28.1.2007 | 11:50
Breið samstaða um náttúruvernd
Andrea Ólafsdóttir, ein af sterkustu konum Vg úr náttúruverndargrasrótinni, skrifar tímamótapistil á heimasíðu sína núna um daginn. Þar fagnar hún Samfylkingunni sem samherja í baráttunni fyrir náttúruvernd. Það voru orð í tíma töluð.
Allir sem fylgst hafa með þessum málum vita hvar Vg stendur í náttúruverndarmálum, hreyfingin á hrós skilið fyrir einarða baráttu. Hins vegar var alltaf ljóst að til að málefnið gæti unnið sigur yrðu fleiri flokkar að taka á þessum málum með afgerandi hætti.
Það hefur Samfylkingin svo sannarlega gert, í Fagra Íslandi er ekki bara sett fram skýr stefna í náttúruverndar- og loftslagsmálum, heldur eru þar vel mótaðar tillögur um það hvernig hægt er að ná tökum á ástandinu og skapa sátt um þennan málaflokk sem endalausar deilur hafa verið um á undanförnum árum.
Það var virkilega kominn tími til að Vg og Samfylking tækju höndum saman og mynduðu breiða samstöðu um þessi gríðarlega mikilvægu málefni.
Hér fyrir neðan er færsla Andreu undir fyrirsögninni
MÁLEFNIÐ SIGRAÐI - ég tek samherjum í náttúruvernd opnum örmum
Já loksins loksins getum við boðið XS upp í dans og tekið samstíga spor í tangó þannig að enginn má missa af! Náttúran og réttlæti í heiminum á hjarta mitt og ég tel XS vera næst VG og mest samstíga í flestum málaflokkum. Ég legg því til að XS og VG hætti að karpa sín á milli og taki dansinn saman, samstíga um málefnin sem skipta þjóðina okkar og landið gríðarlegu máli.
Mikið hefur farið fyrir náttúruvernd á undanförnum misserum, og alltaf meira og meira. Ég fagna því af einlægni fá mínum dýpstu hjartarótum að nú er loksins að verða breið samstaða um náttúruvernd innan stjórnarandstöðuflokkanna sem geta orðið raunverulegur valkostur kjósenda í vor í kosningum.
Þetta verður sterkasta liðið í vor, liðið sem boðar breytta tíma, sem boðar verndun náttúru Íslands.
Ég tek opnum örmum og fagnandi nýlegri stefnumótun XS um Fagra Ísland - það er vissulega fagnaðarefni að vakningin skuli vera orðin svo mikil sem raun ber vitni, því það eykur verulega líkurnar á því að náttúran fái fyrir alvöru að njóta vafans á næstu árum þegar við störfum saman í stjórnarráðinu. Ég tek því fagnandi að XS skuli vera að stilla saman strengi við landsbyggðarfólkið sitt eins og fram kemur hér : Um verndun jökulsánna í Skagafirði
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ein og þú, Dorfi, tók ég sérstaklega eftir pistli Andreu vegna þess að þar finn ég sömu viðleitni til samstöðu um þessi mál og ég hef verið að reyna að beita mér fyrir. Í þeirri hugsun felst að við sem erum á þessari línu styðjum hvert annað.
Í öðru bloggi þínu fagnar þú því hve Ingibjörg Sólrún haldi fast fram stefnuskránni "Fagra Ísland".
En betur má ef duga skal því á sama vettvangi segir hún að ekki eigi að skipta sér af því hvað fólk vilji gera í héraði. Í ræðu norður í Skagafirði féllst hún nýlega á það sjónarmið mitt að ef virkjanaframkvæmdir séu settar inn á skipulag sé ekki hægt að snúa til baka.
Þegar þetta tvennt er lagt saman, - annars vegar að heimamenn eigi að ráða því hvort þeir fara af stað í virkjanaferlinu, - og hins vegar að eftir að þeir fari af stað verði ekki aftur snúið, - er útkoman augljós: Stefnuskráin "Fagra Ísland" getur ekki stöðvað virkjanaæðið! Þið í Samfylkingunni verðið að mínu mati að setja fram betri "realpólitík" í þessu máli og ég hvet ykkur til þess.
Ómar Ragnarsson, 28.1.2007 kl. 14:53
Það sem fylgdi á eftir orðum Ingibjargar um að Samfylkingin á landsvísu ætti ekki að ráðskast með sveitastjórnarvaldið var þetta - hins vegar á Samfylkingin og aðrir stjórnmálaflokkar að bera pólitíska ábyrgð á hinu stóra samhengi sem eru náttúruverndin, efnahagsmálin og loftslagsmálin.
Þar vísaði hún til þess að það væri vitlaust gefið - núverandi ríkisstjórn væri búin að gefa allt frjálst og allt vald yfir stjóriðjustefnunni væri í raun komið á hendur fyrirtækja og einstaka sveitarfélaga. Það sama og bæði þú og ég höfum oftlega bent á - það ríkir Klondyke stemning í stóriðju- og virkjunarmálum.
Fagra Ísland tekur mjög skýrt á þessum parti - niðurstöður Rammaáætlunar eiga að liggja til grundvallar að landsskipulagi sem verður yfirsterkara og leiðbeinandi fyrir aðalskipulag sveitarfélaga. Það þýðir að sveitarfélög geta ekki - ef Fagra Ísland kemst í framkvæmd - ráðist í framkvæmdir sem ekki samrýmist Fagra Íslandi út frá verndarsjónarmiðum. Einfaldara og sterkara getur það ekki orðið.
Dofri Hermannsson, 28.1.2007 kl. 15:46
Hvernig er hægt að segja í öðru orðinu að sveitarfélög verði látin afskiptalaus um að setja virkjanir á skipulag og að eftir það verði ekki aftur snúið, - og segja svo í hinu orðinu að "sveitarfélög geti ekki, - ef Fagra Ísland kemst í framkvæmd - ráðist í framkvæmdir sem ekki samrýmis Fagra Íslandi út frá verndunarsjónarmiðum?
Ég hjó líka eftir því að Ingibjörg talaði um að stoppa framkvæmdir á suðvesturhorninu. Af hverju minntist hún ekkert á Norðurland? Það er þó ljóst að verði af álveri á Húsavík mun Alcoa stefna að 5-700 þúsund tonna álveri ef marka má yfirlýsingar allra álfyrirtækjanna.
Slíkt álver þarf afl tæplega tveggja Kárahnjúkavirkjana en það þýðir að virkja verði fallvötnin í Skagafirði og Skjálfandafljót. Í upphafi skyldi endinn skoða. Ég vil brýna þig til þess að fá skýrari og afdráttarlausari svör og skerpa á stefnu ykkar. Gangi þér vel með það.
omarragnarsson (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 21:09
Þetta er spurning um orsök og afleiðingu Ómar. Ríkisstjórnin er búin að setja það í þann farveg að sveitarfélögin ráða of miklu um landsnytjar s.s. virkjanir. Sú staða að Hafnfirðingar geta kosið að stækka álverið í Straumsvík er afleiðing af því. Þessu ætlum við að breyta eins og skýrt kemur fram í Fagra Íslandi. Og það munum við sannarlega gera.
Varðandi suðvesturhornið og Húsavík þá er ljóst að þær framkvæmdir sem eru í uppsiglingu eru báðar á suðvesturhorninu. Þær myndu ekki aðeins krefjast mikilla náttúrufórna heldur án vafa kalla á enn meiri þenslu, verðbólgu og hækkun húsnæðisskulda almennings. Húsavík er ekkert á dagskrá á næstunni.
Nýting orku í Þingeyjasýslu er ekkert öðrum skilyrðum háð en annars staðar á landinu. Orkan verður þá og því aðeins nýtt að hún brjóti ekki í bága við Fagra Ísland og niðurstöður Rammaáætlunar um náttúruvernd. Samfylkingin er hins vegar ekki á móti allri orkuvinnslu, ekki frekar en þú sjálfur.
Í Fagra Íslandi er skýrt kveðið á um friðun Skjálfandafljóts, Jökulsár á Fjöllum og Jökulánna í Skagafirði. Það er því alveg tómt mál að tala um það. Þetta er á hreinu. Það þarf þess vegna ekkert að skerpa á stefnunni, hún er afdráttarlaus og skýr. Þú mátt hins vegar alveg brýna mig og ég er ekkert of góður til að segja þetta aftur og aftur. Það tekur tíma að koma svona skilaboðum áleiðis og það verður einmitt best gert með því að endurtaka hlutina þar til allir eru með þá á hreinu. Þess vegna þakka ég kærlega fyrir tækifærið til að ítreka þetta og óska þér góðs gengis sömuleiðis.
Dofri Hermannsson, 28.1.2007 kl. 21:51
Þetta er ósköp einfalt. Fyrst þarf að rannsaka verðmæt svæði, svo þarf að tryggja verndun þeirra og eftir að sú heildarsýn liggur fyrir þá sést hvað er hægt að gera utan þeirra svæða sem á að vernda. Í orðalaginu að slá á frest felst að það er ekki tímabært að taka afstöðu til framkvæmda sem nú er verið að ráðgera. Framhaldið er algerlega háð niðurstöðu Fagra Íslands/ Rammaáætlunar um náttúruvernd og ótímabært og algerlega óþarft að taka um það ákvarðanir, af eða á.
Flokkarnir þrír sem þú nefnir eru mismunandi stig verndunar. Nú er það svo að ekki nema þrjú svæði njóta verndunar með lögum. Hin njóta svokallaðrar reglugerðarverndunar sem þýðir að ráðherra getur t.d. breytt stærð verndarsvæðisnins með pennastriki, eins og dæmin sanna við Eyjabakka.
Við viljum sem sagt lögverndun á öllu mikilvægustu svæðunum, reglugerðarvernd á fjölda annarra svæða og loks teljum við að í þriðja flokki ættu að falla svæði sem e.t.v. hefur ekki verið sýnt fram á að hafi stórkostlegt verndargildi en við viljum engu að síður að mjög sterkan rökstuðning þurfi til að fá þar leyfi til einhverra framkvæmda. Fyrir þessari flokkun eru fordæmi t.d. í norsku vatnalögunum.
Vona að þetta skýri málið.
Dofri (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 07:37
Ég er sammála Andreu Ólafs um hversu mikið fagnaðarefni Fagra Ísland Samfylkingarinar er - enn og aftur til hamingju með það, þetta er mikilvægt skref fram á við. Eins og Ómar bendir á heldur stóriðjuboltinn áfram að rúlla af krafti og það er algjörlega óásættanlegt. Við verðum að ná fram algjöru stóriðjustoppi, ekki seinna en núna - 12. maí. Ríkisstjórnarflokkarnir bera augljósa höfuðábyrgð á stóriðjustefnunni - og þeir fá vonandi að gjalda fyrir það í komandi kosningunum, ellegar er ljóst að eyðileggingin heldur bara áfram. Burt með stóriðjustjórnina!
Guðfríður Lilja (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 15:13
Hefur Samfylkingin áhuga á lýðræði ? Ein grunn hugmynd lýðræðissinna er að ákvarðanir séu teknar sem nærst því fólki sem málið varðar. Ef við aðhyllumst lýðræði, þá viljum við að ákvarðanir um virkjanir séu teknar af heimamönnum á hverjum stað. Þetta mál ætti ekki að vefjast fyrir Samfylkingunni, enda gerir nýleg samþykkt flokksins >> Fagra Ísland - Rammaáætlun um náttúruvernd << ráð fyrir þessum kosti:
"Samfylkingin telur að umhverfismál séu málaflokkur þar sem aðferðir beins lýðræðis henta ákaflega vel í ýmiss konar samspili við fulltrúalýðræðið. Því er sjálfsagt að kanna rækilega kosti atkvæðagreiðslna og skoðanakannana í þeim efnum."
Þrátt fyrir þessa samþykkt Samfylkingarinnar, hefur Dofri eftir Ingibjörgu:
"Ingibjörg Sólrún hefur aldrei sagt að í framtíðinni eigi sveitarfélögin að ráða hvort þau skipuleggja hjá sér virkjanir eða ekki. Af hverju heldurðu að í Fagra Íslandi sé talað um að láta Rammaáætlun um náttúruvernd verða grundvallarplagg fyrir landsskipulag sem verði ráðandi við gerð aðalskipulags sveitarfélaga?"Hver eru eiginlega viðhorf Samfylkingarinna ? Veit hægri höndin ekki hvað sú vinstri gerir ?
Á öðrum stað segir Dofri:
"Ingibjörg telur þó efnahagsástæður ekki síðri ástæðu til að staldra við í stóriðjumálum. Nú sé forgangsmál að kæla hagkerfið svo hægt sé að ná verðbólgu og vöxtum niður og skapa rými til að ráðst í nauðsynlega uppbyggingu á samgöngukerfinu."
Ef þetta er rétt eftir Ingibjörgu haft, ætti Samfylkingin að ráða sér mann sem er læs á efnahagsmál. Það blasir við flestum, að efnahagsleg hjöðnun er hafin og ef menn halda ekki stillingu sinni er hætta á snöggum samdrætti. Er Samfylkingin að óska þjóðinni efnahagslegs hruns ? Ummæli Ingibjargar um ónýta krónu benda til slíkrar óskhyggju. Er Samfylkingin ákveðin í að reita af sér allt fylgi, þannig að hún komi ekki til álita við stjórnarmyndun, að loknum kosningum ?
Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 00:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.