Ingibjörg Sólrún vill fresta öllum stóriðjuáformum

Í ræðu Ingibjargar Sólrúnar á aðalfundi Reykjavíkurfélags Samfylkingarinnar í gær kom fram sú skoðun Samfylkingarinnar að fresta beri öllum stóriðjuáformum á næstu árum. Það er í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar t.d. í Fagra Íslandi sem kveður á um að strax verði ráðist í Rammaáætlun um náttúruvernd og að tryggð verði verndun verðmætra náttúrusvæða.

isgIngibjörg telur þó efnahagsástæður ekki síðri ástæðu til að staldra við í stóriðjumálum. Nú sé forgangsmál að kæla hagkerfið svo hægt sé að ná verðbólgu og vöxtum niður og skapa rými til að ráðst í nauðsynlega uppbyggingu á samgöngukerfinu.

Hún talaði líka um íbúakosningu um stækkun álversins í Straumsvík. Þar eiga Hafnfirðingar að fá að eiga síðasta orðið í löngu ferli. Hér er um stórt og þverpólitískt mál að ræða fyrir hafnfirskt samfélag og Samfylkingin er stolt af félögum sínum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir að gefa íbúum kost á að segja skoðun sína með beinum kosningum.

Það hefðu ekki allir flokkar gert - eins og dæmin sanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Blogg Andreu vakti sérstaka athygli mína vegna þess að hún er á sömu línu og ég hvað þetta varðar, - að stilla saman strengi þeirra sem berjast fyrir nýrri stefnu í umhverfismálum. En betur má en duga skal.

Á bloggi hér fyrir neðan bendir þú á hvað Ingibjörg Sólrún haldi vel fram stefnuskránni "Fagra Ísland." Allt gott er um það að segja og hafi hún þökk fyrir það. En tvær aðrar yfirlýsingar hennar benda til þess að í raun verði ekki numið staðar á stóriðjubrautinni. Yfirlýsingarnar eru þessar:

1. Hún sem formaður, - og þar með Samfylkingin sem heild, - á ekki og getur ekki skipt sér af því hvað fólk vill í heimabyggð.

2. Á fundi í Skagafirði tók hún undir það sjónarmið mitt að ef farið sé af stað með virkjanaferli í skipulagi verði ekki hægt að snúa aftur.

Þegar þessar tvær yfirlýsingar eru lagðar saman er útkoman einföld: Stefnuskráin "Fagra Ísland" getur ein og sér ekki stöðvað stóriðjudansinn.

Það er oft sagt að stjórnmál snúist um list hins mögulega, realpólitík. Eina realpólitíkin er að mínu mati sú að koma fram með stefnu sem tryggir betri árangur en ofangreindar yfirlýsingar bera með sér.

Ómar Ragnarsson, 28.1.2007 kl. 15:06

2 identicon

Það sem fylgdi á eftir orðum Ingibjargar um að Samfylkingin á landsvísu ætti ekki að ráðskast með sveitastjórnarvaldið var þetta - hins vegar á Samfylkingin og aðrir stjórnmálaflokkar að bera pólitíska ábyrgð á hinu stóra samhengi sem eru náttúruverndin, efnahagsmálin og loftslagsmálin.

Þar vísaði hún til þess að það væri vitlaust gefið - núverandi ríkisstjórn væri búin að gefa allt frjálst og allt vald yfir stjóriðjustefnunni væri í raun komið á hendur fyrirtækja og einstaka sveitarfélaga. Það sama og bæði þú og ég höfum oftlega bent á - það ríkir Klondyke stemning í stóriðju- og virkjunarmálum.

Fagra Ísland tekur mjög skýrt á þessum parti - niðurstöður Rammaáætlunar eiga að liggja til grundvallar að landsskipulagi sem verður yfirsterkara og leiðbeinandi fyrir aðalskipulag sveitarfélaga. Það þýðir að sveitarfélög geta ekki - ef Fagra Ísland kemst í framkvæmd - ráðist í framkvæmdir sem ekki samrýmist Fagra Íslandi út frá verndarsjónarmiðum. Einfaldara og sterkara getur það ekki orðið.

Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 15:44

3 identicon

Hefur Samfylkingin áhuga á lýðræði ? Ein grunn hugmynd lýðræðissinna er að ákvarðanir séu teknar sem nærst því fólki sem málið varðar. Ef við aðhyllumst lýðræði, þá viljum við að ákvarðanir um virkjanir séu teknar af heimamönnum á hverjum stað. Þetta mál ætti ekki að vefjast fyrir Samfylkingunni, enda gerir nýleg samþykkt flokksins >> Fagra Ísland - Rammaáætlun um náttúruvernd << ráð fyrir þessum kosti:

Samfylkingin telur að umhverfismál séu málaflokkur þar sem aðferðir beins lýðræðis henta ákaflega vel í ýmiss konar samspili við fulltrúalýðræðið. Því er sjálfsagt að kanna rækilega kosti atkvæðagreiðslna og skoðanakannana í þeim efnum.

Þrátt fyrir þessa samþykkt Samfylkingarinnar, hefur Dofri eftir Ingibjörgu:

Ingibjörg Sólrún hefur aldrei sagt að í framtíðinni eigi sveitarfélögin að ráða hvort þau skipuleggja hjá sér virkjanir eða ekki. Af hverju heldurðu að í Fagra Íslandi sé talað um að láta Rammaáætlun um náttúruvernd verða grundvallarplagg fyrir landsskipulag sem verði ráðandi við gerð aðalskipulags sveitarfélaga?

Hver eru eiginlega viðhorf Samfylkingarinna ? Veit hægri höndin ekki hvað sú vinstri gerir ?

Á öðrum stað segir Dofri:

Ingibjörg telur þó efnahagsástæður ekki síðri ástæðu til að staldra við í stóriðjumálum. Nú sé forgangsmál að kæla hagkerfið svo hægt sé að ná verðbólgu og vöxtum niður og skapa rými til að ráðst í nauðsynlega uppbyggingu á samgöngukerfinu.

Ef þetta er rétt eftir Ingibjörgu haft, ætti Samfylkingin að ráða sér mann sem er læs á efnahagsmál. Það blasir við flestum, að efnahagsleg hjöðnun er hafin og ef menn halda ekki stillingu sinni er hætta á snöggum samdrætti. Er Samfylkingin að óska þjóðinni efnahagslegs hruns ? Ummæli Ingibjargar um ónýta krónu benda til slíkrar óskhyggju. Er Samfylkingin ákveðin í að reita af sér allt fylgi, þannig að hún komi ekki til álita við stjórnarmyndun, að loknum kosningum ?

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband