Samfélagsleg ábyrgð orkufyrirtækjanna

Orkuauðlindir og náttúrugersemar landsins eru sameign þjóðarinnar. Orkufyrirtækin eru líka enn sem komið er að mestu í eigu samfélagsins. Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar bera ábyrgð á að varðveita hvort tveggja til framtíðar. Þar sem þessir hagsmunir skarast þarf að stíga varlega til jarðar.

Orkufyrirtækin hafa hingað til ekki þurft að taka mikið tillit til sjónarmiða náttúruverndar, þau hafa fengið býsna frjálst spil því vitund almennings um þau verðmæti sem glatast við virkjanaframkvæmdir hefur verið af skornum skammti. Fjármagni til rannsókna, þekkingu sérfræðinga, og aðferðafræði við mat á verðmætum náttúrusvæða hefur verið ábótavant.

Nú er það að breytast. Það er komin rík krafa á hendur orkufyrirtækjunum að sýna samfélagslega ábyrgð m.a. í að ganga ekki á aðra hagsmuni þ.a. í raun sé samfélagið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Enn er samt langt í land að lög um umhverfismat og núverandi rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma tryggi þetta.

Ölkelduháls á Hengilssvæðinu er gott dæmi. Í Rammaáætlun fékk svæðið umhverfiseinkunn A sem þýðir að lítil eftirsjá þykir af svæðinu miðað við flest önnur svæði. Einkunnin byggir á nokkrum undirþáttum s.s. landslag, jarðminjar og vatnafar, tegundir, útivist og hlunnindi.

Í sérstökum viðauka við Rammaáætlun er hægt að finna upplýsingar um gæði þeirra gagna sem lokaeinkunn byggir á. Ölkelduháls er einstaklega fjölbreytt hverasvæði steinsnar frá höfuðborgarsvæðinu og býður upp á gríðarlega möguleika fyrir útivistarfólk og ferðaþjónustuaðila.

Gæði þeirra gagna sem lágu til grundvallar einkunn svæðisins sem útivistarsvæðis voru í flokki D. Á mannamáli þýðir það að það fór enginn þangað og skoðaði svæðið m.t.t. útivistar, ekki var spurst fyrir eða skoðaðar myndir. Þetta er skandall.

Fleiri þættir voru illa rannsakaðir, t.d. voru gæði gagna fyrir vistgerðir og jarðveg í flokki C. Rammaáætlun er sem sagt meingallað plagg og við sitjum uppi með forgangsröðun virkjunarkosta og náttúrusvæða sem byggja á fáfræði.

Í skjóli þessarar fáfræði geysist Orkuveita Reykjavíkur fram gegn Ölkelduhálsi (sem hún hefur skýrt upp og kallar núna Bitru til að forðast neikvæða umræðu). OR er búið að lofa orku svæðisins til a.m.k. tveggja álvera en fyrirhuguð virkjun þar er í umhverfismatferli.

OR hefur milljarða til að sýna fram á hagnað samfélagsins af því að breyta þessari náttúruperlu í virkjunarsvæði. Fulltrúar ferðaþjónustunnar hafa enga peninga til að sýna fram á hagnað samfélagsins af því að vernda svæðið og nýta það sem náttúruperlu og útivistarsvæði.

Þetta er svipað og ef stóðbóndi fengi alltaf ráðgjöf frá kjötkaupmanni en ekki ræktunarráðunauti um hvaða hross á að temja og rækta og hverju á að slátra. Ég hugsa að Orri frá Þúfu hefði farið í buff.

Nú leita peningarnir allra leiða til að eignast orkufyrirtækin. Þótt manni finnist stundum að samfélagsleg ábyrgð orkufyrirtækjanna sé af skornum skammti þá held ég að það væri skaðræði að hleypa einkaaðilum inn í þennan bransa við þær villta Vesturs aðstæður sem nú ríkja í orkugeiranum.

Einn góður sjálfstæðismaður sagði við mig um daginn að hann kærði sig ekki um einkavæðingu Landsvirkjunar af þeirri einföldu ástæðu að hann vildi ekki þurfa að borga Búrfellsvirkjun tvisvar eða þrisvar. Það er önnur góð ástæða.

Ég vil að nú staldri orkufyrirtækin við og sýni samfélaginu þá sjálfsögðu kurteisi að bíða þar til búið er að kanna vendilega hag okkar af verndun þeirra svæða sem eru á teikniborðum þeirra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Við sem nefndir erum ,,Eðalíhald" erum þess fullvissir, að þarna verður að far með öllu með stakri gát og hugsa langt framí tímann.

Nægja ætti, að benda á hremmingar Kanans í orkumálum sínum, þegar hvern veturinn á fætur öðrum verður straumrof og orkufyrirtækin senda sínum kúnnum hrokafull skilaboð um, að þetta verði lagað þegar veður lagist.

Nei menn verða he´r að vanda sig, hvernig farið er með afurðir langs tíma uppbyggingar, sem fór fram á kostnað og með áhættu almennigns.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 11.7.2007 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband