Sjálfstæðisflokkurinn hrundi innanfrá

Ósköp reynist Geir erfitt að viðurkenna að hann og flokkurinn hans klúðruðu málum. Nú er hann búinn að biðjast afsökunar á einkavæðingu bankanna, 90% lánunum og skattalækkunum sem voru olía á eldinn en reynir samt eins og hann getur að klína einhverju á Samfylkinguna. Og hverju á Samfylkingin að hafa brotnað undan?

Heldur Geir að fólk muni ekki hvað Sjálfstæðisflokkurinn, ráðherrar hans og þingmenn voru veruleikafirrtir þegar fólk fór að mótmæla? Þegar þúsundir stóðu fyrir utan alþingishúsið og börðu potta og pönnur svo sjálfstæðismenn fipuðust í að tala um áfengi í búðum þá fóru þeir reiðir í fjölmiðla og töluðu um að það þyrfti að herða löggæsluna og fjölga í víkingasveitinni!

Þótt reiði fólks hefði verið orðin svo mikil að kvöld eftir kvöld voru kveiktir eldar á Austurvelli, og lögreglumenn sem stóðu varðstöðu um alþingishúsið voru grýttir nótt eftir nótt þá finnst Geir greinilega ennþá að það hafi verið veikleiki að hlusta á það sem fólk var að segja.
Að hans mati hefði væntanlega átt að beita fólk meiri hörku, kannski setja á útgöngubann á lýðinn svo hann sjálfur gæti spilað á fiðluna í ró og næði meðan hann horfði á landið brenna.

Staðreyndin er sú að allt frá því bankahrunið varð í október var formaður Sjálfstæðisflokksins sem lamaður. Hann vissi sem var að nú var allt hrunið og að það var allt honum sjálfum og hörmulegri efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins að kenna. Ofan í kaupið var hann svo með sinn gamla formann eins og grenjandi ljón yfir sér og þorði ekki að taka minnstu ákvörðun um nokkurn skapaðan hlut af ótta við að þeim gamla mislíkaði hún.

Samfylkingin í ríkisstjórn skynjaði vel óróann í samfélaginu, var með puttan á þjóðarpúlsinum. Enda ekki skrýtið því hvern mótmæladag tóku kjósendur flokksins og nánir samstarfsmenn þingmanna og ráðherra Samfylkingarinnar sér með stöðu með bræðrum sínum og systrum á Austurvelli og mótmæltu vanhæfri ríkisstjórn. Því það var hún sannarlega - og einkum af því stjórnandi hennar var algerlega heillum horfinn.

Það var stundum gert grín að því að það mætti ekki amast við mótmælendunum sem huldu andlit sín af því þar væru í raun þingmenn Sjálfstæðisflokksins eins og Sigurður Kári og Bjarni Ben að mótmæla sínum eigin flokki. Því miður er engin von til þess að svo hafi verið. Annars vegar af því að Hannesaræskan í Sjálfstæðisflokknum er gagnrýnislaus á flokkinn sinn og hins vegar af því að hún hefði ekki döngun í sér til að gagnrýna hann jafnvel þótt henni dytti það í hug.

Nei Samfylkingin brotnaði hvergi en hafði þvert á móti kjark til að höggva á hnútinn. Binda endi á skrípaleikinn. Sjálfstæðisflokkurinn hrundi hins vegar undan eigin þunga - innanfrá.


mbl.is Samfylkingin brotnaði undan storminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Já þetta er fremur moðlegt yfirklór hjá Geir.

Hverju samfylkingin brotnaði undan ? Ja það þurfti nú andskoti mikið að ganga á áður en hún druslaðist úr stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.. En batnandi flokkum er best að lifa.

Og vissulega er SF að standa sig þessa daganna.

hilmar jónsson, 26.3.2009 kl. 20:41

2 identicon

Er það rétt munað að tilraun samfylkingarinnar til að höggva á hnútinn hafi verið að vilja fá forsætisráðuneitið í stjórn D og S. Í Sjálfstæðisflokknum eru nógu margir til að mæta á austurvöll með potta og sleifar til að slá út þann fjölda sem þú vitnar í, ef það gerist finnst þér þá að þessi ríkisstjórn eigi að víkja o.s.fr.

Ingi (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 21:26

3 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Þetta bankahrun er hörmulegt og Sjálfstæðisflokkurinn, til að halda sæmd sinni, ætti að ganga fram fyrir skjöldu og að krefjast þess að fólk sem brást stefnu Sjálfstæðisflokksins og fór út úr þeim ramma sem stefnan markaði, verði gert að sæta ábyrgð bæði pólitískt og samkvæmt lögum landsins.

Svaka flott mynd af Árna Johnsen og Pétri Blöndal ( fé án hirðis )  þarna á fremsta bekk. Eru þeir ekki í framboði núna fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

Þorsteinn H. Gunnarsson, 26.3.2009 kl. 21:40

4 identicon

"Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi hins vegar talið, að í ljósi stjórnmálaóvissunnar væri rétt að hinkra með vaxtalækkun."

Þá vitum við það. AGS stjórnar. Og ég held jafnframt að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki stjórnað með neinum. Venjulegt fólk vill vinna en Sjálfstæðismenn vilja ekki gera neitt.

Svo baðst hann afsökunar. Ekki þjóðina, ekki fólkið í landinu sem hann átti að vera að vinna fyrir. Nei, hann bað flokkinn afsökunar. Hversu veruleikafyrrtur getur maðurinn eiginlega verið?

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 21:55

5 Smámynd: Guðmundur Björn

Þú ert dálítið broslegur Dofri.  Þú verður nú að viðurkenna að Samfó er dálítið eins og hauslaus hæna er það ekki??

Guðmundur Björn, 26.3.2009 kl. 21:56

6 Smámynd: Liberal

Var það ekki Samfylkingin sem hljóp í burtu frá öllu saman og hefur afsalað sér tilverurétti sínum til VG? Var það ekki Samfylkingin sem gafst upp og labbaði út til þess að stofna stjórn með VG og leika sér í verkefnum sem eru hvorki aðkallandi né sérlega gáfuleg? Auðvitað er miklu "skemmtilegra" að leika sér í að fokka upp stjórnarskrá og svona en að taka á erfiðum málum.

Samfylkingin gafst upp. Samfylkingin er ekki flokkur sem höndlar erfiðleika. For kræing át lád, þið vóguð formanninn ykkar úr launsátri þegar hún var í miðjum veikindum og boluðuð henni burt! Þið þorið ekki að efna til prófkjörs um efstu sætin í t.d. Reykjavík heldur haldið þeim fráteknum fyrir þá sem þess krefjast!

Hvað með ESB málin? Þið látið eins og þið hafið aldrei haft neinn áhuga á ESB, þið eruð í því máli (eins og svo að segja öllum öðrum) búin að kópera stefnu VG. Allt í einu skiptir ESB engu máli, svona þannig. Jújú, þið reynið einhverjar stórhlægilegar eftiráskýringar á ræðu Steingríms, svona í von um að þið getið friðaða ESB sinnana inni í flokknum ykkar.

Samfylkingin er flokkur andvana fæddur. Ingibjörg Sólrún hélt hjörðinni saman, en núna eruð þið varla flokkur lengur. Þið eruð sundurlaus hjörð smákónga sem eiga það eitt sameiginlegt að falbjóða samvisku sína fyrir völd. Nú fáið þið að teika möllettið á Steingrími og Ögmundi og eruð ánægð með að kyngja öllum stefnumálum sem þið þóttust hafa í skiptum fyrir ráðherradóm.

Það er einn flokkur sem hefur öðrum fremur komið óorði á stjórnmál og það er Samfylkingin. Loftbólubandalagið. Vindhanasamtökin. Þið skiptið um skoðun oftar en veður breytist á landinu.

Þið getið nú bara svo og svo lengi stólað á innistæðulausan glans Jóhönnu - hún er eyðslukló sem enginn getur unnið með. Ekki meiri leiðtogi en maurabú. Hún hefur fylgi núna í gegnum svona Soffía-frænka tendens sem hún hefur alltaf staðið fyrir, en þegar á reynir sér þjóðin að hún er fullkomlega og algerlega vanhæf til að leiða þjóðina.

Kannski er einmitt það sem við hægrimenn þurfum núna er að fá ykkur kommana að stjórna eftir kosningar til að sýna og sanna þessari kynslóð af hverju vinstrimenn geta ekki stjórnað. Mín kynslóð veit það af biturri reynslu, en kynslóðin á eftir hefur aldrei upplifað hörmungar vinstristjórnar og heillast af innantómum fagurgala ykkar. Þegar þið hafið klúðrað málum stórkostlega á næstu 2 árum mun sú kynslóð sjá í gegnum ykkur líkt og mín kynslóð gerði. Kannski er það sem þarf að gerast. Það er fórn sem ég er fús að færa í skiptum fyrir það að þið verðið til langrar framtíðar utan stjórnar.

Liberal, 26.3.2009 kl. 22:02

7 Smámynd: Haukur Gunnarsson

2007 voru Alþingiskostningar, ekki varaði Samf. við að hrun væri í nánd þá. Nei nei hún þráði að komast í stjórn með XD. Og þegar varnaðarorð fóru að berast um að bankarnir og þjóðarbúið væri illa statt. Sprangaði Ingibjörg um heiminn og sagði fussum svei allt í góðu hjá okkur Geir, bara öfund hvað allt er gott á Íslandi. Ber Samf. ekki einnhverja ábyrgð. Og afstaðan til ESB er nú engu lík, vindhanastefna.

Haukur Gunnarsson, 26.3.2009 kl. 22:23

8 identicon

Já, það verður að taka undir að þetta er hálf-broslegt þetta örvæntingarfulla hænugagg í Samfylkingunni. Sjálfstæðisflokkurinn heldur nú sinn stærsta landsfund frá upphafi og blint æðið er farið að renna af almenningi. Auðvitað er Samfylkingin dauðhrædd við að nú nái skynsemin yfirhöndinni og hræðslu-áróðurs-fylgi flokksins fari að renna aftur frá honum. Því er vandræðalegt hjá Dofra að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé "hruninn" – og það innanfrá!

Í pistli Dofra má annars skýrlega sjá hvert hlutverk hann telur að ungt fólk í stjórnmálaflokki eigi að gegna, þ.e. ekki bara að gagnrýna flokksforystuna á málefnalegum grunni, heldur beinlínis taka þátt í ofbeldisfullum mótmælum gegn ríkisstjórn sem viðkomandi flokkur er í. Er það nema von að Samfylkingin skyldi ekki geta staðist slíkan þrýsting!

Að lokum:

"Samfylkingin í ríkisstjórn skynjaði vel óróann í samfélaginu, var með puttan á þjóðarpúlsinum"

Jæja já, það var einmitt það! Þessi texti Dofra er lýsandi fyrir þá þörf Samfylkingarinnar til að elta sífellt skoðanakannanir og minnstu sveiflur í dægurþrasinu. Þess vegna er samlíking Geirs um kvíslina sem brotnaði einmitt svo vel við eigandi. Það vottar ekki fyrir bakbeini í flokki Dofra. Þar er engar hugsjónir sem staðið er fyrir. Þar er bara hlustað á þann bloggara eða pottaglamrara sem hæst gargar hverju sinni.

Kolbeinn (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 22:30

9 identicon

Sammála því að þjóðarpúls Samfylkarinnar er ekki annað en síðasta skoðannakönnun. Fréttir um að Össur hafi strax í Október hafið óformlegar viðræður við VG gefa ekki annað en vísbendingu um flokk sem er að klofna innan frá. Einnig sammála því að ef flokksgagnrýni er að mótmæla stjórn þar sem sami flokkur er í stjórn með pottaglamri þá er það ekki mjög málefnalegt innra starf í þeim flokki.

Loftbólunni er best líst með skýringum Jóhönnu í gær að hafna alfarið 20% niðurskurðarleiðinni. Hún vitnaði í gögn sem Seðlabankinn tók saman en þar var gefið út að einungis átti við um lán til íbúðakaupa og lífeyrissjóðirnir voru ekki með. Út úr þeim gögnum mátti lesa að meirihlutinn hefði meira en 5 miljónir í eigið fé (sem er ekki lausafé). Hún gerir ekki ráð fyrir að fólk hafi önnur veðsett lán, verðmat eigna er óljóst og öll önnur neyslulán. Niðurstaðan er gersamlega loftbólukennd rök af hverju má ekki fara niðurskurðarleiðina.

Ef eitthvað væri raunsætt þessa dagana þá væru skilaboðin: ALLT NEMA SAMFYLKINGUNA

Rúnar (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 23:14

10 Smámynd: Dofri Hermannsson

Hér er eins og vant er hælbítar Sjálfstæðisflokksins gjammandi undir hálfu nafni eða nafnleynd. Sá/sú sem kallar sig Liberal er með bloggsíðuna www.liberal.blog.is og kemst upp með að vera þar ekki undir nafni (finn það alla vega ekki). Ég hef því bannað hann á mínu bloggi - nenni ekki að vera með svona lið á minni síðu.

Hinir sem gjamma undir hálfum nöfnum (ef það eru yfir höfuð þeirra eigin nöfn) eru með eftirfarandi netpóst og IP tölur:

runarbraga@simnet.is | IP-tala: 85.220.10.132kolbeinn@hotmail.com | IP-tala: 157.157.188.22608gudmundur.i.k@keilir.net | IP-tala: 85.220.22.45

Dofri Hermannsson, 27.3.2009 kl. 09:54

11 Smámynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

haha og á þetta að leysa vandan með að "hefna" sín svona á þeim sem eru ekki sammála þér Dofri?

Ekki vera dúlla þér í sandkassanum eins og einhver slúbert, þú átt að vera betri maður en það.

Aftur á móti er alveg timi kominn til þess að þið Samfylkingarmenn taki nú upp viðurkenningu á ykkar hlut, þið getið ekki ver alsaklaus meðan þið voruð í sama potti og Sjalfstæðismenn, með halda því fram sem þú gerir , þá ertu að segja að Samflykingin hafi bara verið skrautmunur og uppfyllingarefni fyrir Sjalfstæðisflokkinn í síðustu ríkisstjórn. Held að þið ættuð að vakna og þefa af veruleikanum. Sjálfstæðisflokkurinn er allavega löngu byrjaður á því og er farinn að viðurkenna sinn hlut.

Rúnar Sigurður Sigurjónsson, 27.3.2009 kl. 10:01

12 Smámynd: Erla J. Steingrímsdóttir

Sæll Dofri,

Ég gæti ekki verið meira sammála þér með Sjálfstæðisflokkinn.  Sá flokkur hefði gott af því að vera í stjórnarandstöðu næstu 18 ár til að læra smá auðmýkt.   Ég verð samt að viðurkenna að ég er ekki sammála þessu evrópu-brölti hjá Samfylkingunni.  Núna er ekki rétti tíminn til að vera að tala um aðild. 

Erla J. Steingrímsdóttir, 27.3.2009 kl. 10:16

13 Smámynd: hilmar  jónsson

Dofri: Sammála þér með þennan Libreal. Þetta er sóði og það leggur fnykinn af honum hvar sem hann ber niður á blogginu. Held að ansi margir séu búnir að loka á hann. Það hef ég allavega gert. Maður hélt að Mogginn hefði gert þá kröfu, að þeir sem væru með blogg þyrftu að gefa upp nafn sitt sem ábyrgðarmenn.

hilmar jónsson, 27.3.2009 kl. 11:25

14 identicon

Gott að vita að þú hafir það álit á þeim sem eru ekki sammála þér að þeir séu eitthvað verri. Lýsir þér betur en þeim og vertu sæll.

Ingi (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 20:10

15 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ingi - ef þú ert ekki farinn!

Ég hef mikið álit á mörgum sem eru ósammála mér. Það á þó ekki við um þá sem taka þátt í almennri umræðu með andlitið hulið (nema það séu þingmenn Sjálfstæðisflokksins - ég hef nokkra samúð með nafnleynd þeirra í þjóðmálaumræðunni). Þess vegna birti ég hiklaust nöfn, netföng og IP tölur þeirra sem ekki þora að taka þátt í umræðum undir (réttu) nafni.

Og af því ég var ekki alveg nákvæmur í fyrra skiptið er rétt að árétta að netfang Inga og IP tala er eftirfarandi: 08gudmundur.i.k@keilir.net | IP-tala: 85.220.22.45

Líklega gengur hann því alla jafna undir nafninu Guðmundur en ekki Ingi!

Vertu sæll Ingi, komdu sæll Guðmundur! :)

Dofri Hermannsson, 27.3.2009 kl. 23:56

16 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þegar rök eru þrotin, er gripið til þess að kasta fúkyrðum, lítilmannlegum fullyrðingum og loks "afþvíbara" slettum.

"Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa" stendur á góðum stað og það mun sannast eins og alltaf. Tek undir með þér Dofri um leið og ég brosi góðlátlega út í annað að "íhaldsspriklinu" hér að ofan

Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.3.2009 kl. 08:01

17 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Hvað eruð þið að velta ykkur upp úr allri þessari vitleysu.  Það er deginum ljósara að Geir bað flokkinn sinn afsökunar á óförum þjóðarskútunnar á landsfundinum. Við þjóðin höfum aldrei verið beðin afsökunar. 

Ég held að það sé kominn tími til þess að sjálfstæðisframsókn biðji þjóðina fyrirgefningar á þeim ógöngum sem þjóðin er nú komin í. Samfylkingin kom þar hvergi nærri, enda ekki í stjórn á þeim tíma sem mestu glæpirnir voru í uppsiglingu undir vernd sjálfstæðisframsóknar.  Þetta mál nær mörg ár aftur í tímann.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 29.3.2009 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband