Þverpólitísk andstaða kom í veg fyrir klámráðstefnuna

Mér finnst alveg frábært að þverpólitísk andstaða gegn klámi hafi hrakið klámhundana á brott. Það var mikið rætt um að fólkið hefði ekki brotið nein lög og e.t.v. er öll þeirra starfsemi lögleg þar sem hún fer fram. Hún er það hins vegar ekki hér og framsetning "söluvörunnar" er ekki geðfelld svo vægt sé til orða tekið.

Margir hafa tjáð sig um það á blogginu að það sé smáborgaralegt að beita sér gegn ákveðnum hópum gesta hingað til lands. Það er hins vegar útúrsnúningur, hér er um að ræða ráðstefnu iðnaðar sem misbýður siðferðiskennd meirihluta þjóðarinnar (fullyrðing) og mér finnst það ákveðinn móralskur sigur að einstaklingar, félagasamtök, stjórnmálafólk og Hótel Saga skuli hafa afstýrt heimsókn þessa hóps.

Svo er spurningin hvað á að gera varðandi klám í landinu almennt. Það mætti líka gjarna taka umræðuna skrefinu lengra og ræða hvort það geti verið að við höfum gleymt að kenna börnunum okkar kynfræðslu, sérstaklega strákunum. Hvað mótar viðhorf þeirra til kynlífs öðru fremur? Eru það djúpar samræður og lærðar greinar um tilfinningalega nánd eða er það klám og stórkallalegur hópþrýstingur vinahópsins? Hvert leiðir það þá? Þurfum við ekki að ræða það?


mbl.is Hætt við klámráðstefnu hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkominn í hópinn!

reynirharðarsoniccpMér finnst alveg frábært að Reynir Harðarson í CCP skuli ætla að leggjast á árar með okkur í Samfylkingunni í baráttu fyrir náttúruvernd og nýrri hugsun í atvinnulífinu. Mér finnst ekki síður frábært af hverju hann ætlar að gera það en í stuttri frétt um þetta í Mbl. í dag er haft eftir Reyni:

"Það er margt, nýtt, ungt og flott fólk í flokknum, með ferskar hugmyndir sem ég sé ekki hjá hinum flokkunum og sérstaklega ekki hjá mínum fyrrverandi flokki Sjálfstæðisflokknum." Hann nefnir vilja til að búa ungum fyrirtækjum hagstæðari skilyrði og "sterkari framtíðarsýn, sérstaklega í grænu málunum. Fagra Ísland þarf að ná fram að ganga."

Þarna vísar Reynir í það sem Samfylkingin hefur kallað "Nýja atvinnulífið" sem er eins konar rammi utan um einar 10-12 tillögur Samfylkingarinnar til að bæta vaxtarskilyrði sprotafyrirtækja allt frá hugmyndarstigi til öflugs útrásarfyrirtækis eins og t.d. CCP. Þar á meðal eru m.a. þær þrjár tillögur sem hirtu 1. 2. og 3. verðlaun á Sprotaþingi Samtaka Iðnaðarins um daginn fyrir framan nefið á Sjálfstæðismönnum eins og reyndar Vg, Framsókn og Frjálslyndum.

Reynir talar einnig um sterka framtíðarsýn í grænu málunum og nefnir Fagra Ísland í því sambandi. Þetta eru ekki lítil meðmæli frá einum af helstu forystumönnum Framtíðarlandsins. Hann segir að Fagra Ísland verði að ná fram að ganga og er reiðubúinn að leggja sína krafta á vogarskálarnar til að svo megi verða. Hann sér að í Fagra Íslandi er ekki bara skýr afstaða heldur líka skýrt mótaðar tillögur um það hvernig er hægt að mynda breiða sátt um náttúruvernd.

Það er áhugavert að Reynir telur sinn gamla flokk, Sjálfstæðisflokkinn, ekki lengur búa yfir þeim krafti og fersku hugmyndum sem honum finnst vanta í stjórnmálin. Þetta finnur hann hins vegar hjá Samfylkingunni. Þetta sýnir að hugmyndir Samfylkingarinnar, sem hefur skilgreint sig á miðju stjórnmálanna, eiga fulla samleið með hugmyndum hófsamra hægrimanna.

Í flestum málum er þetta auðvitað fyrst og fremst spurning um heilbrigða skynsemi og á henni byggjast tillögur Samfylkingarinnar öðru fremur. Líklega er það svo með heilbrigða skynsemi, líkt og sagt hefur verið um peningana, hún safnast þangað sem hún er fyrir. Velkominn í hópinn Reynir!


Allir sammála

landslag006Mér fannst alveg frábært að í Silfri Egils í gær skyldi Forseti Íslands vera okkur í Samfylkingunni sammála um hverng á að taka á náttúruverndarmálunum. Hann er svo sem ekkert einn um það, Vg, Framtíðarlandið og Ómar Ragnarsson eru það líka og m.a.s. fólk úr Framsókn og Sjálfstæðisflokki hafa lýst sig sammála tillögum Samfylkingarinnar í grunnatriðum. Það er góð tilfinning. Vonandi veit það á gott.

Við höfum einstakt tækifæri til að ná breiðri samstöðu um náttúruverndarmálin í kosningunum í vor. Það þarf að kæla hagkerfið, huga að uppbyggingu annarra greina og efla samgöngur.

Því ættu allir að geta fallist á að nú verði staldrað við, náttúra landsins alls rannsökuð, verndun verðmætra svæða tryggð og útkoman lögð til grundvallar nýju landsskipulagi. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir er hægt að ræða hvar má skipuleggja mannvirki af ýmsu tagi - utan þessa nets verndarsvæða.

Út á þetta gengur Fagra Ísland Samfylkingarinnar með sinni Rammaáætlun um náttúruvernd. Að rannsaka, friða og skipuleggja út frá þeirri niðurstöðu. Það er skynsamleg og öfgalaus tillaga sem gefur engan afslátt af náttúruverndarsjónarmiðum en flestir ef ekki allir eiga þó að geta fallist á.

Það er ekki síst þetta síðasta atriði sem skiptir máli - við þurfum tillögu sem hægt er að ná samstöðu um. Tillaga sem ekki næst breið sátt um er gagnslaus. Náttúru Íslands er enginn greiði gerður með tillögum sem eru svo öfgafullar að það næst ekki samstaða um þær - þær eru bara ávísun á ófrið sem klýfur þjóðina í tvennt og áframhaldandi píslarvætti náttúrunnar.

Látum það ekki gerast eina ferðina enn. Tökum höndum saman um skynsamlega leið til að leysa þetta stærsta ágreiningsmál þjóðarinnar.

Byrjum á að rannsaka náttúru landsins, tryggja friðun verðmætra svæða og festa þá niðurstöðu í landsskipulag. Svo má tala saman um framhaldið. Ég er bjartsýnn á að meirihluti landsmanna geti fúslega fallist á það. Það væri alveg frábært.


Góðar vendingar í pólitíkinni

Ríkisstjórnin klofin í hvalveiðimálinu
Mér finnst alveg frábært að Utanríkisráðherra hafi loks ákveðið að standa með ímynd landsins, ferðaþjónustu og útflutningsaðilum og taka afstöðu gegn pólitískum hvalveiðum sjávarútvegsráðherra.

Ákvörðun sjávarútvegsráðherra var vanhugsuð og ábyrgðarlaus tilraun til að slá pólitískar keilur - hann hafði undir höndum viðhorfskönnun sem sýndi að meirihluti þjóðarinnar var hlynntur hvalveiðum. Hann mistúlkaði niðurstöðuna. Það sem þessi könnun sýndi í raun er að meiri hluti þjóðarinnar vill ekki láta banna sér að veiða hval. Þetta er tvennt ólíkt.

Mjög mikill samdráttur eftir mjög langan tíma
Það var líka mjög jákvætt að ríkisstjórnin skyldi loks setja fram áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Eftir mjög langan tíma ætla þau að vera búin að minnka losun mjög mikið. Það er mikil framför en ég neita því ekki að maður var nú kannski að vonast eftir tillögum um það hvað ætti að gera núna. Aðrar þjóðir eru að hugsa um það.

Núverandi ríkisstjórn á ekki langt eftir af umboði sínu og þar sem hún hefur haft langan tíma til að koma fram með tillögur veldur það nokkrum vonbrigðum að þessu mikilvæga máli skuli (eins og reyndar mörgu öðru) vera vísað á framtíðina. En engar áhyggjur, við skulum með ánægju taka þetta verkefni að okkur eftir 12. maí, rétt eins og fjölmörg önnur.

Róttækur feministi
Það var ekki síður gaman að lesa viðtalið í Sunnudagsblaði Moggans við Steingrím J. Nú þarf enginn framar að efast um feminiska afstöðu Steingríms sem er að sögn róttækur feministi, gekk í Feministafélagið fyrir mörgum árum. Hann er þá eflaust stofnfélagi því það var stofnað fyrir þremur og hálfu ári. Það er ljóst að hann mun tæpast láta fram hjá sér fara tækifæri til að gera konu að forsætisráðherra.

Eitt stakk mig í viðtalinu og það var hið úrelta viðhorf verðlaunablaðamannsins Agnesar Bragadóttur að það þurfi helst að vera hægt að éta afraksturinn af störfum fólks: "Steingrímur, þetta eru ekki frumatvinnugreinar heldur þjónusta. Heldur þú að það sé bara hægt að breyta Íslandi í eina allsherjar þjónustumiðstöð, þar sem engin verðmætasköpun og framleiðsla á sér stað?" Ég hélt að þetta væri upplýst manneskja í nútímasamfélagi.

Að ástæðulausu lét Steingrímur hana hrekja sig út í gömlu klisjurnar um "undirstöður samfélagsins" og hann fór í afsakandi upptalningu á fisk- og kjötvinnslum. Auðvitað eru það mikilvægar greinar en það er líka ferðaþjónustan, menntaþjónustan, heilbrigðisþjónustan o.s.frv. Lásu þau ekki örugglega Draumalandið?

Vel heppnaður fundur með 60+
Það var gott að enda vikuna á vel heppnuðum fundi með 60+ en hann var svo vel sóttur það það þurfti að bæta við fjölda sæta til að koma fólki fyrir. Það var sannarlega hugur í bæði gestum og stjórnmálamönnum. Ingibjörg Sólrún vísaði í verk sín í borginni en þar lyfti hún grettistaki í uppbyggingu leikskólanna og grunnskólanna, verk sem Sjálfstæðismenn í borginni höfðu vanrækt árum saman.

Hún hét því að ráðast með sama krafti í uppbyggingu á þjónustu og þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara, annað verkefni sem Sjálfstæðsmenn og Framsókn hafa sinnt skammarlega illa. Hún vitnaði í föður sinn heitinn sem taldi þvingaða sambúð fólks á elliheimilum fráleita - taldi því til sönnunar víst að ef hann sjálfur lenti í herbergi með framsóknarmanni norðan af landi þá myndi hann drepa hann.

Hinu virðulega Ríkissjónvarpi fannst þetta mikilvægasti fréttapunkturinn. Auðvitað er það frétt að trúverðugur stjórnmálaleiðtogi skuli setja þetta mikilvæga mál á oddinn. Orðfærið er skemmtilegt krydd í tilveruna.


Endurspeglar traust landsmanna á samgönguloforðum ríkisstjórnarinnar

Þessi frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 endurspeglar traust landsmanna á samgönguloforðum ríkisstjórnarinnar. Fólk er löngu búið að sjá í gegnum þetta lúna bragð sjálfstæðismanna, að lofa samgönguátaki fyrir kosningar og svíkja það svo strax að kosningum loknum.

Skólabókardæmi um margsvikin kosningaloforð

Suðurstrandarsvegur er skólabókardæmi um margsvikin kosningaloforð, segir útgerðarmaður á Suðurlandi. Bæjarstjóri Ölfuss segir ekki hægt að búa við slík svik.

Það eru 12 ár síðan fyrstu peningarnir voru lagðir í Suðurstrandarveg og rúm 3 ár síðan allir 58 kílómetrarnir milli Þorlákshafnar og Grindavíkur áttu að vera malbikaðir.

Símapeningar upp á 400 milljónir verða lagðir í Suðurstrandarveginn á næstu tveimur árum og árið 2010 bætast 140 milljónir kr. við af samgönguáætlun. En 1430 milljónirnar sem þarf til að leggja veginn alla leið verða ekki greiddar út að fullu fyrr en einhvern tímann á árunum 2015-2018. Hannes Sigurðsson starfar við bæði ferðaþjónustu og útgerð í Ölfusi. Hann segir Suðurstrandarveginn skólabókardæmi um margsvikin kosningaloforð. Þetta sé arbær vegalagning og óinnleystur samgönguhagnaður. "Þetta er ódýrt og skilar miklu."

Það eru ekki bara íbúar og fyrirtæki í Þorlákshöfn og Grindavík sem hafa hag af lagningu vegarins, segir Hannes, ýmis fyrirtæki á Austfjörðum flytji fisk á Suðurnesin og ferðaþjónustan hefði mikil not af honum.

Ein forsendan fyrir sameiningu kjördæma í Suðurkjördæmi var þessi vegur, segir bæjarstjórinn í Ölfusi og bendir á að síðan séu nærri þrjú kjörtímabil. "Ef menn fara í svona breytingar og setja fram áætlanir, og það eru engin rök fyrir því að breyta þessu, þá finnst mér ekki hægt að búa við slík svik hvað eftir annað."

Samfylkingin hefur sagt að átak í samgöngumálum sé brýnt velferðar- og öryggismál. Til að tryggja það að staðið verði við stór orð sjálfstæðismanna um samgöngumálum þarf að kjósa Samfylkinguna.


Andríku krakkarnir rassskelltir af ritstjóra Moggans

Mér finnst alveg frábært að fólk skuli koma sér upp vefsíðum til að tjá skoðanir sýnar. Þetta hafa frjálshyggjukrakkarnir á Vef-Þjóðviljanum eða Andríki eins og þau kalla það líka (klofningur?) gert. Að vísu er tæpast hægt að tala um krakkana, það eru eintómir strákar þarna núna eftir að Sigríður Andersen hætti í ritstjórn - þó það muni tæpast breyta nokkru um áherslurnar.

Ein af uppáhaldsskoðunum Andríkis er að vera á móti umhverfisvernd. Allt fram til þessa hafa frjálshyggjukrakkarnir haldið því fram að hlýnun loftslags sé ekki af manna völdum og hafa æ ofan í æ borið fyrir sig greinum vísindamanna sem uppvísir eru að því að vera á mála hjá olíufyrirtækjum.

Það er athyglisvert að bæði Sigríður Andersen og Illugi Gunnarsson (meintur hægri grænn) hafa látið í ljós þessa skoðun sína. Ekkert hefur heyrst í þeim eftir birtingu nýjustu skýrslu Sameinuðu Þjóðanna. Það væri ekki galið af þeim að láta kjósendur vita ef þau hafa skipt um skoðun. Ef þau hafa enn ekki skipt um skoðun þá er þögnin um það hins vegar skynsamleg.

Eins og allir vita hefur Morgunblaðið staðið sig með miklum sóma í umfjöllun sinni um umhverfis- og náttúruverndarmál undanfarin ár. Hvað sem um aðalritstjórann má segja verður ekki frá honum tekið að hann hefur skynjað þá grundvallarbreytingu sem er að verða á afstöðu fólks til þessara mála - einkum í hugum ungs fólks.

Ritstjórar blaðisins hafa að sama skapi sýnt jafnréttismálum, kvenfrelsi og málefnum barna mikinn áhuga og fjallað um þau mál bæði af metnaði og fagmennsku. Fyrir hvort tveggja á Morgunblaðið og ritstjórn þess mikinn heiður skilinn.

Það er því von að ritstjóranum gamalreynda renni í skap þegar "málgagn hægri manna í Sjálfstæðisflokknum" brigslar Morgunblaðinu um tilfinningaklám vegna metnaðarfullra skrifa blaðsins um þessi málefni. Í Staksteinum, sem ritstjórinn notar að öllu jöfnu til að koma höggi á sterkustu pólitíska andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, tekur hann hins vegar bæði í dag og í gær, frjálshyggjukrakkana andríku, setur yfir lær sér og lætur skella duglega á bossa.

Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu. Munu óþekktarangarnir sjá að sér, munu Illugi (meintur hægri grænn) og Sigríður Andersen viðurkenna að loftslagsbreytingar séu af manna völdum eða munu þau forherðast í ábyrgðarlausri umræðu um að umhverfismál, jafnrétti, kvenfrelsi og málefni barna séu bara væl eða eins og þau orða það svo smekklega sjálf - tilfinningaklám?

Það verður spennandi að sjá. Eitt er víst að það eru væringar á heimili hægrimanna.


Klám, íslensk náttúra og sjálfsmynd

Óþarfi að bæta miklu við það sem þegar hefur verið sagt um klámráðstefnuna sem er fyrirhuguð hér á alþjólegum baráttudegi kvenna 8. mars. Gott hjá borgarstjóra að bregðast hart við. Það mætti ríkisstjórnin gera. Eins og aðrir bloggarar hafa bent á eru fordæmi fyrir því að hart sé tekið á óæskilegu fólki sem hingað sækir.

En þá var auðvitað hætta á ferðum, um var að ræða stórhættulegan leikfimihóp með skoðanir á mannréttindabrotum. Reyndar voru Hells Angels stoppaðir líka og snúið við í Leifsstöð einhvern tímann - ef stjórnvöld hefðu bein í nefinu myndu þau endurtaka leikinn gagnvart klámhundunum.

Það myndi trúlega komast í erlendu pressuna sem væri bara gott. Við þurfum að vinna aðeins í því að bæta ímynd landsins eftir auglýsingaherferðir ákveðins flugfélags.

Það er annars gaman að velta fyrir sér hvað það er í sjálfsmynd þjóðarinnar sem fær virðulegt flugfélag til að auglýsa "fegurstu konur í heimi" sem auðfengna bólfélaga. Dálítið eins og þegar "fegursta náttúra í heimi" er auglýst sem paradís álrisanna. Cheepest Energy Prices - Fancy a Dirty Weekend? Íslensk stjórnvöld og flugfélagið sjá hvort tveggja sem ágæta söluvöru.

stigamot_hvitahusid

Ég mundi eftir veggspjaldi sem Hvíta húsið gerði fyrir Stígamót og vann IMARK verðlaunin 2002. Hringdi í Hvíta húsið og fékk leyfi til að birta það hér. Finnst það við hæfi þar sem nú lítur út fyrir að það verði haldið upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna með því að taka upp klámefni í íslenskri náttúru.


Undirstrikar hin augljósu sannindi

Mér finnst alveg frábært að næstu sex vikur er borgarstjórnarflokkur Samylkingarinnar skipaður fjórum konum. Ég er sem stendur efstur karla á listanum, númer fimm og er fyrsti varaborgarfulltrúi þangað til 1. apríl. Þetta kemur til af því að karlmaðurinn á listanum, Dagur B Eggertsson, er alvöru nútíma maður sem axlar föðurskyldur sínar og tekur föðurorlof.

Á blogginu er spurt hvort það hefði vakið sömu athygli ef borgarstjórnarflokkurinn hefði allt í einu verið  skipaður fjórum körlum. Svarið er alveg örugglega nei. Það hefði enga athygli vakið.
Þetta undirstrikar hin augljósu sannindi.

Enginn spyr hvort það eru konur í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða, það þykir eðlilegt að mun færri konur séu í stjórnmálum en karlar og krafan um jafnt hlutfall karla og kvenna í ríkisstjórn þykir alls ekki sjálfsögð.

Þessu þarf auðvitað að breyta. Það mun Samfylkingin gera undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar að loknum kosningum í vor. Hún hefur sýnt það í verki hvers hún er máttug í jafnréttismálum eða svo vitnað sé í Oddnýju Sturludóttur á www.truno.blog.is 

Hún leiddi sameinaða vinstrimenn í Reykjavíkurlistanum til þriggja glæstra kosningasigra og stjórnaði borginni farsællega. Á þeim tíma náði hún aðdáunarverðum árangri í jafnréttismálum sem vakið hefur athygli út fyrir landsteinana.


Launamunur kynjanna minnkaði um helming hjá Reykjavíkurborg en kynbundinn launamunur hefur staðið í stað í 16 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins.


Í borgarstjóratíð hennar urðu konur helmingur æðstu stjórnenda og sama leik ætlar Samfylkingin að leika á landsvísu komist hún í ríkisstjórn. Jafnréttismálin verða færð til forsætisráðuneytis og fléttuð samviskusamlega við allar ákvarðanir sem teknar verða á þjóðarskútunni – þar sem kona stendur í brúnni.

Við þurfum á sjónarmiðum beggja kynja að halda. Það er kominn tími á konu í forsætisráðherrastólinn, komin tími á jöfn hlutföll karla og kvenna í ráðuneytum, í opinberum stjórnum og lífeyrissjóðum. Það er kominn tími til að útrýma launamuninum.

 


mbl.is Fjórar konur í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf umræða á pólitískum villigötum

Umræða um svifryk og aðra mengun í borginni er afar þörf. Ég hef á þessari síðu og síðum dagblaðanna skrifað um þessi mál, nýlega um hreint loft og nagladekk, um að þeir eiga að borga sem menga og að það sé ekki skref í rétta átt að hækka strætófargjöldin.

Umhverfismál koma öllum við, hvar í flokki sem þeir eru, og eðlilegt að við sem stjórnmálamenn tökumst á um leiðir að settu marki. Það vekur hins vegar nokkra furðu að ritstjóri Morgunblaðsins skuli vilja gera þetta að pólitísku máli en hann skattyrðist að ástæðulausu út í fyrrverandi meirihluta í borginni um leið og hann brýnir núverandi meirihluta til dáða. Hvað er þar í gangi veit ég ekki.

Staðreyndin er sú að fyrrverandi meirihluti stóð sig býsna vel í baráttu gegn mengun í borginni. Fyrrverandi minnihluti hafði, allt fram til þessa dags, mun meiri áhyggjur af einkabílnum en af leikskólabörnum svo ég held að ritstjórinn geri þeim nú engan sérstakan greiða með því að rifja þá fortíð upp. Mér finndist hins vegar miklu göfugra að ræða um þá þverpólitísku sátt sem minnihluti og meirihluti hafa náð um þessi mál í Umhverfsráði Reykjavíkurborgar.

Á heimasíðu Umhverfissviðs er gerð grein fyrir ýmsu því helsta sem gert hefur verið í mengunarmálum í borginni undanfarin ár og þar er líka örstutt viðtal við ágætan formann Umhverfisráðs, Gísla Martein Baldursson, sem hefur sýnt framsýni í þessum málum - nokkuð sem maður þorði ekki endilega að vona miðað við áherslur Sjálfstæðisflokksins á forgang einkabílsins undanfarin ár. Á heimasíðu Umhverfissviðs segir formaðurinn:

„Ég held að fullyrða megi að Reykjavíkurborg hafi verið í fararbroddi á Íslandi í umræðum og aðgerðum varðandi umhverfis- og loftlagsmál... Umræðan um svifryk er tiltölulega ný af nálinni og stutt síðan að yfirvöld t.d. í Svíþjóð og Noregi hafa gripið til sérstakra ráðstafana hennar vegna."

Á síðasta fundi Umhverfsráðs lögðum við fulltrúar Samfylkingarinnar fram tvær tillögur sem báðar miða að því að minnka svifryk í borginni. Önnur er sú að þegar í stað verði ráðist í átak til að draga úr svifryksmengun í borginni en í hinni er hugsað til lengri tíma og lagt til að gerð verði heildarúttekt á þeim kostnaði sem fellur á samfélagið vegna nagladekkjanotkunar.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að meirihlutinn í Umhverfisráði mun taka þessum tillögum Samfylkingarinnar vel.


Ein á brautarstöðinni

Flestir þekkja þá tilfinningu frá ferðalögum erlendis að óttast að missa af lestinni. Vera ekki viss um hvaðan lestin fer, frá hvaða spori, hvoru megin eða hvenær. Þetta er óþægileg tilfinning, einkum fyrir þá sem eiga að leiða hópinn, hvort sem hópurinn eru vinir, fjölskylda - eða flokkur.

Í dag gaf að líta í sal Alþingis hóp fólks í þessari stöðu. Jón Sigurðsson, Valgerður Sverrisdóttir og Jónina Bjartmars voru öll að reyna að ná Grænu lestinni. Það var virkilega átakanlegt að fylgjast með hinni vonlausu baráttu.

Jón hljóp út á vitlaust spor, Valgerður fór í hina áttina að spyrja til vegar en Jónína reyndi að fylgja í humáttina á eftir þeim báðum. Á meðan þessu fór fram rann Græna lestin hljóðlega af stað frá öðrum brautarpalli. Við sáum þau minnka og minnka. Kannski ná þau næstu lest. Hún fer eftir fjögur ár.

Á næsta brautarpalli er annar hópur í framandi umhverfi að svipast um eftir lest með nafninu Nýja Atvinnulífið. Þar ríkir nokkur örvænting líka, áætlunin er týnd og sumir í hópnum eru ekki alveg með áfangastaðinn á hreinu. Hópurinn virðist þreyttur og slæptur, rétt eins og hann vilji kannski frekar staldra við en að halda áfram.

Hin verða þá ekki alveg ein á brautarstöðinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband