Pólitík

Rétt eins og í fyrirtækjum, fjölskyldum og vinahópum er ekki sjálfgefið stemningin sé góð í stjórnmálaflokkum. Hún getur verið alla vega og það er ekki alltaf gott að segja af hverju hún er góð þegar hún er góð eða slæm þegar svo ber undir.

Það er hins vegar sterk fylgni á milli þess hvernig stjórnmálaflokkum gengur og hvernig stemningin er. Auðvitað segir kannski einhver, það er ekki gaman þegar gengur illa en auðvelt að brosa þegar gengur vel. Þetta er alveg rétt en þarna er líka spurning hvort kemur á undan eggið eða hænan.

Mín stutta reynsla í pólitík hefur sannað fyrir mér að það er stemningin sem kemur á undan. Síðasta ár var Samfylkingunni alls ekki alltaf auðvelt, fylgið mældist stundum lágt og pólitískir andstæðingar köstuðu staksteinum eins og þeir væru á kaupi við það. Og voru það líklega.
Þrátt fyrir þetta var stemningin innan flokksins gríðarlega góð, frambjóðendur stóðu þétt saman um málefni flokksins og gengu með rósir hús úr húsi. Og smám saman fór landið að rísa.

Undanfarin misseri hefur Framsóknarflokkurinn átt mjög undir högg að sækja. Eflaust kemur margt til s.s. óbilgjörn stóriðjustefna, hatrömm barátta gegn náttúruverndarfólki, kvótamál o.fl. Líklega er þó stærsta skýringin á fallandi gengi flokksins það hvernig hann hefur tekist á við minnkandi fylgi sitt. Í stað þess að ræða málefnalega stöðu flokksins er fingurinn hafinn hátt á loft og beint að persónum manna. Deilurnar hafa ekki verið afgreiddar innan hópsins heldur á opinberum vettvangi.

Svona persónulegar deilur fæla ekki bara kjósendur frá flokknum heldur líka fjölmargt gott fólk sem e.t.v. á hugmyndafræðilega samleið með flokknum en getur ekki hugsað sér að vinna með honum vegna þess vonda andrúmslofts sem þar ríkir.

Björn Ingi Hrafnsson var eini kjörni fulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík. Hann sigraði með yfirburðum í opnu prófkjöri og náði sæti í borgarstjórn þvert á allar spár og í miklum mótvindi því vorið 2006 var Framsókn síður en svo vinsælasti flokkur landsins. Viðbrögð keppinauta hans voru afar mismunandi, sumir fóru í óafturkræfa fýlu en aðrir undu niðurstöðunni og settu hagsmuni flokksins ofar sínum eigin.

Nú þegar hann hefur sagt sig frá borgarfulltrúastöðu sinni er e.t.v. ekki galið fyrir þá sem eftir eru í flokknum að velta því fyrir sér hvað þetta fjandsamlega andrúmsloft innan hefur fælt margt ungt hæfileikaríkt fólk úr flokksstarfinu. Og hvað ætli margt ungt fólk til viðbótar hafi hætt við að kynna sér flokksstarfið vegna þess hávaðarifrildis sem þaðan heyrist sífellt ómurinn af? Hver vill heimsækja fjölskyldu sem er alltaf að rífast?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur að tekist á við þennan vanda á allt annan hátt. Hann þegir einfaldlega um hlutina og gildir þá einu hvort um er að ræða menn eða málefni. Þar hafa menn undanfarinn einn og hálfan áratug vanið sig á að tala ekki nema eftir bendingum forystunnar. Þegar einhverjum verður á að bregða út af þeirri reglu t.d. með því að gagnrýna trúnaðarbrest eða óboðleg vinnubrögð forystumanna er þeim sama/sömu hegnt harðlega fyrir uppátækið og látin éta allt ofan í sig. Það skal enginn segja að á því heimili sér verið að rífast!

Svona menning hvetur ekki heldur ungt hæfileikafólk til að láta að sér kveða. Ef hinir ungu mega ekki koma fram með réttmæta gagnrýni á þá eldri hvernig á þá flokkurinn að koma í veg fyrir stöðnun?

En af hverju er ég að velta þessu fyrir mér? Er ekki bara gott fyrir Samfylkinguna að Framsókn lognist útaf vegna innbyrðis deilna? Er ekki ágætt að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins elti leiðtoga sinn um villi-götur týndra minnisblaða og stefnumála?

Kannski, en þetta gerir pólitíkina leiðinlega. Hún fer að snúast um persónuníð og flokkshollustu frekar en frjálsa og opna umræðu um málefnin. Um slóttugheit frekar en traust. Þegar svo er komið glata stjórnmálin og stjórnmálamenn tiltrú almennings. Það dregur líka stórlega úr ánægju kröftugra einstaklinga af því að taka þátt í að móta samfélagið. Sem er slæmt fyrir alla.

Ég óska Birni Inga velfarnaðar í störfum sínum og unga fólkinu í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins bjartrar framtíðar - með eða án Villa!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dharma..mmm já ...góður!

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 23:36

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Loksins er hægt aðvera sammála Dharma

Hólmdís Hjartardóttir, 25.1.2008 kl. 00:28

3 identicon

Góð grein Dharma! Þetta fólk hefur sýnt að það hefur ekkert fram að færa í pólitík og býr ekki yfir nægum þroska til að sinna þessum störfum. Þetta á við um alla borgarfulltrúana. Þetta á einnig við um varaborgarfulltrúann magnaða sem birtir hér hugleiðingar sínar um persónuárásir og fleira á sama tíma og hann og félagar hans í Samfylkingunni standa fyrir ógeðslegri herferð gegn Ólafi Magnússyni borgarstjóra. Ég tek fram að ég er enginn aðdáandi hans og aldrei myndi hvarfla að mér að kjósa hann. Mér er hins vegar misboðið vegna þessarar herferðar og skrílslátanna sem samfylkingin stóð fyrir í gær. Þau voru skammarleg. Það er grátbroslegt að lesa þessa merkingarlausu samsuðu varaborgarfulltrúans. Hvernig hefur okkur Reykvíkingum tekist að kjósa yfir okkur þetta fólk?

Karl (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 10:40

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

frábær skilaboð hjá þér Dharma.  Dofri komdu þessu nú á framfæri við kollegana í ráðhúsinu.

Óskar Þorkelsson, 26.1.2008 kl. 10:13

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

Aldrei þessu vant get ég verið sammála mörgu af því sem Dharma setur fram. Ég finn til samkenndar með honum og skil vel að honum sé misboðið. Það eru ekki nema tvö ár síðan ég fór að skipta mér af pólitík en fram að því hafði ég tekið margar snarpar sennur í anda athugasemda Dharma á blogginu, bæði yfir fréttunum heima í stofu og á vinafundum.

Eitt skiptið þegar ég var að hrauna yfir stjórnvöld sem mér fannst fara rangt að öllum hlutum stakk kunningjakona mín, dóttir þekktrar stjórnmálakonu, algerlega upp í mig með þessari spurningu: “Ef þú ert svona óánægður með þetta, af hverju breytirðu því þá ekki?”

Ég var algerlega kjaftstopp en stundi upp úr mér að það væri ekki hægt, stjórnmálaflokkarnir væru lokaðar valdaklíkur, maður þyrfti annað hvort að eiga fullt af peningum, vera af réttum ættum eða hafa alist upp við ljósritunarvélar flokkanna til að eiga séns. En þetta sat samt í mér. Hvað ef ég hafði á röngu að standa og það væri í alvöru hægt að hafa áhrif á mín hjartans mál með þátttöku í stjórnmálum? Yrði ég ekki að láta á það reyna? Annars væri ég bara hræddur, beiskur nöldrari sem fárast yfir því að hlutirnir séu ekki eins og hann vill hafa þá en gerir samt ekkert í því að breyta þeim – nema fjargviðrast út í stjórnmálin.

Ég skráði mig í prófkjör í Samfylkingunni og mér til óvæntrar ánægju náði ég 7. sæti á lista fyrir borgarstjórnarkosningar án þess að eiga peninga, voldugar ættir eða fortíð við ljósritunarvélina. Hugmyndum mínum var vel tekið og í tvö ár hef ég unnið að því með fjölda skoðanabræðra og –systra að koma þeim í framkvæmd. Að breyta regluverkinu – og gengur bara nokkuð vel þótt ég vildi gjarna sjá suma hluti ganga hraðar fyrir sig.

Þannig að ég skil vel tilfinningar Dharma og annarra sem hér tjá sig en ég er ekki alveg sammála því að þetta sé svona einfalt og segi eins og kunningjakona mín – ef þið eruð svona óánægð með þetta – af hverju breytið þið því þá ekki?

Ég veit það af eigin reynslu að það er stórt skref að stíga fram og lýsa yfir vilja til að breyta hlutunum. Með því er maður að axla ábyrgð á því að tala málefnalega (og undir nafni) um menn og málefni, setja fram hugmyndir að því hvernig væri betra að gera hlutina og loks – að taka ábyrgð á því hvernig tekst til.

Ég er sammála Dharma og öðrum um að stjórnmálin í borginni hafa beðið álitshnekki undanfarin misseri. Mér fannst það persónulega ekki mikið lýðræði þegar fyrsti meirihluti tók við með 8 fulltrúa af 15 en aðeins 48% atkvæða. Að auki fannst mér völdum mjög undarlega skipt miðað við atkvæðavægi þáverandi meirihlutaflokka. Mér fannst það heldur ekki gott að horfa upp á þegar Vilhjálmur Þ varð uppvís að því að höndla með margra milljarða verðmæti borgarbúa án þess að lesa minnisblöð sín og án þess að hafa samráð við samstarfsfólk sitt í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna.

Átökin innan þessa hóps rýrðu mjög traust fólks á stjórnvöldum borgarinnar og þegar dregið var upp gamalt frjálshyggjuprinsipp sem plástur á meiddið og REI sett á brunaútsölu þvert á hagsmuni borgarbúa fannst mér augljóst að Björn Ingi gæti ekki stutt það. Enda gerði hann það ekki, hann sleit samstarfinu vegna þessa máls og fjölmiðlar fylltust af brigslum um svik og undirferli. Í margar vikur hefur gengið á með slíkum ásökunum og það er vont fyrir orðspor stjórnmálanna og þeirra sem vinna að þeim.

Ég er auðvitað ósammála Dharma um ýmis efnisatriði sem hann nefnir en skil hvernig honum líður. Mér finnst t.d. að tímabundin truflun á fundi sé ekki misbeiting lýðræðisins, eins og hann bendir á má bara kjósa á 4rra ára fresti og slíkt lýðræði reynir á þolrifin. Þess vegna finnst mér ekki frágangssök þótt fólkið sem stjórnmálamenn þiggja vald sitt frá trufli endrum og eins fundi þeirra til að leggja áherslu á skoðanir sínar. Mér finnst í raun að þetta mætti gerast oftar.

Hvað Sundabraut varðar þá er fullyrðingin röng, Dagur setti vorið 2006 fram algerlega skýra skoðun á því að Sundabraut ætti að fara í göng, 1. meirihlutinn ítrekaði svo sömu skoðun nokkru síðar.
Í fáum málum hefur verið unnið jafn mikið og merkilegt starf og í leikskólamálum. Því miður er það samt þannig í stjórnmálum að þar eru verkefnin aldrei búin. Barnafólki hefur fjölgað mikið í borginni, sem er jákvætt, og þörfin fyrir þjónustuna hefur aukist hratt.

Dharma minnist líka á umferðarmálin – eins og ég fjalla um í pistli í Viðskiptablaðinu í gær erum við komin að krossgötum í umferðarmálum borgarinnar og þurfum að ræða það vandlega hvernig við ætlum að leysa úr þeim. Ég er sammála Dharma um að stjórnmálamenn verða að sjá til þess að allir komist greiðlega leiðar sinnar á sem stystum tíma – en ég er ekki sammála því að allir eigi að geta komsti á örskotsstund á milli staða með hvaða ferðamáta sem þeir velja.

Rétt eins og leikskólar, löggæsla og heilbrigðisþjónusta eru umferðarmannvirki borguð með peningunum mínum og Dharma og ykkar hinna. Okkur ber skylda til að fara vel með þessa peninga og velja þær lausnir í umferðarmálum sem skila mestum árangri fyrir hverja krónu.

Það er líklega rétt að enginn verður valinn maður ársins fyrir að bæta samgöngur eða gera borgina öruggari. Slíkt þykir ekki spennandi fjölmiðlaefni. Það þýðir samt ekki að það sé ekki bæði verið að bæta samgöngurnar og auka öryggið í borginni.

Fáir vita af því en á síðustu árum hefur alvarlegum árásum í miðbænum fækkað mikið. Það er hins vegar ekki spennandi fjölmiðlaefni. Alvarlegum slysum í höfuðborginn, sérstaklega slysum á börnum í hverfum borgarinnar hefur nánast verið útrýmt með markvissum aðgerðum þeirra sem hafa stjórnað borginni.

Góðir skólar eru mikið hjartans mál margra stjórnmálaflokka og þar hefur verið unnið gríðarlega mikið gott starf sem sjaldnast kemst á síður dagblaðanna – það er ekki frétt.

Ég vil að lokum þakka Dharma fyrir einlægan pistil. Það er langt síðan ég áttaði mig á því að hann er glöggur samfélagsgagnrýnandi. En ef hann og aðrir sem finnst sér ofboðið vill í alvöru breyta hlutunum til hins betra þá dugar ekki bara að benda fingrinum heldur þarf að stíga fram, koma með hugmyndir að betri lausnum og leggja heiður sinn að veði. En eins og nú viðrar í pólitíkinni er ekki víst að mörgum þyki það ómaksins virði.

 

Góðar stundir.

Dofri Hermannsson, 26.1.2008 kl. 21:15

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Í fyrsta sinn get ég tekið undir hluta af því sem Dharma segir. En pistillinn þinn og athugasemdin langa eru þó langtum betri.

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.1.2008 kl. 02:56

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góð lesning hér í sunnudagsmorgunsárið.. takk fyrir þetta Dofri og Dharma.

Óskar Þorkelsson, 27.1.2008 kl. 10:03

8 identicon

dofri : vá hvað þú ert sætur

Maríanna Lind Mánadóttir (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 20:17

9 identicon

Það er nú alveg í lagi með þig Dofri. Og mig grunar að það sé líka í lagi með Dharma þó við séum ekki alltaf sammála. Góð umræða á réttum nótum.

Ásdís A (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband