Mér finnst alveg frábært að eiga sterkar konur

Sumir karlar eru hræddir við sterkar konur. Ekki ég. Sterkar konur eru öðru fremur lán mitt í lífinu. Eitt sumar deildi ég skrifstofu með 30 kvenna hópi í Handverkshópnum Bolla í Búðardal. Það var frábær tími. Ég held að það þurfi að fækka hræddum körlum og fjölga sterkum konum í stjórnmálum. Við þurfum sjónarmið beggja kynja. Það er ekki nóg að segja það - það þarf að gera það.

Þess vegna finnst mér frábært að lesa pistlana á www.truno.blog.is - þar eru sterkar konur á ferð. Oddný Sturludóttir skrifar þar skemmtilegan pistil þar sem m.a. þetta kemur fram:

Í fyrsta sinn í sögu Íslands eygjum við þann möguleika að kona setjist í stól forsætisráðherra. Sú kona hefur staðið vaktina í jafnréttismálum frá því hún hóf afskipti af stjórnmálum fyrir 25 árum.
Sú kona var í hópi fyrstu borgarfulltrúa Kvennaframboðsins og þingkona Kvennalistans.

Hún leiddi sameinaða vinstrimenn í Reykjavíkurlistanum til þriggja glæstra kosningasigra og stjórnaði borginni farsællega. Á þeim tíma náði hún aðdáunarverðum árangri í jafnréttismálum sem vakið hefur athygli út fyrir landsteinana.


Launamunur kynjanna minnkaði um helming hjá Reykjavíkurborg en kynbundinn launamunur hefur staðið í stað í 16 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins.


Í borgarstjóratíð hennar urðu konur helmingur æðstu stjórnenda og sama leik ætlar Samfylkingin að leika á landsvísu komist hún í ríkisstjórn. Jafnréttismálin verða færð til forsætisráðuneytis og fléttuð samviskusamlega við allar ákvarðanir sem teknar verða á þjóðarskútunni – þar sem kona stendur í brúnni. 

 

Ingibjörg Sólrún hefur alla tíð verið hörð baráttukona gegn ofbeldi mót konum, hún gerði út af við biðlista á leikskóla í Reykjavík og setti afnám launaleyndar á dagskrá í íslenskum stjórnmálum, fyrst allra.


Margfeldisáhrif baráttukvenna í valdastöðum eru gríðarleg, fyrirmyndin sem þær eru öðrum konum og telpum ómetanleg. Sögulegt tækifæri er framundan og nú er lag að standa saman og styðja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til áframhaldandi góðra verka.

Sem sagt - gott!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband