29.1.2007 | 08:53
"Tími kominn til að beina sjónum að Sjálfstæðisflokknum"
Það er athyglisvert að skoða nýjasta tölublað Framtíðarlandsins. Hér fyrir neðan er gripið niður í viðtal blaðsins við Ómar Ragnarsson og Andra Snæ sem ég hvet alla til að glugga í.
Ég held að það gerist ekki neitt nema með byltingu í Sjálfstæðisflokknum. Fólk heldur alltaf áfram að kjósa hann þótt hann standi í raun fyrir allt það sem fólk vill ekki. Fólk kennir Framsóknarfloknum um. Halldór Ásgrímsson sagði meira að segja af sér. En hver er afsökun Geirs? spyr Andri.
Árni Sigfússon er að detta í gryfjuna sem íslenskir stjórnmálamenn gera svo oft, að verða eins konar Stalínistar í atvinnumálum. Þegar varnarliðið fór hélt Árni að það stæði upp á sig að finna eitthvað annað, að hugsa upp nýjar verksmiðjur og raða svo fyrrum starfsmönnum vallarins eins og tindátum þangað inn. Þegar samfélagið er á sæmilegu róli þá þurfa stjórnmálamennirnir ekki að hafa áhyggjur af þessu einhverju öðru það kemur af sjálfu sér. Starfsfólkið á vellinum fann sér eitthvað annað án þess að djúpvitrir stjórnmálamenn kæmu með lausnirnar.
Ómar Ragnarsson hefur sagt opinberlega að hann telji vera þörf fyrir breiðan miðju-hægri umhverfisflokk, því öllum brögðum verði beitt til að þagga niður umhverfismálin í aðdraganda kosninganna. Slíkur flokkur gæti séð til þess að umhverfismálum verði rækilega haldið á lofti og komið í veg fyrir að þetta verði þriðju kosningarnar í röð þar sem umhverfismál verða hunsuð. En afraksturinn má ekki vera að taka atkvæði af öðrum grænum listum, takmarkið verður að vera að fjölga grænum þingmönnm.
Ómar segir þetta einmitt undirstrika þörfina á mið-hægri-grænu framboði en hann tekur undir með Andra að Samfylkingin eigi hrós skilið fyrir stefnu sína Fagra Ísland og að Vinstrihreyfingingrænt framboð verði einnig að fá að njóta sinna verðskulduðu grænu atkvæða.
Við hljótum að bíða spennt eftir því að Sjálfstæðismenn komi fram með metnaðarfulla stefnuskrá og tillögur í umhverfismálum fyrir landsfund sinn í apríl. Jafnframt hlýtur þar að koma fram afstaða til áframhaldandi stóriðju.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:00 | Facebook
Athugasemdir
Því miður er stöðugt verið að rugla saman mönnum og málefnum. Til að forðast þetta eiga menn að kynna sér og bera saman stefnuskrár flokkanna og gera þá kröfu til forystumanna þeirra að stefnuskránum sé fylgt í verki en ekki einungis í orði. Einfalt, ekki satt?
Júlíus Valsson, 29.1.2007 kl. 10:28
Já þetta er eiginlega alveg merkilegt með xd, hann er aldrei virkilega krafinn svara í mikilvægum málum eins og til dæmis hefur hann forðast og sloppið tiltölulega vel frá því að koma með skýra stefnu í umhverfismálum.
"Fólk heldur alltaf áfram að kjósa hann þótt hann standi í raun fyrir allt það sem fólk vill ekki."
Ég hef einmitt oft hugsað þetta og ég held að sumt fólk kjósi hann af gömlum vana, en ekki af því hann er að gera hluti sem fólkinu líkar. Það er eins og það virki sem sannleikur ef hlutir á borð við "sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem treystandi er fyrir efnahagsstjórn landsins" ... HAHAHA þetta er nú ekki alveg það sem er í reyndinni satt. Það veit fólk kannski samt ekki fyrr en það fer að hugsa almennilega út í hvernig ástatt er í efnahagsmálum hér; Verðbólga upp úr öllu valdi, túrbóvextir á öllum lánum, með skuldugustu þjóðum í heimi per landsmann, framkvæmdir í stóriðju sem hafa sett allt úr jafnvægi, erum vel á leið með að verða með menguðustu svæðum í Evrópu per mann, krónan í ruglinu þess vegna og Davíð reitir svo á sér hárið í Seðlabankanum (úr augsýn almennings þó) að krullurnar eru að hverfa!
Síðan er líka þess virði að minnast aðeins á einkavæðingarbrjálæðið sem ríkir innan XD sem ég held að mjög margir landsmenn, og jafnvel þeir sem samt kjósa XD, séu á móti. Fólk vill einfaldlega ekki einkavæða allt! Ég held að hinn skynsami íslendingur sjái alveg að okkur er mun hollara að horfa til hinna góðu velferðarsamfélaga á Norðurlöndunum í stað þess að taka USA til fyrirmyndar eins og XD virðist gera. Málin standa nefnilega ekki mjög vel í USA, en standa hins vegar alveg ágætlega á Norðurlöndunum.
Andrea J. Ólafsdóttir, 29.1.2007 kl. 10:57
Andrea er eitthvað illa upplýst um gang þjóðmála sýnist mér.
Upphrópanir duga þó alltaf á vissa þjóðfélagshópa.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 29.1.2007 kl. 13:03
Andrea, velferðarkerfið er að sliga Norðulöndin. Skattar hafa rokið þar upp úr öllu valdi og það sama má segja um skrifræðið þar. Er það þetta sem þið hjá Vinstra-Græna afturhaldinu ætla að bjóða landsmönnum upp á?
Ps. Andrea, það er fleira en stóriðja á Íslandi, hvað með fjármálastarfsemina, lyfjaiðnaðinn, sjávarútveg, kaffihúsaiðnaðinn, hátæknifyrirtæki eins og Marel og Össur, ferðamannaiðnaðinn o.fl. sem byggist upp hröðum skrefum eins og önnur starfsemi hér.
Örn Jónasson (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 17:23
Væri ekki nauðsynlegra að lýsa eftir stefnu "Hentistefnuflokksins" Samfylkingarhópsins.
Eftir nærri 10 ár hefur sá flokkur ekki enn náð heilsteyptri stefnu í viðamiklum málum.
Það er ekkert skrýtið að einungis 20% þjóðarinnar vilji kjósa þann flokk ef fólk veit ekki fyrir hvað hann stendur nema bara fyrir það að þetta er krataflokkur.
tóti (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 17:49
Kæri Heimir, þú beitir því sem kallað er Ad Hominem sem er sú aðferð rökþrota manna að beina athyglinni frá málefninu og að persónu þess sem viðkomandi er kominn í rökþrot gagnvart. Þú ert m.ö.o. búinn að gefa skákina gagnvart Andreu og það var snjallt af þér, þú varst með tapaða stöðu.
Kæri Örn. Helstu hagfræðingar heims eru mjög uppnumdir yfir frábærum árangri Norðulandaþjóðanna sem þeir þakka einkum góðum árangri við að byggja upp samfélag þar sem jöfnuður ríkir. Það trekkir að alþjóðleg fyrirtæki og besta starfsfólk í heimi, býður upp á stöðugt umhverfi og þess vegna standa Norðurlöndin á toppnum yfir samkeppnishæfustu lönd heims. Og hvorki Andrea Vg né Samfylkingin hefur nokkurn tímann haft nokkuð á móti nýjum atvinnugreinum - þvert á móti hafa bæði Samfylking og Vg lagt mikla áherslu á að Íslendingar hugi að eflingu þessara greina í stað þess að feta áfram Stalíníska forræðishyggjubraut Álstæðisflokksins sem telur að hann þurfi prívat og persónulega að búa til starf handa hverjum nýjum Íslendingi.
Kæri tóti. Ég bendi þér á heimasíðu Samfylkingarinnar www.samfylking.is en þar finnur þú stefnuna, skilagreinar framtíðarhópa í ótal málefnum og samþykktir landsfunda. Ég fullyrði að enginn flokkur hefur lagt eins mikið í stefnumótunarvinnu og Samfylkingin. Þetta hlýtur því að vera einhver misskilingur hjá þér sem væntanlega leiðréttist um leið og þú hefur lesið www.samfylking.is. Þegar þú ert búinn að lesa þig í gegnum hina ágætu og ítarlegu stefnu Samfylkingarinnar í öllum málaflokkum geturðu skráð þig í flokkinn hér
Dofri Hermannsson, 29.1.2007 kl. 18:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.