Lýðurinn tendri ljósin hrein

Alcan hefur hafið kosningabaráttu sína fyrir af fullum krafti. Baráttumál Alcan er eins og allir vita að fá leyfi bæjarbúa til að þrefalda álverið í Straumsvík.

Útspil Alcan hafa reyndar verið nokkur undanfarið, fyrirtækið hefur styrkt bæði íþróttafélög bæjarins rausnarlega og bauð nýverið lýðnum á kappleik þeirra á sinn kostnað. Þá hefur nýlega verið auglýst eftir styrkjum í Samfélagssjóð sem mig grunar að verði úthlutað rausnarlega úr í ár og loks hefur fyrirtækið ákveðið að styrkja Björgunarsveit Hafnarfjarðar til að gera árlega flugeldasýningu sveitarinnar sem veglegasta að þessu sinni.

Síðast en ekki síst hefur Alcan af rausnarskap sínum sent hverju einasta heimili í Hafnarfirði hugljúfa gjöf, geisladisk með lögum Björgvins Halldórssonar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Gjöfin er að sögn Alcan liður í þeirri ætlan fyrirtækisins að kynna á næstunni starfsemi fyrirtækisins fyrir hafnfirskum lýð svo hann geti myndað sér skoðun á fyrirhugaðri þreföldun álversins í Straumsvík.

Það verður að segjast eins og er að það stefnir í alveg sérstaklega málefnalega baráttu. Annars vegar munu hér takast á álrisinn Alcan með alla vasa yfirfulla af peningum og fjölda atvinnusmjaðrara á launaskrá og hins vegar fólk sem telur þreföldun álversins í Straumsvík vera stórt skref aftur á bak fyrir sitt fallega bæjarfélag og er tilbúið að vinna í sjálfboðavinnu eftir að vinnudegi lýkur í að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Þetta verður barátta svipuð og ótal öðrum þar sem annar aðilinn hefur ekkert nema góðan málstað en hinn aðilinn hefur allt nema góðan málstað. Þetta er leikur kattarins að músinni, leikur auðhringsins að lýðræðinu, risans að dreng. En sagan sýnir að stundum vinnur drengurinn risann og mér sýnist af viðbrögðum Hafnfirðinga að svo gæti farið í þetta skiptið.

Eftir að hin óumbeðna jólagjöf barst inn á hvert einasta heimili í Firðinum hefur mörgum fundist eins og auðhringurinn væri búinn að leggja niður fyrir sér full ítarlega áætlun um sigur. Að það væri búið að reikna gaumgæfilega út hvað það kostaði að fá út JÁ hjá Hafnfirðingum og að það væri til plan A, B og C sem öll enduðu á sama veg en kostuðu bara mis mikið af peningum. Og auðvitað er það rétt.

Það er þekkt að fyrirtæki sem eru í eðli sínu samfélagslega neikvæð, t.d. vegna mengunaráhrifa eða eyðileggingar á náttúruperlum samfélagsins, verja umtalsverðum fjárhæðum í að fegra ímynd sína. Þau reyna eftir megni að tengja sig jákvæðum stofnunum, samtökum og atburðum s.s. Sinfóníunni, Bjarsýnisverðlaunum, Samfélagsverðlaunum, Björgunarsveitum og íþróttafélögum til að breiða yfir sína eigin mynd. Það er oft mikilla peninga virði að breiða yfir hana.

Það er athyglisvert að skoða jólaauglýsinguna frá Alcan í þessu ljósi. Þar er fallegt prúðbúið fólk (líklega óperukór Hafnarfjarðar) látinn syngja "Hátíð fer að höndum ein" inni í vinnuskálum Alcan. Auglýsingin á að sjálfsögðu að sýna okkur hvað það er gott fólk sem vinnur í Straumsvík og hvað það er glatt og sælt að vera að vinna þar. Og auðvitað er þetta hvort tveggja rétt.

Fólki finnst yfirleitt gott að vinna þar sem það hefur ákveðið að vinna - annars fer það (eða er rekið). Hitt sem er líka rétt nýtir Alcan sér út í hörgul í þessari auglýsingu - að fólk er fallegt og gott. Þetta vita ímyndarsérfræðingar Alcan vel og þess vegna sýndu þeir ekki raunsanna mynd af starfsemi álversins, hvað þá af áhrifum þess fyrir Hafnarfjörð að þrefalda hana.

Þess vegna var jólakveðja Alcan, eitt af útspilunum í kosningabaráttunni sem nú er hafin, ekki frá fyrirtækinu sjálfu heldur frá starfsfólki Alcan, fallega glaðlega fólkinu sem sem við sáum myndir af í skemmtilegu störfunum sínum.

"Lýðurinn tendri ljósin hrein!"


mbl.is Alcan sendir geisladisk á hvert heimili í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódrepandi ferðaþjónusta og kílóverð á hval

Það verður að segjast eins og er að ferðaþjónustan á sannarlega framtíðina fyrir sér. Það hefur hún sýnt svo ekki verður um villst. Hún hefur lifað af hágengis- og þenslustefnu undanfarinna missera og hún hefur eflst þrátt fyrir að ríkisstjórnin eyði meira fé í að auglýsa landið sem gósenland álrisa en sem náttúruparadís.

Síðast en ekki síst hefur ferðaþjónustunni tekist að vaxa á hverju ári þrátt fyrir núverandi og fyrrverandi formenn ferðamálaráðs, þá Einar Odd Kristjánsson og Einar K Guðfinnsson. Það er kannski mesta afrekið. Sá sem á slíka vini...

Whole Foods álítur orðspor Íslendinga orðið svo slæmt í umhverfismálum að verslunarkeðjan telur það hvorki sér né íslenskum vörum til framdráttar að auglýsa þær sem íslenskar. Orðin Iceland Naturally eru að verða alþjóðleg öfugmæli, þökk sé vanhugsuðum aðgerðum sjávarútvegsráðherra.

Í síðustu viku voru fréttir af því að íslensk stjórnvöld borga sérstöku ráðgjafafyrirtæki í Bandaríkjunum milljón á mánuði fyrir hagsmunagæslu. Einkum til að vega upp á móti óæskilegum áhrifum af ákvörðunum sjávarútvegsráðherra í hvalveiðum og andstöðu hans við tillögur alþjóðasamfélagsins um tímabundið bann við botnvörpuveiðum á alþjóðlegu hafsvæði utan lögsögu þjóðríkja. Sjálfsagt ekki vanþörf á þeim peningum.

Það er þörf á meiri peningum. Einar Oddur Kristjánsson, taldi sem formaður ferðamálaráðs í nóvember að 300 milljónir þyrfti í aukið fé til markaðsmála til að mæta óæskilegum áhrifum af hvalveiðum Íslendinga á ferðaþjónustuna. Sem varaformaður fjárlaganefndar virðist hann hins vegar ekki hafa sömu áhyggjur því niðurstaða fjárlaga varð ekki aukning á fé til markaðsmála heldur samdráttur. Traustur málsvari ferðaþjónustunnar, Einar Oddur.

Nú er í uppsiglingu herferð umhverfisverndarsamtaka vegna vanhugsaðrar og einstrengingslegrar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um að hefja tilgangslausar hvalveiðar í atvinnuskini. Án alls undirbúnings, án þess að vita hvort markaður væri fyrir afurðirnar og án þess að hafa minnsta samráð við ferðaþjónustuna.

Það verður dýrt kílóverðið á hvalkjötinu þegar upp er staðið. Enn er óvíst að hægt verði að selja kjötið til Japans en eins og kunnugt er taldi Japanski sendiherrann útilokað að Japanir hefðu áhuga á að flytja inn frá Íslandi eitthvað sem meira en nóg væri til af í Japan. Við vitum þó hver verður látin borga reikninginn á endanum - hin ódrepandi ferðaþjónusta!


mbl.is Segir herferð gegn íslenskum vörum í undirbúningi í Bandaríkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð og grjót

1986 fór ég ásamt frænda mínum Hlé Guðjónssyni að taka viðtal við Sveinbjörn Beinteinsson allsherjargoða fyrir skólablað MR. Það var skemmtileg kvöldstund sem við áttum með goðanum í fábreyttum húsakynnum hans uppi á Draghálsi. Viðtalið var langt og miklu lengra en við áttum til segulbandsspólur í en ein af þeim spurningum sem okkur, menntaskólastrákum, datt í hug að spyrja Sveinbjörn var hvort hann tryði á Óðinn, Þór og þá fjölskyldu alla í raun og veru.

Hann útskýrði af þolinmæði að í raun hefðu gömlu goðin öll aðeins verið táknmyndir fyrir ákveðin goðmögn í náttúrunni og lífinu sjálfu. Fyrir gróandann, ástina, skáldskapinn, líf og stríð. Hann bætti við að nútíminn væri á hraðri leið frá náttúrunni og að það væri hætta á að nútímamaðurinn týndi rótum sínum í manngerðu umhverfi sínu. Þess vegna væri þörf á að viðhalda tengslum við gömlu goðin, við náttúruna.

Ein Lesbók Morgunblaðins í fyrra var sérstaklega tileinkuð Ólafi Elíassyni og náttúru Íslands. Þar var margt athyglisvert en eitt það markverðasta var að mínu mati sú skoðun Ólafs að það verðmætasta við öræfi Íslands væri máttur þeirra til að breyta þeim sem um þau ferðast. Svo sterkt orka þau á vitundina að þau geta breytt afstöðu ferðalangsins til lífins, fengið hann til að endurskoða líf sitt og jafnvel gefið honum svör við áleitnum spurningum.

Séra Gunnar á Reynivöllum skrifaði í Morgunblaðið á sömu nótum í grein sinni "Stríð streymir Jökla" og setti hálendisgöngur í samband við eyðimerkurgöngu Krists - sígilt þema í gyðing-kristinni menningarhefð. Reyndar afar viðeigandi dæmisaga á okkar tímum þar sem boðskapur hennar er að ekki er allt falt fyrir peninga.

Á sömu lund töluðu þeir Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og Pétur Gunnarsson, rithöfundur, á sólstöðuhugvekju í Hallgrímskirkju þann 21. desember sl. Fyrr á öldum þegar fólk bjó við þröngan kost í húsum sem nánast voru holur í jörðinni var upplifunin eflaust yfirþyrmandi að sjá musteri guðs, himinháar glæsibyggingar á biskupsstólum í Skálholti og á Hólum. Þær hafa vakið með fólki lotningu fyrir hinu eilífa guðs ríki.

Nú má hvarvetna sjá glæsibyggingar en þær eru reyndar fæstar reistar guði til dýrðar og þær vekja ekki í brjóstum okkar lotningu. Miklu frekar þá tilfinningu að manninum sé allt mögulegt. Drottnunartilfinningu. Spurningin um eilífðina er þó aldrei langt undan og jafnvel yfirverkfræðingur við gerð stærstu mannvirkja hlýtur að velta fyrir sér tilganginum með lífinu þegar hann sér endalok þess nálgast.

Í ágætri barnabók dreymir söguhetjuna Palla að hann er einn í heiminum og getur gert allt sem honum sýnist. Hann uppgötvar þó fljótt að það er lítið gaman að mega allt en hafa engann til að deila því með. Draumurinn breytist í martröð, Palli vaknar skælandi og er huggaður af móður sinni. Maðurinn er bráðum einn í heiminum og getur í raun gert allt sem honum sýnist. Samt er tómleikatilfinningin skammt undan - hver er tilgangurinn með þessu öllu? Til hvers er lifað?

Við höfum þörf fyrir að finna til lotningar og til þeirrar tilfinningar að vera partur af stærra sköpunarverki, hver svo sem skaparinn er og hvort sem hann er til í raun og veru. Þessa tilfinningu er auðvelt að finna á ferð um stórbrotin öræfi landsins, helgidóm hins náttúruskerta nútímamanns. Á mælikvarða þeirra er æfi okkar aðeins sandkorn á strönd eilífðarinnar og þau vekja með okkur áleitnar spurningar um réttmæti þess að gjörbreyta ásýnd náttúrunnar bara af því við getum það og enginn er til að banna okkur það.

Ég held að allsherjargoðinn hafi haft rétt fyrir sér í því að tengslin við náttúruna yrðu okkur æ mikilvægari eftir því sem hinn daglegi heimur okkar verður ónáttúrulegri. Hann taldi ásatrúna mikilvæga við að rækta þau tengsl. Það er e.t.v. ekki fjarri sanni hjá þjóð sem auk þess að trúa á Krist játar trú á álfa og huldfólk og spjallar við framliðna ættingja sína í gegnum miðla - stundum jafnvel í gegnum fjölmiðla.

Séra Gunnar vitnaði einnig í merka rannsókn Þorvarðar Árnasonar náttúrufræðings sem sýnir að náttúran og landslag er mikilvægasta atriðið í þjóðarvitund Íslendinga. Ef við fórnum náttúrunni til að græða í skamman tíma dálítið af peningum sem við nú þegar eigum nóg af, hvaða áhrif mun það hafa á þjóðarvitund og sjálfsmynd Íslendinga? Hver verður þá okkar helgidómur og til hvers höfum við lifað?


Tveir litlir en mikilvægir sigrar

Um daginn fékk ég að sitja einn fund sem varamaður í stjórn Landsvirkjunar. Ég vildi nota tækifærið vel og undirbjó því tillögu um að Landsvirkjun kostaði rannsóknir á verndargildi íslenskra háhitasvæða.

Það er vandræðaleg staðreynd að enn er eftir að ljúka fjölmörgum nauðsynlegum rannsóknum til að hægt sé að meta verndargildi svæða eins og Brennisteinsfjalla, Torfajökulssvæðisins, Grændals og ótal annarra háhitasvæða. Þetta þýðir að við vitum alls ekki hvað ýmis svæði sem orkufyrirtækin sækja fast að fá að bora rannsóknarborholur í eru mikils virði sem náttúruperlur.

Það öfugsnúna í þessu er að það eru einmitt orkuyfirvöld sem eiga að útvega Náttúrverndarstofnun peningana til að klára þessar rannsóknir á verndargildi háhitasvæðana - en peningarnir eru aldrei til. Samt kostar það bara um 140 milljónir að klára rannsóknirnar - álíka mikið og ein tilraunaborhola. Það er hins vegar alltaf til peningur fyrir þeim!

Orkufyrirtækin liggja með réttu undir ámæli fyrir að ásælast þessi svæði í skjóli þess að ekki er búið að rannsaka verndargildi þeirra. Þess vegna lagði ég til að Landsvirkjun útvegaði þá peninga sem upp á vantar til að Náttúruverndarstofnun geti klárað verkefnið og sýndi með því góðan hug sinn til náttúruverndar í landinu. Til rökstuðnings benti ég á að Landsvirkjun hefði kostað opnun Þjóðminjasafnsins.

Tillagan fékk misjafnar undirtektir, jákvæðar frá stjórnarmönnum en heldur dræmar frá einum starfsmanni fyrirtækisins. Eftir nokkrar umræður var niðurstaðan engu að síður sú að tillagan var samþykkt með breytingu. Breytingin var sú að forstjóra var falið að leita eftir samstarfi við yfirvöld með það í huga að Landsvirkjun komi að því að klára grunnrannsóknir á verndargildi háhitasvæða landsins.

Einn lítill en mikilvægur sigur fyrir náttúruvernd. Mikilvægur af því að þarna fékkst viðurkenning stjórnar Landsvirkjunar á ójafnri stöðu náttúruverndar og orkugeirans og af því að nú er hægt að spyrjast fyrir á Alþingi hvernig gangi með framkvæmd tillögunnar.

Annan lítinn sigur en afar mikilvægan vann forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, Gunnar Svavarsson, nýlega. Sem stjórnarmaður í Hitaveitu Suðurnesja lagði hann til að stjórn HS drægi til baka umsókn sína um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Tillagan var samþykkt og nú erum við skrefi nær því að forða Brennisteinsfjöllum frá orkugræðginni.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar sendi frá sér þessa ályktun um málið.

 

Ályktunin - Hlífum Brennisteinsfjöllum

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar fagnar því að Hitaveita Suðurnesja hf. hafi riðið á vaðið með yfirlýsingu um að draga til baka sameiginlega umsókn sína með Orkuveitu Reykjavíkur hf. um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Á þennan hátt hefur Hitaveita Suðurnesja hf. sýnt hófsemd í verkum sínum og forðast að sækjast eftir rannsóknar- og virkjanaleyfum á svæðum sem hafa óumdeilt náttúruverndargildi. Brennisteinsfjöll á Reykjanesskaga eru dæmi um slíkt svæði þar sem enginn efast um náttúruverndargildi þess. Svæðið sem er eina óspillta víðerni höfuðborgarsvæðisins býr yfir miklum jarðfræðiminjum og landslagsfegurð í samspili við menningarminjar. Útivistargildi  Brennisteinfjalla mun einungis aukast í framtíðinni, fræðslu og vísindagildi þess er ótvírætt.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar vill hvetja stjórnir Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar að fylgja fordæmi Hitaveitu Suðurnesja. Með því gætu fyrirtækin sýnt samfélagslega ábyrgð sína í verki. Um leið að sótt verði í framtíðinni eftir rannsóknarleyfum á svæðum sem þegar hefur verið raskað en hinum hlíft. Þannig er sköpuð aukin virkari samræða um rannsóknarkosti hverju sinni.

Ályktunin var samþykkt samhljóða með öllum atkvæðum bæjarfulltrúanna í bæjarstjórn, en Samfylkingin er með sjö bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, Sjálfstæðisflokkur þrjá og Vinstri-Grænir einn.


Litlu tærnar á Stóra bróður

Það er dýrt spaug að mótmæla á Íslandi. Þetta er ekkert ný á dottið, þess má finna mörg dæmi, m.a. í nýútkominni bók Guðna Th. Jóhannessonar, Óvinum ríkisins. Það er titill við hæfi – á Íslandi eru þeir Óvinir ríkisins sem leyfa sér að mótmæla.

Í gær voru 11 ungmenni dæmd í sektir fyrir að mótmæla virkjunarframkvæmdum austur við Kárahnjúka. Sektarupphæð mun hafa verið kr. 50.000 fyrir hvert brot en mér þykir trúlegt að ákæruvaldið muni hafa skipt hverri mótmælaaðgerð í nokkur sundurliðuð afbrot gegn lögregluvaldinu.

Þetta er skemmtileg jólakveðja frá Ríkinu til þeirra ungmenna sem vilja standa vörð um móðurarfinn sinn, náttúru landsins, að vera dæmd í fésektir og jafnvel varðhald fyrir meinlaus mótmæli.  Nú munu eflaust einhverjir segja að þarna hafi mest verið um útlendinga að ræða, krakka sem stunda það að ferðast á milli landa og mótmæla.

Það er rétt að útlendingar voru margir að mótmæla virkjun við Kárahnjúka og þeir eru líka í fullum rétti að gera það.  Það er ekkert einkamál Íslendinga hvernig þeir fara með stærstu óspilltu víðerni Evrópu. Ekki frekar en það er einkamál annarra landa að brenna skóga, einkamál Talibana að sprengja í loft upp þúsunda ára gamlar menningarminjar eða einkamál einstakra landa að leyfa undir þjóðfána sínum rányrkju fiskistofna og eyðileggingu kóralla hafsbotnsins.

Á Íslandi hefur Ríkinu hins vegar iðulega staðið stuggur af útlendingum sem hingað koma til að mótmæla. Skammt er að minnast þegar Falun Gong voru álitnir slíkir óvinir Ríkisins að þeim var smalað eins og fénaði inn í skóla á Suðurnesjum og lokaðir inni þar til hættan á að þeir hefðu uppi friðsamleg mótmæli var liðin hjá. Þá skömmuðust sín margir fyrir að vera Íslendingar.

Það gerðu líka margir ofurvenjulegir Íslendingar sem lögðu leið sína um svæðið norðan Vatnajökuls í sumar og fyrrasumar. Ferðafólk á svæðinu var yfirheyrt af lögreglu og krafið skýringa á ferðum sínum. Þráspurt spurninga sem lögregla í venjulegu ríki á ekkert með að spyrja um. Nema í Ríki Stóra bróður á Íslandi. Í Ríki Stóra bróður sem hlerar frekar en að hlusta. Í Ríki Stóra bróður sem lemur niður mótmæli frekar en að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem þau endurspegla.

Lærdómurinn sem Ríkið ætlar að kenna okkur smælingjunum með úrskurði Héraðsdóms Austurlands er að það er dýrt að stíga á litlu tærnar á Stóra bróður. Haldið ykkur á mottunni! Keep away!

Stefgjöld af Þjórsárverum og Dettifossi

Ég hef í dag fengið góð viðbrögð við umsókn minni um rannsóknarleyfi á verðmætum náttúrusvæðum Íslands. Mest þó tölvupósta, símtöl og sms, fyrir utan fólk á förnum vegi.

Allir sjá í hendi sér að þau verðmæti sem felast í náttúruperlum landsins eru vanmetin og að þær stofnanir sem eiga að sjá um að meta þær - t.d. Náttúruverndarstofnun - eru algerlega fjársveltar.

Allir kveikja líka á því um leið að ef svæðin yrðu vernduð væru ótal möguleikar á að nýta þau til atvinnustarfsemi.

Fólk furðar sig á því að ekki ein einasta króna fer í að kanna möguleika ferðaþjónustunnar á að nýta hina einstæðu náttúru okkar án þess að eyðileggja hana. Hins vegar hefur orkubransinn milljarða árlega í að rannsaka það hvernig hann getur grætt á því að bora í og sökkva sömu náttúru.

Það sem fáir virðast hafa áttað sig á er hve mikils virði náttúra landsins er annars vegar fyrir ímynd landsins t.d. ferðaþjónustu og útflutningsfyrirtæki og hins vegar fyrir sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Og menn reka upp stór augu þegar ég held áfram... 

Ef ég hefði einkarétt á nýtingu þessarar auðlindar gæti ég án vafa rukkað stefgjöld af henni. Þannig yrðu ekki aðeins þeir sem búa til bílaauglýsingar og Bondmyndir að borga stefgjald af t.d. Torfajökulssvæðinu heldur líka stjórnmálamenn þegar þeir tala um fegurð Þjórsárvera, málarar sem vilja mála mynd af Brennisteinsfjöllum, skáld sem vilja yrkja um Dettifoss og almennir borgarar sem taka myndir í gönguferð um Austurdal eða skrifa skemmtilega ferðasögu á blog.is.

En hvað segir þetta okkur? Þarna er velt upp hugmyndinni að borgað verði fyrir verðmæti sem við höfum til þessa talið sjálfsögð og ókeypis. En eru þau það? Ég tel að svo sé ekki. Ekki lengur.

Spurningin er hvort það er rétt sem menn eins og Illugi Gunnarsson hafa sagt, að einkarétturinn sé forsenda þess að vel sé gengið um sameiginlegar auðlindir okkar. Sé það besta leiðin til að bjarga þessum 10 svæðum sem ég nefndi í umsókn minni um rannsóknarleyfi, þá skal ég með ánægju taka að mér að fá einkaleyfi á nýtingu þeirra - með þeim hætti sem samrýmist verndun.


Til umhverfisráðherra - umsókn um rannsóknarleyfi

Samkvæmt lögum um auðlindir í jörðu er hægt að sækja um leyfi til iðnaðarráðherra til rannsókna á hvers konar auðlindum sem vinna má úr jörðu s.s. jarðefnum, orku sem vinna má úr jarðhita og virkjanlegu rennandi vatni. Sá aðili sem fær leyfi til orkurannsókna hefur samkvæmt lögum þessum jafnframt forgöngu um einkarétt á nýtingu auðlindarinnar komi í ljós að nýting hennar sé arðbær.  

Hins vegar virðist sem auðlindalögin líti ekki á náttúruperlur landsins sem auðlind. Þar skýtur skökku við því færa má fyrir því góð rök að á mörgum náttúrufarslega verðmætum svæðum sem jafnframt eru nýtanleg til orkuframleiðslu, sé verndun þeirra og nýting sem samræmist henni besta nýting svæðisins.  

Því sæki ég undirritaður hér með um leyfi til umhverfisráðherra til rannsókna á þeirri auðlind sem felst í núverandi náttúruverðmætum á eftirtöldum svæðum: Í Brennisteinsfjöllum, á Torfajökulssvæðinu, í Grændal, á Ölkelduhálsi, í Kerlingarfjöllum, á vatnasvæði jökulánna í Skagafirði, á vatnasviði Skjálfandafljóts, á Langasjó, á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum og í Þjórsárverum.  

Rannsóknir, ef leyfi fást, munu beinast að þrennu:

1. Verndargildi svæðanna sjálfra, óháð nýtingu þeirra

2. Gildi þess að eiga svæðin með óskertri náttúru sinni fyrir a) ímynd Íslands og b) sjálfsmynd þjóðarinnar

3. Þeim möguleikum sem felast í nýtingu svæðanna samhliða verndun þeirra  

Sum þeirra svæða sem hér er getið eru lítt þekkt á meðal almennings og því er nauðsynlegt að meta einnig gildi þeirra og möguleika til framtíðar. Það á reyndar við um öll svæðin því nauðsynlegt er að varpa ljósi á hvort hér er um vaxandi eða minnkandi verðmæti að ræða í fyrirsjáanlegri framtíð.  Með vísan í jafnræðisreglur og hvernig leyfisveitingum er háttað til orkufyrirtækja fer ég fram á að fá forgöngu um einkarétt á nýtingu ofantaldra svæða með hverjum þeim hætti sem samræmist verndun þeirra.  

Virðingarfyllst, Dofri Hermannsson  

Greinargerð  

1. Verndargildi.

Margar helstu náttúruperlur Íslands eru í uppnámi vegna áforma um virkjanir, lagningu hálendisvega og byggingu hálendishótela sem skorið geta í sundur svæði sem vert væri að vernda sem heild. Því er nauðsynlegt að byrja á að rannsaka verndargildi allra helstu náttúrusvæða Íslands, óháð því hvort þar má finna orku eða hentugt vegastæði. Þegar búið er að rannsaka landið með tilliti til verndargildis og tryggja verndun verðmætra svæða – þá fyrst ætti að leggja drög að framkvæmdum utan verndarsvæða.

Hér er sótt um rannsóknarleyfi með verndun í huga. Þar sem eignarréttur er að margra mati heppilegasta leiðin til að varðveita slík svæði fer undirritaður fram á forgangi um eignarrétt á náttúruverðmætum ofangreindra svæða.

 

2. Ímynd og sjálfsmynd

Ef skoðað er kynningarefni fyrirtækja og stofnana er ljóst að náttúra Íslands er snar þáttur í ímynd margra slíkra aðila. Sama má sjá í ræðum stjórnmálamanna, ritverkum, myndlist og kvikmyndum. Undirritaður vill rannsaka hve stórt hlutverk ofangreind svæði leika í ímynd lands og fyrirtækja og meta hvers virði það er í peningum. Leiði rannsókn i ljós að þar sé um vannýtta auðlind að ræða óskar hann forgangs um einkarétt á nýtingu hennar.

Ýmsir telja að náttúra landsins sé ásamt íslenskunni og bókmenntaarfinum sá þáttur sem mest mótar sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Ættu Íslendingar engan foss, engan jökul, ekkert ósnortið hverasvæði, engin ósnortin öræfi – værum við hinir sömu eða hefði það áhrif á sjálfsmynd okkar? Leiði rannsóknir í ljós að verndun ofangreindra svæða hafi jákvæð áhrif á sjálfsmynd þjóðarinnar þykir undirrituðum eðlilegt að ríkissjóður greiði sanngjarnt gjald fyrir þessi afnot af ofangreindum náttúrusvæðum, enda sjái undirritaður um verndun þeirra.

 

3. Aðrir nýtingarmöguleikar.

Til eru ótal aðferðir við að nýta það sem hin mörgu ólíku svæði hafa upp á að bjóða án þess að raska verðmætri náttúru viðkomandi svæða. Útivist og náttúruskoðun nýtur vaxandi vinsælda og bátsferðir niður jökulár og ísgöngur um jökla landsins eru dæmi um frumlega nýtingu tilkomumikillar náttúru án þess að hún skerðist hið minnsta. Hér telur undirritaður að um vannýtta auðlind sé að ræða og leiði rannsóknir það í ljós óskar undirritaður, með fyrrgreindri vísan í jafnræðisreglur, eftir einkarétti á að nýta ofangreind svæði á þann hátt sem samrýmist náttúruvernd.   

Brennisteinsfjöll eru ein af helstu náttúruperlum landsins, nánast ósnortið háhitasvæði og eldstöð þar sem finna má einstakar gosminjar. Svæðið þykir hafa afar mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustu og sem útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlisins. Í Rammaáætlun lenda Brennisteinsfjöll í umhverfisflokki B en tekið er fram að Brennisteinsfjöll fá næst hæstu einkunn háhitasvæða fyrir landslag. Hitaveita Suðurnesja hefur sótt um rannsóknarleyfi til orkurannsókna í Brennisteinsfjöllum og þrýstir á um svör.  

Torfajökulssvæðið er af mörgum er talið fegursta háhitasvæði landsins en í Rammaáætlun fékk það hæsta einkunn allra háhitasvæða fyrir landslag. Virkjanakostir á Torfajökulssvæðinu fá D í einkunn fyrir umhverfisáhrif. Landsvirkjun hefur sótt um leyfi til orkurannsókna á nokkrum stöðum á Torfajökulssvæðinu.  

Grændalur. Í Rammaáætlun segir orðrétt: "Grændalur fær hæsta einkunn af jarðhitasvæðum í jarðminjum og vatnafari og í vistgerðum og liggur vel við til náttúruskoðunar, t.d. frá heilsudvöl í Hveragerði. Ef varðveita ætti eitthvert jarðhitasvæðanna á Hengilssvæði ósnortið kæmi Grændalur þar einna fyrst til greina." Landsvirkjun ásælast orkuna undir dalnum og rannsakar nú hvernig koma megi nýtingu hennar við.  

Ölkelduháls er eitt fjölbreyttasta hverasvæði landsins og staðsetning þess gerir það afar verðmætt fyrir borgarbúa og ferðaþjónustuaðila. Um svæðið liggur háspennulína eftir hálsinum og þrjár rannsóknarborholur hafa verið boraðar þar án umhverfismats. Væri línan flutt mætti endurheimta mikið af upprunaleika svæðisins og gera það að einni af helstu náttúruperlum landsins. Orkuveita Reykjavíkur leggur núna drög að háhitavirkjun á svæðinu.  

Langisjór. Með Skaftárveitu er fyrirhugað að veita vesturkvísl Skaftár um Langasjó í Tungnaá. Það myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á ásýnd Langasjós sem af mörgum er talið eitt af fegurstu og sérstæðustu náttúrufyrirbærum landsins. Auk fegurðargildis er þarna hægt að fylgjast með nýju vatni í mótun sem hefur mikið náttúrufræðilegt gildi. Landsvirkjun er umhugað að fá heimild til þessarar framkvæmdar en hún myndi mjög auka á hagkvæmni virkjana í Tungnaá og Þjórsá.  

Skjálfandafljót og vatnasvið þess hefur að geyma fjölmörg svæði og náttúrufyrirbæri á náttúruminjaskrá s.s. Goðafoss og Aldeyjarfoss en mörg fleiri mætti nefna. Víða eru vinsælar gönguleiðir meðfram fljótinu en náttúrufegurð þar er við brugðið. Í Skjálfandafljóti hefur verið rætt um tvo virkjunarkosti, Hrafnabjargavirkjun a og b. Þær raðast hvor við sína hlið Grændals í umhverfiseinkunn, sú fyrri fær umhverfiseinunn B en sú síðari einkunnina C.  

Jökulsár Skagafjarðar eru afar verðmæt náttúrusvæði og bjóða upp á marga spennandi möguleika til nýtingar sem samrýmast náttúruvernd. Hægt er að sigla allt frá Laugarfelli norðan Hofsjökuls og til sjávar í Skagafirði en bæði Austari og Vestari jökulsár eru svo vel fallnar til slíkra fljótasiglinga að leitun þykir að jafn spennandi ám í heiminum. Fegurð dalanna er mikil, einkum Austurdals. Landsvirkjun hefur sótt um rannsóknarleyfi vegna virkjunar við Skatastaði og Héraðsvötn ehf. vilja virkja við Villinganes. Báðir kostir myndu spilla mjög náttúru jökulánna.  

Jökulsá á Fjöllum á upptök sín í Vatnajökli og rennur til sjávar í Öxarfjörð. Jökulsárgljúfur eru stærstu og hrikalegustu árgljúfur á Íslandi og Dettifoss er talinn einn voldugasti foss í Evrópu. Dettifoss, Selfoss og Hafragilsfoss mynda einstaka fossaröð í Jökulsá á Fjöllum en gljúfrin og umhverfi þeirra bjóða upp á fjölbreytilega möguleika til útivistar og náttúruskoðunar.  

Kerlingarfjöll eru einstök að fegurð og afar vinsælt útivistarsvæði. Ráðgjafi við heimsminjaskrá UNESCO hefur látið í ljós þá skoðun að fegurð þess landslags sem afmarkast af Kerlingarfjöllum, Hofsjökli og Þjórárverum sé einstök í heiminum. Orkuveita Reykjavíkur hefur sótt um leyfi til orkurannsókna í Kerlingarfjöllum en ljóst er að rannsóknarboranir myndu skerða umtalsvert verndargildi svæðisins.  thjors_1

Þjórsárver eru ein víðáttumesta gróðurvinin á miðhálendinu og geymir mestu varpstöðvar heiðargæsa í heimi. Gróskumiklar og fjölskrúðugar flæðilendur með afar fjölskrúðugu gróðurfari stinga í stúf við harðneskjulegt umhverfið. Landsvirkjun hefur nú horfið frá fyrri áformum sínum um Norðlingaölduveitu í Þjórsárverum en leggur í stað þess á ráðin um minni veitu rétt utan núverandi friðlandsmarka.


Sjávarútvegsráðherrann síkáti

Einari Kr. Guðfinnssyni var svo skemmt í þinginu í liðinni viku yfir útúrsnúningum á ræðu formanns Samfylkingarinnar að hann átti bágt með að hafa stjórn á sér ef marka má orð hans í Blaðinu í gær. Glaðværð sjávarútvegsráðherrans ber að fagna því fátt er ánægjulegra en að sjá fólk gleðjast. Því meira sem tilefnið er minna. ekg

Þó er ekki víst að allir sjái ástæðu til að gleðjast – einmitt vegna sjávarútvegsráðherrans síkáta. Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er t.d. greint frá því að matvörukeðjan Whole Foods hefur ákveðið að hætta að kynna íslenskar vörur vegna afstöðu Íslendinga til hvalveiða í atvinnuskyni. Þetta er einmitt matvörukeðjan sem sérstakur markaðsmaður landbúnaðarráðherra hefur verið að vinna með að markaðssetningu á íslenskum landbúnaðarafurðum undanfarin ár. Nú er sú vinna ónýt vegna ákvarðana sem sjávarútvegsráðherra tók án nokkurs samráðs við hagsmunaaðila. Hvað skyldi miklum peningum hafa verið varið til markaðsátaksins? Hvað ætli töpuð viðskipti séu mikil? Nú hljóta bændur að skella upp úr. Og Guðni. Fyndið!

Nýjasta afrek hins glaðbeitta ráðherra er að ónýta fyrir þingi Sameinuðu þjóðanna samkomulag um tímabundið bann á botnvörpuveiðum á úthafsmiðum utan lögsögu þjóðríkja. Hið tímabundna bann átti að nota til að rannsaka áhrif botnvöruveiða á viðkvæman botngróður s.s. hverastrýtur og kóralla sem eru afar viðkvæm vistkerfi en að sama skapi afar mikilvæg fyrir lífríki hafsins. Samkomulagið hefði á engan hátt skert rétt Íslands til veiða.

Ráðherrann hristist af hlátri yfir þeirri heimsku alþjóðasamfélagsins að banna tímabundið allar botnvörpuveiðar á þessum svæðum. Hann veit að sums staðar eru þær skaðlausar og telur því rétt að fela hverju þjóðríki fyrir sig að hafa eftirlit með sínum skipum. Gallinn við þá afstöðu er að enginn hefur umboð til að fylgjast með því að hentifánaskipin dragi bara botnvörpur þar sem það er óhætt. Einfaldara er að fylgja eftir tímabundnu banni á öllu svæðinu. Hentifánaskip hafa oftlega angrað okkur Íslendinga t.d. með ólöglegum karfaveiðum á Reykjaneshrygg. Ekki minnist ég þess að hafa séð freigátur ríkja á borð við Georgíu eða Líberíu bruna hingað og taka lögbrjótana.

Sjávarútvegsráðherra virðist sannfærður um að hið tímabundna bann hafi verið útsmogið herbragð Grænfriðunga sem er vísu dálítið langsótt þar sem engin frjáls félagasamtök eiga aðild að þessu þingi Sameinuðu þjóðanna. Engu að síður er ráðherrann kampakátur yfir varnarsigri sínum gegn alþjóðasamfélaginu sem vill vernda lífríki sjávarbotnsins og slær sér á lær. Algjör brandari!

Að vísu hefur enginn séð umhverfisráðherra taka undir fyndnina. Efast líka um að utanríkisráðherra hafi skellt upp úr þegar hún las Washington Post um daginn. Eða þeir sem vilja að við fáum sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Eða ferðaþjónustuaðilar sem óttast þau skörð sem hinn glaðlyndi sjávarútvegsráðherra hefur undanfarið höggvið í ímynd Íslands. Húmorslaust lið.


Ölkelduháls

Fyrir nokkru fór hópur frá Samfylkingunni í ferð sem Íslenskir Fjallaleiðsögumenn hafa boðið kjörnum fulltrúum stjórnmálaflokkanna í. Farið var á þremur jeppum upp á Hellisheiði og þar beygt til vinstri inn á Ölkelduháls en tilgangur ferðarinnar var að kynna svæðið og náttúru þess fyrir okkur kjörnum fulltrúum flokkanna.

ÖlkelduhálsÁstæða þess að Fjallaleiðsögumenn ákváðu að bjóða til þessarar ferðar er að Orkuveita Reykjavíkur áformar að virkja á Ölkelduhálsi til að útvega rafmagn til stóriðju, nánar tiltekið til stækkunar álvers í Straumsvík. Svæðið sem Fjallaleiðsögumenn sýndu okkur var einstaklega fjölbreytt og tilkomumikið hverasvæði, líklega eitt það víðfemasta og fjölbreyttasta á landinu. Það var athyglisvert að uppgötva það hvað stutt er í jafn áhugaverð svæði fyrir borgarbúa að skoða og njóta útivistar og sérstæðra náttúrufyrirbæra eins og þessara fjölbreyttu hvera.

Verði af virkjun á Ölkelduhálsi verður það gert á svipaðan hátt og þegar hefur verið gert á Hellisheiði en þó hafa stjórnarmenn OR uppi góð orð um að lært verði af mistökunum sem þar voru gerð. Stefnt verði að því að setja öll rör og línur í jörðu og að hafa stöðvarhús jafnvel neðan jarðar líka. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn hafa áhyggjur af staðsetningu borplana en ýmsar áætlanir sem gerðar hafa verið benda til þess að þau eigi að staðsetja þannig að þau munu stórskaða svæðið sem áhugaverðan útivistar- og náttúruskoðunarstað. Þeir nefndu að þótt helst vildu þeir vera alveg lausir við virkjanir á þessu svæði væri þó eflaust hægt að virkja með mun skárra móti en fyrrnefndar áætlanir gerðu ráð fyrir.

Ferðaþjónustan er tiltölulega ung atvinnugrein og við erum enn að uppgötva fjölmargt nýtt og spennandi við okkar eigið land til að bjóða bæði innlendum og erlendum ferðamönnum að skoða og njóta. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn unnu t.d. sérstök frumkvöðlaverðlaun Icelandair fyrir nýjung sína í ferðaþjónstu, upplifun á ís, sem byggir á blöndu af ýmissi göngu og skoðun á jökli og ís.

Ferðaþjónustan er tilfinnanlega fjársvelt hvað varðar rannsóknarfé, það vantar sárlega rannsóknir á möguleikum ferðaþjónstunnar og þá um leið rannsóknir á verðmætum ýmissa náttúrugersema okkar. Við erum enn að uppgötva ómetanlegar náttúruperlur í þessu landi, náttúruperlur sem við uppgötvum oft ekki fyrr en það er búið að ákveða að granda þeim með óafturkræfum hætti t.d. vegna virkjana, lagningu vega o.s.frv.

Það er athyglisvert að velta því fyrir sér að nú er búið að kosta hundruðum milljóna til rannsókna og undirbúnings á virkjunum á þessu svæði og verið er að gera áætlun áratugi fram í tímann um orkuvinnslu úr ýmsum svæðum á Hengilssvæðinu. Í drögum að tillögu að matsáætlun fyrir Ölkelduhálsvirkjun eru möguleikar orkuframleiðslu metnir áratugi fram í tímann en hagsmunir af ferðaþjónstu eru bara metnir í núinu, sem er ekki stór biti. Með slíkum útreikningum eru flestar náttúruperlur okkar lítils virði við hliðina á stóriðjurafmagnskrónum.

OR gerði á tíma Reykjavíkurlistans samning við Alcan í Straumsvík um að afla orku til stækkunarinnar þar með virkjunum í Hverahlíð og á Ölkelduhálsi. Í þjóðfélaginu á sér hins vegar stað viðhorfsbreyting. Fólki finnst nóg komið af stóriðju, Hafnfirðingar munu að líklega hafna stækkun, enda er þar í raun ekki um stækkun að ræða. Það stendur til að byggja annað álver, helmingi stærra en við nú þekkjum, hinu megin við veginn. Aðkoma bæjarins, t.d. fyrir nánast alla útlendinga sem hingað koma, væri þá ekki bara framhjá álveri heldur hreinlega í gegnum "Aluminium Park" - upphafið að dvöl þeirra í hinni ósnortnu perlu norðursins.

Það er þess vegna ekki sjálfgefið að það verði virkjað á Ölkelduhálsi. Alla vega ekki þannig að það skerði náttúruperlur þær sem svæðið hefur að geyma og ferðaþjónustuaðilar s.s. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn og Eldhestar hafa verið að byggja starfsemi sína á.

Það er líka undarlegt að það þurfi að rjúka til og virkja meira en orðið er núna fyrir stóriðju. Við vitum vel að við sitjum á miklum orkulindum en af hverju högum við okkur eins og þær séu á síðasta söludegi? Menn segja að handan við hornið sé djúpborunartækni sem geti tífaldað orku hvers svæðis. Nanótækni sem einnig gæti verið 10-20 ár inni í framtíðinni gæti tífaldað orkunýtinguna. Við gætum með öðrum orðum verið að fá 100 sinnum meiri orku út úr hverju svæði en við erum að gera núna. Hvað liggur okkur þá á? Af hverju teljum við nauðsynlegt að rjúka til og nýta þetta allt núna? Áður en við náum tökum á þeirri tækni sem gerir okkur kleyft að virkja orkuna án þess að glata náttúrunni á yfirborði orkulindanna? Hvað liggur á?

Tillögur Samfylkingarinnar, Fagra Ísland, gera ráð fyrir að nú verði staldrað við í frekari stóriðjuframkvæmdum og sett á fullt vinna við "Rammaáætlun um náttúruvernd". Ég held að við eigum sögulegt tækifæri til að vinna þá vinnu núna á næstu misserum. Það þarf að kæla hagkerfið og á meðan getum við nýtt tímann vel og náð utan um þennan málaflokk í heild.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband