Undirstrikar hin augljósu sannindi

Mér finnst alveg frábært að næstu sex vikur er borgarstjórnarflokkur Samylkingarinnar skipaður fjórum konum. Ég er sem stendur efstur karla á listanum, númer fimm og er fyrsti varaborgarfulltrúi þangað til 1. apríl. Þetta kemur til af því að karlmaðurinn á listanum, Dagur B Eggertsson, er alvöru nútíma maður sem axlar föðurskyldur sínar og tekur föðurorlof.

Á blogginu er spurt hvort það hefði vakið sömu athygli ef borgarstjórnarflokkurinn hefði allt í einu verið  skipaður fjórum körlum. Svarið er alveg örugglega nei. Það hefði enga athygli vakið.
Þetta undirstrikar hin augljósu sannindi.

Enginn spyr hvort það eru konur í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða, það þykir eðlilegt að mun færri konur séu í stjórnmálum en karlar og krafan um jafnt hlutfall karla og kvenna í ríkisstjórn þykir alls ekki sjálfsögð.

Þessu þarf auðvitað að breyta. Það mun Samfylkingin gera undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar að loknum kosningum í vor. Hún hefur sýnt það í verki hvers hún er máttug í jafnréttismálum eða svo vitnað sé í Oddnýju Sturludóttur á www.truno.blog.is 

Hún leiddi sameinaða vinstrimenn í Reykjavíkurlistanum til þriggja glæstra kosningasigra og stjórnaði borginni farsællega. Á þeim tíma náði hún aðdáunarverðum árangri í jafnréttismálum sem vakið hefur athygli út fyrir landsteinana.


Launamunur kynjanna minnkaði um helming hjá Reykjavíkurborg en kynbundinn launamunur hefur staðið í stað í 16 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins.


Í borgarstjóratíð hennar urðu konur helmingur æðstu stjórnenda og sama leik ætlar Samfylkingin að leika á landsvísu komist hún í ríkisstjórn. Jafnréttismálin verða færð til forsætisráðuneytis og fléttuð samviskusamlega við allar ákvarðanir sem teknar verða á þjóðarskútunni – þar sem kona stendur í brúnni.

Við þurfum á sjónarmiðum beggja kynja að halda. Það er kominn tími á konu í forsætisráðherrastólinn, komin tími á jöfn hlutföll karla og kvenna í ráðuneytum, í opinberum stjórnum og lífeyrissjóðum. Það er kominn tími til að útrýma launamuninum.

 


mbl.is Fjórar konur í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þannig að það á  ekki að meta fólk af verðleikum sínum heldur einungis hvors kyns það er?

Þorvaldur (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 19:44

2 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Ætli það hafi verið kannað hvert hlutfallið er á milli karla og kvenna sem gefa sig í að starfa í pólitík?

Myndi halda svona fyrir fram að miklu stærri hluti af því væru karlar, þó ég hafi ekkert fyrir mér í því. Myndi veðja á að miðað við það komi konur mjög vel út hvað varðar ráðherra og önnur betri launuð störf í pólitíkinni .

Persónulega finnst mér það dónaskapur við hæfileikaríkar konur að setja þær í embætti bara vegna þess að þær eru konur. Við eigum að meta þær til jafns við karla (ekki gera þær rétthærri), við eigum að dæma þær til jafns við karla og skipa svo besta fólkið í stöðurnar burt séð frá kyni.

Kannski hefði Samfylkingin átt að hugsa um það þegar hún kaus sér formann síðast

Ágúst Dalkvist, 15.2.2007 kl. 22:28

3 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

En hversu langt á að seilast niður listana eftir kosningarnar?  Segjum svo að þið fáið alla ykkar drauma uppfyllta og Samfylkingin komist í tveggja flokka ríkisstjórn.  Það þýðir væntanlega að þið fáið sex ráðherrastóla.  Af hinum sex sem leiða lista hjá ykkur, er bara ein kona. Allt hitt eru karlar og þótt farið sé niður í 2. sætið þá fjölgar konum bara um tvær.

Þetta hafa víst Trúnó og Oddný lítinn áhuga á að tala um, frekar en hverjum megi þakka að Dagur sé að fara í fæðingarorlof eða að það voru ekki "sameinaðir vinstri menn" sem voru í R-listanum.  Heldur (bara af því þið viljið svo gjarnan gleyma því) Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalagið, Kvennalistinn og Framsóknarflokkurinn. 

Bkv. Eygló 

Eygló Þóra Harðardóttir, 16.2.2007 kl. 10:29

4 identicon

Það er yfirgegnilegt til þess að hugsa að stóran hluta af þeim vandamálum sem vinstri flokkarnir einblína á mætti leysa með kynskiptiaðgerðum.

 Vandamálið með hvað eru fáar konur í stjórn Kaupþings, til dæmis, mætti leysa með því að senda hálfa stjórnina í kynskiptiaðgerð.

 Og þar með væri orðið siferðilega verjandi fyrir lífeyrissjóðina að ávaxta pund sitt í Kaupþingi.

Að vísu kæmi þá upp spurningin á hvaða stigi kynskiptiaðgerðar hinu prísaða jafnrétti teldist hafa verið náð: strax við fyrstu hormónameðferð? 

Og ....

 Ef síðan einhverjar kynskiptiaðgerðanna heppnuðust ekki, þá væri aftur komin upp spurning hvort sé siðferðilega rétt af lífeyrissjóðum að ávaxta pund sitt í Kaupþingi.

                                                                  Með kveðju frá kynskiptingi

Kynskiptingur (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 12:06

5 identicon

Eða segðu mér, í fullri hreinskilni Dofri: sérðu eitthvað því til fyrirstöðu að leysa mætti jafnréttisvandmálin, til dæmis í stjórn fyrirtækja, með því að senda helming stjórnar hvers fyrirtækis í kynskiptiaðgerð? Getur verið að þið lítið á okkur fyrrverandi konur sem óæðri konur? Ef svo er, þurfið þið vinstri menn þá ekki að beita ykkur fyrir upprætingu slíkra fordóma? Svaraðu þessu, ef þú ert MAÐUR til!

Kynskiptingur (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 12:16

6 identicon

Úps, ég meinti: getur verið að þið lítið á okkur fyrrverandi menn sem óæðri konur?

Kynskiptingur (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 12:19

7 Smámynd: Dofri Hermannsson

Kæri kynskiptingur. Mér finnst það býsna drastísk aðgerð að senda helming karla í stjórnunarstöðum og kvenna í uppeldis- og umönnunarstörfum í kynskiptiaðgerð til að leiðrétta kynjahallann. Það þýðir auðvitað ekki að ég sé haldinn fordómum í garð "fyrrverandi" kvenna eins og þú kallar það. Mér er hjartanlega sama hvort þú ert fyrrverandi kona og núverndi karl eða öfugt.

 Ágæti Haukur. Gaman að sjá þig aftur, hélt þú værir kannski dottinn úr netsambandi eða lasinn.

Ég ætla ekki að ráðast í  það þrekvirki að rökræða við þig frá grunni um baráttu fyrir jafnrétti kynjanna.

 

Byrjum bara á því sem ég held að við getum verið sammála um - konur og karlar eiga að hafa sömu tækifæri til að verða það sem hugur og hæfileikar standa til. Ég geri líka ráð fyrir að við séum sammála um að flest öll störf eru bæði kynin jafn hæf til að vinna.

 Nú er staðan þannig að karlar og konur eru jöfn fyrir lögunum (að vísu er eftir að vinna mikið starf í sambandi við það hvernig dæmt er í kynferðisafbrotamálum, þar hallar á konur).

(Læt vera að tala hér um kynbundið ofbeldi sem því miður er langoftast beitt af körlum gegn konum - e.t.v. eitthvað sem karlar ættu að vinna í því það getur varla verið af því körlum líði svo vel að þeim finnst þeir þurfa að berja konur.)

 

Ég býst við að við getum einnig verið sammála um að það sé gáfulegt fyrir okkur sem samfélag að þeir sem móta samfélagið sé ekki of einslitur hópur. Karlar og konur hafa oft ólík viðhorf og við eigum að nýta okkur það. Konur eru helmingur þjóðarinnar og þeirra sjónarmið verða að eiga jafn greiðan aðgang og viðtekin sjónarmið karlstjórnenda. Ekki veitir af í heimi sem sífellt fer fram á frjórri sýn og hraðari aðlögun.

 

Ég held að við getum líka verið sammála um að enn ríkir ekki jafnrétti í raun, konur fá minna borgað fyrir sína vinnu, hefðbundin kvennastörf eru metin til lægri launa en karlastörf og víða gengur hæfum konum illa að komast að, s.s. í stjórnunar- og leiðtogastöður.

 

Sumir segja að þetta sé bara aumingjaskapur og væl en aðrir segja að málið sé mun flóknara og að menning og hefðir skipti miklu máli. Stelpur og strákar fá ólíkt uppeldi, fyrirmyndir fyrir stráka sem leiðtoga og stjórnendur eru ótal margar en örfáar fyrir stelpur og metorðastiginn er í áranna rás hannaður af körlum og hentar þeim betur en konum.

 

Ef þú vilt yfirfærð dæmi um þetta geturðu spáð í af hverju Reyðarál leggur áherslu á ráða konur og hvað er verið að gera til að þær fáist til starfa. Það er verið að breyta umhverfinu svo það henti konum. Af því þú ert svo klár og hress strákur (ekki samviskusöm og prúð stúlka;-) þá held ég að þú hljótir játa að það er heilmikið til í þessu.

 

Nú af því við erum fullir réttlætis þá viljum við líklega báðir breyta þessu ástandi - til að dætur okkar njóti sömu tækifæra og strákar. Þá er bara spurningin hvernig. Hvernig breytir maður hefðum og menningu? Er það rangt að setja samfélaginu reglur um það t.d. að tryggja 60/40 hlutföll í stjórnum og ráðum hvort sem um er að ræða ríkisstjórnina, kirkjuna eða KSÍ? Það finnst mér ekki. Mér finnst það skynsamleg leið til að leiðrétta þá innbyggðu skekkju sem er í samfélaginu.

 Bestu kveðjur,Dofri. 

Dofri Hermannsson, 16.2.2007 kl. 16:01

8 identicon

Hlutföll kynja á þingi, stjórnum o.s.frv. skiptir engu máli, það er hæfasti einstaklingurinn sem skiptir mál óháð kyni.
Þessi umræða um einhverjar reglubreytingar til að auka hlut kvenna er rugl, ef þær eru hæfar þá munu þær ná langt en ekki vegna þess að þær eru konur heldur HÆFAR.
Sf-fólk hefði betur haft þetta í huga þegar þeir völdu sér formann.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 18:17

9 identicon

En ég spurði þig einfaldrar spurningar sem á að vera hægt að svara með já eða nei.

Þú vilt jafn margar konur og karla í stjórn fyrirtækja, lífeyrissjóða, á þingi osfrv.

Setjum sem svo að á þingi væru nú karlmenn eingöngu, og að í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða sætu karlmenn eingöngu

Ef helmingur af þingmönnum og helmingur af stjórnarmönnum lífeyrissjóða og fyrirtækja færu í kynskiptiaðgerð, teldir þú það þá fullnægjandi lausn á jafnréttismálum í þessum tilvikum?

Ef þú telur svo ekki vera, þá lýsir það fordómum þínum í garð okkar kynskiptinga.

Ef þú hinsvegar telur kynskiptiaðgerð fullnægjandi svar við skertu jafnrétti, þá er sjálfsagt að koma þeim skilaboðum til stjórnar lífeyrissjóða, stórfyrirtækja og annarra sem uppfylla þurfa jafnréttiskröfur þínar. 

Hvort er svar þitt: já eða nei? 

Kynskiptingur (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 20:05

10 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ágæti Óðinn. Þú ert nú varla í húsum HÆFUR.
Ágæti Kynskiptingur. Ég held að þú þurfir e.t.v. að skipta um fleira en kyn.
Góða helgi báðir tveir. (Þið ættuð kannski að hittast?)

Kv. Dofri.

Dofri Hermannsson, 16.2.2007 kl. 20:14

11 identicon

Má ég biðja þig að fræða mig og fleiri lesendur í hverju villan í spurningu minni felst: hvers vegna megi ekki taka spurningu mína til greina.

Að öðrum kosti er ekki annað hægt að álykta en að þér finnist, vegna fordóma þinna, of fáránlegt að taka kynskiptinga með í reikninginn. 

Kynskiptingur (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 20:37

12 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Nú hefur "kynskiptingur" sett Dofra frænda minn í vanda.

Ef hann segir að það sé ekki nóg að þeir fari í kynskiptiaðgerð þá lýsir það fordómum en ef hann segir að það sé nóg, þá er hann að gefa í skyn að það skipti meiru máli hvað er á milli fóta stjórnarmanna en hvað er í hausnum á þeim.

Margar konur hafa sýnt fram á það að þær geta komist áfram á eigin verðleikum en af einhverjum ástæðum eru alltof fáar sem reyna það. Þar af leiðir að það er miklu meira úrval af hæfum körlum í stjórnunarstöður en hæfum konum. Ekki af því að konur séu óhæfari heldur af því að þær eru færri sem sækjast eftir stjórnunnarstöðum.

Ef það á að ríkja jafrétti hvað þetta varðar, þá verður að fá fleiri konur til að vilja taka þessi störf að sér en áður en það er gert þarf að skoða eitt.

Afhverju eru færri konur en karlar sem sækjast eftir þessum stöðum?

Ef það er vilji kvenna að vera ekki í þessum stöðum, þá sé ég enga ástæðu til að breyta því en ef það er einhver minnimáttar kennd eða óttablandin virðing fyrir karlmönnum (sem ég get nú ekki ímyndað mér ) þá þarf að breyta því.

Kanna fyrst ástæðuna fyrir því afhverju ekki fleiri konur sækjast eftir stjórnunarstörfum og síðan bregðast við ef niðurstöður slíkar könnunar gefur tilefni til þess. Lög og reglugerðir hvað þetta varðar er bara bull og gerir það að verkum að það er ekki alltaf hæfasta fólkið sett í stöðurnar.

Ágúst Dalkvist, 16.2.2007 kl. 22:47

13 identicon

Ágæti Dofri. Á að velja fólk til verka eftir getu eða kyni ?


Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 10:23

14 identicon

'Agæti Dofri, ég og fleiri mínir líkar, sem erum vön því að mæta miklum fordómum, bíðum, ásamt okkar stuðningsfólki, enn eftir því hvort þú, sem ert talsmaður flokks sem berst gegn fordómum, munir sýna af þér þá fordóma að hundsa spurningu mína - hundsa hana af því ég tilheyri jú bara einhverjum viðbjóðslegum minnihlutahópi sem ekki er svaraverður. Hver veit nema afkvæmi þín eigi eftir að gerast kynskiptingar? Ekki get ég fullyrt neitt um það, í það minnsta.

ásdís, kynskiptingur (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband