Einhliða upptaka evru og yfirlýsing um aðildarviðræður við ESB

Seint hélt ég að ég að ég myndi eignast skoðanabræður í LÍÚ, Birni Bjarnasyni og Friðrik Sophussyni en annað hefur nú komið á daginn. Annars vegar í því að að taka ætti upp evru og hins vegar að við ættum þegar í stað að hefja aðildarviðræður við ESB.

Eins og ég hef bent á hér áður geld ég mikinn varhug við fleytingu krónunnar. Ég held að sú leið út úr vandræðunum muni setja allt að helming heimila og fyrirtækja á hausinn á innan við ári. Krónan er ekkert annað en ávísun á íslenska verðmætasköpun og hún verður lítil ef stór hluti atvinnulífsins er lamaður og stór hluti íbúanna fluttur í burtu eða atvinnulaus. Það er því mikil hætta á að gengi krónunnar muni ekki hækka nægilega mikið.

Ef gengið fellur mikið meira er stór hluti fyrirtækja og heimila gjaldþrota. Háir stýrivextir, sem eiga að styðja við krónuna, gera það svo að verkum að fyrirtæki geta ekki fjármagnað rekstur sinn. Þannig stöðvast stór hluti verðmætasköpunarinnar í þjóðfélaginu, fólk missir vinnuna, hættir að geta greitt af lánum o.s.frv.

Gengisfallið eykur á verðbólguna og vegna verðtryggingarinnar hækka allar verðtryggðar skuldir í samræmi við það. Um helmingur allra fasteigna í landinu er veðsettur yfir 60% miðað við fasteignaverð eins og það var hæst. Ef verð lækkar um tugi prósenta og verðbólgan hækkar höfuðstólinn um 20% næsta árið er ljóst í hvað stefnir.

Einhliða upptaka evru er lausn á bæði gengisvandanum og verðtryggingarvandanum. Með því að taka upp evru eru Íslendingar komnir með laun í evrum og gengisáhættan af því að skulda í erlendri mynt hverfandi (auðvitað engin ef skuldin er í evrum). Um leið og allar íslenskar skuldir yrðu færðar yfir í evrur væri sjálfsagt að leggja niður verðtrygginguna enda forsenda hennar, íslenska krónan, horfin.

Höfuðvandamálin við upptöku evrunnar eru tvö. Annars vegar pólitískur vandi því upptaka evru er opinberlega í andstöðu við ESB. Í ljósi mjög erfiðra aðstæðna er hins vegar afar erfitt að mótmæla því að Íslendingar bjargi sér í efnahagslegt skjól með þessum hætti. Yfirlýsing um að stefnt sé að ESB aðild og formleg ósk um aðildarviðræður á sama tíma myndi hjálpa til pólitískt.

Hinn vandinn er sá að bankana vantar lánveitanda til þrautavara (ekki það að SÍ hafi reynst vel) í evrum. Bent hefur verið á að með því að breyta hluta af erlendum skuldum gömlu bankanna í hlutafé í þeim nýju mætti fá þennan bakstuðning með óbeinum hætti.

Eitt gæti reynst nauðsynlegt að kanna - og það ættu LÍÚ að hafa hugfast - að ef við tökum evru upp einhliða gæti reynst nauðsynlegt að koma á fót sveiflujöfnunarsjóði fyrir sjávarútveginn. Það liggur beinast við að hann hafi tekjur af auðlindagjaldi eins og Samfylkingin hefur lengi talað fyrir.

Af fréttum að dæma virðist forsætisráðherra vera farinn að opna á þessa leið. Björn Bjarnason hefur talað fyrir henni í nokkurn tíma. Segir réttilega að þetta sé lang sársaukaminnsta leiðin út úr efnahagsþrengingunum. LÍÚ, Björn, Friðrik og forsætisráðherra hljóta þó að gera sér grein fyrir því að verði þetta skref stigið er næsta skref, umsókn um aðild að ESB, óhjákvæmilegt.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Hvað með USD Dofri?

Eyþór Laxdal Arnalds, 30.11.2008 kl. 17:16

2 identicon

Það er allavega óhætt að gefa skít í þau "rök" LÍÚ mafíunnar að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi tryggi íslensk yfirráð yfir fiskimiðunum. Hafi það verið, er það löngu liðin tíð. Útgerðarauðvaldið íslenska er svo skuldugt erlendum bönkum, að fiskimiðin eru í raun á forræði þeirra. - Eyþór, USD er ónýtur gjaldmiðill. Gef honum þrjú ár í viðbót.

Óli lokbrá (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 17:30

3 Smámynd: Dofri Hermannsson

Um 70% af viðskiptum okkar er við ESB svæðið. Það er því eðlilegt að skoða þann möguleika fyrst. Evra sem gjaldmiðill lokar ekki möguleikanum á að við göngum í ESB, þvert á móti. Tækjum við hins vegar upp USD fengjum við ekki inngöngu. Óþarfi að brenna þá brú að baki sér þótt skoðanir á inngöngu í ESB séu mismunandi.

Dofri Hermannsson, 30.11.2008 kl. 17:33

4 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Af hverju fengjum við ekki inngöngu í ESB ef við værum með USD? Bretar eru með GBP og eru samt í ESB.

Eyþór Laxdal Arnalds, 30.11.2008 kl. 19:20

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

Já, Bretar eru með pundið og búnir að vera það býsna lengi. Þekki reyndar ekki hvort það eru einhver lög eða reglur eða bara pólitík sem bannar þjóð með USD að ganga í ESB. Væri gott að fá ábendingar frá fróðum aðilum um það. Sjálfum finnst mér efnahagslegu rökin vega þyngst við val á gjaldmiðli - 70% af viðskiptum okkar er við ESB.

Dofri Hermannsson, 30.11.2008 kl. 20:26

6 Smámynd: Haraldur Hansson

Forsendan fyrir verðbótum var verðbólga, en ekki krónan. Þó skipt sé í nýjan gjaldmiðil fellur verðtrygging ekki niður af sjálfu sér, enda er verðbólga í Evrulöndum líka. Þetta er pólitísk ákvörðun þó vissulega sé þörfin fyrir verðtryggingu ekki til staðar ef verðbólga er að jafnaði engin.

Lánveitandi til þrautavara verður Seðlabanki Íslands, jafnvel þó við tökum upp Evru. Líka þó við göngum í ESB.

Svo er ein spurning varðandi "bakstuðning með óbeinum hætti" sem þú telur nást með eignaraðild erlendra banka. Hvers vegna vilja erlendir bankar eignast hlut í íslenskum bönkum sem fóru á hausinn? Ekki er það af góðmennsku einni saman, svo mikið er víst.

Haraldur Hansson, 30.11.2008 kl. 21:37

7 Smámynd: Dofri Hermannsson

Verðbætur eru reiknaðar út frá verðbólgunni (hækkun vísitölu til verðtryggingar) en í rauninni er stór hluti af henni tengdur vantrausti erlendra viðskiptaaðila okkar á krónunni.

Enginn erlendur aðili vill taka við krónum sem greiðslu nema með talsverðum afföllum af því það er ekki á vísan að róa með að fá sömu verðmæti til baka þegar krónunum verður aftur skipt. Þetta vantraust skilar sér þó ekki síður í hærra vöruverði og hærri vöxtum en verðbólgu.

Seðalabanki Íslands verður lagður niður. Erlendir aðilar munu vilja taka hlutabréf í nýju bönkunum upp í hluta af skuld af því það kann að verða besta leiðin til að leysa til sín þá peninga sem þeir áttu í gömlu bönkunum.

Dofri Hermannsson, 30.11.2008 kl. 22:57

8 Smámynd: Haraldur Hansson

Seðlabanki Íslands verður ekki lagður niður. Aðeins Seðlabanki Íslands getur verið lánveitandi til þrautavara fyrir íslenska viðskiptabanka. Jafnvel þó við tökum upp dollar eða evru. Þó útlendingar eignist meirihluta hlutabréfa í öllum bönkunum breytist það ekki. Þó við göngum í ESB breytist það ekki; Seðlabanki Íslands hefur áfram það hlutverk.
Seðlabanki Evrópu getur ekki orðið lánveitandi til þrautavara. Það er ekki hans hlutverk, hann hefur ekki heimild til þess.

Ég ítreka spurninguna: Hvers vegna vilja erlendir bankar eignast hlut í íslenskum bönkum? Þakka þér samt fyrir fyrra svar, en þú ert ekki einu sinni volgur.

Haraldur Hansson, 1.12.2008 kl. 01:18

9 identicon

 Jæja Dofri, er þetta svona auðvelt eins og þú og aðrir Evru-sinnar halda.  

Spurningin er, á hvaða gengi á að reikna krónuna upp í Evru þegar við skiptum um mynt.  Þetta er afar mikilvægt fyrir okkar prívat-efnahag til frambúðar.   Dofri, skoðaðu lítið reikningsdæmi hér fyrir neðan um umreikning á krónu upp í Evru miðað við núverandi aðstæður: 
 Dæmi:
  • Meðallaun í stóru Evrulöndunum eru ca. 55.000 Evrur ár ári.
  • Þetta eru ca. 4.785.000 krónur á genginu 87 kr. pr. Evru sem var meðalgengi á síðasta ári.
  • Þetta eru ca. 9.955.000 krónur á núverandi skráðu gengi Evru sem er ca. 181 kr.
 
  • Meðallaun hér á landi árið árið 2007 voru ca. 4.975.000 kr.
  • Þetta eru ca. 57.184 Evrur á miðað við meðalgengi Evru árið 2007 sem var 87 kr.
  • Þetta eru ekki nema ca. 27.486 Evrur á núverandi gengi krónu sem er 181 kr. eins og fyrr sagði!
Við að taka upp Evruna nú þegar sem gjaldmiðil hér á landi, erum við að búa til kjaraskerðingu fyrir okkur gagnvart öðrum Evrulöndum sem nemur ca. 29,514 Evrur á árslaunabasis.  Þetta kallast raungengislækkun.  Við yrðum því með öðrum orðum helmingi lengur en t.d. meðal Þjóðverjinn að vinna fyrir einu bjórglasi.

Þetta er ekki bara tímabundin kjaraskerðing, heldur varanleg kjaraskerðing, ákveðum við á annað borð að taka upp Evru sem gjaldmiðil hér á landi strax í dag eins og margir vilja, og telja að við svo búið muni ríkja hér eilíf efnahagsleg sæla. Frá þessari kjaraskerðingu verður ekki aftur snúið, ákveðum við á annað borð að taka upp Evru núna.

Dofri og aðrir Evru-sinnar, íhugið þetta áður en að þið farið að gaspra fyrir Evru-upptöku sem myndi gera okkur að varanlegu láglaunaríki.

Þetta þýðir að við þyrftum að vinna næstum helmingi lengur en borgarar í öðrum Evrulöndum til að geta keypt okkur sömu hluti og þeir.  
Þess vegna er mikilvægt að þessi mál yrðu skoðuð vel til að við munum ekki verða undirmálsfólk og láglaunaríki í Evrópusambandinu.  Með öðrum orðum yrði að taka krónuna upp í Evruna á sanngjörnu verði, en ekki á einhverju afsláttargengi eins og það gengi sem gildir í dag.  
Þetta litla dæmi sýnir bara, að það eitt að taka upp Evru sem gjaldmiðil hér, er ekki svo einfalt mál. 

Rafn Óli Björnsson (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 11:15

10 Smámynd: Dofri Hermannsson

Rafn Óli. Gengið hefur verið allt of hátt í mörg ár, m.a. vegna gallaðrar peningamálastefnu. Verðmætasköpun í landinu hefur ekki staðið undir háu gengi krónunnar. Við höfum fengið "ofgreidd laun" allan þennan tíma.

Nú er kerfisvillan komin í ljós, gengi krónunnar er hrunið og við blasir hrun í atvinnumálum, hrun á fasteignamarkaði og af því verðtryggða krónan er óhjákvæmilegur fylgifiskur venjulegrar krónu blasir við gríðarleg eignaupptaka hjá fólki sem skuldar verðtryggð lán.

Þetta er ekki tímabundið ástand. Ef við hins vegar tökum upp evru núna strax (einhliða) náum við að koma skuldurum í skjól fyrir gengisáhættu og verðtryggingu, hægt verður að lækka vexti og þýða upp atvinnulífið og verðbólga mun lækka. Þannig getum við farið að vinna okkur upp úr skuldunum, gera áætlanir sem ekki eru háðar duttlungum óstöðugs gjaldmiðils.

Ef við gerum það ekki mun stór hluti landsmanna yfirgefa skerið á næstu tveimur árum. Einkum skuldsett fjölskyldufólk. Það mun enn draga úr trúverðugleika gjaldmiðilsins. Þetta er vítahringur sem við verðum að komast út úr.

Dofri Hermannsson, 1.12.2008 kl. 13:54

11 identicon

Gengið hefur alls ekki verið of hátt.  Gengið endurspeglar efnahag sérhverrar þjóðar.

Já en Dofri, að taka upp Evru á genginu 185 eins og það er í dag er varanleg eignaupptaka.  Við verðum varanlega undirmálsríki í ESB fyrir bragðið, því kaupmáttur okkur er helmingi minni en annarra ESB þjóða.  Við þurfum að greiða sama verð fyrir vörur og þjónustu og önnur ESB ríki, en verðum með helmingi minni laun.  Er það gott???  Þú telur það greinilega. 

Þó svo að við tökum upp Evru núna að þá verður krónan tekin upp í Evru á genginu 185 eins og þú telur "eðlilegt" vegna þess að þú telur að gengið hafi verið of hátt.  Þetta hjálpar ekki neytendum hér eða fyrirtækjum þó svo að verðbólga lækki.  Verlag mun verða áfram himinnhátt hér á landi og það sama á við skuldirnar vegna þess að krónan verður tekin upp í Evruna á lágu gengi.   Og þá mun stór hluti landsmanna yfirgefa skerið fyrir fullt og fast. 

Það eina sem gæti lagfært þetta misræmi og ósanngirni eru verulegar launahækkanir.

Vertu ekki svona mikill fáráður að halda því fram að það eitt að taka upp Evru muni lækka skuldir fólks sem og verðlag hér á landi.

Það er greinilega að þið ESB-sinnar hugsið á þessum nótum og ætlið að svíkja okkur og selja á brunaútsölu inn í ESB sem undirmálsþjóðg og láglaunaríki.

Sérðu það ekki maður að við það að taka upp Evru hér á landi á genginu 185 verðum við að eilífu láglauna og undirmálsríki í ESB vegna þess að þá er búið að lögfesta varanlega þá gengisfellingu sem þegar hefur átt sér stað, sbr. athugasemd mína nr. 9 hér að ofan.

Rafn Óli Björnsson (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 16:00

12 Smámynd: Dofri Hermannsson

Það er gott að skiptast á skoðunum, einkum ef tilgangurinn er að auka þekkingu sína. Hitt er hálf leiðinlegt til lengdar þegar menn eru fyrst og fremst að láta skoðanir sínar keppa eins og hana í ati.

Rafn Óli Björnsson, ég finn ekki nein rök fyrir fullyrðingum þínum. Reyndar finn ég þig ekki heldur í þjóðskrá. Kannski er það lýsandi fyrir þá sem þrasa í hálfgerðum dónaskap á bloggsíðum að þeir gera það annað hvort ekki undir nafni eða þá nöfnum sem ekki finnast í þjóðskrá.

Upplýst umræða - eins og bloggið getur verið svo ágætur vettvangur fyrir - á betra skilið.

Dofri Hermannsson, 1.12.2008 kl. 18:15

13 identicon

Dofri, þetta er enginn dónaskapur hjá mér að spyrja svona áleitinna og mikilvægra spurninga varðandi peningalega framtíð okkar.  Þetta er mjög alvarlegt mál.  Þú sem kjörinn fulltrúi átt að svara málefnalega, en ekki með hroka og skætingi.  Eða ertu kannski að leyna einhverju um sviksamleg áform Samfylkingarinnar um efnahagslega framtíð allra Íslendinga?  Mér finnst bara barnalegt og jafnvel fáránlegt af þér að halda því fram að einhliða upptaka Evru lagi stöðu okkar núna.  Það er ekki hægt að mínu mati að taka upp Evru miðað við núverandi gengi.  Það mun einfaldlega lögfesta fátækt okkar í samfélagi Evru-þjóða um allar framtíð.  Eða finnst ykkur í Samfylkingunni óþægilegt að ræða svona mikilvæg mál sem skipt geta sköpu fyrir svona marga?

Þú verður að svara hugleiðingum mínum málefnalega, en ekki með útúrsnúningi og billegum afgreiðslum um að fólk sé að skrifa undir dulnefni.  Ég finnst reyndar þjóðskrá.  Leitaðu betur.  Eða hvar komstu annars í þjóðskrá?  Ertu ekki að misnota aðstöðu þín einhvers staðar?  Hefurðu heyrt talað um lög um persónuvernd? 

Rafn Óli Björnsson (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 00:45

14 Smámynd: Óskar Arnórsson

Dofri: Er vitað hvað Ísland þarf að borga mikið á ári sem aðili í ESB? Ég var vittni að því Að það varð Svíum að falli við að ganga í ESB. Þær er með sína krónu. Yrðu þeir betur settir með efru fyrst þeir eru iESB á annað borð sem megnið af Svíum dausjá eftir núna. Veistu raunverulega hvað þú ert að þala um mikið bákn með aðild Íslands að ESB? 'eg sé engin rök koma frá þér bara frasa úr auglýsinga og upplýsingabæklingum ESB. Hef lesið þtta á Sænsku sem þú ert að segja.

Ísland fengi einn fulltrúa, við myndum missa ráðin algjörlega yfir fiskimiðum og kanski meiru. Fulltrúinn frá Íslandi MÁ EKKI tala um málefni á Íslandi, eingöngu málefni allrar Evrópu. Væri ekki nær að vera í myntbandalagi með Noregi?

Viltu Norður Tyrki um allt Ísland í framtíðinni?  

Tek það fram að ég veit ekkert um Samfylkingunna né neinn annan stjórmálaflokk eða trúarflokk. Þeir rökræða mjög svipað..

ESB aðild myndi ganga frá Íslandi sem þjóðfélagi, fólk flytur, sem það er þegar byrjað að gera. Ísland yrði bara verbúð og rafmagnsframleiðsla. Þetta ESB tal er miklu vitlausara enn rembingurinn í Ingibjörgu Sólrúnu  með inngöngu í öryggisráðið.

Allt saman vanhugsað eða ekki neitt hugsað. Bara vera með í einhverju sem þykir fínt! 

Óskar Arnórsson, 4.12.2008 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband