21.1.2007 | 23:59
Heyrði þessa í strætó
Hún mun einmitt vera um uppröðun Sjálfstæðismanna á lista í Suðurkjördæmi.
Síst hafa Sjallar talið
að sér muni illa ganga.
Þeir hafa vandað valið
og víða leitað fanga.
![]() |
Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi samþykktur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.1.2007 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2007 | 17:11
Sammála Samfylkingunni
Guðmundur Ólafsson tekur eindregið undir með Ingibjörgu Sólrúnu og Samfylkingunni um vaxtaokrið í landinu og erfiðleika okkar með krónuna sem gjaldmiðil. Í Silfri Egils í dag sýndi hann með skýrum hætti að bankarnir hafa um langt árabil okrað á landsmönnum. Hann benti líka á að það væri gríðarlega erfitt fyrir bæði fólk og fyrirtæki í landinu að nota íslensku krónuna sem gjaldmiðil.
Gjaldmiðill þarf að geta geymt verðmæti, t.d. sparnað til efri ára. Það gerir krónan alls ekki, ekki nema með flóknum verðbótaútreikningum. Það sama er uppi á teningnum þegar tekin eru lán - gjaldmiðillinn er í eðli sínu svo óstöðugur að hann það þarf að tryggja hann í bak og fyrir með verðtryggingu. Hún virkar þannig að það er sama hvað krónan hoppar og skoppar og verðbólgan er há - verðtryggingin sér til þess að skuldarinn tekur alla áhættuna á sig.
Í þriðja lagi benti Guðmundur á þá hindrun sem íslenska krónan er í samskiptum íslenskra fyrirtækja við erlenda aðila. Áhugi þeirra dvínar til muna þegar þeir sjá flækjustigið á uppgjörum fyrirtækjanna þar sem útreikningar á verðbótum og verðbólgu eru svo flóknir að enginn botnar neitt í neinu. Það er svona eins og að reyna að gera hæðarmælingu í haugasjó og eðlilega hætta hinir tilvonandi erlendu aðilar snarlega við.
Það er undarlegt að það þurfi allt að fara á annan endann bara við það að Ingibjörg Sólrún skuli tala um þá staðreynd að krónan dugar okkur alls ekki lengur sem gjaldmiðill. Ég verð að viðurkenna að þetta finnst mér líka. Núna þegar öll viðskipti eru að verða alþjóðlegri - af hverju ættum við þá að ríghalda í þennan óstöðuga gjaldmiðil sem með verðbólgu og verðtryggingu er að sliga heimilin og smærri fyrirtæki í landinu. Íhaldsflokkarnir tveir finnst mér að ættu að gera grein fyrir því hvernig þeir sjá framtíðina fyrir sér í hnattvæddum heimi og með krónuna sem gjaldmiðil Íslendinga.
Ingibjörg Sólrún hefur sagt að hætta þurfi þeirri stóriðjustefnu sem hér hefur verið rekin og sér ekki fyrir endann á. Hún hefur sagt að bæði af umhverfisástæðum og einnig af efnahagslegum ástæðum verði að snúa af þessari stóriðjubraut. Það eigi að nota tækifærið og gera Rammaáætlun um náttúruvernd, kortleggja verðmæt náttúrusvæði og tryggja verndun þeirra.
Bjarni Ármannsson, bankastjóri tók í fréttum á Rúv í dag undir orð Ingibjargar hvað stóriðjuna varðar en hann telur að áframhaldandi stóriðja sé mjög varasöm við núverandi efnahagsaðstæður. Það er ljóst að ef halda á áfram á stóriðjubrautinni þarf að halda niðri öðrum atvinnugreinum næstu árin. Sem sagt - hendum út um gluggann allri hátækni og fjársveltum ferðaþjónustu áfram eins og hægt er.
Það verða samt ekki einu fórnirnar. Það verður engin leið að ráðast í átak í samgöngumálum. Því hafa stjórnarflokkarnir lofað á hverju kosningaári og svikið jafnoft.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2007 | 16:48
Upplýsingaráðherra með fortíð
Valgerður Sverrisdóttir er virkilega að slá í gegn í starfi Utanríkisráðherra eftir brösuga byrjun. Hún fékk ekki að vera með í viðræðum um varnarsamning við Bandaríkin þótt það ætti að sjálfsögðu að vera eitt allra stærsta mál hvers utanríkisráðherra. Hún sagðist líka frekar vilja að Geir kláraði það, hún treysti honum betur. Ekki veit ég af hverju - kannski taldi hún hann betri í útlensku.
En Valgerður er að meika það í litlu málunum. Hún afvopnaði friðargæsluliðið, sendi jeppagengið heim og ljósmæður út í staðinn. Það var frábært framtak sem hefur komið manni skemmtilega á óvart. Það læðist að manni sá grunur að á meðan hún væri að fóta sig í nýju starfi hafi hún einfaldlega ákveðið að reiða sig á gott starfsfólk innan Utanríkisráðuneytisins. Starfsfólk sem e.t.v. hefur lengi verið að reyna að koma að ýmsum góðum hugmyndum sem fyrri ráðherrar hafa talið sig of merkilega til að skoða. Ef svo er þá er það bara mjög skynsamlegt af henni.
Núna er hún hins vegar aðeins að missa sig þegar hún er farin að kynna sjálfa sig sem uppljóstrara hinna dökku leyndarmála varnarmála. Það er svo sem gott að upplýsa um 50 ára gömul leyndarmál en þegar maður er um leið að búa til ný ("varnarsamningur" Geirs og Gondolessu) og hefur auk þess vafasama fortíð í þessu efni er nú tæpast verjandi að berja sér á brjóst.
Eins og fleiri hafa bent á er orkuverð til stóriðju enn eitt svartasta leyndarmál stjórnvalda. Eitt leyndarmál er þó verri og svartari blettur á ferli ráðherrans. Það er sú staðreynd að hún stakk undir stól greinargerð Gríms Björnssonar jarðeðlisfræðings þegar heimildarlög um Kárahnjúkavirkjun voru til umræðu. Athugasemdirnar sem Grímur ætlaðist til að Alþingi sæi áður en greidd yrðu atkvæði um málið voru þaggaðar niður.
Hún hefur reyndar haldið tvennu fram um þetta mál A) að hún hafi ekki talið innihald greinargerðarinnar þess eðlis að Alþingi þyrfti að fá upplýsingar um hana og B) að hún hafi alls ekki lesið hana fyrr en löngu seinna. Hvort sem önnur hvor skýringin eða hvorug er rétt ber ráðherrann tvímælalausa ábyrgð á því að þessar upplýsingar skiluðu sér ekki til Alþingis.
Vitað er að embættismaður í iðnaðarráðuneytinu tók við upplýsingum um erindi Gríms og þar með var málið formlega á ábyrgð ráðherrans. Sú ábyrgð er grafalvarlegt mál sem Valgerður reyndi að víkja sér undan sl. sumar og haust með því að varpa ábyrgðinni á starfsmenn ráðuneytisins. Ekki sérlega glæsilegt. Þaðan af síður trúlegt.
Það þarf enginn að segja manni að embættismaður gleymi að segja Valgerði frá alvarlegum athugasemdum eins virtasta jarðeðlisfræðings landsins um draumaframkvæmd hennar. Einmitt á þeim tíma þegar öll spjót stóðu á Valgerði vegna málsins, harðar deilur um framkvæmdina, Norsk Hydro hætt við að reisa álver og ekkert sem knúði á um málið. Ekkert nema að það voru kosningar framundan og framkvæmdirnar einmitt í hennar kjördæmi.
Líklega hentar Utanríkisráðuneytið Valgerði betur, nú er hún bara að veita neyðaraðstoð þar sem enginn gæti kosið hana þótt hann vildi. Hún getur þess vegna bara slakað á og fylgt góðum ráðum starfsmanna utanríkisráðuneytisins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2007 | 21:43
Hin þögla bylting Karíusar og Baktusar
Eitt af því sem þarf svo sannarlega að laga er endurgreiðsla á tannverndarkostnaði. Eins og staðan er í dag þá segist Tryggingarstofnun Ríkisins endurgreiða 75% af kostnaði við tannheilsuvernd barna. Það er plat.
Tryggingastofnun hefur ekki í mörg ár verið með taxta í samræmi við þá taxta sem tíðkast á meðal tannlækna. Mér sýnist á lauslegum samanburði úr heimilisbókhaldinu að taxtar Tryggingastofnunar séu tæplega 70% af eðlilegum töxtum tannlækna. Þessi 75% sem Tryggingastofnun þykist endurgreiða eru sem sagt um 50% endurgreiðsla þegar upp er staðið. En það er reyndar líka plat.
Skorufyllingar í tennur ungmenna eru mikilvægar forvarnaraðgerðir. Í fyrra þurfti að laga skorufyllingu í tönn hjá dóttur minni, það fékkst ekki endurgreitt af því það voru ekki liðin þrjú ár frá því skorufyllingin var sett í. Hefðum við hins vegar sleppt því að láta laga fyllinguna og tönnin skemmst í framhaldinu þá hefði Tryggingastofnun með glöðu geði endurgreitt 75% (lesist 50%) af þeim kostnaði.
Tannlæknar ráðleggja að komið sé með börn í tanneftirlit tvisvar á ári. Tennur eru fljótar að skemmast og því fyrr sem þess verður vart því minni er skaðinn. Auk þess er þá tækifærið notað til að hreinsa tennurnar vel og bera á þær flúor til að styrkja glerunginn. Þetta finnst Tryggingastofnun tómt bruðl og endurgreiðir aðeins helming af einni heimsókn barnanna til tannsa á ári hverju.
Ef barnið fær hins vegar skemmd í tennur, t.d. af því ekki var farið tvisvar á ári í skoðun, er ljóst að kostnaðurinn við að deyfa, bora og setja fyllingar í tennur barnsins er miklu meiri - og tönnin er ekki lengur heil. Þennan háa og óþarfa aukakostnað er Tryggingastofnun hins vegar alveg til í að endurgreiða. Að vísu ekki um 75% eins og sagt er - en u.þ.b. helming.
Eðlilega getur kostnaður við tannheilsuvernd barna eins og hér er lýst að ofan vaxið mörgum foreldrum í augum. Ég get strax látið mér detta í hug tæplega 4.000 íslensk börn sem þannig er án vafa ástatt um. Held reyndar að þau geti verið miklu fleiri.
Tannverndarkerfi Tryggingastofnunar er eins og margt annað í okkar stagbætta, úr sér gengna velferðarkerfi, sérhannað til að tryggja verri tannheilsu og meiri eyðslu á skattfé ríkisborgaranna. Það er engu líkara en að Karíus og Baktus hafi tekið völdin í Tryggingastofnun. Aumingja Jens.
Þessu þarf að breyta. Þessu þarf ný ríkisstjórn að breyta.
14.1.2007 | 15:00
Sjálfstæðisflokkurinn á móti íbúalýðræði
Árni Sigfússon vill ekki kosningu um álver í Helguvík. Hann telur að skoðanakannanir sýni svo afdráttarlausan stuðning við álverið að það þurfi ekki að kjósa. Nýstofnuð samtök gegn álveri, Sól á Suðurnesjum, benda hins vegar á að mjög lítil umræða um kosti og galla framkvæmdanna hafi farið fram. Það er auðvitað alveg rétt. Samtökin vilja opna og upplýsta umræðu um allar hliðar málsins og kosningu um málið að lokinni þeirri umræðu.
Morgunblaðið tekur með óvenju afgerandi hætti undir þetta sjónarmið í leiðara blaðsins í dag. Leiðarahöfundur tekur skýrt fram að með því sé ekki verið að taka afstöðu með eða á móti álverinu - það er hins vegar verið að taka afgerandi afstöðu með íbúalýðræði. Bent er á að íbúar hafi nú til dags allan sama aðgang að upplýsingum og kjörnir fulltrúar og það sé góð leið til að skapa sátt um stór og umdeild mál að leyfa íbúum að eiga þar síðasta orðið.
Það vekur furðu að Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ skuli taka svo einarða afstöðu gegn íbúalýðræðinu. Af orðum Árna Sigfússonar má ráða að hann vilji fá að halda áfram að leika lausnara bæjarfélagsins. Riddarann á hvíta hestinum sem útvegar fólki "örugg og vel launuð störf" þegar herinn er farinn.
Það virðist fara í taugarnar á Árna að þeir 700 sem misstu vinnu hjá hernum eru allir komnir með vinnu nokkrum mánuðum síðar. Hann lætur í veðri vaka að þetta séu mörg hver ótryggari og verr launuð störf en hann nefnir enga úttekt á því, þetta er bara eitthvað sem hann slengir fram. Mér finnst ekki ólíklegt að mörg þeirra séu betur launuð og hvað öryggi varðar þá er ekki gott að vita hverju á að trúa. Alcan í Straumsvík segist verða að hætta rekstri ef þeir fá ekki að stækka. Er það þá örugg vinna að vinna í litlu álveri í Helguvík?
Það er eins og álver í Helguvík hafi átt að vera kosningatromp sjálfstæðismanna á Reykjanesi. Bjargræði riddarans á hvíta hestinum sem kemur og frelsar óbreyttan lýðinn frá ráðleysi sínu og vesældómi. Skiljanlega finnst þeim alveg ótækt að þessi lýður fái upplýsta umræðu um málið og fái að henni lokinni að kjósa um málið.
![]() |
Ekki kosið á Suðurnesjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.1.2007 | 03:12
Á móti Sól
Vinstri grænir eiga heiður skilinn fyrir það hvernig þeir hafa staðið á móti ýmsum virkjanaframkvæmdum undanfarin ár. Oft hefur Samfylkingin staðið þeim við hlið, t.d. í andstöðunni við Norðlingaölduveitu. Stundum hefur Samfylkingin þó viljað fara nýjar leiðir, reyna að nálgast grænu málin á nýjan hátt svo það þurfi ekki sífellt að stilla sér upp á nýjum og nýjum stað til að vera á móti.
Fagra Ísland eru tillögur Samfylkingarinnar að lausn endalausrar deilu um náttúruvernd og virkjanir. Þar tilgreinir Samfylkingin 9 svæði sem hún vill vernda og leggur auk þess til aðferðafræði til að takast á við spurningar um verndun annarra svæða. Hugmyndin er einföld, Rammaáætlun um náttúruvernd þar sem byrjað er á að rannsaka öll verðmæt náttúrusvæði landsins með tilliti til verndargildis, verndun verðmætra svæða tryggð og sú niðurstaða lögð til grundvallar landsskipulagi. Þannig mætti tryggja að mannvirki, hvort heldur eru uppbyggðir vegir, hálendishótel eða aðrar framkvæmdir lendi utan verðmætra náttúrusvæða.
Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur stjórnmálaflokkur setur fram heildstæða áætlun um það hvernig á að ná utan um verkefnið - að skapa ramma og sátt um náttúruvernd á Íslandi. Margir hefðu talið að Vinstri grænir myndu fagna slíkum tímamótatillögum frá næst stærsta flokki landsins. Fagna því að fá jafn öflugan liðsstyrk í baráttunni fyrir náttúruvernd. Það er hins vegar ekki að sjá - þvert á móti.
Fagra Ísland eru tillögur um það hvernig má vinna í framtíðinni en breytir ekki því sem gert hefur verið í fortíðinni. T.d. ekki því að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er búin að gefa Alcan í Straumsvík starfsleyfi, að búið er að samþykkja umhverfismat fyrir virkjunum í neðri Þjórsá og að í raun er allt komið sem Alcan þarf til stækkunar nema samþykki Hafnarfjarðarbæjar á deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir stækkun. Einhverra hluta vegna virðast sumir Vinstri grænir sífellt gleyma þessu og telja að Hafnfirðingar ráði öllu um stækkun álvers í Straumsvík. Því eru þeir að sjálfsögðu á móti.
Undanfarið hafa nokkrir úr forystuliði Vinstri grænna af torskiljanlegum ástæðum deilt á Samfylkinguna í umhverfismálum fyrir það að efna loforð sitt til Hafnfirðinga um íbúakosningar í stórum málum. Margir hefðu haldið að forystufólk VG væri betur upplýst um staðreyndir í svo stóru umhverfismáli en ætla mætti af skrifum þeirra. Hér má sérstaklega nefna skrif tveggja vonarstjarna VG, Gests Svavarssonar í Mogganum fyrir skemmstu og blogg Guðfríðar Lilju auk greinar hins að því er ég taldi, fróða manns, Hjörleifs Guttormssonar í Mogga í gær. Öll virðast þau telja íbúakosningar Hafnfirðinga vera útsmogið bragð Samfylkingarinnar til að auka á stóriðjuna. Þau eru þess vegna á móti kosningunum.
Það eru íbúar í Hafnarfirði hins vegar ekki. Um 90% þeirra eru mjög ánægðir með að fá að kjósa um þetta mikilvæga mál. Þetta kann að virðast skrýtið í fyrstu en þegar maður rifjar upp hvert fylgi VG var í síðustu kosningum gengur dæmið reyndar upp.
Nýstofnuð samtök sem berjast málefnalega gegn stækkun álversins, Sól í Straumi, hafa einnig lýst yfir ánægju með það að fá að kjósa. VG virðist því líka vera á móti Sól - í Straumi.
Að þessum samtökum eiga aðild einstaklingar úr öllum flokkum eins og vera ber í þverpólitískum málum. Í stjórn samtakanna er m.a. Gestur Svavarsson frambjóðandi VG í Suðvesturkjördæmi. Sú spurning vaknar óneitanlega þegar skrifin safnast saman hvort VG hefur tekið um það strategíska ákvörðun að eigna sér baráttuna gegn stækkun álvers í Straumsvík til að bæta stöðu sína í kosningum í vor. Hvort VG hefur e.t.v. líka í sama skyni tekið strategíska ákvörðun um að tala niður tillögur Samfylkingarinnar um Fagra Ísland. Að vera á móti þeim í stað þess að fagna þeim.
Það væri auðvitað afar ómálefnalegt svo þetta er nánast óhugsandi. Það væri svona eins og að setja sjálfan sig ofar en það sem maður berst fyrir. Eins og að vilja frekar kljúfa sig frá með "sitt eigið" en að ná breiðri samstöðu um málefnin og árangri í samræmi við það. Svona eins og að vilja helst ekki að neinn sé sammála manni. Svona eins og að vilja vera "the only gay in the village".
Svona vil ég ekki hugsa um kaffivini mína - ég er alveg á móti því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.1.2007 | 12:55
Vertu ekki að plata mig
Jæja, þá er gríman fallin. Úr því ekki gengur að múta Hafnfirðingum þá dugar ekki annað en að hóta þeim.
Einhvern veginn finnst manni það nú bara heiðarlegast af þeim. Svona meira í stíl við karakter fyrirtækis sem rekur fyrirvaralaust fullorðna starfsmenn eftir áratuga þjónustu. Fer þeim betur en gjafir og blíðmælgi.
Skoðum aðeins hvað stendur á bak við hótun Alcan.
4. mars í fyrra sagði Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Alcan í fréttum á Rúv: "Ja eins og aðrir sem að stunda mjög tæknilegan rekstur að þá þurfum við auðvitað stöðugt að vinna að endurbótum á okkar verksmiðju. Og í sjálfu sér tæki það fyrirtækið ekki langan tíma að verða úrelt ef að slík vinna væri lögð til hliðar, hugsanlega í áratug eða svo. Við erum ekkert frábrugðin öðrum nútímalegum fyrirtækjum hvað það varðar."
Hér fyrir ofan er Hrannar Pétursson að tala um að EF öll tækniþróun yrði lögð niður þá myndi fyrirtækið úreldast á 10-15 árum. Í Fréttablaðinu í dag segir hann: "Það getur vel farið svo að álverinu verði lokað ef það verður ekki stækkað. Við viljum tryggja samkeppnishæfni þess til lengri tíma á alþjóðlegum markaði, þannig að álverið geti verið hér í að minnsta kosti 40 ár í viðbót."
Auðvitað verða fyrirtæki óhagkvæm sem ekki fylgja tækniþróuninni eftir. En treystir Alcan sér til að segja afdráttarlaust að stækkun sé algjör forsenda þess að það sé hægt? Treystir Alcan sér til að segja að það sé þýðingarlaust að stunda eðlilega tækniþróun nema fyrirtækið fái leyfi til að tæpleg þrefalda sig að stærð?
Það væri gaman að fá svar frá Hrannari Péturssyni um það.
EF það er niðurstaðan þá geta Hafnfirðingar velt þessu fyrir sér: Hvort vil ég heldur hafa álverið í Straumsvík eins og það er núna í 10-15 ár í viðbót og halda áfram með þróun bæjarlandsins eða hafa þrisvar sinnum stærra álver í bakgarði bæjarins í "að minnsta kosti" 40 ár í viðbót? Til 2047?
Ég held að það þurfi ekki að taka hótanir Alcan of hátíðlega, þetta er bara næsta ráð í bókinni til að fá fram JÁ við stækkun með góðu eða illu.
"Vertu ekki að plata mig, þú ert bara að nota mig" svo vitnað sé í klassíkina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.1.2007 | 22:01
Sendu nú Gullvagninn.....
Þær eru orðnar dýrar uppsagnirnar hjá Alcan
Stutt er síðan Alcan rak fyrirvaralaust 3 starfsmenn sem höfðu starfað hjá álverinu í Straumsvík í þrjá áratugi. Þessir starfsmenn munu hafa staðið fremstir í baráttunni við að keyra upp skálann sem datt út í vor og sparað fyrirtækinu með því hundruð milljóna króna.
Starfsmennirnir sem eru um sextugt og hafa unnið í álverinu helming ævinnar höfðu það eitt til saka unnið að vera að öðlast rétt til flýttra starfsloka sem hefði kostað fyrirtækið um 1,5 milljónir á ári í 3 ár. Áunninn réttur eftir áratuga langa þjónustu við fyrirtækið - réttur sem var settur inn sem gulrót til að tryggja að mennirnir verðu öllum sínum bestu árum hjá fyrirtækinu.
Þessir 3 starfsmenn eru ekki sérstök tilfelli - Alcan hefur á núverandi kjarasamningstíma sagt upp 9 starfsmönnum í þessari stöðu.
Blaðafulltrúa Alcan þótti hins vegar ekki nógu illa farið með mennina að reka þá án skýringa eftir ævistarfið heldur fór hann í fjölmiðla og lét í veðri vaka að fyrirtækið vissi ýmislegt misjanft um þessa menn. Af því að fyrirtækið væri svo siðprútt vildi hann hins vegar ekki segja hvað það væri sem mennirnir höfðu gerst sekir um. Þetta er ekki bara rógburður af verstu sort heldur líka alveg einstök hræsni.
ASÍ undirbýr málsókn á hendur Alcan þar sem þess er krafist að fyrirtækið leggi fram sannanir fyrir þeim ávirðingum sem það telur sig hafa á starfsmennina, að fyrirtækið standi við loforð sín um réttindi starfsmannanna og sýni samfélagslega ábyrgð gangvart fullorðnum starfsmönnum sínum. Starfsmennirnir hafa sent frá sér yfirlýsingu um að þeir hafi aldrei fengið neinar athugasemdir við störf sín hvorki munnleg eða skrifleg.
Þessar uppsagnir hafa nú þegar kostað Alcan stórfé. Það sést glöggt á því hvað þeir telja nauðsynlegt að setja marga tugi milljóna til að kaupa sig upp í áliti í bænum. Það verður hins vegar erfitt. Svona framkoma gagnvart þeim sem hafa gefið fyrirtækinu sín bestu ár er eitthvað sem fólk á erfitt með að fyrirgefa.
Fólk gleymir því ekki þótt fyrirtækið ausi peningum í samfélagssjóð, reyni að kaupa sér velvild íþróttafélaganna, veiti bjartsýnisverðlaun, kaupi flugeldasýningu Björgunarsveitarinnar, gefi öllum heimilum (líka þessum 9) geisladisk og dagatal með áláferð eða kaupi Óperukór Hafnarfjarðar og starfsmenn til að vera andlit sitt út á við í óvenju falskri og misheppnaðri ímyndarauglýsingu. Það er einfaldlega skrambi dýrt fyrir fyrirtæki eins og Alcan að sýna sitt rétta andlit. Ég er alls ekki viss um að fyrirtækið hafi efni á því - þótt ríkt sé!
Nánari upplýsingar um stöðu deilunnar má finna á heimasíðu Rafiðnaðarsambandsins
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.1.2007 kl. 07:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.1.2007 | 14:56
Framtíðarsýn
Íslensk stjórnvöld skortir tilfinnanlega framtíðarsýn fyrir hönd lands og þjóðar. Hrein óspillt náttúra, barnvænt samfélag þar sem jöfnuður ríkir og tækifæri til menntunar eru fyrsta flokks eru jákvæðustu þættir í ímynd Íslands.
Ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hafa markvisst veikt þessa styrkleika Íslands með auknum ófjöfnuði, stóriðjuhernaði gegn landinu og óbilgirni sjávarútvegsráðherra á alþjóðavettvangi. Það mun verða okkur dýrt ef við snúum ekki við blaðinu.
Með heimsvæðingunni eru mörk þjóðríkja að verða óskýr en svarið við henni er Nýja svæðastefnan (New Regionalism) sem er tilhneiging svæða heims til að nýta sér sameiginlega styrkleika sína. Norræn velferð er dæmi um þessa þróun en í umræðu um efnahagsmál í heiminum hefur sérfræðingum orðið tíðrætt um norræna velferðarkerfið og mikilvægi þess fyrir gott efnahagslíf - öfugt við það sem margir hægrimenn hafa boðað.
Við búum í heimi þar sem alþjóðleg stórfyrirtæki geta á einum fundi ákveðið að breyta um heimilisfesti og borga skatta sína og gjöld annað. Á Íslandi höfum við boðið upp á hagstæð gjöld en samkeppnin um lág gjöld er að harðna.
Við búum líka í heimi þar sem hrein og óspillt náttúra verður æ sjaldgæfari. Sú þjóð sem er þekkt fyrir slík verðmæti og að standa vörð um þau hefur ímynd sem er eftirsóknarvert fyrir alþjóðleg fyrirtæki að tengjast.
Náum við Íslendingar að halda og byggja enn frekar upp slíka ímynd verður það mun áhrifaríkari leið til að halda í alþjóðleg stórfyrirtæki en lágir skattar. Náum við einnig að endurreisa samfélag sem leggur áherslu á jöfnuð, menntun og aðbúnað barna eins og best gerist í heiminum verður Ísland einn af ákjósanlegustu stöðum heims fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki að bjóða starfsfólki sínu að búa á.
Í áramótaávarpi Forseta Íslands kom fram stórhuga framtíðarsýn um hlutverk Íslands í því risastóra verkefni að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Nú þegar þjóðir heims eru loksins að vakna til vitundar um vandann er hér stórt tækifæri fyrir litla þjóð.
Loftlagsbreytingar eru stærsta ógn við öryggi í heiminum sem við höfum staðið frammi fyrir um langt skeið. Breytingarnar munu hafa í för með sér hamfarir og uppskerubresti sem munu kynda undir átökum og stökkva heilum þjóðum á flótta. Ríkisstjórn sem vill sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna ætti að hugleiða það.
Ríkisstjórn með framtíðarsýn hefði notað tækifærið sem fólst í samningum við bandaríkjamenn til að koma hér á fót alþjóðlegri rannsóknarmiðstöð í loftslagsmálum, líkt og Forseti Íslands gerði að umtalsefni í áramótaávarpi sínu. Slíkt framtak hefði sýnt fram á erindi slíkrar þjóðar í Öryggisráðið.
Við þurfum ríkisstjórn með framtíðarsýn. Ríkisstjórn sem sér að hrein óspillt náttúra, jöfnuður og menntun í fremstu röð eru þau gildi og þeir styrkleikar sem Ísland ætti að byggja framtíð sína á.
![]() |
Forseti Íslands segir mikilvægt að stytta langan vinnudag og bæta aðstöðu foreldra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.12.2006 | 22:55
Glapræði Geirs
Geir H Haarde útilokar ekki að önnur eins stórvirkjun og Kárahnjúkavirkjun rísi á Íslandi. Það eru nokkur tíðindi því eini möguleikinn á annarri eins virkjun er að virkja Jökulsá á Fjöllum. Var ekki meiningin að hún yrði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði? Má ráða af orðum forsætisráðherra að það sé engan veginn fast í hendi?
Forsætisráðherra segir að við verðum að draga lærdóm af því hvernig til tókst og jafnframt að það væri glapræði að segja skilið við þá stefnu að nýta orkulindir þjóðarinnar. Ef forsætisráðherra væri unnt að draga lærdóm af Kárahnjúkavirkjun þá myndi hann ekki tala af jafn fullkomnu skeytingar- og skilningsleysi um afleiðingar stóriðjustefnunnar og hann gerir. Öllum sem fylgst hafa með framkvæmd þeirrar stefnu undanfarin ár er ljóst að Kárahnjúkavirkjun er eitt stórt glapræði frá upphafi til enda.
Virkjunin var keyrð í gegn á ofurhraða, gegn úrskurði Skipulagsstofnunar sem taldi óafturkræf umhverfisáhrif of mikil og hraðann á framkvæmdinni of mikinn. Greinargerð vísindamanns sem varaði við hættum tengdum virkjuninni var stungið undir stól og honum bannað að tjá sig. Greinargerðinni sem var sérstaklega ætluð Alþingi var með ólögmætum hætti haldið leyndri þangað til Alþingi hafði gefið samþykki fyrir virkjuninni. Hér er fátt eitt upp talið.
Þjösnaskapur og yfirgangur stjórnvalda hafa frá upphafi til enda einkennt framkomu stjórnvalda. Ríkisstjórnin hélt úti sérstökum vef þar sem andstæðingar virkjunarinnar máttu þola ósvífnar órökstuddar persónulegar árásir. Allt var á sömu bókina lært frá upphafi til enda en flestum ætti að vera í fersku minni framkoma lögreglunnar gagnvart mótmælendum og sárasaklausu ofurvenjulegu ferðafólki á slóðum Snæfells síðastliðið sumar.
Það sem Geir H Haarde þyrfti að læra af Kárahnjúkavirkjun er að aldrei aftur má fara fram af slíkum hroka og valdfirringu og ríkisstjórnin hefur gert undanfarin ár. Ekkert bendir þó til að forsætisráðherra hafi lært slíka lexíu. Næsta ofbeldisverk stóriðjuaflanna er skammt undan brátt verða eignarlönd og heimili bænda við Þjórsá tekin eignarnámi til að búa til álbræðslurafmagn í Hafnarfirði. Geir mun vísast telja glapræði að gera það ekki. Hann hefur ekkert lært.
Það er glapræði að halda áfram á þessari braut. Nú þarf að kortleggja náttúru Íslands með tilliti til verndargildis og tryggja verndun verðmætra svæða, þeirra verðmætustu með lögum. Þetta hefur Samfylkingin lagt til í Fagra Íslandi - stefnu sinni og tillögum í náttúru- og umhverfisvernd. Þar er lagt til að strax verði ráðist í Rammaáætlun um náttúruvernd og niðurstaða þeirrar heildarmyndar verði lögð til grundvallar í heildarskipulagi landsins.
Á næstu árum þarf að kæla niður ofhitnað hagkerfið. Það er því einstakt tækifæri til að ráðast í Rammaáætlun um náttúruvernd strax á næsta kjörtímabili. Við kynningu á Fagra Íslandi sagði Ingibjörg Sólrún, formaður Samfylkingarinnar, að Fagra Ísland yrði eitt af grundvallarmálunum í stjórnarmyndunarviðræðum ef flokkurinn kemst í aðstöðu til. Náttúruverndarfólk verður að tryggja að svo geti orðið. Nýtum við ekki þetta einstaka tækifæri er óvíst að það gefist aftur fyrr en of seint.
![]() |
Ekki líkur á að önnur stórvirkjun rísi segir forsætisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)