Samfylkingin og loftslagsmálin - fundur og kvikmyndasýning

Mér finnst alveg frábært að geta boðið fólki á spennandi fundi og á spennandi heimildamyndir á heimsmælikvarða - svo ég ætla að auglýsa hér á blogginu þessa tvo viðburði helgarinnar. 

íslandÁ morgun kl. 11 - opinn fundur um loftslagsmál
Á sunnudaginn - opin sýning á An Inconvenient Truth í Háskólabíói
                                     - allir velkomnir!

Loftslagsmál eru einhver brýnustu umhverfismál samtímans. Samfylkingin hefur mótað skýra stefnu og tillögur að lausnum í umhverfismálum undir heitinu Fagra Ísland og loftslagsmál eru mikilvægur hluti af þeirri stefnumótun.

Til að almenningur geti kynnt sér málið boðar Samfylkingin til tveggja viðburða nú um helgina:
Opinn fund um Fagra Ísland - loftslagsmálin og sýningu á kvikmyndinni An Inconvenient Truth eftir Al Gore og fleiri.

Óþægileg sannindi - Loftslagsváin og framlag Íslendinga

Laugardagsfundur Samfylkingarfélagsins í Reykjavík kl. 11 á morgun, 3. mars, á Hallveigarstíg 1.

Ásta R. Jóhannesdóttir og Mörður Árnason ásamt sérstökum gesti, Árna Finnssyni formanni Náttúrverndarsamtaka Íslands, flytja framsögur um loftslagsbreytingarnar, framlag Íslendinga, ógnir og tækifæri. Umræður í kjölfarið. 

Fundarstjóri verður Sólveig Arnarsdóttir leikari.

Sunnudagsbíó - An Inconvenient Truth
Óþægilegur sannleikur
Samfylkingin býður til sýningar á magnaðri heimildamynd Als Gores, An Inconvenient Truth (Óþægileg sannindi), í Háskólabíó kl. 14.00 á sunnudag.
Myndin hlaut á dögunum Óskarsverðlaun í flokki heimildarmynda.
Ókeypis inn á meðan húsrúm leyfir.


Áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn

geir_hilmar_haardeMér finnst alveg frábært að þjóðin skuli ítrekað láta í ljós að hún vill ekki hafa meira af þessari ríkisstjórn að segja. Framsókn er auðvitað orðin mjög vön því að vera á botninum en hins vegar hljóta þessar niðurstöður að vera verulegt áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Hann mælist nú með 36% fylgi og reynslan sýnir að það sígur ævinlega þegar nær dregur kosningum. Það er því ekki ólíklegt að raunfylgi Sjálfstæðisflokksins fari langt niður að 30% í kosningum.

Síðast fékk hann 34% sem var þriðja slakasta útkoma flokksins í kosningum frá upphafi. Þreytan sem einkennir flokkinn eftir 16 ára setu í ríkisstjórn er líkleg til að segja til sín í kjörklefunum.

Það er líka frábært að Vg skuli halda því flugi í skoðanakönnunum sem raun ber vitni. Það er athyglisvert að samanlagt eru Vg og Samfylking með 46% og möguleiki á að þessir tveir flokkar nái meirihluta. Það er ljóst að stór hluti þjóðarinnar kallar eftir því að þessir flokkar komi að stjórn landsins og að þau mál sem þeir standa fyrir verði sett á dagskrá.

Mér finnst hins vegar ekkert frábært að Samfylkingin skuli ekki mælast hærri. Það bendir til þess að við höfum enn ekki náð nógu vel í gegn með okkar mál. Að vísu má leiða líkur að því að við eigum meira en aðrir flokkar í þessum 40% sem ekki vildu gefa upp afstöðu sína. Könnun Fréttablaðsins um daginn gefur líka vísbendingar um betri stöðu svo það er ástæðulaust að vera með svartsýni. Það er Það eru 10 vikur til kosninga og þær verður að nota vel til að koma baráttumálum okkar á framfæri.

Ég er sannfærður um að staðan verður önnur á kjördag.


Ekki allt búið enn - tillögunni vísað til Umhverfisráðs!

strætóÞað er alveg frábært að sjá hér á blogginu svona góð viðbrögð við tillögu okkar í Samfylkingunni um að prófa að láta kosta 100 kr. í strætó í mars.

Auðvitað voru það vonbrigði að meirihlutinn ætli að draga þetta á langinn með því að vísa þessu fyrst til Umhverfisráðs til umsagnar. Það verður nú komið dálítið langt fram í mars ef það á að senda þetta svona fram og aftur í borgarkerfinu og svo til Strætó bs - hvar eru núna hinir meintu athafnastjórnmálamenn?

Við höfum hins vegar ekki gefist upp - við tökum málið fyrir á fundi í Umhvefisráði á mánudaginn kemur. Ég hvet þá sem vilja að meirihlutinn samþykki tillöguna til að nýta borgaralegan rétt sinn til að senda borgarfulltrúum meirihlutans tölvupóst um málið - eða skrifa hér stutta (og málefnalega) athugasemd sem ég get komið til skila á næsta fundi.

Hér er annars nánar um tillöguna.

Tillaga Samfylkingarinnar um 100 kr. staðgreiðslugjald fyrir alla í Strætó í mars til að sporna gegn svifryksmengun

Í greinargerð með tilögunni segir m.a. að um tilraunarverkefni sé að ræða sem hefði tvíþættan tilgang

  • að draga úr svifryksmengun í mars
  • að kanna hvort einfaldara staðgreiðslugjald hefur áhrif á notkun almenningssamgangna.

Mars er sá mánuður ársins sem mest svifryksmengun er í borginni samkvæmt mælingum fyrri ára. Einu raunhæfu leiðirnar til að draga úr þeirri mengun er að hvetja borgarana til að fækka ferðum á einkabílnum, einkum þeim bílum sem eru á nagladekkjum og nýta sér aðra samgöngumáta s.s. að ganga, hjóla og eða taka almenningssamgöngur.

Ítrekað hefur verið bent á að staðgreiðslufargjöld séu ekki nógu hentug, óalgengt sé að fólk eigi nákvæmlega 280 kr. og þetta geti hamlað notkun strætisvagna. Tillagan tekur mið af lægsta staðgreiðslufargjaldi og er nálægt greiddu meðalfargjaldi Strætó sem er rúmlega 90 kr. og ætti því að geta fengist samþykkt í stjórn Strætó bs.


mbl.is Lagt til að fargjald í strætó lækki í 100 krónur í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn að braggast!

BBMér finnst alveg frábært að sjá að Birni Bjarnasyni er að eflast heilsa en hann hefur undanfarna daga haft nægilegt loft í lungum til að láta gamminn geysa af krafti á bloggsíðu sinni.

Það er freistandi að ætla að það hafi verið neyðaróp Moggans um hjálp við að klæða Sjálfstæðisfálkann í grænan búning sem hafi verið það sem þurfti til að koma Birni á fætur. Oft er það neyð annarra sem þarf. Alla vega sýndi hann mikla björgunarhæfileika í sunnudagspistli sínum þar sem hann tíundar grænar áherslur Sjálfstæðisflokksins og styðst þar við "fréttaskýringu" Freysteins Jóhannssonar sem áður hefur verið rætt um á þessari síðu.

Það verð ég að segja þeim félögum til hróss að þeir væru mjög liðtækir sem texta- og hugmyndasmiðir á hvaða auglýsingastofu sem er þó ég verði jafnframt að taka fram að líklega hefði nú siðanefnd Sambands Íslenskra Auglýsingastofa sitthvað við uppsetningu og innihald þessarar "grænfálkaherferðar" sjálfstæðismanna að athuga.

xDiskoÞað er nefnilega hart tekið á hálfsannleika um innihald vöru í auglýsingum og það er stranglega bannað að gefa í skyn að auglýsing sé frétt - a.m.k. þarf að taka fram með sérstakri merkingu að um auglýsingu sé að ræða.

Ég veit ekki til að auglýsing af þessu tagi hafi áður verið birt á forsíðu Moggans og hefði verið athugandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fá auglýsinguna tilnefnda í keppnina um athyglisverðustu auglýsingar ársins - ef ekki hefði misfarist að taka fram að þarna var um auglýsingu að ræða.

Illu heilli þá sýnist mér hins vegar sem Björn sé hættur að ræða grænar áherslur Sjálfstæðisflokksins (ekki lengi að því sem lítið er;) og farinn að stunda fyrra áhugamál sitt - að greina Baugsmálið ofan í kjölinn. Það er bæði slæmt af því það er mörgum spurningum um Græna Fálkann ósvarað og svo ekki síður af því Björn er dómsmálaráðherra og því vart við hæfi að hann tjái sig á opinberum vettvangi um efnisatriði máls sem er fyrir dómi í Hæstarétti.

Í þriðja lagi grunar mig að þetta sé Birni ákaflega óheilsusamlegt og ég óttast að ef hann sökkvir sér á ný í neikvæðni vegna Baugsmálsins (og pirrings út í Ingibjörgu Sólrúnu) lendi hann fljótlega aftur í andnauð, þurfi aftur að fara að hlusta á Wagner og verði alls ekki tilbúinn til að stinga sér út í laugina þegar kemur að kosningaslagnum í vor. Það væri miður.

Ég held að honum og reyndar fleirum í flokki fálkans regnbogalita væri heilsusamlegra að beina fremur kröftum sínum að einhverju uppbyggilegu t.d. að upplýsa þjóðina um eftirfarandi:

  • Er Illugi Gunnarsson, grænasti maður Sjálfstæðisflokksins enn þeirrar skoðunar að loftslagsbreytingar séu ekki af manna völdum?
  • Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn gera til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af Íslands hálfu?
  • Vill flokkurinn t.d. stefna út úr Kyoto samkomulaginu með útúrsnúningum á meðaltalsákvæði samkomulagsins, líkt og Framsókn hefur boðað?
  • Eru Sjálfstæðismenn ósammála Iðnaðarráðherra sem hefur ekki útilokað að eignarnámsákvæði verði beitt til að tryggja Landsvirkjun virkjunarleyfi í neðri Þjórsá? Er ágreiningur um þetta í ríkisstjórninni?
  • Mun Sjálfstæðiflokkurinn samþykkja þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar um að fella úr gildi heimild fyrir Norðlingaölduveitu og hverfa þar með frá áætlunum sínum um virkjun í Þjórsárverum?
  • Telja Sjálfstæðismenn enga þörf á að staldra við og klára að kortleggja og taka frá verðmæt náttúrusvæði?
  • Eru einhver svæði sem orkufyrirtækin hafa núna í sigtinu það verðmæt að mati Sjálfstæðismanna að ástæða sé til að taka þau frá til verndar?
  • Telja Sjálfstæðismenn heppilegt út frá efnahagslegu tilliti að ráðast í byggingu tveggja nýrra álvera á suðvesturhorninu á næstu árum?
  • Telja Sjálfstæðismenn sjálfsagt að virkja til þess Þjórsá í andstöðu við heimamenn, virkja allan mögulegan jarðhita á Reykjanesi og á Hengilssvæðinu?
  • Þar sem ljóst er að aðeins stækkunin í Straumsvík dugar til að rjúfa Kyoto þakið - hvað ætlar hinn græni flokkur Sjálfstæðisflokkurinn að fara með í nesti þegar farið verður að ræða framhald Kyoto?

Öndum léttar

pallbíllMér finnst alveg frábært að það skuli nú vera þverpólitískur áhugi fyrir því að taka á þeirri mengun sem sívaxandi bílafloti borgarbúa veldur. Það er líka gleðilegt að orðið hafi almenn vitundarvakning í þessum málum því til að bæta ástandið er ekki nóg að einhver einn aðili eins og yfirvöld geri eitthvað eitt stórt - það er þetta litla sem margir geta gert sem vegur þyngst.

Umhverfissvið borgarinnar hefur unnið mjög gott starf undanfarin ár í baráttu við svifryksmengun en þar hefur verið við ramman reip að draga þar sem bílum fjölgar ár frá ári, vélar þeirra og dekk stækka ár frá ári og risatrukkar þykja núna sjálfsagðir í innanbæjarsnatt.

Það má þó alltaf finna leiðir til að gera betur og því lögum við fulltrúar Samfylkingarinnar til tvær tillögur á síðasta fundi Umhverfisráðs. Önnur tillagan var um frekari aðgerðir nú þegar og hin um að gera heildarúttekt á þeim kostnaði sem fellur á samfélagið vegna notkunar nagladekkja en talið er að sá kostnaður geti numið tugum þúsunda á hvern negldan bíl.

Báðar tillögur féllu í góðan jarðveg og var þeirri síðari vísað til umræðu á næsta fundi en þeirri fyrri breytt lítilsháttar og stóðu allir flokkar að tillögunni í þessari mynd:

Umhverfisráð samþykkir að fela sérfræðingum sínum á umhverfissviði að gera tillögur að frekari aðgerðum til að draga úr svifryksmengun í borginni. Tillögunum verði skilað á sérstökum fundi Umhverfisráðs að viku liðinni.

Ég er viss um að með einföldum hætti má ná miklum árangri í þessum málum - ekki síst með því að fá fjölmiðla í lið með okkur. Ég myndi vilja að talað væri um svifryk í öllum veðurfréttatímum, sjá spá um svifryksmengun næsta dags og því mætti þá gjarna fylgja hvatning til fólks að nota nagladekkjalausa bíl heimilisins ef þannig hagar til, að hjóla, ganga eða taka strætó í vinnu og skóla.

Við fulltrúar Samfylkingarinnar bættum reyndar einni tillögu við sem miðar að því að hvetja fólk til að taka Strætó. Hún skýrir sig sjálf og verður tekin til umræðu á næsta fundi Umhverfisráðs eftir viku. Það ber hins vegar að hafa í huga að Strætó bs lýtur sjálfstæðri stjórn skipaðri fulltrúum allra bæjarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu svo afgreiðsla Umhverfisráðs, hver svo sem hún verður, geta aðeins orðið tilmæli til stjórnar Strætó bs.

Tillaga Samfylkingarinnar um 100 kr. staðgreiðslugjald fyrir alla í Strætó í mars.

Mars er sá mánuður ársins sem mest svifryksmengun er í borginni. Einu raunhæfu leiðirnar til að draga úr þeirri mengun er að hvetja borgarana til að fækka ferðum á einkabílnum, einkum þeim bílum sem eru á nagladekkjum.

Ítrekað hefur verið bent á að staðgreiðslufargjöld séu ekki nógu hentug, óalgengt sé að fólk eigi nákvæmlega 280 kr. og þetta geti hamlað notkun strætisvagna.

Tillagan gerir ráð fyrir að hér yrði um tilraun að ræða sem hefði tvíþættan tilgang a) að draga úr svifryksmengun í mars og b) að kanna hvort einfaldara staðgreiðslugjald hefur áhrif á notkun almenningssamgangna.

Tillagan tekur mið af lægsta staðgreiðslufargjaldi og er nálægt greiddu meðalfargjaldi Strætó og ætti því að geta fengið samþykki í stjórn Strætó bs.


mbl.is Svifryksmengun fór yfir heilsuverndarmörk í höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær tillögur teknar fyrir á fundi Umhverfisráðs í dag

mengunTvær tillögur Samfylkingarinnar um aðgerðir til að draga úr svifryksmengun verða teknar fyrir á fundi Umhverfisráðs í dag. Ég á fastlega von á að þeim verði vel tekið af meirihlutanum enda er svifryk jafn skaðlegt öllum hvað sem þeir kjósa.

  • Umhverfisráð samþykkir að ráðast nú þegar í sérstakt kynningarátak á skaðsemi svifryks og leiðum til að minnka það.

Fyrri tillagan gengur út á aðgerðir strax sem geta komið til viðbótar því sem verið er að gera s.s. að þvo götur o.s.frv. Þær aðgerðir sem geta skipt máli eru t.d. að tölur um svifryk verði lesnar upp í veðurfréttum ljósvakamiðlanna, verði hluti af veðurfréttum á netmiðlum og í blöðum. Það eykur meðvitund almennings um skaðsemi svifryks og er um leið áminning til hvers og eins um að hann/hún er hluti af vandamálinu - og lausninni!

  • Umhverfisráð samþykkir að gerð verði víðtæk úttekt á þeim kostnaði sem fellur á samfélagið vegna notkunar nagladekkja í Reykjavíkurborg/höfðuborgarsvæðinu.

Síðari tillagan er hugsuð til lengri tíma og miðar að því að taka allan aukakostnaðinn af notkun nagladekkja sem fellur á samfélagið með í reikninginn þegar verið er að ræða nagladekkjanotkun og svifryksmengun.

Rökin fyrir notkun nagladekkja eru nefnilega hverfandi og flestir nota þau fremur af tilfinningalegum ástæðum en að þau séu betri kostur í raun. Það er von mín að þegar fólk sér hvað hver bíll á nagladekkjum kostar í raun þá skapist samfélagslegur þrýstingur á að hætta notkun þeirra. Það væri skref í rétta átt að setja mengunarskatt á nagladekk og til að hægt sé að rökstyðja slíkan skatt þarf að reikna út og verðmeta kostnað samfélagsins af nagladekkjanotkun.

Vonast til að þetta verði samþykkt því núna í lok febrúar og fram í lok mars er sá tími sem svifryk eykst verulega í borginni.


mbl.is Ljóst að svifryksmengun fer yfir hættumörk í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fálki í felulitum og örvænting Moggans

FalkinnMér finnst alveg frábært að sjá hvernig fálkinn, ránfuglinn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur með stolti gert að merki sínu, er núna farinn að skipta litum eftir því hvernig best hentar hverju sinni. Ástæðan er þó ekki sú sama og hjá rjúpunni sem klæðist felubúningi til að verða síður étin - Sjálfstæðisflokkurinn á meira skylt með úlfi sem klæðist sauðargæru til að fá meira að éta.

Framlag Morgunblaðsins í þessum sjónhverfingum er umtalsvert en kemur ekki til af góðu. Morgunblaðið hefur eins og allir vita staðið sig vel í allri umfjöllun um náttúru og umhverfisvernd. Það hefur örugglega ekki alltaf verið auðvelt fyrir innmúraða ritstjórn að ganga svo augljóslega í berhögg við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Í raun hefur Morgunblaðið stillt sér upp við hlið stjórnarandstöðunnar og samtaka eins og Náttúruverndarsamtökum Íslands og Landverndar í þessum málum. Á móti Sjálfstæðisflokknum.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn vill virkja hvern hver og sprænu til að skapa atvinnu í anda Kommúnistaflokksins sáluga þá vill Morgunblaðið vernda ósnortin víðerni hálendisins. Í því kapphlaupi sem Sjálfstæðisflokkurinn efndi til á meðal raforkufyrirtækja um orkuauðlindirnar og "Bachelorkeppni" sveitarfélaganna um hylli álrisanna kallar Morgunblaðið í kór við stjórnarandstöðuna eftir því að skjaldborg verði slegið um verðmæt náttúrusvæði landsins. Mogginn er í stjórnarandstöðu í þessum málum - og það er honum þungbært.

Þess vegna hefur blaðið ítrekað gripið til örvængingarfullra ráða. Það auglýsti sérstaklega á samtengdum rásum eins og um heimsviðburð væri að ræða, þegar Illugi Gunnarsson skrifaði í sumar dulitla grein í Lesbókina undir yfirskriftinni Hægri grænt. Það var þunnur þrettándi.

Illugi og Guðlaugur Þór reyndu svo báðir að mála sig græna í prófkjörsbaráttu sinni en báða vantar allan grundvallar skilning á málunum til að hægt sé að taka þá alvarlega. T.d. skrifar Guðlaugur grein í Mbl í gær undir yfirskriftinni "Ef öll lönd væru eins og Ísland þá væri ekkert loftslagsvandamál". Það væri athyglisvert að sjá svar Kínverja, Indverja og Afríkubúa við þessari grein.

Tilvistarkreppa Moggans kemur skýrt fram í þeirri staðreynd að á meðan blaðið fjallar af metnaði um loftslagsmál hefur Illugi Gunnarsson, sem blaðið teflir fram sem helstu vonarstjörnu hægri manna í umhverfismálum, enn ekki breytt þeirri afstöðu sinni að það sé fráleitt sannað að loftslagsbreytingar séu af manna völdum.

Það hlýtur að vera erfitt fyrir ritstjórann að hans grænasta von innan Sjálfstæðisflokksins skuli enn ekki hafa skipt um skoðun í þessum málum. Það er til lítils fyrir ritstjórann að skrifa Staksteinagreinar um meintar grænar áherslur Illuga þegar hann er opinberlega ennþá á sömu skoðun og aðkeyptir vísindamenn olíurisans ExxonMobile.

Örvænting Morgunblaðsins er beinlínis áþreifanleg síðustu daga. Á föstudaginn svindlar blaðið á lesendum sínum með því að gefa í skyn að Jónína Bjartmarz og Einar Oddur hafi af eigin frumkvæði sett fram yfirlýsingar um að eignarnám kæmi ekki til greina við virkjun neðri Þjórsár. Staðreyndin er sú að þetta sögðu þau tilneydd eftir sérlega vel flutta ræðu og spurningar Björgvins G Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Að sleppa því að geta þess hver hóf umræðuna eru ósvífin svik við lesendur blaðsins og ber örvæntingunni vitni.

Í gær náði þó örvæntingin nýjum hæðum þegar Morgunblaðið birtir merki Sjálfstæðisflokksins afbakað á forsíðu sinni - grænan fálka! "Fréttin" er dapurleg upptalning á meintum grænum mönnum, Illuga og Guðlaugi Þór, og þar sem ritstjórinn veit að þeir eru tæpast einnar messu virði þá splæsir hann líka nokkrum línum á tvær sjálfstæðiskonur sem miklu frekar eiga skilið að kallast grænar en Sjálstæðisflokkurinn hefur því miður hafnað.

Í dag halda þessi örvæntingarfullu skrif ritsjórans áfram, nú í Staksteinum þar sem hann telur upp "ekki fréttir" síðustu tveggja daga.

Ég finn til með ritstjóranum. Hann er í erfiðri stöðu, vill bæði landi sínu og flokki vel en flokkurinn hans er ógn við landið og náttúru þess. Í stað þess að skrifa "ekki fréttir" um meinta hægri græna og halda frá lesendum sínum sannleikanum um það hverjir segja hvað ætti ritstjórinn að nota blað sitt til að spyrja flokk sinn nærgöngulla spurninga. Hvetja fálkann til að koma úr felum og sýna sinn rétta lit.

  • Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn að Ísland dragi mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum? 
  • Er Illugi Gunnarsson enn á þeirri skoðun að loftslagsbreytingar séu ekki af manna völdum?
  • Vill Sjálfstæðisflokkurinn stefna út úr Kyoto og setja sig í þá stöðu að þurfa að biðja um frekari undanþágur vegna aukinnar losunnar frá stóriðju?
  • Vill Sjálfstæðisflokkurinn vernda Jökulsá á Fjöllum, Skjálfandafljót, Jökulsár Skagafjarðar, Langasjó, Þjórsárver, Torfajökulssvæðið, Grændal, Kerlingarfjöll og Brennisteinsfjöll?
  • Vill Sjálfstæðisflokkurinn fresta frekari stóriðjuframkvæmdum svo hægt sé að ráðast í Rammaáætlun um náttúruvernd, kortleggja verðmæt svæði og tryggja verndun þeirra áður en lengra er haldið?

Hvað kosta Hafnfirðingar?

straumsvikHér og hér er örfáum orðum minnst á tilraunir Alcan um hátíðirnar til að kaupa atkvæði Hafnfirðinga í magnpakkningum.

Eftir að hafa stofnað samfélagssjóð, gefið báðum íþróttafélögunum nokkrar milljónir hvoru, gert hjálparsveit bæjarins tilboð sem hún gat ekki hafnað í árlega flugeldasýningu Sparisjóðs Hafnarfjarðar og sent geisladisk með Bó innpakkaðan í ál og áldagatal inn á hvert heimili sá Álkan að það var ekki snjallt að kaupa atkvæðin alveg blygðunarlaust. Það þyrfti greinilega að fara fínna í þetta.

Og það hefur Álkan greinilega ákveðið að gera því núna er herferðin orðin "maður á mann" herferð þar sem hver kjaftur er nýttur til hins ýtrasta. Í gær var frétt á síðu 2 í Fréttablaðinu þar sem stjórnendur álversins viðurkenndu að vera með menn á launum við að dreifa áróðri og sannfæra Hafnfirðinga um ágæti stækkunar hvar sem í þá næst. Einn starfsmaður þessarar sérstöku áróðursdeildar var nafgreindur en hann hefur einmitt látið til sín taka á þessari bloggsíðu, reyndar án þess að geta þess að honum væri borgað fyrir það.

Álkan hefur líka borið víurnar í fyrrverandi starfsmenn, það á að ræsa alla út sem vettlingi geta valdið. Reyndar efast ég um að þeir hafi hringt í þessa 9 sem ég veit fyrir víst að þeir hafa sagt upp fyrirvara- og tilefnislaust á síðustu misserum. Kannski þessa 3 sem þeir borguðu fyrir að láta falla niður málsókn gegn fyrirtækinu - en þó varla. Enn síður hina 6 sem ekki fóru í mál.

Núna aka núverandi og fyrrverandi starsmenn álversins sem sagt um og smala atkvæðum eins og framsóknarmenn í prófkjörsham. Hvað ætli þeir fái borgað á atkvæðið? Hvað ætli þeir megi lofa miklu fyrir hvert atkvæði?

Álkan er staðráðin í að fá JÁ frá Hafnfirðingum. Álkan er búin að setja niður fyrir sér nokkrar leiðir að settu marki - þær eru mis áberandi og kosta mis mikið af peningum og vinnu. Þetta er spurning um verðmiðann á Hafnfirðingum og aðferð við að ganga frá kaupunum.

Álkan á nóg af peningum og ræður eins marga og þarf til að þjarma að kreista Já út úr bæjarbúum. Þessi áróðursdeild - þetta er auðvitað viðbót við öll hin fjölmörgu afleiddu störf!?


Er ekki kominn tími til að breyta!

Skoðið skemmtilegt myndband Sigurlistans

Mogginn kominn í kosningaham

Það er alveg frábært að sjá hinn rétta lit Moggans koma í ljós en þegar nálgast kosningar er hann sama flokksblaðið og hann var hér á árum áður. Það er greinilegt á forsíðunni í dag að málgagnið hefur ákveðið að reyna allt sem hægt er til að efla trúverðugleika ríkisstjórnarinnar.

Í fyrsta lagi tekst Málgagninu að skrifa fréttaágrip með stórri fyrirsögn um mögulegt eignarnám Landsvirkjunar á eignarlöndum og heimilum fólks við Þjórsá án þess að minnast orði á málshefjanda umræðunnar Björgvin G Sigðursson. Jónína og Einar segja eignarnám ekki koma til greina, segir Málgagnið en minnist ekki á Björgvin.

Það var af því að Björgvin, þingmaður Samfylkingarinnar, hélt hárbeitta ræðu í utandagskrárumræðu um stöðuna á virkjanamálum við Þjórsá og spurði umhverfisráðherra óþægilegra spurninga um þetta mál sem þessi svör voru dregin upp úr henni. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem ekki hefur alltaf gegnið í takt við hina (sundurlyndi?) tók svo undir orð umhverfisráðherra.

Ritstjórn Moggans fannst þó ekki nóg að gert á forsíðu dagsins að svipta þingmann Samfylkingar allri umræðu um afar merkilegt mál heldur býr til "frétt" undir fyrirsögninni Sundurlyndi Samfylkingar. Þegar "fréttin" er lesin er ekkert þar sem er þess virði að kalla frétt. Þvert á móti er þetta einhver eymingjalegasti áróðurstexti sem ég hef lengi séð á forsíðu Moggans.

Sú frétt er merkt verðlaunablaðakonunni Agnesi Bragadóttur sem löngum hefur verið sporlétt að sinna erindum ritstjórans. Það er slæmt því hún er, þegar sá er gállinn á henni einn besti blaðamaður landsins. Fréttin á forsíðunni er hins vegar eins og eftir lærling og hæfði betur í slúðurdálki.

"Það eru því ekki áhyggjurnar af því að Alcan sé á útleið sem eru að þvælast fyrir Lúðvík Geirssyni" segir verðlaunablaðakonan á einum stað og á öðrum stað er líkt og hún vitni í einhvern "...samkvæmt mínum upplýsingum..." en getur þess ekki hvern. Engu líkar er en að greinin öll sé einhvers konar dagbókarfærsla blaðamanns, eða skýrsla til húsbónda síns.

Fussum svei! Ég vissi að Sjálfstæðisflokkurinn stendur illa en að hann standi svo höllum fæti að Mogginn þurfi að beita fyrir sig svona fornaldarvinnubrögðum í anda gömlu flokksblaðanna - það vissi ég ekki. Þegar vel er að gáð eru það hins vegar fréttir dagsins af forsíðu Moggans.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband