3.2.2007 | 01:42
Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum?
Hún er ansi svört skýrsla Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsmálin. Hér á mbl.is er fjallað um málið og á visir.is má sjá frétt Stöðvar 2 um sama efni. Þetta eru grafalvarleg tíðindi en ekki heyrist múkk um viðbrögð ríkisstjórnar Íslands. Það á sér e.t.v. sínar skýringar.
Í hinu virta blaði The Guardian segir í gær frá því að American Enterprice Institute hugmyndaveita á vegum olíufyrirtækisins ExxonMobile sem nátengd eru ríkisstjórn Bush Bandaríkjaforseta hafi reynt að múta vísindamönnum og umhverfisverndarfólki til að skrifa greinar sem græfu undan þessari skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ExxonMobile er uppvíst af óheiðarleika í þessum efnum en einu vísindamennirnir sem sett hafa fram efasemdir um að hlýnun loftslags væri af mannavöldum reyndust vera á mála hjá fyrirtækinu.
Það var í slíkar niðurstöður sem Illugi Gunnarsson, (hægri grænt) þingmannsefni Sjálfstæðisflokksins vitnaði í fyrir tæpu ári í Silfri Egils þegar hann tíundaði efasemdir sínar um að loftslagsbreytingar væru af manna völdum. Þær skoðanir voru og eru enn í fullu gildi á meðal hans og félaga hans á www.andriki.is en á meðal þeirra félaga er annað þingmannsefni Sjálfstæðismanna, Sigríður Andersen og þingmaður Sjálfstæðismanna Sigurður Kári.
Þann 16. júní 2004 var þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sérstakur gestur American Enterprice Institute. Það er freistandi að ímynda sér hvaðan þingmannsefni Sjálfstæðisflokksins hafa hugmyndir sínar í þessu efni þegar hafðar eru í huga skoðanir foringja þeirra (og yfirmanns Illuga) til skamms tíma en algjöran samhljóm er að finna í skoðunum Davíðs Oddssonar og vinar hans Bush Bandaríkjaforseta - þar til fyrir skemmstu að Bush beygði af leið.
Það er langt síðan Samfylkingin setti loftslagsmál á dagskrá innan flokks og með tillögum á Alþingi. Rannveig Guðmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Mörður Árnason og fleiri innan Samfylkingarinnar hafa mjög látið loftslagsmál til sín taka í ræðu og riti.
Í Morgunblaðinu í gær var grein eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, þar sem hún gagnrýndi harðlega stefnu- og áhugaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Jafnframt benti hún á þá skýru stefnu sem Samfylkingin hefur mótað í þessum málum í tillögum sínum, Fagra Ísland. Samfylkingin veit hvað hún vill gera í málinu.
Það er undarlegt ef fjölmiðlar ætla sér ekki að krefja íslensk stjórnvöld um stefnu í loftslagsmálum. Finnst þeim eðlilegt að sú ríkisstjórn sem setið hefur við völd sl. 12 ár hafi ekki minnstu hugmynd um það hvernig Ísland á að standa að lausn þessa gríðarlega hnattræna vandamáls sem þjóð á meðal þjóða? Sama ríkisstjórn og telur sig eiga erindi í Öryggisráð SÞ!
Eru fjölmiðlar áhugalausir um málið rétt eins og ríkisstjórnin?
Hlýnun andrúmsloftsins mun gerbreyta jörðinni á 100 árum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.2.2007 kl. 13:54 | Facebook
Athugasemdir
Varðar: "Eru fjölmiðlar áhugalausir um [loftslagsmálin] rétt eins og ríkisstjórnin?"
Í markaðssamfélagi endurspeglar fréttaframboð fjölmiðla spurn almennings eftir fréttaefni. Og hver þjóð fær þau stjórnvöld sem hún á skilið.
Áhugaleysi hérlendra fjölmiðla og ríkisstjórnar um loftslagsmál endurspeglar almennt áhugaleysi og fákunnáttu Íslendinga um þennan málaflokk. Íbúum þessa eyríkis er ekki tamt að gera sér rellu út af hnattrænum vandamálum né sýna íbúum fátækum þjóðum í "heitari löndum" mikla hluttekningu (sbr. skammarlega rýr framlög okkar til þróunaraðstoðar gegnum árin).
Enda hafa þjóðmálaumræðan um loftslagsmálin hér undanfarinn áratug f.o.f. snúist um það hvernig Íslendingar gætu eignast sem stærstan skerf af losunarkvótum Kýótósamningsins, eða hvernig við getum með sem billegustum hætti uppfyllt þjóðréttarlegar skuldbindingar; ekki hvernig við gætum lagt af mörkum til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda áður en í óefni er komið fyrir heimsbyggðina.
Og heldur er ég efins um að þetta breytist mikið á næstu árum. Loftslagsmálin verða a.m.k. ekki kosningamál á þessu vori.
Gapripill (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 02:20
Sammála loftslagsmálin verða ekki kosningamál núna.
Er enn bíða eftir einhverju frá Dofra um síðustu skoðanakönnun þar sem vg mælist jafn stór og sf.
Þingmenn eins og Mörður og Helgi úti, líkur á að isg hætti í pólitík eftir næstu kosningar aukast dag frá degi.
Skoðanakannanir eru vísbending um hvernig staða mála er.
Sjs hefur útilokað samstarf við Frjálslynda og er því kaffibandalagið úr sögunni.
Er ekki Sjs að undirbúa samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eftir næstu kosningar.
Eyðimerkurgöngu sf er ekki lokið.
Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 10:21
Satt, það virðist vera að ríkisstjórnin ætli sér að kreista út öllum þessum 10% Kýótókvóta þar til samningurinn rennur út 2013, þangað til verður allt bara uss uss ekki tala um þetta...
Gunnsteinn Þórisson, 3.2.2007 kl. 10:24
Veit einhver hvar er hægt að nálgast þessa skýrslu?
UN (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 05:18
Hér er að finna ýmsar útgáfur og skýringar við skýrsluna.
Dofri Hermannsson, 4.2.2007 kl. 13:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.