25.1.2007 | 15:34
"Samfylkingin alfarið á móti því að virkja í Skagafirði"
Þessa frétt gefur að líta á Skagafjörður.com Hér fyrir neðan er texti fréttarinnar.
Á opnum stjórnmálafundi með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í gærkvöld svaraði hún spurningu blaðamanns Feykis um afstöðu Samfylkingarinnar til virkjanamála í Skagafirði. Sagði Ingibjörg aðspurð að Samfylkingin hefði tekið þá skýru afstöðu að virkja ekki Jökulárnar í Skagafirði.
Ingibjörg lét í ljós þá skoðun sína á fundinum að ekki væri ráðlegt að fara í meiri stóriðjuframkvæmdir á næstu árum og að hagkerfið þyrfti tækifæri til þess að kæla sig niður eftir þennslu síðustu ára. Ingibjörg varaði Skagfirðinga við því að setja virkjun inn á aðalskipulag og vildi meina að eftir það yrði ekki aftur snúið. -Samfylkingin hefur tekið afstöðu til þess að ekki verði ráðist í það að virkja jökulárnar í Skagafirði. Það á ekki að virkja hér til þess eins að selja orkuna áfram yfir á stóriðjusvæði. Komi til sértækra úrræða sem kalli á aukna raforku heima í héraði má alltaf taka málið upp að nýju. Sé hins vegar virkjun sett inn á skipulag er erfitt ef ekki ómögulegt að snúa til baka. sagði Ingibjörg Sólrún í lokaorðum sínum á fundinum.
Í haust sem leið lagði skipulags- og byggingarnefnd fram breytingartillögu sem gerði ráð fyrir að sýnt yrði virkjunarsvæði í jökulánum á aðalskipulagi. Fór þessi tillaga fyrir sveitastjórn og var samþykkt þar. Þar samþykkti Samfylkingarfólk í Skagafirði að setja virkjun inn á aðalskipulag. Það er því ljóst að skoðanir Samfylkingarfólks í sveitastjórn Skagafjarðar og flokksins á landsvísu fara ekki saman. Aðspurð sagði Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, oddviti Samfylkingar að afstaða formanns þyrfti ekki að koma á óvart enda væri hún í samræmi við stefnu þingflokksins.
-Þetta er spurning um túlkun. Ingibjörg Sólrún túlkar skipulagslögin þannig að hafi sveitarstjórn sett virkjunarhugmynd inn á aðalskipulag þá fækki úrræðum sveitarstjórna til þess að vera á móti viðkomandi framkvæmd komi hún upp á borðið siðar. Menn hafa ekki verið á eitt sáttir með þessa túlkun en í meirihlutasamkomulagi var sett skilyrði á þessa innkomu og var það skilyrði meðal annars það að leitað verði álits íbúa og svo framvegis. Við Samfylkingarfólk hér í héraði höfum ekki viljað loka þessari hurð en við erum heldur ekkert sértaklega að sækjast eftir því að það verði virkjað, segir Snorri Styrkársson Samfylkingu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Málefnið hefur sigrað!
Dönsum saman í takt þannig að allir horfi! Sýnum náttúru Íslands þá virðingu að stilla saman strengi flokkanna og dansa til sigurs í vor
Andrea fagnar breiðri samstöðu um náttúruverndAndrea J. Ólafsdóttir, 25.1.2007 kl. 23:02
Andrea segir það sem þarf. Sigrum núverandi ríkisstjórn.
Áslaug Sigurjónsdóttir, 25.1.2007 kl. 23:37
Þetta er allt í rétta átt og ég er sannfærð um að ef við stillum strengi okkar saman, þeas xs og xv að okkur mun takast að fella núverandi ríkisstjórn. Það er með sanni kominn tími til að beina athyglinni að því sem xd hefur gert þjóðinni til óþurftar undanfarna áratugina.
Ég fagna fagra Íslandi og þeirri vakningu sem hefur orðið innan xs um mikilvægi þess að stöðva stóriðjuframkvæmdir og vernda náttúruna okkar.
Birgitta Jónsdóttir, 26.1.2007 kl. 08:57
Tek heils hugar undir orð Birgittu hér um að nú verði þeir flokkar sem sett hafa náttúruverndarmálin í forgang Vg og Samfylking að snúa bökum saman og krefja hina flokkana um þeirra stefnu og þeirra tillögur. Það er ekki seinna vænna. Ef það er ekki hægt að fá þau svör núna í aðdraganda kosninga þá er hætta á að náttúruleysi stjórnarflokkanna ráði áfram för eftir kosningar.
Dofri (IP-tala skráð) 26.1.2007 kl. 13:02
Ég fagna þessari yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar. Þegar ég ræddi við hana á baráttufundi gegn virkjunum í Skagfirði í haust þar sem hún dreifði stefnuritinu "Fagra Ísland" og sat á fremsta benti ég henni á að hennar eigið fólk í Skagafirði hefði samþykkt að setja virkjanirnar inn á deiliskipulag.
Ingibjörg svaraði því til að virkjanaleyfið væri hjá ráðherra sem hefði endanlegt vald. Mér skildist á henni að henni þætti það næg trygging fyrir því að ekki yrði farið út í virkjanir en um það hef ég verið á öndverðri skoðun.
Að mínum dómi sýnir reynslan að eftiri að farið er að gera skipulag og undirrita síðan vilja- eða undirbúningsyfirlýsingar er farið af stað ferli sem ekki er hægt að stöðva. Nú sé ég að Ingibjörg hefur komist á sömu skoðun og ég og ég fagna því.
Nýlega lýsti Árna Sigfússon því yfir að standa verði við viljayfirlýsingar um álver í Helguvík, annars missi Íslendingar traust útlendinga til samningagerðar. Þess vegna verði ekki hægt að láta Suðurnesjamenn kjósa um álverið.
Þetta er aðferðin sem hefur verið notuð til að koma virkjunum inn. Annað dæmi: Við Trölladyngju gaf sveitarstjórn Grindavíkur rannsóknarleyfi sem hafði í för með sér stórfelld umhverfisspjöll við langlitfegursta gil á suðvesturlandi. Fara þarf upp í Kerlingarfjöll eða á Landmannalaugasvæðið til að finna annað eins.
Hvorki Skipulagsstofnun né Umhverfisráðuneytið fengu þetta mál inn á sitt borð. Nú er eftirleikurinnn hægur því að eftir þetta verður mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar algert formsatriði og allt flýgur í gegn, - það er búið að valda mestöllum þeim óafturkræfu umhverfisspjöllum sem þarna er um að ræða.
Ómar Ragnarsson, 26.1.2007 kl. 22:10
Ég fagna þessari yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar. Þegar ég ræddi við hana á baráttufundi gegn virkjunum í Skagfirði í haust þar sem hún dreifði stefnuritinu "Fagra Ísland" og sat á fremsta bekk, benti ég henni á að hennar eigið fólk í Skagafirði hefði samþykkt að setja virkjanirnar inn á deiliskipulag.
Ingibjörg svaraði því til að virkjanaleyfið væri hjá ráðherra sem hefði endanlegt vald. Mér skildist á henni að henni þætti það næg trygging fyrir því að ekki yrði farið út í virkjanir en um það hef ég verið á öndverðri skoðun.
Að mínum dómi sýnir reynslan að eftiri að farið er að gera skipulag og undirrita síðan vilja- eða undirbúningsyfirlýsingar er farið af stað ferli sem ekki er hægt að stöðva. Nú sé ég að Ingibjörg hefur komist á sömu skoðun og ég og ég fagna því.
Nýlega lýsti Árna Sigfússon því yfir að standa verði við viljayfirlýsingar um álver í Helguvík, annars missi Íslendingar traust útlendinga til samningagerðar. Þess vegna verði ekki hægt að láta Suðurnesjamenn kjósa um álverið.
Þetta er aðferðin sem hefur verið notuð til að koma virkjunum inn. Annað dæmi: Við Trölladyngju gaf sveitarstjórn Grindavíkur rannsóknarleyfi sem hafði í för með sér stórfelld umhverfisspjöll við langlitfegursta gil á suðvesturlandi. Fara þarf upp í Kerlingarfjöll eða á Landmannalaugasvæðið til að finna annað eins.
Hvorki Skipulagsstofnun né Umhverfisráðuneytið fengu þetta mál inn á sitt borð. Nú er eftirleikurinnn hægur því að eftir þetta verður mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar algert formsatriði og allt flýgur í gegn, - það er búið að valda mestöllum þeim óafturkræfu umhverfisspjöllum sem þarna er um að ræða.
Ómar Ragnarsson, 26.1.2007 kl. 22:12
En hvað finnst XS um ALCAN og Þjósá??
nuh (IP-tala skráð) 27.1.2007 kl. 11:46
Samfylkingin vill stoppa hér og nú, bæði til að skapa frið um náttúruverndarmál og til að kæla hagkerfið. Það er náttúrulega ekkert sniðugt að hafa þensluástand sem er þannig að fyrir hvern 50 þúsund kall sem þú borgar lánið þitt niður þá hækkar húsnæðislánið þitt um 50 þúsund krónur.
Varðandi Þjórsá, þá verður að segjast eins og er að allir sváfu á verðinum, líka við sem harðast höfum barist. Við vorum of fá og öll okkar orka og athygli beindist að stóra málinu fyrir austan. Ég vona að við getum snúið þessu við, byrjum á því að segja nei við þreföldun álvers í Hafnarfirði, kælum hagkerfið með því að slá öllum ákvörðunum um stóriðju á frest þangað til við höfum metið náttúruna og tryggt verndun verðmætra svæða.
Mér finnst ömurlegt að staðan skuli vera sú við Þjórsá að land og heimili manna verði tekin eignarnámi til að sökkva í stíflulón. Eignarnám er ofríkisaðgerð sem þarf brýna almannahagsmuni til að beita. Ég get ekki séð þá brýnu almannahagsmuni sem krefjast þess að þessu ofbeldi sé beitt gagnvart íbúum og landeigendum við neðri Þjórsá.
Dofri Hermannsson, 27.1.2007 kl. 15:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.