Kastljós í kvöld

Það voru formannaumræður í Kastljósinu í kvöld. Fimm karlar og ein kona.

Umræðan var opnuð á vinsældarkönnun Capacent og enn undirstrikað að Ingibjörg Sólrún er sá stjórnmálamaður sem Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur óttast mest. 81% Sjálfstæðismanna og 62% Framsóknarmanna. Trúlega full ástæða til.

Í stóriðjumálunum kom skýrt fram að Geir vill gjarna fara í allar fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir en segir að það komi ríkisstjórninni reyndar lítið við. "Ekki mitt mál" stefnan. Jón Sigurðsson telur stórhættulegt að gera hlé á stóriðjuframkvæmdum, það muni stöðva hjól atvinnulífsins. Það eigi þess vegna að halda áfram að virkja fram til 2010 og stöðva hjól atvinnulífisins þá. Þetta er "Áfram stóriðja" stefnan sem Jón kallar einhverra hluta vegna þjóðarsátt.

Stjórnarandstaðan og Ómar voru sammála um að það ætti að staldra við. Það var athyglisvert að enginn flokkanna vildi fortaka að það mætti virkja einhvers staðar í næstu framtíð, Þingeyjasýslurnar voru sérstaklega nefndar. Þeir eru allir orðnir sammála Fagra Íslandi Samfylkingarinnar, að staldra nú við, nota tímann til að rannsaka náttúruna, tryggja verndun verðmætra svæða og svo megi ræða saman um aðra nýtingu t.d. virkjanir ef þurfa þykir - utan verndaðra svæða.
Þetta er "Heilbrigð skynsemi" stefna Samfylkingarinnar eins og Ingibjörg Sólrún benti réttilega á.

Næst var innflytjendaumræðan. Það var eiginlega 5-0 Frjálslyndum í óhag. Málið er borðleggjandi. Það er mikið af útlendingum að vinna hér af því ríkisstjórnin hefur viðstöðulaust ausið olíu á þenslubálið undanfarin misseri. Margir Íslendingar hafa áhyggjur af þessu og það er eðlilegt. Þeir vilja flestir hófstillta umræðu um málið, ræða málefnalega hvort hætta er á undirboðum á vinnumarkaði og atvinnuleysi á meðal Íslendinga þegar dregur úr ofsaþenslunni. Það er sjálfsagt mál enda hefur Ingibjörg Sólrún efnt til slíkrar umræðu t.d. því að kalla til stórs fundar með aðilum vinnumarkaðarins, samtökum fólks af erlendum uppruna ofl. hlutaðeigandi. Þannig á líka að ræða þessi mál. Ekki með upphrópunum um að erlent starfsfólk beri með sér berkla og kynsjúkdóma, stundi rán og kynferðisofbeldi og steli störfum frá Íslendingum sem sitji eftir með sárt ennið.

Það var líka rætt um skattamál. Þar sást glöggt af hverju misskiptingin hefur aukist jafnt og þétt, áhuginn er allur á að bæta kjör þeirra sem hafa þau best t.d. með flatri lækkun skatta sem í raun er borguð með því að láta skattleysismörk ekki halda í við verðlagsþróun. Þetta mætti kalla "lengi getur gott batnað og vont versnað" stefna ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Sú stefna er vond og hún venst ekki. Ingibjörg talaði fyrir hækkun skattleysismarka og meiri áherslu á að leggja rækt við það sem raunverulega skipti mestu máli, mannúð, jöfnuð, börnin okkar og aðstæður þeirra og foreldranna. Það er ekki bara siðferðislega rétt heldur líka afar skynsamlegt.

Loks var rætt um ríkisstjórnarsamstarf. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur leiðast þétt hönd í hönd. Það er þó eins og Geir sé heldur að reyna að losa um takið, rétt eins og hann telji óvíst að Framsókn muni gera sama gagn eftir 12. maí og hún hefur gert hingað til. Hann brosir hlýlega til Steingríms J og greinilegt að hann telur þann kost ekki síður sætan. Vissulega eiga þessir flokkar sameiginlega fleti s.s. andstöðu við ESB og upptöku Evru.

Stjórnarandstaðan er sammála um að ef stjórnin fellur (sem ég hef alla trú á) þá beri þeim flokkum sem felldu hana skylda til að reyna að mynda stjórn áður en stjórnarflokkunum verði blandað í spilið. Það er hins vegar ljóst að fjögurra flokka stjórn er afar ólíkleg. Nú eru bæði Frjálslyndir og Ómar (sem ekki er hægt annað en að hæla fyrir einurð og prúðmennsku) í kringum 5% fylgi sem þýðir mjög aukna hættu á dauðum atkvæðum. Þannig gæti ríkisstjórnin haldið velli með aðeins um 45% fylgi.

Þeir sem vilja nýja ríkisstjórn eftir kosningar verða að hafa það í huga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Það var staðfest þarna...Framsókn og Sjallar ætla að mynda ríkisstjórn að kosningum loknum ef þeir fá fylgi. Það er því einsýnt að það má ekki gerast. Ísland þarf ekki enn fjögur ár með þessa kumpána við völd. Von þjóðarinnar um réttlætisstjórn byggir á að Samfylkingin fái styrk til að standa í Sjöllum...annars sitjum við í sama soðinu.

Jón Ingi Cæsarsson, 10.4.2007 kl. 08:48

2 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Hvernig getur þú sagt að Ingibjörg sé sá stjórnmála maður sem stjórnarflokkarnir óttast mest.  Ingibjörg er með mjög slæmt perónulegt fylgi sem á eftirt að kosta flokkinmikið og hefur þegar gert það. Það sem þarf að gerast er að ríkistjórninn þarf að falla og ný stjórn að taka við.  En það má ekki vera ríkistjórn Ingibjargar Sórunar hún er ekki sá stjórnmála maður sem er treistandi. 

Þórður Ingi Bjarnason, 10.4.2007 kl. 08:56

3 identicon

Enn og aftur ræðst Dofri áróðursmeistari Samfylkingar og reynir að verja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur líkir hana við drottinn 

Enn og aftur hélt ég að Dofri hefði fengið nóg þegar hann er farinn að biðja Dharma að senda sér mail eða fá sér kaffibolla á kaffi húsi í ca 2 tíma til að sætta niðurstöður ég vil benda á Dofra á ekki var Tryggvi L. Skjaldarson heldur hrifinn þegar hann mældi ekki með þessum kaffibolla hjá Dofra.

Eins og ég las út úr þessu samtali þá er ekkert að marka Dofra óreyndan spunameistara Samfylkingar sem er ráðlaus yfir mótlæti sem Dofri fær með skrifum sínum þetta er rétt það vantar málefnalegar umræður frá Dofra ekki þetta skítkast og hótanir að loka á þá sem hafa uppi andmæli á hans bloggi.

Þú talar um að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn óttist mest formann Samfylkingu Þetta er ekkert nema áróður frá þér sjálfum sem menn taka ekki mark á það vill svo einkennilega til öll þessi skrif þín sem hafa verið að undanförnu þar er ekkert jákvætt nema neikvætt sem spyr mann í leiðinni þarf ekki að setja höfuð á þér í þvotta vél til að hreinsa óhreinindi og fá jákvæðar hugmyndir um framtíð á Íslandi sem væri til hagsbóta

Eftir þessar umræður í gærkvöldi fannst mér Ingibjörg Sólrún vera ákaflega málefnalega snauð frú mér líst mjög illa á Ingibjörgu Sólrúnu ef þessu heldur áfram. Eins var Steingrímur J mjög daufur það má vel vera að hann gangi ekki heill til skógar  Eftir þessar umræður sem voru bragð daufar þá fannst mér Geir standa sig best með sínum svörum hann var með allar tölur á hreinu.

Þegar frétta menn spurðu hvað þetta kostaði til dæmis að hækka skattleysismörkin sem sumir formenn voru ekki með á hreinu. Enn Geir var með sínar tölur á hreinu prúður og vinalegur í framkomu svaraði fyrir sig með rökum.

Enn Ingibjörg Sólrún var alltaf að kalla framí og þurfti að svara spurningum þegar aðrir voru með orðið sem bendir til að hún hafi verið á taugum.

Enda skil ég það mjög eftir klúðrið vegna álverskosningu sem Samfylking stóð fyrir og mun gjalda fyrir þegar menn greiða atkvæði eftir 1 mánuð það mun þetta fólk ekki gleyma starfsmenn álversins í Straumsvík þeir sem hafa hag af Alcan og þeir íbúar sem kusu með álverinu munu ekki kjósa Samfylkingu vegna stefnu hennar og hvernig hún hefur komið fram við þetta fólk sem hefur haft sitt lifibrauð af Alcan sem frábært fyrirtæki.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 11:33

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Upphrópanir um innflytjendur hafa að mestu leyti verið í höndum andstæðinga Frjálslynda flokksins.  Gífuryrði og ljótar nafngiftir, og núna snara sem hent var inn í garðinn hjá Jóni Magnússyni, það er það sem við er að eiga hér.  En við munum halda áfram að ræða þessi mál og hafa þau eins málefnaleg og við getum þrátt fyrir þessi hnútuköst og mér liggur við að segja örvæntingu andstæðinga flokksins.  En ég verð að segja að flestir stóðu sig vel þarna í gær og frú Ingibjörg var stórglæsileg.  Fréttamennirnir Sigmar og Jóhanna stóðu sig líka með prýði.  Það er gott að fá svona umræður til að fólk geti komið skoðunum sínum á framfæri.  En ég segi nú bara Ingibjörg og Steingrímur ættu að taka sig til og lesa það sem Frjálslyndir eru að segja en ekki bara hlusta á bloggara og æsingafólk sem hefur uppi hávaða og ósannindi.  Það gefst alltaf betur að skoða málin.  Það þarf Kaffibandalagið ef við ætlum í raun og veru að fella þessa ríkisstjórn, en ekki hræðslu og hlaup eftir vinsældum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.4.2007 kl. 11:54

5 identicon

 

Stefnu Samfylkingarinnar í öllum málum þjóðfélagsins má lýsa í fjórum orðum:  "Setjum það í nefnd."

Kalli (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 14:50

6 identicon

Ég les það út þessum skrifum Dofra að Samfylkingunni líður illa, enginn treystir formanninum þeirra. Hversu margir vilja sjá ríkisstjórn kaffibandalagsflokkanna? Það voru ekki margir, innan við 5% ef ég man rétt. Hvað segir það okkur? Í 12 ár hefur stjórnarandstaðan haft tækifæri til að koma ríkisstjórninni frá því samkvæmt henni er allt í kaldakoli, allt sem ekki gengur vel er ríkisstjórninni að kenna of allt sem er jákvætt er ekki ríkisstjórninni að þakka, ótrúlegur málflutningur. Sammála Jóni Kr. að kaffibandalagið er dautt en ekki áðeins vegna málflutnings Frjálslyndra á innflytjendamálum heldur líka vegna þess að fylgi Vinstrigrænna er meira en fylgi Samfylkingarinnar. Það þolir samfylkingarfólk ekki og Vinstrigrænir standa ekki undir því að vera leiðtoginn í bandalaginu. Vinstrigrænum hentar best að vera í andstöðu þar sem ekki þarf að standa við stóru orðin.

   Ingibjörgu hefur því miður orðið hált á svellinu á Tjörninni og hana vantar fótfestu. Hún hefur talað í hringi og skort stefnu og sem leiðtogi verður hún að sýna stefnufestu og axla ábyrgð. Einnig held ég að Samfylkingarfólk sé ekki nógu ánægt með sinn eigin leiðtoga og því er Össurri beitt í baráttunni þar sem eðlilegt væri að sjá Ingibjörgu. Er gróið um heilt þar á milli?  

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 16:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband