Svifryk, öryggi og heilsa

naglarÞað kostar borgarbúa tæpar 200 milljónir á hverju vori að endurnýja malbikið eftir slitið á nagladekkjum yfir veturinn á undan. Tjaran sem naglarnir róta upp sest á bílana okkar og við eyðum töluverðum peningum í þvott, rúðusprey og nýjar rúðuþurrkur svo eitthvað sé nefnt. Síðast en ekki síst sest tjaran í mynstur dekkjanna og gripið verður verra. Öryggi allra minnkar.

Ytri kostnaður
Kostnaður borgarinnar af nagladekkjanotkun er dæmi um svokallaðan ytri kostnað sem fellur ekki á notandann heldur á samfélagið. Minna öryggi allra í umferðinni vegna tjöru á dekkjum er annað dæmi um ytri kostnað. Alvarlegasta dæmið um óbeinan kostnað af notkun nagladekkja er samt þáttur þeirra í svifryki sem er ógn við heilsu fólks. Malbiksagnir eru langstærsti einstaki þátturinn í svifryki borgarinnar eða um 50-60% þegar svifryk er mest. Á síðasta ári fór magn svifryks í andrúmslofti 24 sinnum yfir heilsuverndarmörk.

Ógn við heilsu fólks
Í Svíþjóð hafa verið gerðar rannsóknir á loftgæðum og áhrifum svifryks á heilsu fólks. Niðurstaða þeirra er að jafnvel lítið magn svifryks í andrúmslofti hafi áhrif á heilsuna og að svifryksmengun fækkar lífdögum Stokkhólmsbúa meira en umferðarslys í borginni. Undanfarið hefur verið rætt um skaðleg áhrif svifryks á lungu fólks, einkum barna. Sú umræða er löngu tímabær.

Hröð þróun naglalausra dekkja
Í nýjasta blaði FÍB er ítarleg úttekt og samanburður á ónegldum vetrardekkjum byggð á erlendum prófunum óháðra aðila. Þar er borinn saman fjöldi afbragðsgóðra dekkja en hin svokölluðu loftbóludekk sem margir þekkja eru í efsta sæti að mati þeirra sem framkvæmdu rannsóknirnar í ár. Betra grip, styttri hemlunarvegalengd og meiri stöðugleiki í beygjum eru dæmi um árlegar framfarir en þróun í hönnun naglalausra vetrardekkja hefur verið mjög hröð og bestu dekkin í dag eru umtalsvert betri en bestu dekkin fyrir 5 árum.

Negldu dekkin óöruggari
Því miður hefur þróunin ekki orðið mikil í nagladekkjum af þeirri einföldu ástæðu að þau eru mjög víða bönnuð og á flestum stöðum afar illa séð. Staðreyndin er því sú að um nokkurra ára bil hafa ónegld dekk verið öruggari við langflestar vetraraðstæður. Einungis á sléttum og blautum ís hafa negld dekk betra grip en góð vetrardekk. Þetta eru aðstæður sem aðeins skapast örfáa daga á hverjum vetri. Við allar aðrar aðstæður eru nagladekk verri, hemlunarvegalengd lengri og grip í beygjum verra. Valið ætti því að vera auðvelt á milli aukins öryggis flesta daga eða fáa daga.

Akstur utan þéttbýlis
Sumir aka á nöglum allan veturinn af því að þeir þurfa af og til að fara út á land og telja hættu á að lenda í aðstæðum þar sem nagladekk veita meira öryggi en góð vetrardekk. Það er hugsanlegt að í einhverjum tilvikum sé það rétt en í langflestum vetraraðstæðum utan þéttbýlis veita góð vetrardekk samt mun betra grip en nagladekk. Fyrir þá sem vilja vera vel búnir í ófærð er býður FÍB upp á dekkjasokka, eins konar keðjur úr næloni sem auðvelt er að setja á dekkin í ófærð. Hvernig væri að gefa því séns?

Munum þetta í haust
Samfylkingin í Umhverfisráði hvatti eindregið til þeirrar kynningarherferðar sem farið var í nú í haust gegn nagladekkjum. Sú herferð skilaði þeim árangri að nú eru um 40% bíla á nöglum í stað 50-60% áður. Það er samt allt of mikið. Ég hef gaman af að hjóla í vinnuna en verð að viðurkenna að stundum hef ég efast um heilsubótina af því að vetrarlagi þegar negldir bílar í þúsundavís aka framhjá og spæna upp malbikið.

Ég fagna þeirri umræðu sem er komin upp um þetta mál. Við verðum að fara að reikna dæmið til enda. Hver er ávinningurinn ef nagladekk eru yfirleitt óöruggari, kosta okkur hundruð milljóna í malbik, annað eins í tjöruhreinsun og svo það sem er mikilvægast - heilsu okkar og barnanna okkar? Munum þetta næsta haust!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband