Nýtum næstu ár vel

Mér finnst alveg frábært að Samfylkingin vilji fresta fyrirhuguðum stóriðjuframkvæmdum í Straumsvík og Helguvík. Það er komið nóg af ýmsum ástæðum. Það þarf að kæla hagkerfið og það þarf að kortleggja umhverfið. Samfylkingin flutti þingmál um þetta síðarnefnda á Alþingi í dag - Rammaáætlun um náttúruvernd.

Maður verndar ekki eftir á - það sjá allir. Rammaáætlun um náttúruvernd gengur út á að kortleggja verðmæt náttúrusvæði, tryggja verndun þeirra og að láta svo þá niðurstöðu ráða því hvernig aðalskipulagi sveitarfélaganna er háttað. Þetta er skynsamleg áætlun, laus við allar öfgar og hefur einn afgerandi kost - það geta flestir verið sammála henni.

Það er hægt að fara í þessa vinnu strax að loknum kosningum og ljúka Rammaáætlun um náttúruvernd á 3-4 árum. Það er til þess vinnandi fyrir Íslendinga að halda að sér höndum í þennan stutta tíma til að hægt sé að ná sátt um náttúruverndarmálin á Íslandi,  hvort heldur er í virkjunum, vegagerð eða byggingu hálendishótela á hálendinu.

Við höfum tækifæri til að ná breiðri sátt um náttúruverndarmálin í vor.

Það er gott.


mbl.is Samfylkingin vill fresta stóriðjuframkvæmdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér finnst alveg frábært að...

...halda úti bloggsíðu þar sem hægt er að hafa fjörug skoðanaskipti um hin ólíklegustu mál. Ég hef hins vegar rekið mig á það í umræðum um pólitík að skoðanaskiptin geta orðið dálítið neikvæð og stundum jafnvel persónuleg OG neikvæð sem er slæm blanda.

Þess vegna hef ég ákveðið að í þeirri bloggtörn sem framundan er muni allar mínar færslur hefjast á orðunum "Mér finnst alveg frábær að..." Ég held að það skipti máli að hefja umræðuna á jákvæðum nótum, jafnvel þótt maður sé að fara að gagnrýna eitthvað. Ég þori ekki að fullyrða að öllum muni líka allt sem ég hef fram að færa en það er útaf fyrir sig ekki markmið í lífunu að allir séu sammála manni. Tilgangurinn er að skiptast á skoðunum.

Sem er gott.


Vaxandi óeining innan Sjálfstæðisflokksins með sauðfjársamninginn

HrúturUngir Sjálfstæðismenn eru engin lömb að leika sér við. Það fær forystusauðurinn Geir H Haarde að reyna á eigin skinni nú þegar ungliðarnir renna litlu hornunum sínum í síðu hans út af sauðfjársamningnum.

Það var alltaf ljóst að ungir frjálshyggjusinnaðir Sjálfsstæðismenn gætu ekki bara kyngt og jórtrað á því í rólegheitum að einni búgrein væru réttir tugir milljarða í niðurgreiðslur. Það er því eðlilegt að þeir hafi allt á hornum sér í því efni. 

En SUSarar eru ekki einu stekkjarlömbin sem jarma sáran yfir ákvörðun sauðfjármálaráðherrans. Erla Ósk Ásgeirsdóttir, formaður Heimdallar, játaði í sjónvarpi í síðstu viku að það væri augljós ágreiningur á milli Heimdallar og þingflokks Sjálfstæðismanna um sauðfjársamninginn. Henni fannst samingurinn alveg fráleitur.

Hún er tæpast eini svarti sauðurinn í  einslitri sauðahjörð Sjálfstæðisflokksins. Heyrst hefur að þingmennirnir Birgir Ármannsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Pétur Blöndal og frambjóðendurnir Sigríður Andersen og Illugi Gunnarsson séu síður en svo ánægðir með þennan sauðfjáraustur. Það er eðlilegt - þetta eru allt harðir frjálshyggjugemsar.

Aumingja Geir! Hann er trúlega alveg ær!


mbl.is Ungir sjálfstæðismenn gagnrýna sauðfjársamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur Samfylkingarinnar

ICON_vefur_Sprotaland_RGB_JPEGÁ föstudaginn var héldu Samtök Iðnaðarins og Samtök Sprotafyrirtækja svokallað Sprotaþing. Að þessu sinni var þingflokkum stjórnmálaflokkanna boðið að koma með 1-3 þingmál sem miðuðu að uppbyggingu hátækniiðnaðarins, fá gagnrýni fagaðila og breytingartillögur og loks atkvæðagreiðslu þingsins um hvaða tillögur þættu bestar. Samtals mættu þingflokkarnir með 13 þingmál til að leggja í dóm Sprotaþings.

Samfylkingin hefði getað mætt með a.m.k. 12 vel undirbúnar tillögur því allt frá því snemma á síðasta ári hefur flokkurinn unnið mikla vinnu í að finna leiðir til að styrkja nýja atvinnulífið. Samfylkingin var þess vegna búin að setja saman stóra tillögu um Hátækniáratuginn - verkefni til næstu 10 ára þar sem markvisst væri unnið að því að búa hátækni- og þekkingariðnaðinum góð vaxtarskilyrði.

Við mættum til leiks með þrjár tillögur alls, tvær úr Hátækniáratugnum og heildartillöguna til að sýna að við vitum að hér þarf að taka á málum með heildstæðum hætti. Mat þeirra tæplega 200 gesta Sprotaþingsins á því hvaða þrjár tillögur væru bestar voru eftirfarandi:

  1. Tillaga Samfylkingarinnar um að stórefla Rannsóknar- og Tækniþróunarsjóð
  2. Tillaga Samfylkingarinnar um að koma upp endurgreiðslukerfi á R&D kostnaði
  3. Tillaga Samfylkingarinnar um Hátækniáratuginn

Tillögur annarra flokka voru líka margar góðar en gestir Sprotaþings höfðu á orði að Samfylkingin hefði lagt mun meiri vinnu í sínar tillögur en aðrir þingflokkar. E.t.v. er eitthvað til í því. Alla vega hefur Samfylkingin lagt mikla vinnu í að finna leiðir til að búa Nýja atvinnulífinu sem best skilyrði. Hér fylgir hugur máli.

Vinni Samfylkingin sigur í vor þá er ljóst að Nýja atvinnulífið vinnur sigur í framhaldi af því.


Sjálfstæðisflokkurinn stikkfrí?

Fjölmiðlar hafa nú krafið umhverfisráðherra um stefnu í loftslagsmálum. Hún mun vera í smíðum. Vonandi er það rétt og vonandi gengur hún ekki út á reiknibrellur til að hægt sé að fara út í álla þá stóriðju sem nú er í bígerð.

Umhverfisráðherra svaraði reyndar á afar undarlegan hátt þegar hún var spurð út í þetta atriði í fréttum í gær. Hún vildi meina að ef stóriðjan færi fram úr heimildum Íslands yrðu álfyrirtækin bara að koma með kvóta með sér. Ég hef frétt að Valgerður Sverrisdóttir hafi sagt það sama á kosningafundi vegna prófkjörs í Þingeyjasýslu í síðasta mánuði.

Ég hef engann sérfræðing heyrt eða hitt sem telur að þetta sé mögulegt. Kvóti skv. Kyoto er eign þjóðríkjanna en ekki alþjóðlegra auðhringa s.s. Alcoa. Þannig er t.d. íslenska ákvæðið sem heimilaði aukinn útblástur vegna stóriðju ekki framseljanlegur á nokkurn hátt. Ólíklegt er að annað gildi um önnur ríki.

Þetta er ódýr brella stjórnvalda til að breiða yfir þá staðreynd að þau hafa skapað stóriðju og orkufyrirtækjum sjálftökurétt hvað varðar virkjanir og losun gróðurhúsalofttegunda. Stjórnvöld hafa enga stjórn á því hvort Ísland fer fram úr Kyoto heimildunum eða ekki.

Kjósi Hafnfirðingar að stækka álverið í Straumsvík eru heimildir Íslands meira en fullnýttar. Taka þarf af almenningskvótanum til að stækkunin rúmist innan Kyoto. Allt umfram það setur Ísland í skammarlega stöðu gagnvart alþjóðasamfélaginu.

Nú þegar búið er að kreista þetta skrýtna og ótrúverðuga svar upp úr umhverfisráðherra væri gaman að fá að heyra afstöðu Sjálfstæðismanna.

Af hverju þegja þeir þunnu hljóði um hlýnun loftslags og skýrslu Sameinuðu Þjóðanna? Er það af því lína Sjálfstæðismanna, ættuð frá Bush, AEI og ExxonMobile hefur verið afhjúpuð og afsönnuð?

Standa þeir kannski bara stikkfrí í þessu eins og öðru?


Svifryk, öryggi og heilsa

naglarÞað kostar borgarbúa tæpar 200 milljónir á hverju vori að endurnýja malbikið eftir slitið á nagladekkjum yfir veturinn á undan. Tjaran sem naglarnir róta upp sest á bílana okkar og við eyðum töluverðum peningum í þvott, rúðusprey og nýjar rúðuþurrkur svo eitthvað sé nefnt. Síðast en ekki síst sest tjaran í mynstur dekkjanna og gripið verður verra. Öryggi allra minnkar.

Ytri kostnaður
Kostnaður borgarinnar af nagladekkjanotkun er dæmi um svokallaðan ytri kostnað sem fellur ekki á notandann heldur á samfélagið. Minna öryggi allra í umferðinni vegna tjöru á dekkjum er annað dæmi um ytri kostnað. Alvarlegasta dæmið um óbeinan kostnað af notkun nagladekkja er samt þáttur þeirra í svifryki sem er ógn við heilsu fólks. Malbiksagnir eru langstærsti einstaki þátturinn í svifryki borgarinnar eða um 50-60% þegar svifryk er mest. Á síðasta ári fór magn svifryks í andrúmslofti 24 sinnum yfir heilsuverndarmörk.

Ógn við heilsu fólks
Í Svíþjóð hafa verið gerðar rannsóknir á loftgæðum og áhrifum svifryks á heilsu fólks. Niðurstaða þeirra er að jafnvel lítið magn svifryks í andrúmslofti hafi áhrif á heilsuna og að svifryksmengun fækkar lífdögum Stokkhólmsbúa meira en umferðarslys í borginni. Undanfarið hefur verið rætt um skaðleg áhrif svifryks á lungu fólks, einkum barna. Sú umræða er löngu tímabær.

Hröð þróun naglalausra dekkja
Í nýjasta blaði FÍB er ítarleg úttekt og samanburður á ónegldum vetrardekkjum byggð á erlendum prófunum óháðra aðila. Þar er borinn saman fjöldi afbragðsgóðra dekkja en hin svokölluðu loftbóludekk sem margir þekkja eru í efsta sæti að mati þeirra sem framkvæmdu rannsóknirnar í ár. Betra grip, styttri hemlunarvegalengd og meiri stöðugleiki í beygjum eru dæmi um árlegar framfarir en þróun í hönnun naglalausra vetrardekkja hefur verið mjög hröð og bestu dekkin í dag eru umtalsvert betri en bestu dekkin fyrir 5 árum.

Negldu dekkin óöruggari
Því miður hefur þróunin ekki orðið mikil í nagladekkjum af þeirri einföldu ástæðu að þau eru mjög víða bönnuð og á flestum stöðum afar illa séð. Staðreyndin er því sú að um nokkurra ára bil hafa ónegld dekk verið öruggari við langflestar vetraraðstæður. Einungis á sléttum og blautum ís hafa negld dekk betra grip en góð vetrardekk. Þetta eru aðstæður sem aðeins skapast örfáa daga á hverjum vetri. Við allar aðrar aðstæður eru nagladekk verri, hemlunarvegalengd lengri og grip í beygjum verra. Valið ætti því að vera auðvelt á milli aukins öryggis flesta daga eða fáa daga.

Akstur utan þéttbýlis
Sumir aka á nöglum allan veturinn af því að þeir þurfa af og til að fara út á land og telja hættu á að lenda í aðstæðum þar sem nagladekk veita meira öryggi en góð vetrardekk. Það er hugsanlegt að í einhverjum tilvikum sé það rétt en í langflestum vetraraðstæðum utan þéttbýlis veita góð vetrardekk samt mun betra grip en nagladekk. Fyrir þá sem vilja vera vel búnir í ófærð er býður FÍB upp á dekkjasokka, eins konar keðjur úr næloni sem auðvelt er að setja á dekkin í ófærð. Hvernig væri að gefa því séns?

Munum þetta í haust
Samfylkingin í Umhverfisráði hvatti eindregið til þeirrar kynningarherferðar sem farið var í nú í haust gegn nagladekkjum. Sú herferð skilaði þeim árangri að nú eru um 40% bíla á nöglum í stað 50-60% áður. Það er samt allt of mikið. Ég hef gaman af að hjóla í vinnuna en verð að viðurkenna að stundum hef ég efast um heilsubótina af því að vetrarlagi þegar negldir bílar í þúsundavís aka framhjá og spæna upp malbikið.

Ég fagna þeirri umræðu sem er komin upp um þetta mál. Við verðum að fara að reikna dæmið til enda. Hver er ávinningurinn ef nagladekk eru yfirleitt óöruggari, kosta okkur hundruð milljóna í malbik, annað eins í tjöruhreinsun og svo það sem er mikilvægast - heilsu okkar og barnanna okkar? Munum þetta næsta haust!


Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum?

Hún er ansi svört skýrsla Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsmálin. Hér á mbl.is er fjallað um málið og á visir.is má sjá frétt Stöðvar 2 um sama efni. Þetta eru grafalvarleg tíðindi en ekki heyrist múkk um viðbrögð ríkisstjórnar Íslands. Það á sér e.t.v. sínar skýringar.

Í hinu virta blaði The Guardian segir í gær frá því að American Enterprice Institute hugmyndaveita á vegum olíufyrirtækisins ExxonMobile sem nátengd eru ríkisstjórn Bush Bandaríkjaforseta hafi reynt að múta vísindamönnum og umhverfisverndarfólki til að skrifa greinar sem græfu undan þessari skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ExxonMobile er uppvíst af óheiðarleika í þessum efnum en einu vísindamennirnir sem sett hafa fram efasemdir um að hlýnun loftslags væri af mannavöldum reyndust vera á mála hjá fyrirtækinu.

Það var í slíkar niðurstöður sem Illugi Gunnarsson, (hægri grænt) þingmannsefni Sjálfstæðisflokksins vitnaði í fyrir tæpu ári í Silfri Egils þegar hann tíundaði efasemdir sínar um að loftslagsbreytingar væru af manna völdum. Þær skoðanir voru og eru enn í fullu gildi á meðal hans og félaga hans á www.andriki.is en á meðal þeirra félaga er annað þingmannsefni Sjálfstæðismanna, Sigríður Andersen og þingmaður Sjálfstæðismanna Sigurður Kári.

Þann 16. júní 2004 var þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sérstakur gestur American Enterprice Institute. Það er freistandi að ímynda sér hvaðan þingmannsefni Sjálfstæðisflokksins hafa hugmyndir sínar í þessu efni þegar hafðar eru í huga skoðanir foringja þeirra (og yfirmanns Illuga) til skamms tíma en algjöran samhljóm er að finna í skoðunum Davíðs Oddssonar og vinar hans Bush Bandaríkjaforseta - þar til fyrir skemmstu að Bush beygði af leið. 

Það er langt síðan Samfylkingin setti loftslagsmál á dagskrá innan flokks og með tillögum á Alþingi. Rannveig Guðmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Mörður Árnason og fleiri innan Samfylkingarinnar hafa mjög látið loftslagsmál til sín taka í ræðu og riti.

Í Morgunblaðinu í gær var grein eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, þar sem hún gagnrýndi harðlega stefnu- og áhugaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Jafnframt benti hún á þá skýru stefnu sem Samfylkingin hefur mótað í þessum málum í tillögum sínum, Fagra Ísland. Samfylkingin veit hvað hún vill gera í málinu.

Það er undarlegt ef fjölmiðlar ætla sér ekki að krefja íslensk stjórnvöld um stefnu í loftslagsmálum. Finnst þeim eðlilegt að sú ríkisstjórn sem setið hefur við völd sl. 12 ár hafi ekki minnstu hugmynd um það hvernig Ísland á að standa að lausn þessa gríðarlega hnattræna vandamáls sem þjóð á meðal þjóða? Sama ríkisstjórn og telur sig eiga erindi í Öryggisráð SÞ!

Eru fjölmiðlar áhugalausir um málið rétt eins og ríkisstjórnin?

 


mbl.is Hlýnun andrúmsloftsins mun gerbreyta jörðinni á 100 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir eiga að borga sem menga

Ég hef áður skrifað um strætó og svifryksmengun á þessari síðu. 

Það er gott að umhverfisráðherra skuli loksins ætla að gefa eftir vsk á strætó. Fyrr mátti vera! Það er líka gott að fólk á Akureyri fær ókeypis í strætó. Ég var farinn að óttast að sá fallegi bær myndi verða einkabílavæðingunni að bráð en nú sé ég að þarna getur hæglega myndast fallegur þéttbyggður kjarni þar sem allt er í raun innan göngu og strætófæris.

Við í Reykjavík ættum að taka okkur þetta til fyrirmyndar. Því miður virðist það ekki endilega vera í kortunum því það er nýbúið að hækka strætógjöldin í Reykjavík og nágrenni. Formaður Umhverfisráðs sagði reyndar að það hefði engin áhrif á farþegafjölda sem er einhver ný útfærsla á lögmálinu um framboð og eftirspurn. Ég er ekki viss um að samflokksfólk hans sem stýrir Akureyri ásamt Samfylkingunni sé sammála honum.

Við eigum að hverfa frá þessum ægilega einkabílisma. Það er ekkert sjálfsagt að þróa borgina út frá einkabílnum í stað þess að miða við öflugar almenningssamgöngur og góða reiðhjóla- og göngustíga. Ég hef yfirleitt ferðast á hjóli til og frá vinnu undanfarin 15 ár og 360 daga ársins er það ekkert mál. Þvert á móti þá er það eiginlega lúxus.

Í stað þess að vera útúrstressaður á leið í vinnu köldum bíl fær maður korters hóflega áreynslu, súrefni í kroppinn og mætir hress. Í stað þess að rjúka úttaugaður úr vinnunni í lok dags út í umferð þar sem allir eru að reyna að koma sér heim í einu, þá stígur maður á hjólið og uppgötvar eftir nokkur hundruð metra að allt sem maður var að stressa sig á í vinnunni skiptir í raun engu máli. Maður kemur sæll og glaður heim.

Ég held að ef borgin ætti að sjá um heilbrigðisþjónustu íbúanna að fullu þá myndum við sjá hagkvæmnina í að draga úr notkun einkabílsins. Hann er eins og flest annað - óhollur í óhófi.


mbl.is Vilja lækka gjöld á ónegldum hjólbörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósætti innan Sjálfstæðisflokksins með "blekkingarleiðina"

Kjartan Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur boðað stríð við samgönguráðherra síns eigin flokks, Sturlu Böðvarsson, verði ekki af tafarlausri tvöföldun Suðurlandsvegar.

Björgvin G Sigurðsson, sem hefur barist fyrir bættu umferðaröryggi á Suðurlandsvegi, krafði ráðherrann svara á Alþingi í dag um það hvað tefur Samgönguáætlun. Hann kallaði feluleik ráðherra og loðin svör um málið "blekkingarleiðina" í hádegisfréttum Rúv í dag.

Ætli það sé ósætti Sjálfstæðismanna sem veldur töfunum? Í stað þess þarna taki sáttahönd í hjálparhönd í þessu mikilvæga máli er bara hver höndin upp á móti annarri og ekkert gerist!
Þetta er alveg handónýtur flokkur!


Silence is golden

Snarpar umræður urðu á Alþingi í morgun um samgönguáætlun. Á visi.is segir m.a. þetta:

Björgvin G Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi vildi að samgönguráðherra svaraði því hvort til stæði að bæta Suðurlandsveg með s.k. 2+1 leið eða 2+2 leið.

Björgvin sagði misvísandi fréttir berast innan úr stjórnarflokkunum um það hvor leiðin verði farin varðandi Suðurlandsveg. Beitt væri brellum til að láta líta út fyrir að tvöfalda ætti veginn en það ætti að gerast á tíu árum.

Valdimar Leó Friðrikssyni þingmanni Frjálslynda flokksins var heitt í hamsi í umræðunni. Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins greip fram í fyrir Valdimar í ræðustóli og spurði þingmanninn hvenær hann hefði fengið áhuga á Suðurlandsvegi. Þá spurði Valdimar Sigurð hvort hann gerði sér ekki grein fyrir því að Suðurlandsvegur væri dauðagildra og spurði svo hvort hann væri ekki kominn með bílprófið aftur.

Mig grunar hvaða lag Sigurður Kári er með á heilanum þessa stundina. Silence is golden.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband