21.3.2007 | 22:05
Hræðsluáróður
Ég gæti skrifað langt mál um baráttu Alcan og starfsmanna álversins fyrir stækkun. Ég hef gert mér far um að kynna mér málstað þeirra sem vilja stækkun vel, hef m.a. hitt innvígða starfsmenn álversins sem vinna að áróðri fyrir stækkun og hlýtt á þeirra mál.
Að mörgu leiti hefur áróðurinn verið málefnalegur en sumt er þó alveg fráleitt. Eins og t.d. að líf 1.500 Hafnfirðinga byggist á álverinu og sé í stórhættu ef ekki verður af stækkun. Kom on! Það vinna 216 Hafnfirðingar í álverinu. Með sömu margfeldisáhrifum ættu gjörvöll Suðurnesin að vera í rúst af því Kaninn fór. Það er hins vegar ekki málið eins og allir vita.
Það ljótasta í þessu er skrökvið um að álverið loki ef það fær ekki að stækka. Það er vísvitandi alið á þessu til að hræða fólk. Fólk er alltaf hrætt um að missa vinnuna, lífsviðurværi sitt. Engum finnst það góð tilhugsun og enginn óskar náunganum þess. Þess vegna hamra áróðursmeistarar Alcan á þessari skröksögu. Beita hræðsluáróðri.
Rannveig og Hrannar hafa aldrei sagt að álverið fari. Þau vita að það er ekki satt. Segja bara að fyrirtæki sem ekki þróast hætti að lokum að vera samkeppnisfært. Auðvitað. En ætli það verði eitthvað óhagkvæmara að byggja nýtt tæknivætt álver í Straumsvík þegar að því kemur heldur en að byggja nýtt álver í sömu stærð í Helguvík? Það er heil biðröð af álrisum sem er til í að gera það!
Þegar þessi falsrök um úrelta tækni hafa ekki þótt nóg hefur líka verið gripið til þess að segja að samningar séu að renna út og alveg óvíst að það náist samningar um orkuverðið eftir 7 eða 14 ár. Hvílík firra! Auðvitað verður samið upp á nýtt, svo báðum aðilum líki. Þannig eru viðskipti.
Ef ekki þá væri Alcan tæpast að hætta sér út í þá áhættu að byggja hérna risaálver og semja til um 20 ára eigandi á hættu að þurfa bara að pakka öllu saman af því Íslendingar vildu ekki framlengja samninga. Nú það má þá líka spyrja hvort þeir eru ekki hræddir um að þurfa að loka núverandi álveri þó þeir fái að byggja nýtt - samningarnir við núverandi álver eru til endurskoðunar eftir sem áður!
Þetta eru dæmi um afskaplega ómerkilegan málflutning. Ég held að þarna séu brellumeistarar Alcan ekki að vinna málstað sínum gagn. Þetta er ótrúverðugt og fólk finnur af því lyktina langar leiðir þegar er verið að plata það.
20.3.2007 | 23:17
Landsvirkjun og OR auglýsa undir dulnefni
Samorka auglýsir núna grimmt hreina íslenska orku. Auglýsingaherferðin hlýtur að kosta nokkur hundruð þúsund.
Það er gott og blessað að við kyndum ekki húsin okkar eða lýsum upp skammdegið með kolum. Ég hef hins vegar á tilfinningunni að það sé ekki það sem stendur á bak við auglýsingarherferð Samorku núna.
Samorka er í eigu Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og nokkurra annarra orkufyrirtækja. Nú er rúm vika þangað til verður kosið um stækkun álversins í Straumsvík.
Auglýsingaherferð Samorku hefur þann tilgang að innprenta okkur að stóriðja sem krefst virkjana í Þjórsá, í Hverahlíð og á Ölkelduhálsi (einstaklega fjölbreyttu hverasvæði í bakgarði borgarinnar) sé frábært mál.
Væri ekki hreinlegra að OR og LV auglýstu bara undir eigin nafni? "Kjósið með stækkun álversins í Straumsvík - Ölkelduháls og Þjórsá eru lítil fórn fyrir hreina orku til álbræðslu!"
Alcan gæti slegist í lið með þeim og hert á hræðsluáróðrinum: "Ef þið kjósið ekki með stækkun þá förum við ekki bara eitthvert annað með störfin ykkar - við förum eitthvert þangað sem við verðum að nota kolaorku! Viljið þið það?"
20.3.2007 | 22:05
Störf án staðsetningar II
Bloggfærslan hér að neðan um Störf án staðsetningar hefur vakið mikla athygli og fjöldi athugasemda verið skrifaðar við þessa færslu. Takk fyrir það. Í athugasemdunum koma fram margar góðar spurningar og vangaveltur sem mig langar að fara aðeins nánar út í hér.
Tregða í kerfinu. Það er rétt að tregða getur verið á meðal stjórnenda að taka þátt í verkefni af þessu tagi. Þess vegna skiptir máli að fá stjórnendur með í liðið sem ætti ekki að vera erfitt því Störf án staðsetningar býður upp á sparnað á dýru skrifstofuhúsnæði og aðgang að hæfu fólki um allt land. Það er því alveg á hreinu að hér þarf fólk til að stjórna verkefninu sem virkilega hefur áhuga á að láta verkefnið ganga upp. Ég mæli með Samfylkingunni.
Mannlegi þátturinn. Það er auðvitað mismunandi eftir störfum hve miklar eða litlar kröfur þau gera um bein samskipti. Í fjarnámi á Bifröst sem ég þekki vel til er tekið á þessu með sérstökum vinnuhelgum þar sem fólk hittist, styrkir hópkenndina og fær fyrirlestra og vinnur verkefni sem betra er að vinna í hóp. Þetta má auðveldlega útfæra í atvinnulífinu.
Hæft fólk. Einhver varpaði því fram að með því að hvetja landsbyggðarfólk til að sækja um væri verið að mismuna umsækjendum. Það er misskilningur. Það er verið að hvetja fólk til að sækja um. Ég hef engar áhyggjur af því að landsbyggðarfólk standist ekki fyllstu kröfur. Þetta eru sömu raddir og oft heyrðust þegar farið var að hvetja konur til að sækja um hefðbundin karlastörf.
Frjáls búseta. Byggðaþróun eins og hún er í dag er þvinguð. Tækifærin eru ekki þau sömu á landsbyggðinni og í borginni. Landsbyggðin hefur samt upp á margt að bjóða sem borgin hefur ekki, s.s. barnvænt umhverfi, aðgang að náttúru og hesthús í göngufæri í stað kaffihúss svo dæmi séu tekin. Með því að jafna tækifæri fólks til atvinnu við sitt hæfi erum við í raun að stuðla að frelsi til að velja sér búsetu.
Fleiri fylgja í kjölfarið. Með markvissu átaki í að fjölga störfum óháðum staðsetningu verður til þekking á þessu sviði, fólk venst á að stimpla sig inn á tölvunni sinni í stað þess að ganga að stimpilklukkunni og fleiri fyrirtæki sem vilja spara í dýru atvinnuhúsnæði í miðborginni munu vilja fara sömu leið.
Hefð fyrir fjarvinnu. Þegar fleiri hafa kynnst fjarvinnu, hvort heldur er í störfum án staðsetningar eða fjarnámi opnast fleiri möguleikar t.d. á aukaefni fyrir nemendur í grunnskóla, á fjarnámi á framhaldsskólastigi fyrir nemendur á þeim svæðum þar sem ekki er framhaldsskóli (er reyndar til og nefnist dreifnám en mætti þróa frekar).
Mér dettur ekki í hug að Störf án staðsetningar leysi allan vanda landsbyggðarinnar. Það þarf fleira að koma til. En ég held að sú þróun að fólk geti ráðið því hvar það hefur starfsstöð muni draga fleira fólk út á landsbyggðina vegna þeirra kosta sem hún hefur upp á að bjóða. Störf án staðsetningar getur orðið til að flýta þeirri þróun.
Ég held að það sé rétt sem líka var sagt í athugasemdum hér að ofan - eftir nokkur ár verður þetta sjálfsagður hlutur og engum þykir fréttnæmt að einhver vinni sem sérfræðingur á sviði fjársýslu eða menntamála og búi í Aðaldalnum eða Reykhólasveitinni. Jafn sjálfsagt og gsm.
20.3.2007 | 00:57
Störf án staðsetningar
Ég er ákaflega ánægður með að þingmál Samfylkingarinnar, Störf án staðsetningar, komst í gegnum þingið. Ef við komumst í stjórn eftir kosningar í vor verður hægt að ráðast beint í framkvæmd þess en það gengur út að að skilgreina öll störf hjá ríkinu sem er hægt að vinna óháð staðsetningu.
Það eru um 25 - 30 þúsund störf á vegum ríkisins og umtalsverðan hluta þeirra má vinna (og eru unnin) í gegnum tölvu. Flest í dýrasta atvinnuhúsnæði landsins. Fyrir margar stofnanir hefði þetta í för með sér sparnað í dýru skrifstofuhúsnæði og aðgang að stærri hópi umsækjenda en auk þess myndi þetta veita öllum landsmönnum jöfn tækifæri til fjölbreyttra starfa - óháð búsetu.
Það er talið að með eðlilegri starfsmannaveltu gætu um 300-400 störf án staðsetningar losnað árlega (tvö álver?) sem þá yrðu auglýst með aukalegum texta eitthvað á þessa leið: "Þetta starf hefur verið skilgreint sem starf óháð staðsetningu. Landsbyggðarfólk er sérstaklega hvatt til þess að sækja um."
Auðvitað þarf að gera margt fleira til að jafna stöðu landsbyggðarinnar en ég tel að þetta geti haft gríðarlega þýðingu. Byggðirnar þurfa á því að halda að unga fólkið komi aftur heim að lokinni menntun og mjög margt fólk, ekki bara það sem er alið upp á landsbyggðinni, vill gjarna njóta þeirra kosta sem landsbyggðin hefur upp á að bjóða fyrir ungt fjölskyldufólk.
Þetta er eins og Kaninn segir "win, win situation".
18.3.2007 | 18:32
Sáttmáli um Fagra Ísland
Ég fagna áskorun Framtíðarlandins til stjórnmálaflokka og -manna um að skrifa undir sáttmála um framtíð Íslands. Það er virkilegt fagnaðarefni að þverpólitísk samtök skuli setja fram áskorun um að undirrita þennan sáttmála þó í raun megi segja að Samfylkingin hafi skrifað undir hann fyrir 7 mánuðum, í september þegar þingflokkurinn kynnti Fagra Ísland.
Innihaldið er það sama fyrir utan að Fagra Ísland Samfylkingarinnar gerir meiri kröfur til þess að náttúran verði rannsökuð á forsendum verndunar. Samfylkingin leggur til að farið verði í Rammaáætlun um náttúruvernd en ekki látið duga að klára Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.
Sú síðari er á forsendum virkjana og gefur okkur ekki verkfæri í hendur til að takast á við fyrirhugaðan Kjalveg, byggingu hálendishótela eða annarra óafturkræfra framkvæmda annarra en virkjana. Það er ekki nóg - við þurfum að byrja á að rannsaka náttúruna alla á forsendum náttúruverndar og tryggja verndun verðmætra svæða áður en frekar er hugað að framkvæmdum.
Það má kannski furðu sæta að enginn flokkur eða samtök hafi verið búin að setja fram þessa tillögu að lausn fyrr en Samfylkingin með Fagra Íslandi í september. Ég held að skýringin sé einföld, lausnin hlaut að koma fram í flokki með ólík sjónarmið en vilja til að ræða málin og komast að niðurstöðu sem sátt væri um.
Lausnir koma miklu síður fram í flokkum þar sem allir eru á sömu skoðun eða þar sem ólíkar skoðanir eru uppi en menning flokksins kemur í veg fyrir að það sé viðurkennt og málin rædd.
Það er vinsælt að átelja Samfylkinguna fyrir að hafa ólík sjónarmið. Ég held hins vegar að það sé styrkur Samfylkingarinnar að þar eru ekki allir á sömu skoðun í öllum málum. Það breikkar sjónarhornið og EF fólk þorir og vill skiptast á skoðunum og leita lausna þá skilar það betri niðurstöðu. Það skilar lausn sem margir geta skrifað undir.
Ég vona sannarlega að margir geti skrifað undir sáttmála Framtíðarlandsins og ég vona líka að sömu aðilar sjái hvaða flokkur það er sem hefur rætt sig að sömu niðurstöðu og gert sér tímasetta áætlun um það hvernig það ætlar að takast á við málið og leiða það til lykta.
Samfylkingin hefur líka sett fram mjög framsýnar tillögur um eflingu hátækni- þekkingar- og skapandi iðnaðar sem nú þegar hefur skapað þúsundir starfa og skilar mörgum sinnum meiri verðmætasköpun til þjóðfélagsins en öll stóriðja til samans.
Tillögur Samfylkingarinnar, Nýja Atvinnulífið, unnu m.a. 1. 2. og 3. verðlaun á Sprotaþingi um daginn en þá stóðu Samtök Iðnaðarins og Samtök Sprotafyrirtækja fyrir keppni á meðal þingflokkanna um tillögur sem skilað gætu skjótum og góðum árangri fyrir þennan hluta atvinnulífisins.
Við höfum fengið frábærar viðtökur frá atvinnulífinu og erum staðráðin í að hrinda þessum tillögum í framkvæmd um leið og við komumst í aðstöðu til.
Virkjum hausinn, verndum náttúruna.
![]() |
Framtíðarlandið kynnir sáttmála um framtíð Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.3.2007 | 17:44
AF STYRMI
Styrmir Gunnarsson tileinkar mér heilan Staksteinaleiðara í Morgunblaðinu í dag. Yfirskriftin er AFSAKIÐ og tilefnið að biðjast forláts á því að aðstoðarritstjórinn sagði í "fréttaskýringu" á forsíðu blaðsins þögn hafa ríkt um umhverfismál í eldhúsdagsræðum Samfylkingarinnar.
Það er óvíst sé innistæða sé fyrir afsökunarbeiðni ritstjórans. Mun líklegra er að þarna sé hann að beita þeirri gamansemi sem hann er nú orðinn þjóðþekktur fyrir og hefur verið vottuð á hæstu stöðum. Hefur e.t.v. lesið þetta á prenti í morgun og slegið sér á lær! Sniðugt.
Ástæða afsökunarbeiðninnar var að í gær ritaði ég grein í blað ritstjórans þar sem ég rakti síendurteknar tilraunir Moggans til að gera lítið úr umhverfisstefnu Samfylkingarinnar í þeim tilgangi að draga athyglina frá metnaðarleysi Sjálfstæðisflokksins í grænu málunum.
Ég taldi "blaði allra landsmanna" til lítillar virðingar að breytast í stækt málgagn Sjálfstæðisflokksins korteri fyrir kosningar. Það hefur kannski stuðað ritstjórann spaugsama.
Styrmir veit manna best að það eina sem er hugsanlega hægt að kalla grænt í Sjálfstæðisflokknum er ritstjórn Morgunblaðsins. Formaður Sjálfstæðisflokksins telur hæfilegt að byggja 3-4 álver á næstu árum og sú skoðun er ríkjandi innan hans að loftslagsbreytingar hafi ekkert með athafnir mannsins að gera.
Ritstjóranum innmúraða þykir hins vegar vænt um flokkinn sinn og beitir þess vegna öllum ráðum til að vernda hann. Honum hefur augljóslega ekkert gengið að vinna grænum hugmyndum sínum fylgi innan flokksins og því bregður hann á það örvæntingarfulla ráð að ráðast á aðra. Beina athyglinni annað.
Örvænting ritstjórans yfir afturhaldi flokksins hefur tekið á sig ýmsar broslegar myndir t.d. að taka hið heilaga tákn Sjálfstæðisflokksins, bláa fálkann, og lita hann grænan. Í fyrra var fálkinn gerður bleikur.
Hvort tveggja er brandari af því það er í hróplegri mótsögn við afstöðu flokksins og það er sorglegt af því þessi meðferð á einkennistákni flokksins lýsir mikilli örvinglan.
Margir sannir sjálfstæðismenn hljóta að vera uggandi yfir framtíð fálkans bláa. Gulur, rauður, grænn og blár!
Ég hvet fólk til að setja upp sterkari gleraugun þegar það les fréttir Morgunblaðsins næstu vikurnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
17.3.2007 | 01:47
Hvað kjósa framsýnir sjálfstæðismenn í vor?
Það er óhætt að segja að framsögur ræðumanna á Iðnþingi í gær hafi vakið athygli.
Aðeins örfáum dögum eftir að Sjálfstæðisflokkur og Vg lýsa sameiginlega yfir að ESB umsókn komi ekki til greina lýsir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður og forsætisráðherra Sjálfstæðiflokksins, yfir algerlega gagnstæðum sjónarmiðum.
Í raun gekk hann svo langt að segja að það þyrfti alveg sérstaklega góð rök fyrir því að sækja ekki um aðild. Hann sagði krónuna grafa undan stöðugleikanum og að sjálfstæð peningastefna væri lítils virði miðað við kostnaðinn sem fyrirtæki og einstaklingar bera af óstöðugu efnahagsumhverfi.
Með öðrum orðum lagði þessi þungaviktarmaður innan Sjálfstæðisflokksins til að við sæktum um inngöngu í ESB, tækjum upp Evru og lokuðum Seðlabankanum. Örfáum dögum eftir að Geir Hilmar Haarde, núverndi formaður, hefur sagt að ESB aðild komi ekki til greina. Einhverjir myndu nú kalla það sundurlyndi ef svona skiptar skoðanir væru innan Samfylkingarinnar!
Formaður Samtaka Iðnaðarins tók afdráttarlaust í sama streng. Hann hefur hingað til ekki verið talinn Samfylkingarmaður en þegar líða tók á ræðuna var ég farinn að trúa á að ræða hans myndi enda á tilkynningu um inngöngu í Samfylkinguna. Hann talaði í flestu eins og beint upp úr stefnuskrá þess ágæta flokks.
Formaðurinn vildi, eins og Samfylkingin, öfgalausa umræðu um ESB aðild og upptöku Evru. Hann telur lífsnauðsynlegt fyrir efnahagslífið að endurheimta stöðugleikann og algerlega nauðsynlegt að leiða til lykta deilur um náttúruvernd og nýtingu auðlinda. Hann segir of langt að bíða með það til 2010. Það þurfi að setja þetta mál í forgang, bæði náttúrunnar vegna og þeirra sem gert hafa áætlanir um framkvæmdir af ýmsu tagi.
Hann gæti eins verið að lesa upp úr Fagra Íslandi. Að það þurfi að nýta næstu misseri í að gera Rammaáætlun um náttúruvernd, samhliða Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, svo hægt sé að taka frá þau svæði sem við viljum vernda, tryggja verndun þeirra og skapa í eitt skipti fyrir öll frið um þessi mál.
Það er augljós hin megna óánægja Sjálfstæðismanna með afturhaldsaman flokk sinn. Flokk sem neitar að horfast í augu við efnahagsmistök sem hafa kostað fyrirtæki og einstaklinga stórfé, neitar að viðurkenna að ESB aðild er lykillinn að áframhaldandi hagsæld, neitar að takast á við náttúruverndar- og auðlindamálin, neitar því að hlýnun loftslags sé af manna völdum.
Það er stór hópur manna í viðskiptalífinu sem hefur fengið sig full saddann af afturhaldinu. Finnst óþægilegt að bláa loppan skuli enn stjórna skoðunum flokksins og stefnumálum í mikilvægustu málum stjórnmála dagsins í dag. Finnst tími til kominn að gefa flokki sínum sitt undir hvorn - gefa honum frí.
Þessi hópur framsýnna Sjálfstæðismanna getur reitt sig á að Samfylkingin berst jafn hart fyrir þessum sjálfsögðu framfaramálum og Sjálfstæðisflokkurinn berst hart gegn þeim.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
13.3.2007 | 22:03
Sleepless in Seattle
Undanfarna daga hefur maður verið svefnvana í Seattle - það er 7 klst. tímamunur og maður vaknar óvart býsna snemma flesta daga.
Það hefur hins vegar verið afar fróðlegt að kynnast umhverfisáherslum Seattleborgar en Umhverfisráð Reykjavíkurborgar er núna í sérstakri ferð til að kynna sér leiðir borgarinnar til að takast á við ýmis þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir í Reykjavík.
Borgin hefur, á fylkisvísu, þótt mjög framarlega í umhverfismálum og það er sérstaklega gaman fyrir Reykjavík að skoða þróunina því borgin hefur lengst af tekið mið af einkabílnum í þróun byggðar, rétt eins og í Reykjavík. Fyrir all nokkru sáu borgaryfirvöld þó að í óefni stefndi og hafa síðan þá náð góðum árangri í samgöngumálum - alla vega á okkar mælikvarða.
Það er gaman að sjá viðhorf bandaríkjamanna til lausna á algengum vandamálum eins og samgöngumálum. Þeir vilja stýra því hvort fólk notar einkabíl eða almenningssamgöngur en þeir banna að sjálfsögðu ekki bíla. Þeir ýta á fólk þar sem það finnur sárast til - í veskinu. Þannig virkar það í landi frelsisins.
Það er gaman að sjá bandaríkjamenn útskýra umferðartafir út frá strangasta skilningi lögmáls framboðs og eftirspurnar: "Ef það er svo mikil eftirspurn eftir því að komast niður í bæ að það myndast röð - þá kostar bara ekki nógu mikið að komast niður í bæ!" Í mínum huga er umferðarþróun frekar spurning um heilbrigða skynsemi en um blinda trú á annað hvort ráðstjórn eða framboð og eftirspurn.
Það kostar sitt bæði í landnotkun, umferðarhættu og mengun að hafa bílaumferðina eins og hún er og við gætum auðvitað fækkað ónauðsynlegum ferðum, farið meira með strætó og farið fleiri saman í bíl. Það er þess vegna æskilegt að það sé dregið úr umferð og það er meðal annars hægt með því að gera aðra valkosti en einkabíl (einn í bíl) hagkvæmari í samanburði. Þetta höfum við í Samfylkingunni oft talað um og köllum hagræna hvata. Það virkar betur en boð og bönn.
Við verðum að koma okkur saman um hvernig við viljum að borgin okkar þróist og gera okkur grein fyrir því að það er ekki bæði sleppt og haldið. Það er ekki bæði hægt að búa í úthverfi en líka í göngufæri við Kaffi Tár í Bankastrætinu. Það er hins vegar hægt að þróa byggðina þannig að þú hafir í göngu/hjólafæri það sem þú leggur mesta áherslu á t.d. vinnu, verslanir, skóla, kaffihús, græn svæði, sundlaugar o.s.frv.
Ef við gerum það þá held ég að við uppskerum meiri lífsgæði. Minni mengun, minna umferðarstress, færri slys, minni kostnaður við samgöngur og meiri peningar til að setja í annað. Þetta er ekki spurning um flokkspólitískan skoðanaágreining og það er mikilvægt að þessi mál séu ekki dregin ofan í slíkar skotgrafir eins og menn hafa stundum freistast til að gera.
Samgöngumál eru mikilvægur hluti af borgarþróuninni og lífsgæðum fólks og ætti að vinna í þverpólitískri sátt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
10.3.2007 | 21:50
Bætum kerfið!
Á þessari síðu hefur dálítið verið fjallað um þetta alvarlega ástand í tannverndarmálum, bæði í pistlum og eins í fjölmörgum ágætum athugasemdum sem settar voru inn á heimasíðuna í tilefni af þeim.
Eins og kerfið er þá hreinlega verið að hvetja til tannskemmda þar sem sú greiðsla sem þó er greidd er stundum frekar greidd fyrir viðgerðir en fyrir forvarnir eins og t.d. skorufyllingar. Það er sem sagt verið að eyða miklum peningum í kerfi sem stuðlar að skemmdum tönnum.
Þetta ástand kostar samfélagið stórfé og börnin tannheilsuna. Þarna er að verið að ýta undir stéttskiptingu í þjóðfélaginu. Þessu verðum við að breyta þegar ný ríkisstjórn er tekin við. Tækifærið er 12. maí.
![]() |
Skemmdir í 16 af 20 tönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.3.2007 | 09:57
Hver er metnaður Íslands?
Samfylkingin vill ábyrga umræðu um loftslagsmál, um markmið þjóðarinnar, metnað og sýn. Til að hvetja til umræðu um málið bauð flokkurinn í sunnudagsbíó á mynd Al Gores "An Inconvenient Truth" í Háskólabíói um daginn. Þangað mættu um 300 manns og ljóst af samtölum við fólk eftir sýninguna að því finnst stjórnvöld draga lappirnar í þessu máli.
Eini metnaður okkar í þessum málum virðist vera að virkja allar sprænur svo það sé hægt að framleiða hér meira af áli, sem annars væri framleitt með kolaorku annars staðar. Þetta er hins vegar grundvallar misskilningur. Það hefur ekki einni einustu kolakyntu álbræðslu verið lokað úti í heimi til að reisa álver á Íslandi.
Við erum hins vegar ódýr og þess vegna loka álbræðslur glaðar erlendis, endurselja raforkusamninga sína ytra og koma hingað í ókeypis landið. Það minnkar ekki mengun. Það hjálpar til við að halda áli lágu í verði sem dregur úr kröfu á endurvinnslu. Það er framlag náttúru Íslands til að bæta heiminn - að fresta kröfum um endurvinnslu áls.
Ríkisstjórnin kynnti áætlun sína um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda um daginn. Umhverfisráðherra sagði að 2050 ætluðu Íslendingar að vera búnir að draga saman losun um 50-70% miðað við 1990. Það er eftir næstum hálfa öld! Þetta er ekki áætlun, þetta er í skásta falli spádómur!
Aðrar þjóðir eru að setja sér tölu- og tímasett markmið til næstu ára. ESB núna til 2020. Ætlum við bara að vera skussar í þessu?
Heimurinn er að færast í átt til grænnar orku sem við eigum enn dálítið til af og getum eflaust nýtt miklu betur í framtíðinni án þess að ganga á náttúru landsins. Ættum við ekki frekar að flýta okkur hægt, kanna hvernig er hægt að nýta orkuna til að skapa hér sjálfbært orkusamfélag heldur en að hugsa um það eitt að lækka raforkureikninginn hjá álbræðslum?
![]() |
Blair segir gríðarlegar breytingar í vændum í loftslagsmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |