Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bless

Engu við síðustu færslu að bæta
- öðru en að ég verð hér http://blog.eyjan.is/dofri/


Of seint

Að setja DO í ritstjórastól Moggans er aum tilraun til að endurskrifa söguna DO og FLokknum í hag. Auðvitað bera margir sök á því hvernig komið er fyrir íslensku samfélagi en enginn einn maður ber þó meiri ábyrgð á því en DO. En það er of seint.

Blind trú á frjálshyggju, markvisst niðurrif eftirlitsstofnana, röð alvarlegra hagstjórnarmistaka, einkavinavæðing og frændhygli sem teygði anga sína allt upp í Hæstarétt. Allt þetta er lýðum ljóst og þótt Mogginn færi ókeypis inn á hvert heimili myndi það ekki duga DO til að ljúga sig út úr fortíðinni.

Hugsanlega mun honum takast að gera Moggann að málgagni Heimastjórnarflokksins, LÍÚ og annarra einangrunarsinna sem ekki vilja umfjöllun fjölmiðla um báðar hliðar málsins. Það kann að verða markaður fyrir það. En ekki á mínu heimili.

Reyndar spái ég að DO muni sem stjórnandi rústa Mogganum á tiltölulega stuttum tíma. Það sem fortíð hans mun ekki sjá um með fjöldauppsögnum munu stjórnarhættir hans gera.


mbl.is Ekki búið að ráða nýjan ritstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég efast

Ég hef ekki trú á að þessi frétt sér rétt og ekki heldur fréttir úr sama ranni nýverið um að verð fasteigna sé að hækka. Fólk hefur verið að skiptast á eignum á einhverju 2007 verði og því hefur skráð verð í sölusamningum verið miklu hærra en markaðsverð.

Inn í þessa frétt um fjölgun samninga vantar upplýsingar um hvað mikið af þessum samningum eru makaskiptasamningar og hvort eitthvað af samningunum má rekja til nauðungarsamninga. Eða eru erlendir aðilar kannski farnir að sýna fasteignum hér áhuga?

Staðreyndin er sú að verð á fasteignum hefur hrunið enda var hækkunin á fasteignaverði undanfarin ár alveg glórulaus. Ástandið var orðið þannig að það gat enginn keypt sér sæmilega íbúð á höfuðborgarsvæðinu nema vera milljónamæringur eða steypa sér tugmilljóna skuldir. Það er ástand sem gengur ekki upp og engin ástæða til að stefna að þótt auðvitað sé varanleg verðlækkun fasteigna sár fyrir þá sem keyptu rétt áður en bólan sprakk.

Það sem alltaf hefur vantað hér á landi - og Samfylkingin lagði þunga áherslu á fyrir borgarstjórnarkosningar 2006 - er traustur leigumarkaður fyrir fólk eftir að skólagöngu lýkur. Hann til í öllum nágrannalöndum okkar og er algengasta val ungra fjölskyldna sem eru að hefja sinn starfsferil, eignast börn og safna sér peningum fyrir útborgun í íbúð.

Einhverra hluta vegna hafa lífeyrissjóðir á Íslandi ekki sýnt þessu mikilvæga máli áhuga. Hafa líklega talið betra fyrir launafólk að ávaxta peningana annars staðar. Dæmi hver fyrir sig.


mbl.is Fasteignamarkaðurinn loksins að taka við sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýsandi

Þá er formlega búið að skilja á milli borgaranna og hreyfingarinnar. Búið að fella forskeytið niður og eftir stendur ending orðs án tilgangs.

Svona eins og skott án hunds.


mbl.is Hreyfingin verður til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gangandi börn í Breiðholti og Grafarvogi

Í Breiðholti eru fæst börn keyrð í skólann af öllum hverfum borgarinnar, aðeins um 14% og næstfæst í Grafarvogi, aðeins um 16%. Önnur hverfi koma þar langt á eftir og í sumum hverfum er allt að 38% barna ekið í skólann á morgnana.

Þetta skapar mikla hættu á skólalóðinni. Fólk getur ímyndað sér hvernig ástandið er í skóla þar sem um 200 bílar eru að reyna að komast upp að skólanum á sömu 5-10 mínútunum. Stressuð á klukkunni, í myrkri, rigningu og jafnvel hálku á bílastæðinu. Það er ástæða fyrir því að Umferðarstofa segir skólalóðina hættulegasta staðinn fyrir börn í umferðinni.

Það besta sem hægt er að gera fyrir öryggi barna í umferðinni er að gera þeim auðvelt og hvetja þau til að ganga í skólann. Í fréttum í gær var sagt frá slíku átaki í Grundarskóla á Akranesi.

Einnig er lofsverð græn samgöngustefna Grafarvogs en um hana hafa tekið saman höndum hverfisráð Grafarvogs, grunnskólar, leikskólar, íþróttafélagið Fjölnir og aðrir frístundaaðilar með það í huga að auka öryggi barna, draga úr umferð innan hverfisins og bæta hverfisbraginn. Allir aðilar hvetja börn eru hvött til að ganga, hjóla og taka strætó til og frá skóla og frístundastarfi. Foreldrar eru hvattir til að sameinast um skutl til þegar þess er þörf.


mbl.is Kysst bless við sleppibílastæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega magnað lið

Og gott svar Eddu við undarlegri spurningu um hvort þær hefðu ekki verið farnar að vorkenna hinu liðunu: "Þetta er enginn firmabolti!" Nú er það HM næst.


mbl.is Fáheyrðir yfirburðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sinalco takk

Ef ég man rétt merkir forskeytið "sin" án og þessi drykkur mun því hafa merkinguna án alco sem hefur eflaust hefur verið stytting fyrir alcohol. Þegar Sinalco var upphaflega sett á markað hefur væntanlega verið talin svo mikil eftirspurn eftir góðum óáfengum drykk að framleiðendur hafa ákveðið að benda á þann eiginleika drykkjarins í nafni hans.

Alco getur hins vegar allt eins verið stytting fyrir álfyrirtæki og þar sem Íslendingar virðast vera í sérstökum áhættuhópi gagnvart álfylleríi legg ég til að þegar í stað verði hafist handa við að móta íslenska orkustefu sem gengur út á að laða hingað iðnað sem er umhverfisvænn, skilar fleiri störfum en álver og skapar meiri virðisauka í landinu. Slík stefna mætti gjarna heita Sinalco.


mbl.is Stærsti álframleiðandi Kína spáir í Þeistareyki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þau hafa ekkert lært

Hátt í ár hefur þessi hlutur OR í HS orku verið til sölu en ekkert tilboð hefur borist annað en þetta frá Magma sem valdir einstaklingar fengu 100 milljónir fyrir að útvega. Bendir það til þess að íslenskur orkumarkaður lúti lögmálum venjulegrar samkeppni? Ætti ekki öllum að vera ljóst að samkeppnislögin eiga engan veginn við í þessu tilfelli?

Öllum er ljóst að tilboð Magma er mjög slakt. Þar tekur almenningur alla áhættu en einkaaðilinn Magma enga. Samt vill meirihlutinn ekki fara fram á lengri frest við Samkeppnisstofnun. Af hverju ekki? Telur Hannesaræskan að draumur hennar um einkavæðingu orkufyrirtækjanna sé loks að rætast?

Ekki hefur verið upplýst hver á skúffufyrirtækið sem Magma stofnaði í Svíþjóð til að kaupa hlut OR í HS orku. Þar sem er REI-kur leynist oft eldur. Sporin hræða. Hvar er Finnur?


mbl.is Sala í HS Orku samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2. hver bíll árið 2020 - tillaga Samfylkingar

Á morgun leggur Samfylkingin fram eftirfarandi tillögu á fundi borgarstjórnar:

Tillaga Samfylkingar um vistvæna bíla.

Borgarstjórn samþykkir að setja sér það markmið að árið 2020 verði að minnsta kosti annar hver bíll í Reykjavík knúinn vistvænu, innlendu eldsneyti. Skipaður verði starfshópur sem kortleggur bestu leiðir til að ná þessu markmiði. Samvinna og samráð verði haft við löggjafa- og framkvæmdavald, nágrannasveitarfélög, fyrirtæki, frjáls félagasamtök og aðra þá aðila sem hjálpað geta til við að ná þessu markmiði Reykjavíkurborgar.

Greinargerð.

Á undanförnum árum hafa borgir víða tekið forystu í stórum umhverfismálum. Eitt af stærri málum þar sem borgir hafa haft leiðandi hlutverki að gegna er við þróun og breytingar á innviðum samfélagsins til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun.

Samkvæmt nýrri skýrslu Mannvits fyrir Reykjavíkurborg um raunhæf markmið í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eru tæknilegar lausnir s.s. fjölgun metanbíla, íblöndun lífeldsneytis í bensín og dísil og innleiðing nýrra ökutækja, sér í lagi rafmagns og E85 bíla, skilvirkustu leiðirnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til skemmri og lengri tíma.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í tengslum við ráðstefnuna Driving Sustainability flytja Íslendingar inn eldsneyti fyrir um milljarð króna á mánuði en hafa alla möguleika á að stórauka notkun á innlendri vistvænni orku til samgangna. Möguleikar á gjaldeyrissparnaði eru því umtalsverðir og í ljósi efnahagsástandsins hljóta stjórnvöld að hafa ríkan vilja til að ná slíkum sparnaði fram.

Reykjavíkurborg hefur að mörgu leyti betri aðstöðu en flestar aðrar borgir til að setja sér og ná metnaðarfullum markmiðum á þessu sviði. Í verkefni af þessu tagi nýtur borgin smæðar sinnar, stjórnsýslan er einföld og návígi við löggjafa-  og framkvæmdavald er meira en flestar erlendar borgir eiga kost á. Loks á borgin orkufyrirtæki sem framleiðir umhverfisvæna raforku og getur því tryggt mögulegri rafbílavæðingu alla þá orku sem þörf er á.

Reykjavíkurborg býr sjálf yfir mörgum tækjum til að ná markmiði því sem sett er fram í tillögu þessari s.s. að efla forgangsakreinakerfið og veita vistvænum bílum aðgang að því, setja skilyrði um fjölorkustöðvar, skapa hagræna hvata fyrir eigendur vistvænna bifreiða og ganga á undan með góðu fordæmi í innkaupum á bifreiðum.

Til að ná metnaðarfullum markmiðum um vistvænar samgöngur þarf samstarf margra aðila. Því er í tillögutexta sérstök áhersla lögð á að starfshópur hafi samráð við alla þá sem aðstoðað geta við að ná settu markmiði. Hlutverk starfshópsins yrði að kortleggja bestu leiðir í samráði við þessa aðila og skila svo tillögum þar að lútandi til borgarstjóra.

Hér hefur verið bent á tvenns konar hag sem borgin hefði af markmiði þessu, samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda og gjaldeyrissparnaður. Telja má víst að því til viðbótar myndi markmið af þessu tagi örva mjög alla þróun nýrra lausna sem málinu tengjast og þannig hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf. Síðast en ekki síst myndi markmið um annan hvern bíl á vistvænu innlendu eldsneyti fyrir 2020 vekja athygli á Reykjavík sem hreinni og metnaðarfullri höfuðborg en orðspor af því tagi verður seint metið til fjár.


mbl.is Sjálfbært Ísland í bílaeldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sénsinn!

Ódýrustu lóðirnar á rúmlega 11 milljónir! Þetta bjóða flokkarnir sem fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar lofuðu fólki lóðum á 4 milljónir.

Það er ekki séns að lóðirnar fari á þessu verði.


mbl.is Byggingaréttur seldur á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband