Ósköp er vandlifað!

Það er ekki auðvelt að vera Vinstri grænn pólitíkus í Hafnarfirði þessa dagana. Undanfarnar vikur hafa þeir verið upp á rönd og með ónot út í Samfylkinguna í Hafnarfirði fyrir að leyfa Hafnfirðingum að kjósa um stækkun álversins í Straumsvík. Sögðu það bera ótvírætt merki um að Samfylkingin ætlaði að knýja fram stækkun nó matter vott! Voru að sjálfsögu alveg á móti þessu öllu.

Það er reyndar ofvaxið mínum skilningi hvernig þeir fengu þá útkomu. Af hverju þá að leyfa fólki að kjósa? Þegar könnun sýndi svo að rúmlega 90% Hafnfirðinga voru afar sælir með að fá að kjósa um þetta mikilvæga mál þá hættu Vg að vera á móti kosningunni sjálfri en settu sig þess í stað harðlega á móti því að kosningin fjallaði um deiliskipulag með eða án stærra álvers!

Höfum eitt á hreinu. Hafnarfjarðarbær hefur ekki vald til að veita leyfi fyrir virkjunum í Þjórsá eða á Hengilssvæðinu - hann hefur hins vegar skipulagsvald. T.d. vald til að ákveða hvort skipulag bæjarins gerir ráð fyrir einföldu eða þreföldu álveri. Þetta hlýtur bæjarfulltrúi Vg að vita svo maður getur nú ekki annað en klórað sér í hausnum yfir því hvað henni gengur til. Annað en að vera bara á móti.

Nú í dag kynnir bæjarstjórinn tillöguna sem Samfylkingin er búin að ákveða að Hafnfirðingar muni kjósa um. Tillagan hefur tekið miklum breytingum til batnaðar fyrir Hafnfirðinga og það var þverpólitísk samstaða um að leggja hana svona í dóm kjósenda. Þetta sagði bæjarstjórinn í kvöldfréttum.

Þá rjúka Vinstri grænir upp og telja bæjarstjórann hafa sagt Vinstri græna samþykka stækkun álversins. Þeir snara sér í að semja ályktun þar sem þeir mótmæla þessu harðlega. Gallinn er bara sá að bæjarstjórinn sagði aldrei að Vg vildu stækkun. Hann sagði bara að það væri sátt um að leggja tillöguna fyrir kjósendur í þessari mynd.

Það er erfitt að sjá hvernig er hægt að misskilja þetta. En greinilega er mjög vandlifað sem Vinstri grænn í Hafnarfirði - aftur á móti!


mbl.is VG: Engin þverpólitísk samstaða liggur fyrir í bæjarstjórn Hafnarfjarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú bara hræsni. VG hefur aldrei verið á móti kosningunni heldur skoruðu þau á bæjarstjórn að láta kjósa um málið meðal íbúanna á sínum tíma. Svo er líka merki um valdahroka hjá þér að segja að Samfylkingin í Hafnarfirði sé búin að ákveða að kjósa um þessa tillögu. Auglýsing tillögunnar hefur ekki verið samþykkt í skipulagsráði og bæjarráð hefur ekki fjallað um tillögu Samfylkingarinnar.

Þér finnst bara að svona eigi þetta að vera, Samfylkingin hafi ákveðið það. Finnst þér það lýðræðislegt?

Það er líka rétt há þér að Hafnarfjörður hefur skipulagsvald. Hann hefur skipulagsvald líka til þess að samþykkja aðalskipulag. Bæjarstjórinn lofaði Alcan breyting á aðalskipulagi með samningnum um sölu landsins. Án þess að slík samþykkt lægi fyrir. Finnst þér það lýðræðislegt?

Það er líka skrýtið að þú segir að sátt ríki um að leggja tillöguna fyrir í þessari mynd. Sátt meðal hverra? Eitt er að reyna að kreista fram tillögu um ítrustu mengunarvarnir og taka þátt í því starfi. Annað er að selja Alcan land undir stækkun.

Ég er ekki vinstri/grænn en mér finnst þetta rétt hjá bæjarfulltrúanum að segja svona frá þessu. Það voru þín orð að segja að bæjarstjórinn hafi logið þessu. Enginn annar tók svo sterkt til orða.

Anna (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 23:53

2 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ljúfa Anna.

Já mér finnst það lýðræðislegt að þegar flokkur sem fyrir sveitastjórnarkosningar 2002 lofar íbúum kosningum um stór mál þá standi hann við það. Ekki síst ef hann hefur svo fengið hreinan meirihluta. Enda eru rúmlega 90% bæjarbúa ánægð með að fá að kjósa.

Varðandi þetta síðasta þá held ég að þú verðir að lesa pistilinn aftur. Þá muntu sjá að enginn tók sér gífuryrði í munn - fyrr en þú settir þau fram. Verum kurteis.

Kv. Dofri.

Dofri Hermannsson, 25.1.2007 kl. 00:10

3 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Ég er nú ekki Samfylkingarmaður og bý ekki í Hafnarfirði. mig langaði bara að leggja smá til málanna. Anna talar mikið um hvort hlutir séu lýðræðislegir eða ekki. Nú er málum svo háttað hér á Íslandi að við höfum valið okkur stjórnarform sem kallast fulltrúalýðræði, sem þýðir að við almenningur/kjósendur höfum vald á 4 ára fresti að kjósa okkur fulltrúa til að stjórna í sveitarstjórn og Alþingi. Eftir að meirihlutastjórn hefur verið mynduð þá er það alltaf lýðræðislegt ef meirihlutinn tekur einhverja ákvörðun, við getum verið ósammála henni en hún er samt lýðræðisleg. Ef okkur almenningi/kjósendum líkar síðan ekki hvernig þessi meirihluti stjórnar, í umboði okkar úr kosningum, er okkur alltaf tryggð þá lýðræðislegu réttindi til að skipta um meirihluta á 4 ára fresti. Við búum við fulltrúalýðræði en ekki Beint lýðræði og þannig í raun eru stjórnvöld, sama úr hvaða flokki þau koma, ekki skuldbundin okkur með að láta kjósa um málefni. Þau geta náttúrulega tekið þá ákvörðun en þá er það líka þeirra réttur til þess þar sem þau eru í meirihluta. Því miður finnst mér þessi lýðræðisumræða of oft snúast um að það sé eingöngu lýðræði ef minnihlutinn fær að ráða og allt sé mjög ólýðræðislegt ef meirihlutinn, kosinn af okkur, fær að ráða. Það er eitthvað bogið við þetta viðhorf að mínu mati. en verið svo góð við hvort annað

Guðmundur H. Bragason, 25.1.2007 kl. 01:28

4 Smámynd: Hlynur Hallsson

Dofri, þú ferð með rangt mál og veist betur. Vinstri græn hafa alltaf viljað að fólk fengi að kjósa um stækkum álbræðslu Alcan. Alveg eins og við vildum þjóðaratkvæði um Kárahnjúkavirkjun. Þú átt hinsvegar skyljanlega í erfiðleikum með þína samflokksmenn sem tala tveimur tungum þegar rætt er um álvæðingu landsins. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 25.1.2007 kl. 13:51

5 identicon

Kæri Dofri,
ég sé nú ekki alveg tilganginn hjá þér að vera að atyrðast út í vg í Hafnarfirði vegna þeirra málflutnings um nýjustu fréttir vegna álversstækkunar. Eins og þú veist er afstaða um þetta mál þverpólitískt hér í Hafnarfirði en enginn af bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar hafa, svo vitað sé, lýst sig andvígan stækkun í Straumsvík. Miðað við þinn málflutning í náttúruverndarmálum tel ég raunar að þú eigir meiri samleið með vg í Hafnarfirði í þessu máli heldur en bæjarfulltrúum og samflokksmönnum okkar sem mynda meirihlutann í bænum. Bendi þér einnig að skoða gagnrýni Sólar í straumi á málflutning Lúðvíks bæjarstjóra.

Með kveðju,

Þröstur Sverrisson
Félagi í Sól í straumi

Þröstur Sverrisson (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 14:11

6 identicon

Sæll Hlynur. Vg hefur ítrekað sagt Sf vera að hlaupa í skjól á bak við kjósendur með íbúakosningu frekar en að axla sjálf ábyrgð á málinu. Hvað þýðir það - að þeir vilji kosningar?

Sæll Þröstur. Sf hefur ekki talið rétt, vegna yfirburðastöðu sinnar í bænum (56%) að gefa upp afstöðu sína. Bæjarbúar sem ég hef rætt við telja að það væri mjög slæmt ef bæjarstjórnarflokkur Sf gerði það - það yrði tekið sem flokkslína og þar sem hér er um þverpólitístk mál að ræða væri það mjög óviðeigandi af 56% flokki.

Ég hef engan áhuga á að standa í hnútukasti við Vg en get ekki annað en tekið upp hanskann fyrir minn flokk þegar á hann er ráðist með röngu. Því fer fjarri að Vg sem heild geri þetta en sumir frambjóðendur virðast hafa það að áhugamáli. Það er mjög miður því ég tel að ef Vg væri til í að taka höndum saman með Samfylkingunni gætum við unnið málefninu mikla sigra. Ekki bara í Hafnarfirði.

Varðandi Sól í Straumi og gagnrýni samtakanna á málflutning Lúðvíks bæjarstjóra vil ég segja þetta: Bæjarstjórinn mælti þarna fyrir tillögu sem ætlunin er að leggja í dóm kjósenda. Hann sagði að það væri þverpólitísk samstaða um að svona ætti tillagan að líta út og taldi margt hafa batnað. Í útvarpsviðtali heyrði ég hann segja að hann væri ánægður með þær breytingar sem náðst hefðu og ef svar Hafnfirðinga yrði já þá væri þessi tillaga án vafa sú besta. Hann tók hins vegar aldrei neina afstöðu með eða á móti stækkuninni.

Þú segir að Sól í Straumi séu þverpólitísk samtök og ég vona að þau séu það í reynd. Það vona líka margir félagar mínir sem hafa skráð sig í samtökin og eflaust öll þau 56% Hafnfirðinga sem kusu Samfylkinguna í bæjarstjórnarkosningum fyrir ári. Það gæti hins vegar valdið þeim nokkrum áhyggjum að sjá að einn þeirra sem er í stjórn samtakanna er frambjóðandi Vg í SV kjördæmi og sá sem hvað harðast hefur gengið fram gegn Samfylkingunni. Hverjum á það að gagnast? Málefninu?

Legg að lokum til að náttúruverndaflokkar snúi bökum saman og stækki náttúruverndarkökuna í stað þess að búa til tvær grænar smákökur.

Dofri (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 15:13

7 Smámynd: Hlynur Hallsson

Já Dofri snúum bökum saman og og fellum ríkisstjórnina í vor og þá geta núvernadi stjórnarandstöðuflokkar tekið upp nýja atvinnustefnu byggða á hugviti og krafti fólksins í landinu. Og nýja stefnu í náttúruverndarmálum, ekki veitir af. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 26.1.2007 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband