Álstæðisflokkurinn, stefnuleysið og óeiningin

Það var athyglisvert að horfa á Ísland í bítið (aftast í þættinum) þar sem þau mættust til að ræða pólitík þau Guðmundur Steingrímsson, frambjóðandi Samfylkingingarinnar í SV og Erla Ósk Ásgeirsdóttir, formaður Heimdalls.

Formaður Heimdalls taldi greinilega að hún myndi fara létt frá þeirri viðureign og ætlaði að fara enn og aftur með klisjuna um margar skoðanir Samfylkingarinnar á hinu þessu öfugt við blessaðan Sjálfstæðisflokkurinn þar sem allir eru sammála. Það hefði hún ekki átt að gera.

Hún varð t.d. að viðurkenna að hún væri persónulega mjög andvíg sauðfjársamningnum svokallaða og að um hann væru afar deildar meiningar innan Sjálfstæðisflokksins. Það er auðvitað ekki eina málið - t.d. má rifja upp að núna eru Sjálfstæðismenn að fara í þriðju kosningarnar í röð í fullkominni innbyrðis ósátt um kvótamálin. Þó er landsfundur þeirra búinn að álykta um málið sem einnig er bundið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að skuli leiða til lykta á kjörtímabilinu. Ekkert annað en bullandi ágreiningur sjálfstæðismanna innbyrðis kemur í veg fyrir að þetta mikilvæga mál verði afgreitt úr stjórnarsrkárnefnd.

Erla Ósk ætlaði líka að gera sér mat úr því að Samfylkingin talaði of mikið um stefnumál flokksins. Það er von að henni finnist það - sjálfstæðismenn tala ekki mikið um slíkt. Þeir eru fullvissir um að þeir hafi stefnu og það er nóg. En hafa þeir hana?

Guðmundur Steingrímsson spurði Erlu Ósk hvaða stefnu Sjálfstæðisflokkurinn hefði í umhverfis- og stóriðjumálum. Hún gat engu svarað, nema að hún reyndi að veifa töfraorðunum "hægri grænir" og vísaði þar til einnar greinar sem Illugi Gunnarsson skrifaði í sumar þegar hann var búinn að ákveða að fara í prófkjör. Sami Illugi og trúir ekki að hlýnun andrúmslofts sé af manna völdum. Það er öll stefnan!

Það hefur engin vinna farið fram innan flokksins, engin stefna verið mótuð, engar tillögur verið gerðar og lagðar fyrir flokkinn. SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN HEFUR ENGA STEFNU í þessum málum! Svo einfalt er það. Hann hefur hins vegar óopinbera stefnu sem bragð er að. Álbragð.

Formaður flokksins segist persónulega vera hlynntur stækkun álversins í Straumsvík og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reyjanesbæ er sannarlega hlynntur álveri í Helguvík. Telur það brýna nauðsyn til að bæta við álstörfum í bæ þar sem atvinnuleysi er lítið sem ekkert og störfum við flugstöðina fjölgar um 100 á ári. Friðrik Sófusson, fyrrverandi ráðherra fyrir sama flokk, er eins og menn vita afskaplega hrifinn af áli.

Er ekki réttast að kalla þennan flokk ÁLSTÆÐISFLOKKINN?


Takk fyrir frábæra baráttu!

Það munaði hársbreidd að við ynnum leikinn og kæmumst áfram! Það hefði sannarlega verið skemmtilegra en svona er það - bara annað liðið getur unnið leikinn!

Íslenska liðið hefur hins vegar unnið ótrúlega magnaða sigra t.d. eiga strákarnir algjörlega skuldlaust bæði hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar. Þeir hafa spilað frábærlega, sýnt kjark, sannan liðsanda, leikgleði og einstakan baráttuvilja sem hefur hrifið alla þjóðina upp úr djúpu sófunum og janúardrunganum.

Ég segi takk!


mbl.is Draumurinn úti í Hamborg - Danir sigruðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÓMAR, NÚ ÞARFTU AÐEINS AÐ SKAMMAST ÞÍN!

Í þessum nýjasta pistli þínum segirðu hreinlega ósatt. Ég veit það hlýtur að vera óvart en ég er mjög óhress með það af því ég var búinn að útskýra vendilega fyrir þér þennan misskilning þinn og af því að þú hefur talað eins og samherji í náttúruverndinni - hingað til. Ég vona að miðju/hægri framboðsdraumarnir séu ekki að breyta því og skal góðfúslega skýra þetta út aftur.

Ingibjörg Sólrún hefur aldrei sagt að í framtíðinni eigi sveitarfélögin að ráða hvort þau skipuleggja hjá sér virkjanir eða ekki. Af hverju heldurðu að í Fagra Íslandi sé talað um að láta Rammaáætlun um náttúruvernd verða grundvallarplagg fyrir landsskipulag sem verði ráðandi við gerð aðalskipulags sveitarfélaga?

Það er til að breyta því ástandi sem nú er og við erum sammála um að gangi ekki upp. Þetta var ég búinn að útskýra fyrir þér en samt heldurðu áfram að fara með rangt mál. Það er ljóður á þínu annars ágæta ráði.

Eins og Guðmundur Steingrímsson rekur ágætlega hér í athugasemdum við pistli þínum þá er það vegna Samfylkingarinnar að nú er verið að kjósa um stækkun í Hafnarfirði. Það sama er uppi á teningnum í Skagafirði en þar vakti fyrir Samfylkingunni að fá loksins umræðu um málið, virkjanir hafa hreint ekkert verið settar á skipulag þar (nema Skatastaðavirkjun af fyrri meirihluta) og engar líkur á að það verði gert.

Það eina sem Ingibjörg Sólrún sagði varðandi þær ákvarðanir sem sveitastjórnir á þessum stöðum standa núna frammi fyrir var að hún mun ekki beita flokksvaldi Samfylkingarinnar til að knýja fram niðurstöðu í málinu. Hún mun leyfa lýðræðinu að hafa sinn gang.

HINS VEGAR ER ALVEG Á HREINU AÐ EITT MEGIN MARKMIÐIÐ MEÐ FAGRA ÍSLANDI ER AÐ BREYTA SKIPULAGSLÖGUNUM TIL AÐ KOMA Í VEG FYRIR AÐ ÞESSI STAÐA KOMI AFTUR UPP. ÞAÐ Á AÐ RANNSAKA ALLT LANDIÐ, META VERÐMÆT NÁTTÚRUSVÆÐI, TRYGGJA VERNDUN ÞEIRRA OG LÁTA ÞÁ NIÐURSTÖÐU VERÐA GRUNN AÐ FREKARA SKIPULAGI Á LANDSVÍSU.

Þetta var ég búinn að útskýra vel og vendilega fyrir þér og skil þess vegna ekki af hverju þú velur að ráðast að Samfylkingunni með ósannindum. Það er ekki þinn stíll. Ég vonast til þess að þú leiðréttir þetta sem ég hlýt að afgreiða sem meiri háttar misskilning.

Með vinsemd,
Dofri Hermannsson.


"Tími kominn til að beina sjónum að Sjálfstæðisflokknum"

Það er athyglisvert að skoða nýjasta tölublað Framtíðarlandsins. Hér fyrir neðan er gripið niður í viðtal blaðsins við Ómar Ragnarsson og Andra Snæ sem ég hvet alla til að glugga í.

„Ég held að það gerist ekki neitt nema með byltingu í Sjálfstæðisflokknum. Fólk heldur alltaf áfram að kjósa hann þótt hann standi í raun fyrir allt það sem fólk vill ekki. Fólk kennir Framsóknarfloknum um. Halldór Ásgrímsson sagði meira að segja af sér. En hver er afsökun Geirs?“ spyr Andri.

„Árni Sigfússon er að detta í gryfjuna sem íslenskir stjórnmálamenn gera svo oft, að verða eins konar Stalínistar í atvinnumálum. Þegar varnarliðið fór hélt Árni að það stæði upp á sig að finna ‘eitthvað annað’, að hugsa upp nýjar verksmiðjur og raða svo fyrrum starfsmönnum vallarins eins og tindátum þangað inn. Þegar samfélagið er á sæmilegu róli þá þurfa stjórnmálamennirnir ekki að hafa áhyggjur af þessu ‘einhverju öðru’ – það kemur af sjálfu sér. Starfsfólkið á vellinum fann sér ‘eitthvað annað’ án þess að djúpvitrir stjórnmálamenn kæmu með lausnirnar.“

Ómar Ragnarsson hefur sagt opinberlega að hann telji vera þörf fyrir breiðan miðju-hægri umhverfisflokk, því öllum brögðum verði beitt til að þagga niður umhverfismálin í aðdraganda kosninganna. „Slíkur flokkur gæti séð til þess að umhverfismálum verði rækilega haldið á lofti og komið í veg fyrir að þetta verði þriðju kosningarnar í röð þar sem umhverfismál verða hunsuð. En afraksturinn má ekki vera að taka atkvæði af öðrum grænum listum, takmarkið verður að vera að fjölga grænum þingmönnm.“

Ómar segir þetta einmitt undirstrika þörfina á mið-hægri-grænu framboði – en hann tekur undir með Andra að Samfylkingin eigi hrós skilið fyrir stefnu sína ‘Fagra Ísland’ og að Vinstrihreyfingin—grænt framboð verði einnig að fá að njóta sinna verðskulduðu grænu atkvæða.

Við hljótum að bíða spennt eftir því að Sjálfstæðismenn komi fram með metnaðarfulla stefnuskrá og tillögur í umhverfismálum fyrir landsfund sinn í apríl. Jafnframt hlýtur þar að koma fram afstaða til áframhaldandi stóriðju.


"Mér fannst ég finna til"

Vesalings Illugi Gunnarsson, fyrrverandi aðstoðamaður vandræðabakarans í bolludagsmálinu, átti bágt með að verja vondan málstað í Silfrinu í dag. Allir gestir Silfursins, rétt eins og bróðurpartur þjóðarinnar voru á einu máli máli um að afskipti sjálfstæðismanna af Baugsmálinu sem hvað eftir annað hafa "talað sig titrandi reiða" um málið væru með öllu ólíðandi og einsdæmi í vestrænu lýðræðisríki.

Það er öllum ljóst hvernig er í pottinn búið, ef einhver var í vafa þá eyddu tölvupóstar Jóninu þeim vafa þar sem fram kom að ritstjóri Flokksblaðsins, framkvæmdastjóri Flokksins og innmúraður einkavinur (sem nú er orðinn hæstaréttardómari) Hins Ónefnda hittust á ritstjórnarkontórnum til að leggja á ráðin um aðför að Baugi. Keisarinn er allsber eins og bloggað er um í dag.

Illugi reyndi að dreifa athyglinni frá þessum staðreyndum með því að segja að Ingibjörg Sólrún væri með ósannaðar dylgjur og vitnaði í dægurlagatexta "mér fannst ég finna til". Ég kannast ekki við textann en efast ekkert um að Illuga finnist hann finna til. Sjálfstæðisflokkurinn sem pólitískt afl ætti líka að finna til - sektar. Og biðjast afsökunar.

 


Breið samstaða um náttúruvernd

Andrea Ólafsdóttir, ein af sterkustu konum Vg úr náttúruverndargrasrótinni, skrifar tímamótapistil á heimasíðu sína núna um daginn. Þar fagnar hún Samfylkingunni sem samherja í baráttunni fyrir náttúruvernd. Það voru orð í tíma töluð. landslag006

Allir sem fylgst hafa með þessum málum vita hvar Vg stendur í náttúruverndarmálum, hreyfingin á hrós skilið fyrir einarða baráttu. Hins vegar var alltaf ljóst að til að málefnið gæti unnið sigur yrðu fleiri flokkar að taka á þessum málum með afgerandi hætti.

Það hefur Samfylkingin svo sannarlega gert, í Fagra Íslandi er ekki bara sett fram skýr stefna í náttúruverndar- og loftslagsmálum, heldur eru þar vel mótaðar tillögur um það hvernig hægt er að ná tökum á ástandinu og skapa sátt um þennan málaflokk sem endalausar deilur hafa verið um á undanförnum árum.

Það var virkilega kominn tími til að Vg og Samfylking tækju höndum saman og mynduðu breiða samstöðu um þessi gríðarlega mikilvægu málefni.

Hér fyrir neðan er færsla Andreu undir fyrirsögninni

MÁLEFNIÐ SIGRAÐI - ég tek samherjum í náttúruvernd opnum örmum 

Já loksins loksins getum við boðið XS upp í dans og tekið samstíga spor í tangó þannig að enginn má missa af! Náttúran og réttlæti í heiminum á hjarta mitt og ég tel XS vera næst VG og mest samstíga í flestum málaflokkum. Ég legg því til að XS og VG hætti að karpa sín á milli og taki dansinn saman, samstíga um málefnin sem skipta þjóðina okkar og landið gríðarlegu máli.

Mikið hefur farið fyrir náttúruvernd á undanförnum misserum, og alltaf meira og meira. Ég fagna því af einlægni fá mínum dýpstu hjartarótum að nú er loksins að verða breið samstaða um náttúruvernd innan stjórnarandstöðuflokkanna sem geta orðið raunverulegur valkostur kjósenda í vor í kosningum. 

Þetta verður sterkasta liðið í vor, liðið sem boðar breytta tíma, sem boðar verndun náttúru Íslands.

Ég tek opnum örmum og fagnandi nýlegri stefnumótun XS um Fagra Ísland - það er vissulega fagnaðarefni að vakningin skuli vera orðin svo mikil sem raun ber vitni, því það eykur verulega líkurnar á því að náttúran fái fyrir alvöru að njóta vafans á næstu árum þegar við störfum saman í stjórnarráðinu.  Ég tek því fagnandi að XS skuli vera að stilla saman strengi við landsbyggðarfólkið sitt eins og fram kemur hér : Um verndun jökulsánna í Skagafirði


Ingibjörg Sólrún vill fresta öllum stóriðjuáformum

Í ræðu Ingibjargar Sólrúnar á aðalfundi Reykjavíkurfélags Samfylkingarinnar í gær kom fram sú skoðun Samfylkingarinnar að fresta beri öllum stóriðjuáformum á næstu árum. Það er í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar t.d. í Fagra Íslandi sem kveður á um að strax verði ráðist í Rammaáætlun um náttúruvernd og að tryggð verði verndun verðmætra náttúrusvæða.

isgIngibjörg telur þó efnahagsástæður ekki síðri ástæðu til að staldra við í stóriðjumálum. Nú sé forgangsmál að kæla hagkerfið svo hægt sé að ná verðbólgu og vöxtum niður og skapa rými til að ráðst í nauðsynlega uppbyggingu á samgöngukerfinu.

Hún talaði líka um íbúakosningu um stækkun álversins í Straumsvík. Þar eiga Hafnfirðingar að fá að eiga síðasta orðið í löngu ferli. Hér er um stórt og þverpólitískt mál að ræða fyrir hafnfirskt samfélag og Samfylkingin er stolt af félögum sínum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir að gefa íbúum kost á að segja skoðun sína með beinum kosningum.

Það hefðu ekki allir flokkar gert - eins og dæmin sanna.


Ofurviðkvæmir karlpungar

Alveg er það ótrúlegt hvað ákveðinn hópur karlpunga verður önugur og uppstökkur þegar Ingibjörg Sólrún opnar munninn. Sér í lagi ef hún talar um valdníðslu Sjálfstæðisflokksins sem þó varla nokkur maður getur borið á móti.

Á meðan ríkissaksóknari hefur verið sendur eins og rakki eftir Baugsfólkinu hefur hvorki verið til tími eða peningar til að takast á við olíusvikarana sem þó liggur ljóst fyrir að eru sekir eins og syndin og viðurstyggileg nauðgunarmál hafa spillst og fyrnst vegna áhugaleysis yfirvalda.

Til að fá enn ljósari mynd af þessum valdasjúka og einræðislynda flokki getum við rifjað upp hlerunarmálin sem enn sér ekki fyrir endann á. Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í áratugi rekið leyniþjóðustu sem meira og minna hefur verið stýrt ofan úr Valhöll.

Það er líka hægt að rifja upp hvernig lögregla, undir dómsmálaráðherrum Sjálfsstæðisflokks, hefur ítrekað farið með friðsama mótmælendur, hvort heldur sem er við Snæfell eða við heimsóknir stórhöfðingja. Flestir Íslendingar minnast þess með skömm þegar Sólveig Pétursdóttir og Davíð Oddsson létu loka nokkra tugi Falun Gong félaga inni í skóla á Reykjanesi án dóms og laga.

Það er af nógu að taka en e.t.v. við hæfi að enda þessa samantekt á því að minnast á það hvernig aldraðir og öryrkjar hafa ítrekað þurft að draga stjórnvöld fyrir Hæstarétt til að láta þau standa við gerða samninga.

Það er lýsandi fyrir hroka og valdfirringu Sjálfstæðismanna að Davíð Oddsson sagði þegar Harpa Njálsdóttir kynnti skýrslu um fátækt á Íslandi "Harpa Njálsdóttir, er sú manneskja til?" og um það að sífellt fleiri leita á náðir Mæðrastyrksnefndar sagði hann: "Þar sem eitthvað er ókeypis mun alltaf myndast röð"!

Alltaf þegar Ingibjörg Sólrún hefur talað um þessa valdníðslu og valdhroka Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðin tegund af karlpungum farið á límingunum.

Í fyrsta lagi þola þeir ekki gagnrýni á hagsmunasamtök þröngsýnna karlpunga, Sjálfstæðisflokkinn, og hins vegar þola þeir alls ekki að það sé bent á misréttið í samfélaginu - þar sem konum er ævinlega haldið niðri og því haldið fram að fátækt fólk sé ekki til. Ekki nóg með það heldur er því líka haldið fram að fólk sem bendir á að til sé fátækt fólk sé heldur ekki til.


Lagið um það sem er bannað

Það má ekki tala um ESB
um Evruna, það má bara ekki ske.
Ef Sólrún opnar munninn
þá hrapar krónan niður
og allir missa vinnuna því miður.

Þetta Sjálfstæðisfólk er svo skrýtið
það er alltaf að skamma mann
þó maður geri ekki neitt
það er alltaf að skamma mann.

Fagra Ísland ekki ræða má
allir verða kolbrjálaðir þá
og jafnvel sumir tuða
sem hefðu átt að fagna
og allir hinir krossbölva og ragna.

Þetta Sjálfstæðisfólk er svo skrýtið...

Það má ekki lækka verð á mat
þá éta bara allir á sig gat.
Og allir bændur landsins
þeir deyja drottni sínum
og allt er það að kenna flokki mínum.

Þetta Sjálfstæðisfólk er svo skrýtið...

Um lýðræði má ekki segja orð.
Íbúakosning jafnast á við morð,
því fólkið gæti breytt því
sem búið er að ráða
og bæjarstjóra skilið eftir smáða.

Þetta Sjálfstæðisfólk er svo skrýtið...

Ég vil banna eitt og aðeins eitt
að enginn megi segja ekki neitt
án þess krónan falli
og bændur fari að deyja
því Ingibjörg Sólrún vildi ekki þegja.

Þetta Sjálfstæðisfólk er svo skrýtið...


mbl.is Ingibjörg Sólrún segist ekki taka þátt í þagnarbandalagi um Evrópumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tannpína heilbrigðisráðherra korteri fyrir kosningar

Ég hef áður skrifað um það fáránlega ástand sem ríkir hér á landi í sambandi við tannvernd barna.

Það þarf auðvitað engum að koma á óvart að nær 80% 12 ára barna sé með skemmdar tennur þegar kerfið er þannig að það vill frekar borga fyrir tannfyllingar en eftirlit og varnir eins og flúorhreinsun og skorufyllingar. Þetta er kerfi sóunar - það sóar tannheilsu barnanna okkar og sóar skattpeningum okkar.

Ríkisstjórn Sjálfsstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur ekki viljað gera samninga við tannlækna síðan 1998. Endurgreiðsla Tryggingastofnunar hefur því engan veginn haldið í við verðlagsþróun og þess vegna er hins svokallaða 75% endurgreiðsla í besta falli 50% endurgreiðsla.

Ef ráðherra þyrði að athuga hvaða hópar barna eru með skemmdustu tennurnar held ég að hún stæði frammi fyrir enn einni staðfestingunni á aukinni misskiptingu í þjóðfélaginu. Það eru fátæku börnin sem ekki hafa ráð á íþrótta- og tómstundastarfi og varla ráð á að fara í framhaldsskóla sem ekki koma til tannlæknis.

Niðurstöður þessarar nýju skýrlsu þurfa ekki að koma heilbrigðisráðherra á óvart. Það er þess vegna ákaflega ótrúverðugt korteri fyrir kosningar að segjast ætla að hefja samningaviðræður við tannlækna og bjóða upp á ókeypis eftirlit fyrir tiltekna árganga. Ef ekki hefur verið hægt að gera það síðstu 9 ár - af hverju þá núna?

Það þarf að endurskoða þetta kerfi frá grunni og semja upp á nýtt við tannlækna. Til þess þarf að koma hér að ALVÖRU VELFERÐARSTJÓRN sem sér hag í því að fólk haldi heilsu. Þeim peningum sem varið er í tannvernd barna er "tannfé" sem ber ríkulegan ávöxt í "fyllingu" tímans.

Veljum nýja stjórn í vor!


mbl.is Vill að tilteknir árgangar barna fái ókeyps tanneftirlit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband