Klofningur innan Sjálfstæðisflokksins?

Mér fannst alveg frábært að heyra í fyrrverandi umhverfisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sigríði Önnu Þórðardóttur, í umræðum um loftslagsmál og virkjanir. Það er mun meiri reisn yfir henni en núverandi Umhverfisráðherra sem telur frekari stóriðju á Íslandi vera hluta af lausninni á gróðurhúsavandanum. Að ekki sé minnst á Iðnaðarráðherra sem telur sig vera búinn að finna sátt í deilum um náttúruvernd og stóriðju.

Sigríður AnnaEn hvað sagði Sigríður Anna? Hún sagði m.a. að það væri brýnt að ljúka vinnu við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og stórefla rannsóknir á náttúrulandsins. Allar ákvarðanir um virkjanir þurfa að byggja á bestu fáanlegu þekkingu og upplýstri umræðu, ekkert liggi á og orkuverð eigi áfram eftir að hækka.

En hvað sagði formaður hennar og forsætisráðherra deginum áður í Silfri Egils? Hann sagðist afdráttarlaust styðja stækkun álversins í Hafnarfirði og að hann gæti vel hugsað sér að á næstu árum yrðu byggð 3 álver!

Hvar er hinn meinti samhljómur Sjálfstæðismanna? Þetta eru býsna ómstríð skilaboð til kjósenda. Eru Sjálfstæðismenn kannski að missa tökin á þeim sem í alvöru skilja hvað grænu málin ganga út á? Verður Sigríður Anna púuð niður á Landsfundi Sjálfstæðismanna eins og hefð er fyrir að gera við náttúruverndarfólk í þeim flokki?

Verður hún kannski farin áður? Gengin í lið með Ómari Ragnarssyni, Margréti Sverris, Guðrúnu Péturs og Katrínu Fjelsteð? Það væri ekki í fyrsta skipti sem Sjálfstæðiflokkurinn klofnar.


Ég skal gefa þér gull í skó...

Það er alveg frábært að sjá Sjálfstæðisflokkinn auglýsa stórátak í samgöngumálum eina ferðina enn. Fólk og fjölmiðlar eru orðin svo hvekkt á brellunni að í hvert einasta skipti sem fjallað er um átakið láta fjölmiðlar þess getið að svona átak hafi verið boðað oft áður - en ekki staðið við það.

Það er gaman að skoða hve miklir peningar hafa verið eyrnamerktir samgöngum á fjárlögum undanfarin ár. Það má sjá á súluritinu hér að neðan. Grænu súlurnar eru kosningaár - þá er lofað!
Að vísu er aldrei staðið við allt sem sett er á fjárlög en það er önnur saga.

samgönguáætlun

Þarna er skemmtilegt mynstur. Alltaf á kosningaári er látið líta út á fyrir að nú eigi að fara í stóra átakið. Þannig er það ´95 en svo er dregið saman þangað til aftur kemur kosningaár. Eftir það er haldið í horfinu (verið að saxa á gamlar frestanir) og svo ´03 kemur aftur kosningaár og glæsileg loforð. En strax á 1. ári kjörtímabilsins er aftur dregið saman og enn á næsta og þarnæsta ári þar til núna að framlag á fjárlögum rýkur upp rétt fyrir kosningar. Eina ferðina enn.

Af því það er svo oft búið að leika sama leikinn þarf að bæta í loforðapakkann í hvert skipti sem hann er endurtekinn. Þess vegna er núna boðað meira en 300 milljarða átak á næstu þremur árum.

Það er reyndar full þörf á slíku átaki. Enda hefur formaður Samfylkingarinnar rætt um slíkt átak sem nauðsynlegan þátt í að bæta samkeppnishæfni landsbyggðarinnar. Samfylkingin telur nefnilega að bættar samgöngur séu það sem mestu máli skiptir í þeim efnum. Að stytta vegalengdir, auka öryggi, stækka atvinnusvæði og auka þar með möguleika fólks á atvinnu, námi og þjónustu. Samgöngumál eru í raun velferðarmál - sjálfsagður hluti af innviðum samfélagsins. Ekki stolin gulrót til að veifa framan í kjósendur korteri fyrir kosningar og stinga svo í vasann.

Það ættu að vera til peningar fyrir samgönguátakinu. Það má glöggt sjá á næstu mynd. Tekur af ökutækjum hafa stóraukist ár frá ári á sama tíma og framlög til samgöngumála hafa dregist saman.

tekjur af umferð

Fyrir utan langa hefð fyrir því að svíkja samgönguloforð hafa Sjálfstæðismenn eina góða afsökun eins og ástand efnahagsmála er núna. Þenslan sem stjórnvöld hafa skapað gerir það að verkum að það er ekki rými í efnahagslífinu fyrir mörg hundruð milljarða fjárfestingu í samgöngum.

Þeir sem hafa enn einu sinni látið vekja vonir sínar ættu því að hugleiða hvort Sjálfstæðismenn munu láta ganga fyrir - álverin þrjú sem Geir Haarde boðaði í Silfri Egils í gær - eða samgöngulummuna.

Ef þú giftist, ef þú bara giftist...

 


mbl.is Ráðist í breikkun Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar út frá Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvenfyrirlitning Geirs H Haarde

geirMér finnst alveg frábært að Geir H Haarde skuli loks hafa komið í leitirnar en lýst var eftir honum í Spaugstofunni á laugardaginn var. Það varð hins vegar deginum ljósara af hverju Geir hefur verið haldið í skugganum - honum er einkar lagið að stíga í alla drullupolla sem á vegi hans verða.

Það sem aftur á móti er ekki skemmtilegt, jafnvel ekki þótt maður sé mótherji hans í pólitík, er hin klúra kvenfyrirlitning sem aftur og aftur skýtur upp kollinum hjá formanni Sjálfstæðisflokksins.

Allir muna ummæli hans um að maður geti ekki alltaf farið heim með sætustu stelpuna á ballinu - en það má finna aðra sem gerir sama gagn! Þetta voru klúr orð en margir voru þó til í að fyrirgefa þessum bangsalega kalli að hafa misst upp úr sér misheppnaðan karlpungabrandara.

Ummæli hans í Silfri Egils í gær eru hins vegar ófyrirgefanleg. Þar sagði Geir Haarde orðrétt um konurnar sem urðu barnshafandi eftir misnotkun af hálfu starfsmanna Byrgisins: "Auðvitað er ekki hægt að fullyrða að þessar stúlkur hefðu ekki orðið barnshafandi hvort eð er..."

Hvað er eiginlega að gerast í hugarheimi manns sem talar svona?

Ummælin lýsa ekki bara algjöru virðingarleysi gagnvart skjólstæðingum Byrgisins sem máttu þola kynferðislega misnotkun af hálfu þeirra sem áttu að veita þeim vernd og skjól. Þau lýsa líka algjörri afneitun forsætisráðherrans á ábyrgð stjórnvalda gagnvart þessum konum og börnum þeirra.

Ef nokkur arða af sómatilfinningu er til í þessum karli hlýtur hann að biðja konurnar afsökunar á ummælum sínum. Honum og ríkisstjórninni væri líka sæmst að axla ábyrgð á því að hafa brugðist eftirlitsskyldu sinni í stað þess að benda fingrinum á alla aðra sem ekki höfðu aðgang að trúnaðarupplýsingum. Svona hagar maður sér ekki.


Ofbeldi stóriðjustefnunnar mótmælt

þjórsáÞað var sannarlega frábær stemning á fundi náttúruverndarfólks í Árnesi í dag en þar komu saman um 400 manns til að mótmæla fyrirhuguðum virkjunum Landsvirkjunar í Þjórsá. Það er með ólíkindum að hið opinbera fyrirtæki Landsvirkjun ætli nú að fara með ofbeldi gegn íbúum og landeigendum við Þjórsá.

Ofbeldið er ískyggilegt og áþreifanlegt. Landsvirkjun hefur þegar hafið vinnu við virkjanir án þess að hafa samið við landeigendur um bætur fyrir eignarlönd þeirra og heimili sem sökkva á undir jökulvatn til að búa til stóriðjurafmagn. Full valdshroka ætlar Landsvirkjun að taka þessar eignir fólksins eignarnámi. Það er óþarfi að semja, óþarfi að leita sátta - hér fara þeir sem valdið hafa og bera fyrir sig brýnum þjóðarhag.

Hvaða brýnu almannahagsmunir krefjast þess að slíku ofbeldi sé beitt?

Þessi staða opinberar skammsýni stjórnvalda á mörgum sviðum. Eina stefna þeirra virðist vera að firra sig ábyrgð. Stóriðjustefnan er gott dæmi um það, ríkisstjórnin segir með annarri tungunni ekki koma nálægt málinu en með hinni að nauðsynlegt sé að halda áfram að nýta náttúruauðlindirnar til hagsbóta fyrir land og lýð.  

En stjórnvöld hafa líka firrt sig ábyrgð á skipulagsmálum, hafa sett allt vald á hendur sveitastjórnum sem vegna fjandsamlegrar landsbyggðarstefnu stjórnvalda eru ofurseld orku- og álfyrirtækjum sem lofa gulli og gráum störfum.

Þriðja og nýjasta útspil stjórnvalda í firringarstefnunni er að firra sig ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda en frumvarpið sem umhverfisráðherra boðar segir í stuttu máli: Við leyfum hverjum sem er að koma og menga eins mikið og þurfa þykir - en fyrirtækin þurfa að útvega sér mengunarkvóta sjálf. Að Ísland uppfylli skilyrði Kyoto bókunarinnar er sem sagt á ábyrgð álfyrirtækjanna en ekki ríkisstjórnar Íslands.

Í Árnesi í dag mótmæltu um 400 manns þessari firrtu firringar- og ofbeldisstefnu stjórnvalda. Fólk hefur fengið sig fullsatt af yfirganginum og skammsýninni. Það er kominn tími til að skipta.


mbl.is Troðfullt í Árnesi á fundi gegn virkjunum neðri hluta Þjórsár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin tekur flugið

Mér finnst alveg frábært að lesa blogg þeirra í dag sem mest tjáðu sig um fallandi gengi Samfylkingarinnar eftir síðustu könnun Fréttablaðsins og Blaðsins. Björn Ingi Hrafnsson bloggar undir fyrirsögninni "Vinstri sveifla eða augljós skekkja" og veltir fyrir sér hvaða einstaki atburður hafi orðið til þess að gefa þessa niðurstöðu. Það var annað hljóð í honum um daginn.

Ég held að það hafi ekki verið neitt eitt sem orskar uppsveiflu Samfylkingar - ekki frekar en að einhver einn atburður hafi dregið svona alvarlega úr fylgi Framsóknar (og Sjálfstæðisflokksins). Það vakti að vísu athygli mína að Björn Ingi mætti í átakið "hreyfing fyrir alla" á blankskóm sem er ekki sérlega pró, en ég held að vantraust þjóðarinnar á Framsókn sé ekki bara því að kenna.

Ég held að þjóðin sé að átta sig á að ef það eiga að verða breytingar á stjórn landsins þá verður Samfylkingin að vera sterk. Samfylkingin hefur unnið heimavinnuna sína vel, líklega betur en nokkur annar flokkur. Góð dæmi um það eru Fagra Ísland, þar sem bent er á farsæla sáttaleið sem gefur engan afslátt af umhverfssjónarmiðum, og Nýja Atvinnulífið, tillögur Samfylkingarinnar um uppbyggingu nýju atvinnugreinanna. Þrjár þeirra sendi Samfylkingin í samkeppni stjórnmálaflokkanna á Sprotaþingi á dögunum - þær unnu 1. 2. og 3. sæti.

Það er heldur ekki ólíklegt að almenningur hafi tekið eftir frumkvæði Samfylkingarinnar til hjálpar þeim sem eiga um sárt að binda vegna vistar sinnar í Breiðavík og í Byrginu. Þegar kemur að umræðu um Byrgið er jafnframt ljóst að málið er Framsókn mjög erfitt - og reyndar Sjálfstæðisflokki líka. Upplýsingum sem stjórnarliðar höfðu undir höndum og hefðu átt að fá þá til að taka í taumana var stungið undir stól. Það eru ekki öll kurl komin til grafar í Byrgismálinu og nauðsynlegt að stjórnvöld verði látin axla ábyrgð sína í málinu. Mestu máli skiptir þó að konunum sem urðu fyrir misnotkun í Byrginu, og börnum þeirra, verði veitt hjálp strax.

Samfylkingin á mikið inni, flokkurinn hefur unnið gott starf í málefnum aldraðra og málefnum neytenda svo tvö stór mál séu nefnd. Í báðum þessum málum hafa Framsókn og Sjálfstæðisflokkur staðið sig skammarlega illa. Eitt gríðarlega mikilvægt mál sem stjórnarflokkarnir hafa náð aðdáunarverðu árangursleysi í eru jafnréttismálin. Fólki er að verða ljóst að þessir flokkar hafa engan raunverulegan áhuga á takast á við þau mál. Það gerist ekkert.
Nú er hins vegar tækifæri til að fá konu í forsætisráðherrastólinn. Konu sem breytti Reykjavík úr karlpólitískum bitlingabæ í menningarborg þar sem konur réðu jafn miklu og karlar.

Það er kominn tími til að breyta.


mbl.is Fylgi Samfylkingar eykst á ný en fylgi Framsóknarflokks í lágmarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjum hausinn, verndum náttúruna

Þetta er sannarlega frábært slagorð. Það fæddist á fundi í stjórn Náttúruverndarsamtakanna fyrir rúmu ári og við létum prenta það á boli fyrir tónleika Hætta hópsins 7. janúar í fyrra. Það fangaði margt af því sem Íslendingar voru þá og eru enn að hugsa.

Fólk horfði upp á hátæknifyrirtæki á borð við Medcare Flögu flýja land út af þensluástandi og of háu gengi. Á tveimur mánuðum hurfu rúmlega 200 þekkingarstörf úr landi vegna ástands sem ríkisstjórnin hafði skapað. Annars vegar með vondri efnahagsstjórn og hins vegar með fullkomnu áhugaleysi á þörfum sprotafyrirtækja og hátækniiðnaðarins í heild.

Á sama tíma horfði fólk upp á eyðileggingu náttúru landsins og iðnaðarráðherra gerði víðreist um norðurland með eins konar ÁL-útgáfu af Bacelornum - hún fór líka til útlanda að auglýsa Ísland sem ódýra orkuparadís. Stefna ríkisstjórnarinnar var að virkja náttúruna og vernda hausinn. Almenningur vildi snúa því við. Framtíðarlandið vildi snúa því við.
Samfylkingin vildi það líka og hún var byrjuð.

Í maí 2005 skilaði framtíðarhópur um Atvinnulíf, nýsköpun og hagvöxt af sér mjög metnaðarfullri úttekt á stöðunni og tillögum um það hvernig hægt er að gera gott atvinnulíf enn betra og sterkara. Samfylkingin hefur fylgst vel með því sem Samtök Iðnaðarins, Samtök sprotafyrirtækja, Samtök Upplýsingatæknifyrirtækja og fleiri aðilar hafa verið að gera.

Það er frábær vinna og Samfylkingin hefur nýtt sér hana vel. Á þeirri vinnu byggjast tillögur Samfylkingarinnar um það hvernig má fjölga vaxtarsprotum í hátækni- þekkingar og sköpunargeiranum og bæta vaxtarumhverfi sprotafyrirtækjanna. Nýja Atvinnulífið.

Þrjár af þessum tillögum kepptu við 10 aðrar tillögur hinna stórnmálaflokkanna á Sprotaþingi fyrir viku. Þær lentu í 1., 2. og 3. sæti yfir þær tillögur sem þátttakendur Sprotaþings töldu að myndu mest gagn gera. Þessum tillögum, og fleirum á sömu nótum, mun Samfylkingin hrinda í framkvæmd strax og færi gefst. Samfylkingin vill virkja hausinn.

2004 skilaði fyrri Framtíðarhópur í umhverfismálum tillögum sínum. Vinna síðari Framtíðarhóps um umhverfismál verður formlega kynnt á Landsfundi í vor en helstu atriði hennar má finna í stefnu og tillögum þingflokksins, Fagra Ísland. Þær tillögur ganga út á að kortleggja verðmæt svæði landsins, tryggja verndun þeirra og láta þá útkomu ráða framtíðarskipulagi landsins.
Samfylkingin vill vernda náttúruna.

Framtíðarlandið ákvað í gær að vera áfram þrýstiafl á stjórnmálaflokkana. Það veitir ekki af því. Það er ekki nóg að einn maður skrifi eina eða tvær greinar og setji í fyrirsögn töfraorð eins og Hægri grænt. Það verður fyrst að skapa það sem er að baki hugtakinu. Það hefur Sjálfstæðisflokkurinn enn ekki gert - og virðist ekki ætla að gera.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tvo og hálfan mánuð fram að Landsfundi til að sýna að flokkurinn vill virkja hausinn og vernda náttúruna. Nema flokknum finnist slagorðið ennþá vera betra hinsegin.


Þverpólitískt hreyfiafl

Mér finnst alveg frábært að Framtíðarlandið hafi boðað til atkvæðagreiðslu um hvort bjóða ætti fram í nafni hreyfingarinnar eða ekki. Það var lýðræðislegt. Það var líka rétt af þeim sem óskuðu eftir umboði að setja aukinn meirihluta sem skilyrði fyrir framboði. Hér var um of stórt mál að ræða til að einfaldur meiri hluti gæti ráðið.

Reynir Harðarson flutti ágætt erindi um kosti og galla þess að breyta Framtíðarlandinu úr öflugum grasrótarsamtökum í framboðslista. Erindi Reynis var málefnalegt og sanngjarnt í garð beggja sjónarmiða. Það var ljóst að ekki er bæði sleppt og haldið. Hans sjónarmið var skýrt - hann er hægra megin við miðju og vill grænt framboð á þeim vettvangi.

Mér finnst að Framtíðarlandið ætti strax á morgun að boða til kosninga um stjórn og setja lög félagsins. Það er alveg réttmæt gagnrýni að enn skuli þetta ekki hafa verið gert. Umboðslaus stjórn dregur úr trúverðugleika samtakanna og þeirra sem tala fyrir þeirra hönd. Það er óþarfi. Samtökin hafa of mikið til að bera til að láta slíkt formsatriði skemma fyrir sjálfu sér og málefnum sínum.

Þegar búið er að kjósa stjórn geta þeir félagsmenn í Framtíðarlandinu sem vilja fara í framboð, ekki síst ef það er "hægri grænt" framboð sem mikil þörf er á. Það væri sjálfsagt að fagna slíku framboði. Ég lít svo á að með því væri einfaldlega hægri vængurinn að leggjast á árarnar með okkur á miðjunni og vinstra megin við miðju.

Þeir sem ákveða að stíga slíkt skref geta hins vegar ekki að mínu áliti setið í stjórn Framtíðarlandsins. Ekki ef við viljum að það haldi áfram að vera þetta breiða þverpólitíska hreyfiafl.

Sem er svo frábært.


mbl.is Fellt á fundi Framtíðarlandsins að bjóða fram til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðarlandið

Mér finnst alveg frábært að það séu til samtök á borð við Framtíðarlandið - þverpólitísk samtök um náttúru- og umhverfisvernd sem hafa það markmið að vera stjórnvöldum aðhald, hvatning og hugmyndaveita í þessum málum.

Þetta finnst greinilega fleirum en mér því þegar samtökin voru stofnuð skráðu tæplega 3000 manns sig sem félaga. Margt af því fólki er virkt í starfi stjórnmálaflokka, einmitt af áhuga fyrir því að koma náttúruverndarmálum áleiðis á vettvangi stjórnmálanna. Þetta fólk mun ekki sætta sig við að Framtíðarlandið bjóði fram í Alþingiskosningum. Það get ég vel skilið enda er þar með orðinn trúnaðarbrestur á milli þessa fólks og Framtíðarlandsins.

Ef boðið verður fram í nafni Framtíðarlandsins til Alþingis mun það eyðileggja Framtíðarlandið sem öflug grasrótarsamtök. Það væri mikill skaði því 3000 manna samtök sem búa að mörgum af öflugustu hugsuðum landsins verða ekki gripin upp af götunni.

Ef leiðandi aðilar í Framtíðarlandinu (því enn hefur ekki verið kosin stjórn) ákveða að bjóða sig fram undir eigin merkjum eru viðkomandi aðilar sömuleiðis búnir að rjúfa trúnað við Framtíðarlandið og geta ekki að mínu mati leitt samtökin.

Sumir líta svo á að þessir aðilar hafi þegar rofið trúnað við þá fjöldahreyfingu sem fólk hélt sig vera að ganga til liðs við þegar þeir skráðu sig í Framtíðarlandið. Ástæðurnar eru nokkrar t.d. sú að byrjað var að undirbúa framboð fyrir 10 mánuðum eða um 2 og 1/2 mánuði áður en efnt var til stofnfundar. Einnig að enn hefur ekki verið kjörin stjórn þrátt fyrir áskoranir félagsmanna.

Íslensk stjórnmál hafa þörf fyrir hugmyndaveitu, hvatningu og aðhald. Þess vegna væri kvöldinu í kvöld best varið í að setja lög og kjósa stjórn Framtíðarlandsins.

Það væri alveg frábært!


Mér finnst alveg frábært að...

... það skuli vera nóg til af vel menntuðu eldkláru fólki sem er tilbúið að leggja á sig ómælt erfiði við að rannsaka, þróa og koma á framfæri nýjum hlutum, nýrri þekkingu og þjónustu.

Hinar skapandi greinar, hátækni, þekkingargreinar, hönnunar- og listgreinar eru helstu vaxtarsprotar atvinnulífsins á Vesturlöndum. Við höfum allt til þess að standa okkur vel á þessu sviði - nema gott umhverfi fyrir sprotafyrirtæki.

Því viljum við breyta og munum hefjast handa strax eftir kosningar.
Það er forgangsverkefni í atvinnumálum.

Sem er gott.


mbl.is Samfylkingin vill huga að nýsköpun og styðja sprotafyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér finnst alveg frábært að eiga sterkar konur

Sumir karlar eru hræddir við sterkar konur. Ekki ég. Sterkar konur eru öðru fremur lán mitt í lífinu. Eitt sumar deildi ég skrifstofu með 30 kvenna hópi í Handverkshópnum Bolla í Búðardal. Það var frábær tími. Ég held að það þurfi að fækka hræddum körlum og fjölga sterkum konum í stjórnmálum. Við þurfum sjónarmið beggja kynja. Það er ekki nóg að segja það - það þarf að gera það.

Þess vegna finnst mér frábært að lesa pistlana á www.truno.blog.is - þar eru sterkar konur á ferð. Oddný Sturludóttir skrifar þar skemmtilegan pistil þar sem m.a. þetta kemur fram:

Í fyrsta sinn í sögu Íslands eygjum við þann möguleika að kona setjist í stól forsætisráðherra. Sú kona hefur staðið vaktina í jafnréttismálum frá því hún hóf afskipti af stjórnmálum fyrir 25 árum.
Sú kona var í hópi fyrstu borgarfulltrúa Kvennaframboðsins og þingkona Kvennalistans.

Hún leiddi sameinaða vinstrimenn í Reykjavíkurlistanum til þriggja glæstra kosningasigra og stjórnaði borginni farsællega. Á þeim tíma náði hún aðdáunarverðum árangri í jafnréttismálum sem vakið hefur athygli út fyrir landsteinana.


Launamunur kynjanna minnkaði um helming hjá Reykjavíkurborg en kynbundinn launamunur hefur staðið í stað í 16 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins.


Í borgarstjóratíð hennar urðu konur helmingur æðstu stjórnenda og sama leik ætlar Samfylkingin að leika á landsvísu komist hún í ríkisstjórn. Jafnréttismálin verða færð til forsætisráðuneytis og fléttuð samviskusamlega við allar ákvarðanir sem teknar verða á þjóðarskútunni – þar sem kona stendur í brúnni. 

 

Ingibjörg Sólrún hefur alla tíð verið hörð baráttukona gegn ofbeldi mót konum, hún gerði út af við biðlista á leikskóla í Reykjavík og setti afnám launaleyndar á dagskrá í íslenskum stjórnmálum, fyrst allra.


Margfeldisáhrif baráttukvenna í valdastöðum eru gríðarleg, fyrirmyndin sem þær eru öðrum konum og telpum ómetanleg. Sögulegt tækifæri er framundan og nú er lag að standa saman og styðja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til áframhaldandi góðra verka.

Sem sagt - gott!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband