þessi svæði baráttulaust.

Þegar svo er hugsað til þess að Reykjanes, þar sem HS orka ætlar að auka umtalsvert orkuvinnslu er svæði sem Orkustofnun telur að sé nú þegar verulega ofnýtt, er ekki laust við að maður klóri sér í hausnum yfir því hvar á að taka þau 625 MW sem þarf í orkufrekjuna í Helguvík.


mbl.is Umhverfisspjöll við Sogalæk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borðar ekki nóg

Ef marka má myndir af poppdívunni að undanförnu er hún alls ekki að borða nóg til að geta staðið í svona þrekraunum eins og tónleikar eru. Tónleikar í tvo tíma er síst minni áreynsla en tveggja tíma leiksýning þar sem er verið að hamast á sviðinu allan tímann. Eða strangur fótboltaleikur.

Það þýðir ekkert að vera svelta sig á sama tíma og maður ætlar að reyna svona á sig. Það er eins og að ætla í torfærur á bensínlausum bíl. Madonna ætti að fá sér vel af pasta fyrir næstu tónleika.


mbl.is Madonna úrvinda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brunaútsala

Nú er meirihlutinn í borgarstjórn búinn að knýja í gegn sölu á hlut OR í HS orku til hins Kanadíska félags Magma Energy. Aumingjalegri díll hefur ekki sést lengi. 30% út og afganginn eftir 7 ár, lánað á 1,5% vöxtum með veði í engu nema bréfunum sjálfum. Verðið miðað við dollara þannig að ef íslenska krónan verður búin að rétta úr kútnum um t.d. 50% eftir 7 ár þá fáum við 50% minna.

Meirihlutinn í borgarstjórn segir að við neyðumst til að selja núna því Samkeppnisstofnun hafi bannað OR að eiga meira en 10% í HS orku. Þetta er rangt á marga vegu.

  • Í fyrsta lagi eru samkeppnislögin ekki hafin yfir gagnrýni og ljóst að á margan hátt eiga þau engan vegin við um sölu á rafmagni til stórnotenda
  • Sækja hefði mátt um framlengdan frest þar til betur árar og umræða hefur farið fram um eignarhald á auðlindum landsins og nýtingu þeirra
  • Að minnsta kosti hefði mátt láta nægja að selja eignarhlut OR umfram 10% og draga þannig úr skaðanum.

Nú þegar búið er gefa þetta fordæmi er vandséð hvernig íslensk orkufyrirtæki ætla að fá lán til framkvæmda í framtíðinni. Af hverju ætti einhver að lána slíku fyrirtæki þegar er hægt að kaupa það fyrir slikk? Hvað mun meirihlutinn selja næst? 49% í Orkuveitunni? 

Gísli Marteinn Baldursson neitaði því úr pontu í borgarstjórn nú rétt í þessu. Hann sagði hins vegar ekkert um sannfæringu sína í málinu. Ég held að hún sé enn sú sama og áður hjá þeim borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem tilheyra Hannesaræskunni. Það er bara beðið eftir betri tíð - og að Villi hætti.


mbl.is Samningar OR og Magma birtir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt á uppsprengdu verði

Verðlagið í 10/11 bendir til þess að hér hafi verið um verðsprengju að ræða.

Annars eru sprengjur gjarna tengdar verslunum á ýmsan hátt. Sprengiútsala er fyrirsögn sem maður sér stundum í þeim bæklingum sem flæða inn um lúguna.

Og bláa bomban í Debenhams er nafn á árlegri útsölu. Veit þó ekki af hverju hún er blá.


mbl.is Sprengjuhótun í Grafarvogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haldið gleðinni stelpur!

Stelpurnar okkar hafa fyrir löngu unnið hug og hjörtu þjóðarinnar með leikgleði, baráttuanda og góðum fótbolta. Það var ekkert að byrja í gær og þær eiga eftir að láta þjóðarhjartað taka ótal marga spretti í framtíðinni. Og jafnvel missa nokkur slög.

Það verður spennandi að fylgjast með leiknum á móti Þjóðverjum. Fyrirfram býst maður kannski ekki við sigri en á góðum degi er allt mögulegt. Haldið gleðinni, njótið þess að spila leik í Evrópukeppninni, hafið gaman af þessu og leyfið okkur að sjá það.

Má ég biðja um kraftstökks-innkast?


mbl.is EM: Við ætlum aftur á stórmót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verndarhugur á villigötum

Orf líftækni notar erfðatækni til að láta bygg framleiða afar sjaldgæft og verðmætt prótein sem notað er í lyfjagerð. Byggplantan var sérstaklega valin af því hún víxlfrjófgast ekki og því ekki hætta á að hin erfðabreytta planta blandist villtu byggi. Andstaðan virðist mjög lituð af baráttu gegn erfðabreyttum matvælum sem er talsvert annar pakki. Það verður aldrei búið til buff eða grautur úr bygginu hjá Orf Líftækni.

Andstæðingar hafa áhyggjur af láréttum genaflutningum. Þ.e. að eitthvað að próteininu sem skilur hefðbundið bygg frá hinu erfðabreytta blandist jarðveginum, skordýr eða mýs éti það og þaðan berist það upp fæðukeðjuna.

Að mínu áliti er kenningin um genablöndun lífvera með ofangreindum hætti afar langsótt. Ég hef étið margt um ævina en aldrei hefur neitt af því blandast genum mínum. Eini lárétti genaflutningurinn sem ég kannast við er því þessi gamli góði. Í öðru lagi er þetta prótein engin nýjung heldur finnst það víðar í náttúrunni og er því engin ógnun við hana. 

Leyfið sem gefið var fyrir ræktuninni var veitt eftir að öllum skilyrðum um rannsóknir og eftirlit hafði verið fullnægt og meira að segja var úrskurði frestað til að fara aftur yfir málið en það kom sér afar illa fyrir Orf Líftækni.

Það er leiðinlegt að sjá góðan verndarhug á slíkum villigötum. Það er nóg af verðugum verkefnum.


mbl.is Skemmdarverk unnin á tilraunareit í Gunnarsholti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið að blóðmjólka æseif

Nú er stjórnarandstaðan búin að blóðmjólka æseif. Orð eins og "svik" og "landráð" hafa misst merkingu sína. Fólk er farið að átta sig á heildarmyndinni og fjörið er búið í bili.

Eftir að hafa sökkt skútunni með því að gefa vinum sínum eigur þjóðarinnar og leggja niður "eftirlitsiðnaðinn" í landinu standa helmingaskiptaflokkarnir uppi á skeri og hreyta ónotum í þá sem eru að reyna bjarga þjóðinni á þurrt.

Fyrst átti ekki að borga neitt en það reyndist galið, svo voru vextirnir taldir of háir en reyndust svo mun lægri en skuldatryggingarálag ríkisins gaf tilefni til. Svona hefur hver upphrópunin eftir aðra verið könnuð og fæstar hafa þær staðist skoðun.

Aldrei hefur stjórnarandstaðan lagt til neina lausn á málinu. Enda ekki tilgangurinn því það býður upp á gagnrýni sem er óþægileg. Það átti bara að kreista eins mikla óánægju út úr málinu og hægt væri. Og nú er mjólkin orðin blóðlituð.

Guðbjartur formaður fjárlaganefndar ætti að fá orðu fyrir þolinmæði.


mbl.is Samkomulag að nást
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagkvæmni hjólreiða

Allir vita að það er margfalt ódýrara að hjóla en að eiga og reka bíl til að komast til og frá vinnu. Allir sem hafa prófað þetta, t.d. í átakinu "hjólað í vinnuna" vita líka að þetta er einstaklega hagkvæm leið til að fá holla og góða hreyfingu daglega. Ekki síst fyrir fólk sem er of upptekið til að gera sér sérstaka ferð í líkamsrækt.

En það sem ég er alltaf að sjá betur og betur eftir því sem ég les fleiri skýrslur og greinar um eflingu hjólreiða í borgum er hvað það sparast miklir skattpeningar með því að efla hjólreiðar.

Hjólreiðaátak í Odense fékk framlagið til átaksins margfalt til baka með fækkun veikindadaga og þar með sjúkradagpeninga. Auk þess lengdust ævilíkur íbúa um 2 ár að meðaltali.

Komið hefur fram í MSc ritgerð í heilsuhagfræði að hagrænn ávinningur af því að fjölga hjólandi og gangandi ferðum um 15-20% á Íslandi væri um og yfir 30 milljarðar á ári.

Þá er ekki tekið með í reikninginn það borgarland og steinsteypa sem sparast af því að færri þurfa að nota bíla og þar með aukaakreinar, mislæg gatnamót og bílastæði.

Fyrir borgarfulltrúa sem daginn inn og út er að spá í heimilisbókhald borgarinnar er þetta sláandi.


mbl.is Hvetur Finna til að hjóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiðyrðamál?!!

Var ekki Davíð heilinn á bak við íslenska efnahagsundrið? Á bak við mestu kaupmáttaraukningu sem sögur fara af? Var einhver betur fallinn til að skilja til fullnustu, smyrja og viðhalda hinu flókna gangverki hins vandlega úthugsaða íslenska efnahagsundrakerfis?
mbl.is Segir Davíð hafa skort sérfræðiþekkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til eftirbreytni

Þetta hlýtur að verða að gerast á Íslandi líka.

Það getur varla staðist að lög um bankarekstur og endurskoðun á Íslandi séu svo götótt að bönkum leyfist að:

  • spila upp verðið á sjálfum sér með því að kaupa hlutabréf í sjálfum sér í gegnum leppfélög
  • spila upp verðið á sér með því að lána fjölda fyrirtækja tugi milljarða til að kaupa hlutabréf í bankanum með veð í engu nema bankanum
  • spila upp verð bankans með því að veita stjórnendum bankans milljarða lán til að kaupa bréf í bankanum með veð í engu nema hlutabréfunum

Það getur varla verið að endurskoðunarfyrirtæki bankanna sem hljóta að hafa vitað af þessu geti kallað þetta góðar reikningsskilavenjur.


mbl.is Stjórnendur bankans ákærðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband