"Samfylkingin alfarið á móti því að virkja í Skagafirði"

Þessa frétt gefur að líta á Skagafjörður.com Hér fyrir neðan er texti fréttarinnar.

Á opnum stjórnmálafundi með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í gærkvöld svaraði hún spurningu blaðamanns Feykis um afstöðu Samfylkingarinnar til virkjanamála í Skagafirði. Sagði Ingibjörg aðspurð að Samfylkingin hefði tekið þá skýru afstöðu að virkja ekki Jökulárnar í Skagafirði.ISG krókur

Ingibjörg lét í ljós þá skoðun sína á fundinum að ekki væri ráðlegt að fara í meiri stóriðjuframkvæmdir á næstu árum og að hagkerfið þyrfti tækifæri til þess að kæla sig niður eftir þennslu síðustu ára. Ingibjörg varaði Skagfirðinga við því að setja virkjun inn á aðalskipulag og vildi meina að eftir það yrði ekki aftur snúið. -Samfylkingin hefur tekið afstöðu til þess að ekki verði ráðist í það að virkja jökulárnar í Skagafirði. Það á ekki að virkja hér til þess eins að selja orkuna áfram yfir á stóriðjusvæði. Komi til sértækra úrræða sem kalli á aukna raforku heima í héraði má alltaf taka málið upp að nýju. Sé hins vegar virkjun sett inn á skipulag er erfitt ef ekki ómögulegt að snúa til baka. sagði Ingibjörg Sólrún í lokaorðum sínum á fundinum.

Í haust sem leið lagði skipulags- og byggingarnefnd fram breytingartillögu sem gerði ráð fyrir að sýnt yrði virkjunarsvæði í jökulánum á aðalskipulagi. Fór þessi tillaga fyrir sveitastjórn og var samþykkt þar. Þar samþykkti Samfylkingarfólk í Skagafirði að setja virkjun inn á aðalskipulag. Það er því ljóst að skoðanir Samfylkingarfólks í sveitastjórn Skagafjarðar og flokksins á landsvísu fara ekki saman. Aðspurð sagði Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, oddviti Samfylkingar að afstaða formanns þyrfti ekki að koma á óvart enda væri hún í samræmi við stefnu þingflokksins.

-Þetta er spurning um túlkun. Ingibjörg Sólrún túlkar skipulagslögin þannig að hafi sveitarstjórn sett virkjunarhugmynd inn á aðalskipulag þá fækki úrræðum sveitarstjórna til þess að vera á móti viðkomandi framkvæmd komi hún upp á borðið siðar. Menn hafa ekki verið á eitt sáttir með þessa túlkun en í meirihlutasamkomulagi var sett skilyrði á þessa innkomu og var það skilyrði meðal annars það að leitað verði álits íbúa og svo framvegis. Við Samfylkingarfólk hér í héraði höfum ekki viljað loka þessari hurð en við erum heldur ekkert sértaklega að sækjast eftir því að það verði virkjað, segir Snorri Styrkársson Samfylkingu.


Ósköp er vandlifað!

Það er ekki auðvelt að vera Vinstri grænn pólitíkus í Hafnarfirði þessa dagana. Undanfarnar vikur hafa þeir verið upp á rönd og með ónot út í Samfylkinguna í Hafnarfirði fyrir að leyfa Hafnfirðingum að kjósa um stækkun álversins í Straumsvík. Sögðu það bera ótvírætt merki um að Samfylkingin ætlaði að knýja fram stækkun nó matter vott! Voru að sjálfsögu alveg á móti þessu öllu.

Það er reyndar ofvaxið mínum skilningi hvernig þeir fengu þá útkomu. Af hverju þá að leyfa fólki að kjósa? Þegar könnun sýndi svo að rúmlega 90% Hafnfirðinga voru afar sælir með að fá að kjósa um þetta mikilvæga mál þá hættu Vg að vera á móti kosningunni sjálfri en settu sig þess í stað harðlega á móti því að kosningin fjallaði um deiliskipulag með eða án stærra álvers!

Höfum eitt á hreinu. Hafnarfjarðarbær hefur ekki vald til að veita leyfi fyrir virkjunum í Þjórsá eða á Hengilssvæðinu - hann hefur hins vegar skipulagsvald. T.d. vald til að ákveða hvort skipulag bæjarins gerir ráð fyrir einföldu eða þreföldu álveri. Þetta hlýtur bæjarfulltrúi Vg að vita svo maður getur nú ekki annað en klórað sér í hausnum yfir því hvað henni gengur til. Annað en að vera bara á móti.

Nú í dag kynnir bæjarstjórinn tillöguna sem Samfylkingin er búin að ákveða að Hafnfirðingar muni kjósa um. Tillagan hefur tekið miklum breytingum til batnaðar fyrir Hafnfirðinga og það var þverpólitísk samstaða um að leggja hana svona í dóm kjósenda. Þetta sagði bæjarstjórinn í kvöldfréttum.

Þá rjúka Vinstri grænir upp og telja bæjarstjórann hafa sagt Vinstri græna samþykka stækkun álversins. Þeir snara sér í að semja ályktun þar sem þeir mótmæla þessu harðlega. Gallinn er bara sá að bæjarstjórinn sagði aldrei að Vg vildu stækkun. Hann sagði bara að það væri sátt um að leggja tillöguna fyrir kjósendur í þessari mynd.

Það er erfitt að sjá hvernig er hægt að misskilja þetta. En greinilega er mjög vandlifað sem Vinstri grænn í Hafnarfirði - aftur á móti!


mbl.is VG: Engin þverpólitísk samstaða liggur fyrir í bæjarstjórn Hafnarfjarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

56,7% - 43,3%

Af þeim sem taka afstöðu eru um 57% á móti þreföldun álversins í Straumsvík en um 43% fylgjandi. Gaman væri að vita nánar hve margir eru mjög fylgjandi/andvígir og hvað margir eru bara frekar fylgjandi/andvígir. Það hlýtur að skipta máli.


mbl.is 51% andvíg stækkun álvers samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúar hafi síðasta orðið

Það er frábært framtak hjá Samfylkingunni í Hafnarfirði að leyfa íbúum Hafnarfjarðar að kjósa um stækkun álversins. Þetta mættu Sjálfstæðismenn á Reykjanesi svo sannarlega taka sér til fyrirmyndar en á því virðast ekki vera miklar líkur ef marka má yfirlýsingar Árna Sigfússonar.

Það verður hins vegar að hafa í huga að þarna er ekki verið að færa allt vald og alla ábyrgð á stóriðjuframkvæmdum yfir á íbúa sveitarfélaganna. Þessi ágæta íbúakosning er ekki upphafið, heldur síðasta ákvörðunin í löngu ferli. Það er verið að gefa Hafnfirðingum síðasta orðið.

Íbúakosning um stór mál er loforð sem Samfylkingin gaf fyrir kosningar 2002 og efnir nú með glæsibrag. Samfylkingin er með um 56% fylgi í Hafnarfirði sem er til vitnis um vinsældir hennar og traust á meðal bæjarbúa. Yfir 90% Hafnfirðinga eru hins vegar ánægðir með að fá að kjósa sérstaklega um þetta stóra mál.

Það er staðreynd sem Sjálfstæðismenn og aðrir flokkar sem fundið hafa íbúakosningunni allt til foráttu ættu að hugleiða.


mbl.is Íbúakosning í Hafnarfirði 31. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súr hvalur

Mér finnst súr hvalur góður sem þorramatur en það þarf ekki að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni þess vegna. Hvalur sem súrnar og þránar í geymslum Kristjáns Loftssonar er hins vegar ekki til gleði eða gagns fyrir neinn. Það er þvert á móti ansi súrt fyrir ferðaþjónustuna og útflutningsgreinar sem byggja á jákvæðri og hreinni ímynd landsins.

Þegar sjávarútvegsráðherra Einar Kr. Guðfinnsson lagði af stað í þessa krossferð taldi hann að hún væri góð leið til að höfða til þjóðerniskenndar okkar. Góð aðferð til að afla sér vinsælda - og atkvæða. Hann ætlaði að verða svona "Braveheart" litlu stoltu þjóðarinnar sem yfirgangssamur og firrtur heimur vill ekki leyfa að veiða hval.

Það var búið að benda honum á að ekki var til markaður fyrir kjötið. Hann hlýtur líka að hafa vitað að þetta kæmi sér illa fyrir ímynd landsins, útflutningsgreinarnar og ferðaþjónustuna. Hann var til skamms tíma formaður Ferðamálaráðs. Samt hóf hann þessar vinsælda- og atkvæðaveiðar án þess svo mikið sem hringja eitt símtal í þessa hagsmunaaðila. Dálítið vanhugsað.

Dálítið eins og vera ráðherra og rjúka af stað í lundaveiðar án þess að hafa leyfi.


mbl.is Grænfriðungar: Japanar eiga birgðir af óseldu hvalkjöti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andstreymi frjálshyggjunnar í Andríki

Nú gæti farið að hitna undir frjálshyggjukrökkunum á www.andriki.is . Línan sem Davíð át upp eftir Bush og frjálshyggjukrakkarnir átu upp eftir Davíð um að loftslagsbreytingar væru ýkjur, ekki vandamál og alls ekki af manna völdum virðist vera að tapa vinsældum sínum, jafnvel í upprunalandinu.

Æ fleiri taka undir með þeim sem líta ekki aðeins á þetta sem ógn við vistkerfi jarðar, heldur einnig við efnahag heilu heimssvæðanna, ógn við líf og limi hundruða milljóna manna, ógn við heimsfriðinn. Nú síðast framkvæmdastjórar 9 af stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna sem skora á Bush að taka á þessu gríðarlega hnattræna vandamáli í stað þess að stinga hausnum í sandinn. Sumir telja að hann muni tilkynna um slíkar aðgerðir í ræðu til þjóðarinnar í nótt. Þá er nú fokið í flest skjól fyrir frjálshyggjukrakkana. Andstreymið algjört.

Samfylkingin hefur lengi lagt mikla áherslu á að beitt verði hagrænum hvötum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sett verði markmið um samdrátt í losun og að staðið verði við Kyoto. Þetta má sjá í landsfundasamþykktum flokksins og tillögum þingflokksins, Fagra Ísland, þar sem er að finna metnaðarfullan kafla um loftslagsmál.

Það er töluvert annar bragur en hjá núverandi ríkisstjórn sem enn hefur ekki sett sér nein markmið og engar reglur t.d. varðandi losunarheimildir stóriðju en reynir að svindla sér út úr samkomulaginu með lágkúrulegum reiknibrellum.

Innrætingameistari þeirra Illuga Gunnarssonar og Sigríðar Andersen í þessum efnum hefur skililð sakleysingjanna eftir niðri á láglendinu, á tröppum gamla steinhússins við Austurvöll, með innprentaðar afneitunarræður, þýddar beint úr munni stórvinar hans Bush. Davíð hafði hins vegar vit á að forða sér upp á efstu hæð í Seðlabankanum áður en yfirborð sjávar færi að hækka.

 

 


Þjóðarkarakterinn

landsliðLeikurinn í gær var ævintýralegur! Það hefur alla tíð verið þannig með handboltalandsliðið okkar að manni hefur verið svipt á til og frá, úr hæstu hæðum og alveg niður á botninn og svo aftur upp í hæstu hæðir. Þetta er tilfinningalegur rússíbani.

Í gær náði ég hæðum með landsliðinu sem ég man ekki eftir síðan við unnum B keppnina um árið. Ég hlustaði á þetta í útvarpinu, akandi á leið til Keflavíkur. Hélt stjörfum höndum í stýrið og þorði varla að trúa því að þetta væri satt. Þetta var alveg magnað.

Ég held að handboltalandsliðið okkar sé þjóðarsálin sjálf. Samansafn snillinga sem á erfitt með að ganga í takt og halda góðri stöðu en brillerar svo þegar öll von virðist vera úti. Þarf alltaf að fara fjallabaksleið að hlutunum. Klúðra auðveldu málunum en vinna vonlausu málin. Ætli það sé ekki satt sem útlendingar segja - að "þetta reddast!" sé sér íslenskt hugtak?


mbl.is Íslendingar gjörsigruðu Evrópumeistaralið Frakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skref aftur á bak

Það er skref aftur á bak að hækka strætófargjöldin. Kerfisbreytingarnar á Strætó sem fyrri meirihluti stóð að voru farnar að skila árangri á síðasta ári og það var athyglisvert að sjá að þegar olía og bensín hækkaði í sumar og haust fjölgaði farþegum í Strætó talsvert. Þetta sýnir að peningar skipta máli. Það sýnir líka reynsla Akureyringa af því að hafa ókeypis í Strætó.

Það þarf hugarfarsbreytingu á meðal almennings gagnvart samgöngum í borginni. Eins og staðan er í dag er fjöldi fólks að eyða allt of miklu af sínum peningum í einkabílinn, af skattpeningum okkar í tóma strætisvagna, of miklu af landrými borgarinnar í mislæg gatnamót, tvöföldun gatna, bílastæði og síðast en ekki síst lífi og limum borgaranna.

Við ættum frekar að lækka í strætó, jafnvel hafa hann ókeypis.


mbl.is Mótmæla fargjaldahækkun Strætó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deilur innan Framsóknarflokksins

Björn Ingi Hrafnsson og Eygló Harðardóttir deila hart á bloggsíðum sínum. Nóttin var ekki liðin þegar Björn Ingi var af einlægum stjónrmálaáhuga farinn að leita að Suðurnesjamanni í þriðja sætið í stað Hjálmars Árnasonar. Þetta fer eðlilega fyrir brjóstið á Eygló sem fékk góða kosningu en hún bendir réttilega á að þúfupólitíkin heyri fortíðinni til.
mbl.is Segir menn í öðrum kjördæmum ekki eiga að skipta sér af uppstillingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttarkerfi á villigötum

Maður hlýtur að spyrja sig hvort mannafla og fjármunum réttarkerfisins sé rétt varið eftir að hafa horft á Kompás og rifjað upp alltof mörg önnur sambærileg dæmi síðustu ára. Maður spyr sig líka hvað liggur til grundvallar þegar fólk er dæmt í langt fangelsi fyrir smáþjófnað og skemmdarverk á meðan barnaníðingar og aðrir kynferðisofbeldismenn sleppa með stuttan dóm fyrir níðingsverk sín.

Það sýnir áherslunar að mannafli og fjármagn saksóknara skuli vinna dag og nótt í því að fletta risnunótum viðskiptamógúla í leit að einhverju misjöfnu á meðan rannsókn óhugnarlegustu kynferðisofbeldismála eru látin sitja á hakanum og jafnvel fyrnast.

Það sýnir líka verðmætamatið í dómskerfinu að nú á að sekta þá sem nota litaða olíu án tilskilinna leyfa. Það er gott og blessað að þarna skuli eiga að taka fast á málunum - allt að 1.5 milljón í sekt. Hins vegar sleppa menn frá vítaverðum ofsaakstri með smásektir. Af hverju er ekki harðar tekið á því? Er einhver munur á því að aka yfir á rauðu og að skjóta af riffli inni í borg? Yrði slíkum manni ekki stungið inn?

Hvar er lógíkin í þessu kerfi?


mbl.is Spurði um hugsanleg framhaldsúrræði fyrir barnaníðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband