Nýheimar á Höfn og störf án staðsetningar

Það er gaman að fylgjast með því hvernig íbúar á Höfn taka á byggðamálum eins og sagt er frá á www.visir.is. Stofnun Nýheima er dæmi um nýja hugsun þar sem áhersla er lögð á að draga að fjölbreytt þekkingarstörf.

Nú er unnið að verkefninu Störf án staðsetningar hjá hinu opinbera en markmiðið er að skilgreina öll opinber störf sem ekki eru háð staðsetningu. Þegar slík störf losna verður starfið auglýst sem starf án staðsetningar og öllum sem hafa aðgang að internetinu þar með gert mögulegt að sækja um.

Einkageirinn er reyndar fyrir löngu búinn að uppgötva hagkvæmnina í þessu og þannig er t.d. eitt stórt hugbúnaðarfyrirtæki sem ég þekki með fólk í vinnu um allan heim. Á Íslandi eru starfsmenn fyrirtækisins m.a. á Akureyri og Súðavík þar sem þeim hefur reyndar nýlega fjölgað úr 1 í 3.

Það sem er verulega snjallt við Nýheima er sú hugsun sveitarfélagsins að búa til þekkingarmiðstöð þar sem einstaklingar í störfum án staðsetningar geta verið með sameiginlega aðstöðu, hist og búið þannig til skapandi og hvetjandi deiglu þekkingar og hugmynda.

Ég held að fleiri sveitarfélög ættu að hugsa á þessum nótum. Auk aðstöðu eins og boðið er upp á í Nýheimum geta sveitarfélög höfðað til menntað fjölskyldufólks með góðri þjónustu s.s. leikskólum þar sem ekki eru biðlistar, barnvænu umhverfi, metnaðarfullum grunnskólum, íþróttum og tónlistarstarfi - að ekki sé talað um lægra húsnæðisverð.

Ég hvet íslensk sveitarfélög til að keppa um sérfræðinga í störfum án staðsetningar, hvort heldur er í einkageiranum, hjá hinu opinbera eða sjálfstætt starfandi með sömu aðferðum og gert er á Höfn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er mjög góð hugmynd og gott mál, en hingað til hafa flest ný störf sem hafa orðið til, verið á höfuðborgarsvæðinu.  Þrátt fyrir loforð um annað.  Við hér fyrir vestan erum orðin ansi þreytt á loforðum. Maður notar þau nefnilega ekki á matardiskinn.  Og það er orðið þannig að okkur finnst að annað hvort þurfum við að gefast upp og segja okkur á ríkið, eða lyfta hnefa og berjast af krafti.  Ég vona að við gerum það síðarnefnda.  Og fríríki er ein útleiðin.  Hún er fær, og eins gott að setja hana á blað, því ein af ástæðunum fyrir áhugaleysi stjórnvalda á Vestfirðingum er einmitt að það er álitið að við getum ekkert gert okkur til bjargar.  Það skipti sem sagt engu máli hvað um okkur verður.  En nú eigum við hugmynd.  Nú er að sjá hvort látið verður reyna á hana.  Í fúlustu alvöru.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.3.2008 kl. 13:40

2 identicon

Þá má benda á starfssemi Grófargils hér á Akureyri (og víða)

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 14:09

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Störf án staðsetningar er töff.. og vinn ég að því í dag að ég geti unnið þannig í framtíðinni.. en um leið og hið opinbera eða samtök fara af stað með slíkar hugmyndir þá falla þær yfirleitt um sjálfan sig vegna þess að þá hætta menn að hugsa sjálfstætt og horfa til stofnunarinnar eða félagasamtakana sem tóku að sér að framkvæma hugmyndina..  Ég hef ekki trú á þessu eins og þetta er borið fram.. en þetta gæti verið lausn fyrir einhverja örfáa einstaklinga en alls ekki til þess að leysa vanda heils byggðarlags eða fjórðungs.

Óskar Þorkelsson, 9.3.2008 kl. 15:45

4 Smámynd: Dofri Hermannsson

Hugmyndina um störf án staðsetningar mætti í raun orða á hinn veginn líka - að fólk í ákveðnum störfum hafi frelsi til að velja sér búsetu.

Segjum sem svo að hjá opinberum aðilum væri hægt að finna um 2-3 þúsund störf lítið eða óháð staðsetningu. Hjá einkageiranum væru þessi störf örugglega ekki færri. Þá er það sveitarfélaganna að auglýsa sig gagnvart þessu fólki.

"Komdu í Fróðafjörð. Hér er í boði fyrsta flokks starfsaðstaða á þekkingarsetri þar sem á milli 50 og 70 manns vinna við fjölbreytt störf ýmist í einkageiranum, hjá hinu opinbera eða sjálfstætt starfandi. Á krakkakoti er enginn biðlisti og grunnskóli Fróðafjarðar var í fyrra tilnefndur til íslensku menntaverðlaunanna fyrir metnað í skólastarfi. Við tónlistarskólann er kennt á fjölda hljóðfæra, íþróttafélagið býður upp á 1. flokks aðstöðu og hesthúsahverfið er í göngufæri frá bænum. Fjölskylduvænt umhverfi, lágt húsnæðisverð miðað við höfuðborgarsvæðið og allt til alls á einum stað."

Ég er viss um að þetta myndi hljóma spennandi í eyrum margra ungra fjölskyldna sem sjá sér varla fært að eignast þak yfir höfuðið á höfuðborgarsvæðinu en vilja gjarna vinna við það sem þau menntuðu sig til. 

Dofri Hermannsson, 9.3.2008 kl. 17:00

5 identicon

Veistu Dofri, það vantar ekkert svo marga Nýheima, það er fullt af stofnunum og fyrirtækjum á landsbyggðinni sem gjarnan vildu taka fleiri, stærri og metnaðarfyllri verkefni að sér fyrir ríkið og stofnanir þess (sjáðu t.d. Forsvar á Hvammstanga, Náttúrustofurnar um allt land, Háskólann á Hólum, heilbrigðisstofnanir osfrv.) - En þegar rætt er um að fela þessum stofnunum og fyrirtækjum aukin verkefni þá kemur gjarnan upp sú krafa að viðkomandi sveitarfélag skaffi ókeypis húsnæði fyrir starfssemina. Hver er hin sambærilega krafa til höfuðborgarinnar? Ef það er einhver alvara á bakvið það að framfylgja hugmyndinni um störf án staðsetningar þarf að vera raunverulegur vilji til þess á stjórnarráðsreitnum og pólitísk staðfesta gegn kerfisseigjunni sem heldur fólki í miðborginni.

Guðrún Helgadóttir (IP-tala skráð) 10.3.2008 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband