Háspenna í Vesturbænum?

spilakassarSteinunn Valdís segir á heimasíðu sinni frá vægast sagt vafasömum hrossakaupum borgarstjóra við Háspennu (fjárhættuspil HÍ). Borgarstjórinn sem skar upp herör gegn fjárhættuspili í Mjóddinni við velþóknun margra er nú, að því er virðist að planta sömu starfsemi niður á besta stað í Vesturbænum. Að auki virðist borgarstjórinn vera full eftirgefanlegur í samningum við Háspennu eins og sjá má á pistli Steinunnar Valdísar:

Í dag kom Borgarstjóri í hádegisfréttum RÚV og sagði að búið væri að ná samstöðu um að spilakassar væru ekki starfræktir í Mjóddinni. Í hverfinu hefur verið almenn samstaða um að spilakassar væru ekki í Mjódd og það er ánægjulegt að samningar hafi tekist við Háspennu um að starfrækja ekki spilasal í Mjóddinni. Hann sagði ennfremur að þetta samkomulag myndi kosta Borgina um 25 til 30 milljónir.

Það sem Borgarstjóri sagði er hins vegar ekki rétt. Það rétta er að það stendur til að Borgin kaupi húsnæðið í Mjódd á 92 milljónir og leigi húsnæðið út - og að auki að Háspenna fái eina bestu lóð í bænum, án þess að borga fyrir. Hér er ég að tala um lóð á Starhaganum sem er líklega metin á að lágmarki 30 milljónir. Við erum því að tala um samtals 120 milljónir og ég hefði talið eðlilegra að Háspennu væru þá bara greiddar skaðabætur í stað þess að fara í svona vafasöm lóðaviðskipti.

Hvað Háspenna ætlar að gera við lóð á besta stað í Vesturbænum verður að koma í ljós?

Eitt er öruggt að samkvæmt skipulagi má eingöngu byggja þarna íbúðarhús.

Finnst mönnum þetta eðlileg vinnubrögð?

Maður hlýtur að taka undir spurningu Steinunnar Valdísar.


Fyrirtækjum frjálst að flytja hvert sem er

túkallÞað er merkilegt að heyra fjármálaráðherra svara Björgólfi Thor með þessum hætti þegar Björgólfur spyr af hverju Ísland sé eina ríkið sem reynir að setja gjaldeyrishöft á fyrirtæki.

Fari þau bara ef þau vilja - bara ekki móðga krónuna!

Mikið erum við nú lánsöm að hafa slíka stjórnvitringa í ríkisstjórn, jafn hæfileikaríkan Seðlabankastjóra og jafn stöndugan gjaldmiðil!


Kúgun, klúður og breytir engu!

cod_bless_youMaður var jafnvel farinn að halda að stjórnarflokkarnir hefðu náð að klastra saman stjórnarsamstarfinu með nokkurnveginn viðunandi hætti. Geir og Jón brostu báðir breitt og létu eins og um minniháttar mál hefði verið að ræða sem vegna misskilnings hefði óvart gleymst að klára.

Á Einari Oddi var ljóst að svo var ekki. Einar Oddur tók af allan vafa um þrjú atriði.

Hið fyrra er að samkomulagið og þar af leiðandi frumvarpið sjálft er málamyndagjörningur sem bæði er hægt að skilja sem stuðning við núverandi fyrirkomulag þar sem kvótaeigendur eiga auðlindir hafsins en líka á þann hátt að auðlindir hafs og lands séu eign þjóðarinnar.

Sem sagt - Sjálfstæðismenn geta sagt "við gáfum ekki tommu eftir" og Framsóknarmenn segja "við höfum fært þjóðinni ótvíræðan eignarrétt yfir auðlindum sínum". Þetta er svona eins og jakki sem er hægt að snúa fóðrinu út á og þá skiptir hann um lit!

Annað atriðið sem Einar Oddur gat ekki annað en viðurkennt var að Sjálfstæðismenn hefðu verið verið tilneyddir að gera þennan málamyndagjörning. Annars hefði stjórnin sprungið. Gott að heyra hann gangast við því þótt það hafi nú reyndar legið í augum uppi.

Þriðja atriðið var svo afstaða Einars Odds sjálfst til frumvarpsins. Hann telur frumvarpið engu breyta, það hafi með öðrum orðum enga merkingu. Áhorfendur Kastljóssins hljóta að spyrja sig af hverju þingmaðurinn og félagar hans, ef sama sinnis, greiða atkvæði með frumvarpi um breytingu á stjórnarskrá sem þeir telja að hafi enga þýðingu.


mbl.is Össur: Stjórnarskráin pólitískt bitbein stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með daginn!

Gyðjan FreyjaStelpur og strákar - til hamingju með alþjóðlegan baráttudag kvenna.

Það er í raun alveg hrikaleg staðreynd að það þurfi sérstakan dag til að minna á að helmingur mannkyns býr við óréttlæti! Og dugar ekki til.

Í meira en 10 ár, eða allan þann  tíma sem núverandi ríkisstjórn hefur verið við völd hefur ekkert gengið að minnka óútskýrðan launamun kynjanna. Konur eru hverfandi hlutfall í nefndum á vegum ríkisstjórnarinnar og Alþingis. Líka í stjórnum sjóða og fyrirtækja. Eftir höfðinu dansa limirnir.

Það er því ástæða til að fagna og vona að hlutirnir breytist á næstunni núna þegar á að leggja fram ný þverpólitísk frumvarpsdrög sem ganga lengra en ríkisstjórnin hefur áður viljað gera.
Samfylkingin fagnar þessu frumvarpi sem er afrakstur vinnu endurskoðunarnefndar undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur.

Samfylkingin er sérstaklega ánægð með að í frumvarpsdrögunum er baráttumál Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að aflétta launaleynd og baráttumál Jóhönnu Sigurðardóttur um að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála skuli vera bindandi.

Það mun ekki standa á okkur að samþykkja slíkt frumvarp - og fylgja því eftir!

Til hamingju með að það skuli vera kosningar í vor - þá verður hægt að kjósa til valda konu sem gjörbreytti Reykjavíkurborg úr karlpólitískum bitlingabæ í alþjóðlega borg þar sem jafnræði var á meðal karla og kvenna í stjórnunarstöðum.

Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin hafa látið verkin tala og er treystandi til að ná árangri í réttindamálum kvenna á landsvísu.


A beginning of a beautiful friendship?

casablanca4_copy0Það vekur svo sannarlega athygli að Steingrímur J og Geir H skuli flétta saman fingur af jafn mikilli ástúð og hér er gert í Evrópumálunum.

Það vissu svo sem allir að íhaldið, bæði til hægri og vinstri, lætur frekar stjórnast af ótta og afturhaldssemi en opnum huga og framsýni þegar kemur að þessum málum.

Engu að síður vekur það athygli núna 9 vikum fyrir kosningar - þegar "ballið" er bara rétt að byrja - að þessir ágætu herramenn skuli líta hvor annan jafn hýru auga og raun ber vitni.

Innmúraður ritstjóri ber greinilega hlýjar tilfinningar til þessa ráðahags og býr sig í vígsluskrúða ef marka má guðspjall dagsins í Málgagninu.


mbl.is VG og Sjálfstæðisflokkur gegn ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn og Framsókn sammála Samfylkingu um mengunargjald á nagladekk!

ráðhúsÍ borgarstjórn í dag voru svifryksmál til umræðu. Þetta er afar þörf umræða og á það bentu fulltrúar Samfylkingar og Vg í ræðum sínum þar sem rætt var um hvað veldur svifryki og hvaða leiðir eru til úrbóta.

Samfylkingin hefur lagt fram ýmsar tillögur í Umhverfisráði og Borgarráði t.d. um sérstakt átak til að fræða fólk um skaðsemi svifryks, t.d. með umræðu í fjölmiðlum og með því að fá veðurfréttamenn á fjölmiðlum til að gefa svifryksmálum sérstakt vægi þannig að þegar spáir köldu og lygnu veðri þá verði sérstaklega á það minnst í verðurfréttum og fólk hvatt til að hvíla bílinn og taka strætó.

Samhliða þessari tillögu fluttum við tillögu um eitt fargjald kr. 100 í Strætó í mars, þeim mánuði þegar svifryk er í hámarki. Þessi tillaga er að því er virðist föst í samráðsferli, henni var vísað til umsagnar hjá Umhverfisráði sem svo aftur þarf að biðja um umsögn Strætó bs.

Illu heilli fundar Strætó bs aðeins einu sinni í mánuði og meirihlutinn virðist ekki ætla að biðja um sérstakan fund nú þegar til að ræða þessa tillögu og því gæti það dregist fram í miðjan apríl að ákveða hvort það á að kosta 100 kr. í strætó í mars. Það er slæmt af því það hefði bæði verið gott að gefa fólki tilefni til að hvíla bílinn og eins hefði verið áhugavert að sjá hvort einfaldara fargjald hefði þau áhrif að fjölga farþegum.

Þriðja tillagan sem við höfum flutt um þetta mál er að gerð verði heildarúttekt á þeim samfélagslega kostnaði sem hlýst af notkun nagladekkja. Vitað er að það kostar tæpar 200 milljónir að laga malbikið á vorin en hvað kostar allur tjöruausturinn í þrifi á bílum, rúðuvökva og rúðuþurrkum? Hvað tapast mikið umferðaröryggi vegna tjöru á dekkjum? Hvað kostar svífandi malbik okkur í auknum astmalyfjakostnaði og síðast en ekki síst - hvað kosta nagladekkin okkur í heilsutjóni íbúanna? Er hægt að reikna það til fjár?

Umræðan um þetta fór nokkuð málefnalega af stað og það vakti athygli mína og ánægju að núna loksins virðast Sjálfstæðismenn (og Framsókn) vera tilbúnir að leggja skatt á nagladekk!

Það var sannarlega tími til kominn og ekki hægt annað en að gleðjast yfir slíkum sinnaskiptum. Það er sannarlega til vinnandi að sitja í minnihluta eitt kjörtímabil þegar það hefur þau áhrif að fyrrum minnihluti sér ljósið!

Það verða trúlega aðrir til að gera afganginum af fundinum skil en því miður enduðu annars ágætar umræður - ekki út í móa - heldur í fyrst villigötum á mislægum gatnamótum Kringlumýrabrautar og Miklubrautar og það ofan í stokk. Undarlegt hvað hægt er að ræða í löngu máli um þessa uppáhaldsframkvæmd Sjálfstæðismanna sem samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins vill þó ekki setja peninga í og ljóst er að verða ekki framkvæmd á kjörtímabilinu.

Ég sem anda að mér svifrykinu í dag og á morgun vil heldur að tímanum sé varið í að tala um það.

 


Áhugaleysið og Sundurlyndið

þorskurNú liggur það ljóst fyrir hverjir hafa í raun og veru áhuga á að auðlindir hafsins verði skilgreindar sem þjóðareign. Það er stjórnarandstaðan. Framsókn var aldrei alvara með því að berjast fyrir þessu og Sjálfstæðisflokknum var aldrei alvara með því að setja ákvæðið inn í stjórnarsáttmálann. Það var allt í plati.

Nú er hins vegar allt í pati. Framsókn sem ætlaði að reka rýtinginn á kaf í bak samstarfsflokksins í ríkisstjórn missti gjörsamlega marks og endaði á að reka rýtinginn í kaf í eigið bak. Í Sjálfstæðisflokknum er ástandið ekki skárra, sundurlyndið algjört.

Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja gjarna gera þjóðina aftur að löglegum eiganda fiskjarins í sjónum. Aðrir þingmenn hans, s.s. frjálshyggjumenn eins og Sigurður Kári, vilja miklu frekar að óveiddur fiskurinn í kringum landið, um ókomin ár, sé þinglýst eign einhverra (vel valinna) einstaklinga. Einkavæðing fiskimiðanna.

Flokkar áhugaleysis og sundurlyndis um þjóðareignina fiskinn í sjónum hefur siglt málinu í strand - og sjálfum sér um leið.

Nú verður áhugavert að sjá hvað þeir taka til bragðs þegar stjórnarandstaðan hefur boðið þeim liðsstyrk til að klára málið.


mbl.is Stjórnarandstaðan býðst til að styðja stjórnarskrárbreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Et tu Brute?

e tu brutusFramsókn er komin í stjórnarandstöðu nú 10 vikum fyrir kosningar. Þetta er kunnugleg staða. Þegar líður að kosningum fer Framsókn ævinlega að haga sér eins og hún hafi engu ráðið á kjörtímabilinu. Það er efni í mörg blogg að fara yfir málefnasamþykktir flokksþingsins en tvennt vekur sérstaka athygli núna.

Annað er að Framsóknarflokkurinn segist núna í aðdraganda kosninga ætla að setja fram miklu mildari kröfur í þjóðlendumálunum en gert hefur verið. Segist sjá eftir allri hörkunni sem landeigendum hefur verið sýnd, vilja eiginlega hætta við mest af þessu - ætla að endurskoða málið. Þessi orð koma full seint til að hægt sé að taka þau trúanleg. Meira að segja sveitastjórinn á Grenvík hlýtur að efast.

Hitt er að núna allt í einu, nokkrum dögum fyrir þingslit er Framsókn allt í einu orðin yfir sig áhugasöm um að slá á hrikalegar afleiðingar kvótakerfisins (helsta stolt flokksins) með því að setja í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir hafsins skuli vera þjóðareign. Flokkurinn hefur ekki sýnt málinu nokkurn áhuga í stjórnarskrárnefnd, fyrr en núna þegar þeir sjá möguleika á að leika stjórnarandstöðuflokk og skilja Sjálfstæðisflokkinn einan eftir í súpunni. 

Það er aumt af Framsóknarflokknum að svíkja félaga sína í ríkisstjórn með þessum hætti. Enn verra er hins vegar að renna svo á rassinn með það - hætta við stökkið í loftinu. Nú stendur ekkert eftir af þessari djörfu áætlun annað en brostið traust á milli stjórnarflokkanna. Siguður Kári heimtar afsögn Sivjar og Jón formaður reynir í örvæntingu að breiða yfir allt klúðrið með því að kalla orð heilbrigðisráðherra misskilning.

„ef að við náum ekki að klára það, að þá geti það haft áhrif á þetta ágæta stjórnarsamstarf, að það geti trosnað verulega þannig að við ef til vill sjáum hér þá einhvers konar minni hlutastjórn eða starfsstjórn fram að kosningum“.

Það er erfitt að misskilja þetta. Nú er spurning hvort Sigurður Kári stendur við stóru orðin og ber upp vantraust á heilbrigðisráðherra. Þetta er hins vegar vandræðamál fyrir Sjálfstæðismenn. Þótt Bjarni Benendiktsson hafi með ágætum stjórnað vinnunni við að móta tillögu - sem nú er tilbúin - um þetta auðlindaákvæði í stjórnarskrárnefndinni, þá er það eingöngu ágreiningur innan Sjálfstæðisflokksins sem stoppar málið.

Í stuttu máli sagt - Framsókn gerði ekkert í málinu og Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í málinu. Svona fór um sjóferð þá, allt er komið í strand - nú er að sjá hvort sælt er sameiginlegt skipsbrot!


Út og suður með Guðna - framhald

Mér fannst alveg frábært hvernig Guðni gat stært sig af því sem allir sérfræðingar (og m.a.s. núverandi seðlabankastjóri) hafa opinskátt talað um sem ein verstu hagstjórnarmistökum ríkisstjórnarinnar (af mörgum) á síðasta kjörtímabili.

Guðni taldi 90% lánin upp sem sérstaka velgjörð við ungt fólk. Það er spurning hvað ungt fólk segir um það núna þegar lítil íbúð sem kostaði 10 milljónir fyrir fjórum árum kostar um 20 milljónir í dag. Það er alveg frábært fyrir unga fólkið.

Það má kannski benda lesendum á að skoða forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag þar sem segir að tvöfalt fleiri missa húsnæði sitt vegna skulda núna en í fyrra. Þetta er unga fólkið sem keypti sér íbúðir á 90-100% lánum fyrir 2-4 árum.

Tökum dæmi. Ung hjón kaupa sér íbúð fyrir tveimur árum.
Íbúðin kostar 16,7 milljónir, þau taka 90% lán upp á 15 milljónir + 385 þúsund í lántökukostnað. Eftir tveggja ára hagstjórnarsnilld Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafa hjónin ungu nú borgað tæplega 2 milljónir af láninu sínu en vegna verðbólgunnar (ekki síst af völdum 90% lánanna) skulda þau núna rúmlega 17 milljónir króna.

Já, mikið má nú blessað unga fólkið vera þakklátt Framsókn og Sjálfstæðisflokki fyrir þetta!


Út og suður með Guðna Ágústssyni

guðniMér fannst alveg frábært að fylgjast með Guðna í hádegisviðtalinu á stöð 2 í dag. Að vísu hélt ég að ég væri kominn í þáttinn út og suður, ekki af því Guðni sé líkur Gísla Einarssyni, heldur af því svör ráðherrans voru eiginlega með eindæmum mótsagnakennd.

Sérstaklega var ég hrifinn af kaflanum um stóriðjuna og virkjanir í Þjórsá. Hann segir í einu orðinu "Ég tel að okkur sé alveg óhætt að fara varlega í þessum málum og hægja ferð..." en í næstu setningu segir hann gagnrýni á Þjórsárvirkjanir of seint fram komna.

Besti kaflinn er þó um landið sem fer undir Þjórsá en um það segir Guðni "þarna eru menn ekki að sökkva landi...mikil svæði sem meira vatn verður á..." Þetta er mikil speki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband