Á morgun leggur Samfylkingin fram eftirfarandi tillögu á fundi borgarstjórnar:
Tillaga Samfylkingar um vistvæna bíla.
Borgarstjórn samþykkir að setja sér það markmið að árið 2020 verði að minnsta kosti annar hver bíll í Reykjavík knúinn vistvænu, innlendu eldsneyti. Skipaður verði starfshópur sem kortleggur bestu leiðir til að ná þessu markmiði. Samvinna og samráð verði haft við löggjafa- og framkvæmdavald, nágrannasveitarfélög, fyrirtæki, frjáls félagasamtök og aðra þá aðila sem hjálpað geta til við að ná þessu markmiði Reykjavíkurborgar.
Greinargerð.
Á undanförnum árum hafa borgir víða tekið forystu í stórum umhverfismálum. Eitt af stærri málum þar sem borgir hafa haft leiðandi hlutverki að gegna er við þróun og breytingar á innviðum samfélagsins til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun.
Samkvæmt nýrri skýrslu Mannvits fyrir Reykjavíkurborg um raunhæf markmið í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eru tæknilegar lausnir s.s. fjölgun metanbíla, íblöndun lífeldsneytis í bensín og dísil og innleiðing nýrra ökutækja, sér í lagi rafmagns og E85 bíla, skilvirkustu leiðirnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til skemmri og lengri tíma.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í tengslum við ráðstefnuna Driving Sustainability flytja Íslendingar inn eldsneyti fyrir um milljarð króna á mánuði en hafa alla möguleika á að stórauka notkun á innlendri vistvænni orku til samgangna. Möguleikar á gjaldeyrissparnaði eru því umtalsverðir og í ljósi efnahagsástandsins hljóta stjórnvöld að hafa ríkan vilja til að ná slíkum sparnaði fram.
Reykjavíkurborg hefur að mörgu leyti betri aðstöðu en flestar aðrar borgir til að setja sér og ná metnaðarfullum markmiðum á þessu sviði. Í verkefni af þessu tagi nýtur borgin smæðar sinnar, stjórnsýslan er einföld og návígi við löggjafa- og framkvæmdavald er meira en flestar erlendar borgir eiga kost á. Loks á borgin orkufyrirtæki sem framleiðir umhverfisvæna raforku og getur því tryggt mögulegri rafbílavæðingu alla þá orku sem þörf er á.
Reykjavíkurborg býr sjálf yfir mörgum tækjum til að ná markmiði því sem sett er fram í tillögu þessari s.s. að efla forgangsakreinakerfið og veita vistvænum bílum aðgang að því, setja skilyrði um fjölorkustöðvar, skapa hagræna hvata fyrir eigendur vistvænna bifreiða og ganga á undan með góðu fordæmi í innkaupum á bifreiðum.
Til að ná metnaðarfullum markmiðum um vistvænar samgöngur þarf samstarf margra aðila. Því er í tillögutexta sérstök áhersla lögð á að starfshópur hafi samráð við alla þá sem aðstoðað geta við að ná settu markmiði. Hlutverk starfshópsins yrði að kortleggja bestu leiðir í samráði við þessa aðila og skila svo tillögum þar að lútandi til borgarstjóra.
Hér hefur verið bent á tvenns konar hag sem borgin hefði af markmiði þessu, samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda og gjaldeyrissparnaður. Telja má víst að því til viðbótar myndi markmið af þessu tagi örva mjög alla þróun nýrra lausna sem málinu tengjast og þannig hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf. Síðast en ekki síst myndi markmið um annan hvern bíl á vistvænu innlendu eldsneyti fyrir 2020 vekja athygli á Reykjavík sem hreinni og metnaðarfullri höfuðborg en orðspor af því tagi verður seint metið til fjár.