Virkjum hausinn, verndum náttúruna

Þetta er sannarlega frábært slagorð. Það fæddist á fundi í stjórn Náttúruverndarsamtakanna fyrir rúmu ári og við létum prenta það á boli fyrir tónleika Hætta hópsins 7. janúar í fyrra. Það fangaði margt af því sem Íslendingar voru þá og eru enn að hugsa.

Fólk horfði upp á hátæknifyrirtæki á borð við Medcare Flögu flýja land út af þensluástandi og of háu gengi. Á tveimur mánuðum hurfu rúmlega 200 þekkingarstörf úr landi vegna ástands sem ríkisstjórnin hafði skapað. Annars vegar með vondri efnahagsstjórn og hins vegar með fullkomnu áhugaleysi á þörfum sprotafyrirtækja og hátækniiðnaðarins í heild.

Á sama tíma horfði fólk upp á eyðileggingu náttúru landsins og iðnaðarráðherra gerði víðreist um norðurland með eins konar ÁL-útgáfu af Bacelornum - hún fór líka til útlanda að auglýsa Ísland sem ódýra orkuparadís. Stefna ríkisstjórnarinnar var að virkja náttúruna og vernda hausinn. Almenningur vildi snúa því við. Framtíðarlandið vildi snúa því við.
Samfylkingin vildi það líka og hún var byrjuð.

Í maí 2005 skilaði framtíðarhópur um Atvinnulíf, nýsköpun og hagvöxt af sér mjög metnaðarfullri úttekt á stöðunni og tillögum um það hvernig hægt er að gera gott atvinnulíf enn betra og sterkara. Samfylkingin hefur fylgst vel með því sem Samtök Iðnaðarins, Samtök sprotafyrirtækja, Samtök Upplýsingatæknifyrirtækja og fleiri aðilar hafa verið að gera.

Það er frábær vinna og Samfylkingin hefur nýtt sér hana vel. Á þeirri vinnu byggjast tillögur Samfylkingarinnar um það hvernig má fjölga vaxtarsprotum í hátækni- þekkingar og sköpunargeiranum og bæta vaxtarumhverfi sprotafyrirtækjanna. Nýja Atvinnulífið.

Þrjár af þessum tillögum kepptu við 10 aðrar tillögur hinna stórnmálaflokkanna á Sprotaþingi fyrir viku. Þær lentu í 1., 2. og 3. sæti yfir þær tillögur sem þátttakendur Sprotaþings töldu að myndu mest gagn gera. Þessum tillögum, og fleirum á sömu nótum, mun Samfylkingin hrinda í framkvæmd strax og færi gefst. Samfylkingin vill virkja hausinn.

2004 skilaði fyrri Framtíðarhópur í umhverfismálum tillögum sínum. Vinna síðari Framtíðarhóps um umhverfismál verður formlega kynnt á Landsfundi í vor en helstu atriði hennar má finna í stefnu og tillögum þingflokksins, Fagra Ísland. Þær tillögur ganga út á að kortleggja verðmæt svæði landsins, tryggja verndun þeirra og láta þá útkomu ráða framtíðarskipulagi landsins.
Samfylkingin vill vernda náttúruna.

Framtíðarlandið ákvað í gær að vera áfram þrýstiafl á stjórnmálaflokkana. Það veitir ekki af því. Það er ekki nóg að einn maður skrifi eina eða tvær greinar og setji í fyrirsögn töfraorð eins og Hægri grænt. Það verður fyrst að skapa það sem er að baki hugtakinu. Það hefur Sjálfstæðisflokkurinn enn ekki gert - og virðist ekki ætla að gera.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tvo og hálfan mánuð fram að Landsfundi til að sýna að flokkurinn vill virkja hausinn og vernda náttúruna. Nema flokknum finnist slagorðið ennþá vera betra hinsegin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki bæði hægt að virkja haus og náttúru? Þarf það að vera annað hvort eða?

Ertu alveg viss um að  eina ástæðan fyrir að Flaga  flutti  sig úr landi sé  þennsla vegna stóriðju?? Getur ekki verið að eitthvað annað hafi legið á bak við? Reyndar er aldrei talað um önnur fyrirtæki en Flögu. Hvað voru fyrirtækin mörg sem flúðu land vegna þennslu af stóriðju?

Katrín Eymundóttir

Katrín Eymundsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 09:07

2 identicon

Sælir

Ég er með smá athugasemd til ykkar sem virðist mjög vera á móti álverum. Er álver ekki hátækniiðnaður? Verð einmitt ekki mörg hátæknistörf til vegna framleiðslu áls? Að mínu viti er það svo og auðvelt að benda á dæmin. Starfsemi álvera getur mjög vel farið saman við aðra óskylda starfsemi. Talandi um þensluna, hversu mikið er hún húsbyggingum á höfuðborgarsvæðinu að kenna og hversu mikið stækkun álvera? Það er t.d. ekki þensla um allt land ! Ekki á norðausturhorni landsins og Vestfjörðum svo tvö svæði séu nefnd til sögunnar. Kannski þetta leiðir hugann að því hvers vegna svo mikill stuðningur er við álver á Húsavík meðal þeirra sem þar búa. Nú hef ég kosið Alþýðuflokkinn og síðan Samfylkingu gegnum tíðina enda aldrei verið einn af þessum heittrúuðu eins og flokkshestarnir eru í Sjálfstæðisflokknum. En er þetta sem þú talar um endilega stefna Samfylkingar? Sem hingað til hefur verið öfgalaus flokkur öfugt við Vinstri-græna. Snýst náttúruvernd bara um virkjanir annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu? Af mörgu er að taka í umhverfismálum, t.d. byggðaþróun á höfuðborgarsvæðinu (m.a. samgöngur), sjávarútvegsmál (m.a. veiðarfæri), samgöngumál (þungaflutningar á vegum) og margt fleira. En hinir svokölluðu umhverfisverndarsinnar (Framtíðarlandið o.fl.) ræða það ekki? Hvers vegna? Snerist þetta bara um Kárahnjúka? Auðvelt að benda á þá virkjun, til að snapa atkvæði á ýmsum þéttbýlissvæðum eins og Vinstri-grænir hafa gert.

Með kveðju, Gísli

Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 11:00

3 identicon

Sæll Dofri.

Hvaða og hvernig hausar?

Heilalausir hausar eða kannski bara hamarshausar?

Hamarshaus má a.m.k. berja oft "við steininn" án þess að hann brotni, verra að gera í sífellu slíkt ef eitthvert heilabú er í hausnum.

Þeir hausar sem hafa ekkert annað til atvinnumála að leggja, en við lifum bara á "einhverju öðru" þegar góð reynsla hefur sannað á sl. 40 árum, að álver er góður vinnustaður, góður launagreiðandi og tryggur og öruggur atvinnuveitandi fyrir fólk, sem vill vinna og þarf að vinna áratugum saman, en ekki bara af og til. Þess vegna viljum við stækkun álversins, því viðbótar störfin þar eru bæði "örugg í hendi" en ekki bara "fuglar í skógi" í a.m. næstu 30/40 ár. Alls ekki er hægt að segja það sama um ykkar einskis verðu og tilbúnu "einhver önnur" störf.

Með upprifjun til starfa og stefnu fyrrum iðnaðarráðherra t.d. Jóns Sigurðssonar og Sighvatar Björgvinssonar og annarra þingmanna Alþýðuflokksins í atvinnu- og stórriðjumálum hér áður fyrr, þá mælist ég til þess a.m.k. fyrir okkur Hafnfirðinga, að þú látir nægja að ganga frá fylgi arftaka Alþýðuflokksins þ.e. Samfylkingarinnar í Rvík og víðar um land með arfavitlausri stefnu þinni og Sollu og örfárra annarra í atvinnumálum í nafni þingflokksins, en látir okkur Hafnfirðinga í friði og eyðileggir ekki stöðu okkar og styrk og atvinnu okkar.  

Kveðja.

Guðm. R. Ingvason

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 12:42

4 identicon

Þó álver hafi verið gott mál fyrir 40 árum, þegar atvinnu og viðskiptalíf var afar einfalt og fábrotið. Allt byggiðst á sjávarútvegi. Nú eru tímarnir gjörbreyttir. Gríðarleg gróska er bæði í atvinnu og viðskiptalífinu og stórstígar framfarir á öllum sviðum.  Við getum ekki rekið þetta þjóðfélag nú um stundir án þess að leita á náðir erlends vinnuafls í verulegum mæli. Nefna má stórfyritæki eins og Actavis,Marel,Össur og fl. sem öll eru í útflutningi á vörum,þekkingu og hugviti á heimsvísu, hátækniiðnaður

Því miður hafa ruðningsáhrif núverandi stóriðjustefnu skaðað alla nýsköpun. Tímabært að stóriðjustefnunni sem nú er við lýði , verði breytt í grundvallaratriðum.

Að byggja upp 460 þús.tonna álver inni í byggðakjörnum Hafnarfjarðar , á nútíma , er algjör tímaskekkja .

Samfylkingin leggur á það áherslu að stutt verði með öflugum hætti við sprotafyrirtæki ,rannsóknar og þróunarmál , tengt hátækni.

Það er ekki mjög háleitar hugsjónir til handa ungum íslendingum , að eyða starfsævinni innan veggja álvera, við fábreytt endurtekningastörf í svona heldur lélegu andrúmslofti, svo þúsundum skipti.  Ég segi nei takk. 

Hafnfirðingur (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 15:24

5 identicon

Sæll óskráður Hafnfirðingur.

Mér finnst þú bera enga virðingu fyrir svokölluðum"almennum" störfum í þjóðfélaginu. 

Í þeim fyrirtækjum, sem þú nefnir hér að ofan og að þinni sögn hafa "hátækniiðnaðar störf" þá er ljóst, að þar er líka sinnt fullt af störfum, sem tæplega kallast "hátækniiðnaður", og sennilega eru starfsmenn á þeim sviðum í þessum fyrirtækjum langtum fjölmennari, t.d. hjá Actavis, en þeir sem sinna svo-kölluðum "hátækniiðnaðarstöfunum". 

Ekki hef ég orðið var við að starfsmenn Alcans sé nokkuð einhæfari né þröngsýnni en aðrir. Að störf í álveri séu fábreyttari endurtekningastörf en t.d. störf við að pakka Actavis pillum í kassa, eða líta eftir framleiðsluvörum á færiböndum Marel og Össurar, því hef ég enga trú á. Reyndar, og sem betur fer, þá hafa störf í álveri breyst svo mikið á undanförnum 40 árum, að flest þeirra fara sennilega nær því að kallast "hátækniiðnaðarstörf" en flest störf í almennum iðnaði á Íslandi.

Þessi svokölluðu "hátækniiðnaðarstörf" eru að sjálfsögðu góð og sjálfsagt að reyna að fjölga þeim, en þau munu aldrei geta komið í stað allra þeirra "almennu" starfa sem verður að skaffa og þarf að sinna í einu þjóðfélagi. 

Hvað með störfin í ferðaþjónustu við að hreinsa skítinn og draslið, hvað með byggingariðnaðinn, hvað með mötuneytin, hvað með venjulegu iðnfyrirtækin, fólkið við framleiðslu á mat- og drykkjarvörum, hvað með störfin á lagerunum, í sjávarútveginum, í landbúnaðinum, við vegagerð og framkvæmdir, heldur þú virkilega að eitt þjóðfélag mundi þrífast ef enginn sinnti slíkum störfum eða ef engin slól störf væru til.

Það stjórmálaafl, sem á síðustu öld taldi það forgangsmál að skaffa atvinnutækifæri fyrir alla, ekki bara doktora, professora, verkfræðinga, forstjóra, "playboya" ofl. heldur líka allan almúgann, og stefnir að því, leynt og ljóst, að sleppa því tækifæri sem það hefur nú til að skaffa hundruðir starfa í a.m.k 30/40 ár bæði fyrir verulegan fjölda af hámenntuðu fólki og einnig störf, sem eru tiltölulega tæknivædd og þróuð,  bæði fyrir iðnmenntað fólk og aðra, slíkt stjórnmálafl á sér enga lífsvon í íslensku þjóðfélagi.

Kveðja.

Guðm. R. Ingvason  

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 16:47

6 identicon

Ágæti Guðmundur R. Ingvason

Hátækniiðnaður spannar alla starfsflóruna  og verðmætasköpunin er innanlands og hagnaðurinn er innlendur einnig. Einnig kemur hann ínn á nýtingu auðlinda okkar með allan hagnaðinn hjá okkur sjálfum.

Álverin kaupa af okkur orkuna á einhverju lægsta verði sem þekkist og ef vel tekst til hjá okkur fer fjárfestingin í orkuverunum ekki að skila okkur arði fyrr en afskriftum lána lýkur eða eftir um 25 ár . Fram að því er allur hagnaðurinn eingöngu hjá álverunum, sem eru í eigu erlendra aðila, og fer allur úr landi. Við höldum eftir launum fyrir starfsmenn og nokkrar skatttekjur. Er þetta einhver metnaður þjóðar að fara svona að ráði sínu við verðmætar orkulindir ?

Nú um langt árabil hafa láglaunastörfin í byggingaiðnaði, landvinnslu sjávarafurða,spítalaþjónusta , og fl.fl. verið unnin af erlendu vinnuafli. Við eigum ekki fólk í þau störf. Ekki er sjánleg breyting á því í fyrirsjáanlegri framtíð.

Það er talið að þetta sé um 10% af mannaflaþörf okkar.

Við lagfærum þetta strax í vor ef Samfylkingin nær afli til áhrifa. 

Hafnfirðingur (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 17:22

7 identicon

Spurningin er kannski ekki hvort að fyrirtæki fluttu úr landi vegna óráðsíu stjórnvalda heldur hvað mörg sköpuðust í t.d Kanada hjá fyrirtækjum sem hefðu kannski frekar kosið að afla starfsemi sína hérna heima. Ég þori að fullyrða að þetta á við Marel, Össur og mörg fleiri fyrirtæki, ekki bara Flögu.

áfram Dofri

Fv. starfsmaður Flögu 

Flagari (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 17:52

8 identicon

Ágæti óskráði Hafnfirðingur (þorir þú ekki að segja til nafns)?

Ástand á vinnumarkaði þessi misserin á framkvæmdatíma segja ekkert um næstu 30/40 ár. 

Þú svarar engu um einhæfnina í almennum störfum "hátækniiðnaðar" eða annars almenns iðnaðar.

Þessi fullyrðing þín um verðið á raforkunni, er röng og hefur verið marg hrakin. Minni þar t.d. á opinberar upplýsingar og líka t.d. á úttekt Guðm. Ólafssonar um það fyrir ca. 18 mánuðum.

Ef þessi stefna, sem þú boðar verður ofan á, þá verður sem betur fer aðeins til "örsmá" Samfylking í vor. Hins vegar geta margir gamlir raunvegulegir atvinnustefnu kratar endurfæðst´undir gömlu nafni. Kannski verður svo að verða.

Kveðja.

Guðm. R. Ingvason

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 17:57

9 identicon

Ég verð nú að segja gegn þessari athugasemd númer 4 að þá er ég það sem má kalla ungan íslending sem hef hugsjónir og ætla mér að vinna við það sem margir segja að séu hátækni iðnaðarstörf. Ég mun eftir einungis rétt rúma eitt hundrað daga ljúka við 5 ára háskólamenntun og þar á eftir stunda að auki 3 ára doktorsnám. Þrátt fyrir þetta langa háskólanám sem gerir mig að sjálfsögðu vel sérhæfða og vonandi ágætlega undirbúna í að vinna við það sem aðili athugasemdar númer fjögur kallar nýsköpun gæti ég MJÖG VEL hugsað mér að flytja aftur heim til Íslands og þar með flytja þekkingu og hugvit inn til landsins sem ég gæti einnig vel hugsað mér að nýta í starfi hjá iðnaðarfyrirtæki eins og álveri. Ég hef unnið í álveri áður, bæði sem aðstoðarmaður almennra iðnaðarmanna og sem B.Sc. verkfræðingur og líkaði öll þau störf sem mér skotnuðust mjög vel. Ég get með engu móti sagt að störfin hafi verið einhæf og get ekki heldur sagt að þau almennu verkamannastörf í fyrirtækinu sem ég kynntist hafi verið með nokkru leiti einhæf eða leiðingjörn og MJÖG langt frá því að vera eitthvað sem ekki telst til hátækni. Hvernig telur þú að starfsemi í álveri fari fram? Telur þú virkilega að það þurfi ekki hátækni eða nýsköpun í öllu því flókna ferli sem fer fram þegar framleitt er fast ál úr hráefnum á borð við hvítt duft sem kallast súrál? Teljir þú virkilega að svo sé, þá tel ég að þú ættir að stunda frekara nám í t.d. flókinni efnafræði og kynna þér málin aðeins betur áður en þú kemur með yfirlýsingar á borð við þær sem þú hefur gert. Varðandi nýsköpun og hátækni í iðnaði á borð við álver þá hef ég sjálf nýlega lokið við greinarskrif á ensku varðandi nýja og mjög merkilega tækni sem verður í sumar birt í verkfræðiriti á vegum "the Institute of Electrical and Electronics Engineers (IEEE)" og hefur mjög mikið erindi inn á borð iðnaðarfyrirtækja á borð við álver. Því verð ég að segja að það er einungis eitt af þúsundum dæma þess að MIKLIR möguleikar eru á nýsköpun og hátækni hjá álfyrirtækjum dagsins í dag.

Þar að auki hef ég heyrt suma segja að ál sé gamaldags og ekki sé þörf á svo miklu áli sem á að framleiða á okkar fallega landi sem hefur upp á svo marga möguleika að bjóða. Þetta verð ég líka að telja afar ólíklegt, þar sem ég þekki sjálf til í háskólum erlendis og er til að mynda ein mjög stór deild í mínum háskóla sem vinnur markvisst að því að finna leið til að hægt sé að nýta ál í stað járns í allar tegundir mótora og fleiri véla, sem til að mynda eru í "húddinu" á bílnum þínum, í hrærivélinni þinni, í ísskápnum þínum, í hárþurrkunni, í rafmagnsrakvélinni, í rafknúna tannburstanum, í tækjum og vélum sem meðal annars fiskiðnaður, Össur og Actavis nota við sína framleiðslu daglega.

Einnig er hægt að benda virkjunarandstæðingum möguleika á frekari nýtingu okkar vistvænu og grænu orku sem aðilar á borð við Microsoft hafa áhuga á til að nota við rannsóknir sínar og þróanir, eins og Bill Gates leiddi í ljós fyrir ekki svo mörgum dögum síðan. Ég verð að segja að heldur vil ég sjá falleg lón með vel umhyrtu umhverfi og fuglalífi, sem allir landsbúar geta heimsótt og notið vegna þeirrar vegagerðar sem fylgir því ágæta fyrirtæki Landsvirkjun hvert sem það fer, í stað þess að sjá brennd kol eða olíu með svörtum reyk eða þá stórar, ljótar og háværar vindmyllur sem þar að auki minnka stöðugleika raforkunetsins svo mikið að af hljótast margvísleg vandamál sem erfitt er að koma í veg fyrir og með öllu ómögulegt að nýta í orku fyrir stóriðju af öllu tagi.

Því verð ég að kvetja alla Hafnfirðinga til að virkja höfuðið (sem mér finnst persónulegra fallegri íslensk tunga en orðið haus) og vernda náttúruna, með því að kjósa með stækkun álversins og þar með auka störf, tækni, iðnað, þróun og nýsköpun í Hafnarfirði og vernda náttúru jarðarinnar með því að styðja að innflutningi stóriðju til lands sem notast við græna orkulind í stað mengandi olíu og kolabruna.

 Kveðja,

Unnur Stella Guðmundsdóttir, mastersnemi í verkfræði og Hafnfirðingur í þokkabót

Unnur Stella Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 17:58

10 identicon

Ágæti Guðmundur. Takk fyrir hreinskiptin skoðanaskipti. Mig langar að leiðrétta dálítinn misskilning um "almenn störf" og "hátækni".

Hátækniiðnaður er skv. skilgreiningu sá iðnaður sem ver 4% eða meira af veltu sinni í rannsóknir og þróunarstarf. Það gerir álbræðslan ekki svo það er blekking að halda því fram að þar sé um hátæknistörf að ræða. Langt frá því.

Þá þetta með almennu störfin. Skv. skýrslu SI voru 900 störf í stóriðju árið 2004 en um 6500 störf í hátækniiðnaði. Um þriðjungur starfa í hátækniiðnaði er unninn af fólki með iðnmenntun og ef það eru þeirra störf sem þú vilt kalla "almenn störf" þá er ljóst að það eru meira en helmingi fleiri "almenn störf" í hátækniiðnaði en í stóriðju.

Frá 1990 fjölgaði störfum í hátækniiðnaði úr 3000 í um 6500 eða um 117%. Eru það verri störf af því þau eru ekki í álveri? Þau krefjast ekki fórna á verðmætri náttúru eða þess að við gefum rafmagnið okkar á tombóluprís - er það ekki bara jákvætt?

2004 skilaði hátækni um 4% af verðmætasköpuninni í landsframleiðslunni en stóriðjan öll til samans aðeins um 1,3%. Fjárfestingarkostnaður á bak við hvert starf í Fjarðaráli er um 500 milljónir, að ógleymdri náttúru landsins sem ekki var metinn til einnar krónu. Nú er kallað eftir álveri í Helguvík en þar reikna menn með að við flugstöðina skapist um 2000 störf á næstu 10 árum. Fjárfestingarkostnaður á starf er metinn um 10 milljónir króna.

Stefnan og tillögurnar sem þingflokkur Samfylkingarinnar samþykkti einróma í haust og eru öfgalausar tillögur sem hafa þann einstaka kost að geta skapað sátt um náttúruvernd og landnýtingu. Hugsunin er þessi: Könnum hvað þarf að vernda, verndum það og skipuleggjum svo mannvirki utan þeirra svæða. Einfalt og gott plan sem allir eiga að geta sætt sig við - líka gamlir virkjunarkratar í Hafnarfirði.

Kveðjur, Dofri.

PS - Þakka hólið en ég á ekki meira í stefnunni en hver annar, þú þarft ekki annað en að skoða heimasíðu Samfylkingarinnar til að sjá að þessi vinna rekur sig allt til ársins 2003. Framtíðarhópur skilar af sér 2004, metnaðarfull ályktun Landsfundar 2005 er í sömu átt og nú er framtíðarhópur II að störfum en Fagra Ísland er að stærstum hluta verk þess ágæta fólks sem þar er að störfum.

Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 18:07

11 identicon

Hafnfirðingur, hversvegna skrifar þú ekki undir með nafni ?

Ég bý ekki í Hafnarfirði en ég vona að Lúðvík vinni þá baráttu fyrir sitt bæjarfélag.

Varðandi afstöðu formanns sf til virkjanamála og trúverðuleika hennar í því

Í pistili á Vefþjóðviljanum í dag www.andriki.is/ er grein sem byrjar svona:

"Þetta er þeirra bær og þetta er þeirra ákvörðun. Og það er ekki við hæfi að ég taki afstöðu til þess hvað Hafnfirðingar eigi að gera í því sambandi.
- Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fjallaði um hugsanlega stækkun álversins í Straumsvík, á aðalfundi Samfylkingarfélags Reykjavíkur, 27. janúar 2007.
Og ég tel að til þess að við getum náð utan um þetta tekið raunverulega í taumana að þá þurfi að fresta þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú eru fyrirhugaðar á næstu árum og þá er ég auðvitað að vísa til áforma um stækkunina í Straumsvík og álver í Helguvík.
- Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fjallaði um hugsanlega stækkun álversins í Straumsvík, á Alþingi 6. febrúar 2007."

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 18:08

12 identicon

Hefur fólk ekki fylgst með fréttum ? Eru menn og konur ekki rekið fyrirvaralaust úr starfi hjá Alcan ? og engar ástæður gefnar. Jafnvel eftir áratuga störf.

Eigi fólk vini,bróðir eða föður í starfi hjá Alcan getur verið varasamt að tjá sig svona eins og Hafnfirðingur hefur gert og þar með  verið þessu fólki hættulegt eftir 31. mars 2007. 

Það er engu að treysta eins og dæmin sanna. Allur varinn er því góður .

Vona að menn og konur virði þetta. 

Hafnfirðingur (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 18:28

13 Smámynd: Dofri Hermannsson

Kæra Unnur Stella. Jú víst er "höfuðið" fallegra orð en í orðinu "hausinn" eru færri atkvæði svo það passar betur. 

Deilurnar um stóriðjustefnuna almennt séð snúast um tvennt. A) Andstöðu við að ósnortin náttúra Íslands skuli vera tekin og eyðilögð til að búa til stóriðjurafmagn og B) andstöðu við það að stjórnvöld skuli ekkert sjá annað en stóriðju þegar kemur að uppbygginu atvinnulífs.

Stjórnvöld hafa ekki haft minnsta áhuga eða skilning á þörfum hátækniiðnaðarins eða ferðaþjónustunnar sem þó búa yfir gríðarlegum möguleikum. Þegar á annað hundrað manns var sagt upp í fyrravetur á tveimur vikum í Urð Verðandi Skuld, í Hjartavernd, í Flögu og fleiri fyrirtækjum - þá kom forsætisráðherra í fréttir og sagði fyrirtækin vera með tómar ýkjur.

Greiningardeildir bankanna hafa tekið það skýrt fram að ef halda á stjóriðjuframkvæmdum áfram verði að gæta þess að halda aftur af vexti annarra greina á meðan.

Auðvitað finnst fólki, sem er komið heim og vonast til að geta unnið við og skapað hér ný störf með þekkingu sinni, það súrt í broti að þau fái engin tækifæri af því það er verið að hamast við að búa hér til störf í áliðnaði. Störf sem útheimta gríðarlegar fjárfestingar og fórnir náttúru okkar, barna okkar og barnabarna.

Í Hafnarfirði snýst íbúakosningin held ég aðallega um það hvort Hafnfirðingar vilja hafa núverandi álver í bænum til ca. 2020 eða hvort þeir vilja hafa nær þrisvar sinnum stærra álver inni í miðjum bæ til ársins 2050. Mér finnst síðari kosturinn alveg afleitur.

Það er alveg rétt hjá þér að í álverum er líka þörf fyrir menntað fólk eins og þig sjálfa, það er hins vegar misskilningur að það geri álver að hátækniiðnaði.  Það er líka misskilingur sem fram kemur í lokin á athugasemd þinni að einhverjum olíu- eða kolaknúnum orkuverum hafi verið lokað til að reisa hér álver. Alcoa er að loka eigin vatnsorkuverum í BNA af því að miðað við kjörin sem þeir fá á rafmagni hér þá borgar sig miklu frekar að selja raforkuna þar á markaði og færa hinn orkufreka iðnað hingað í tombóluprísarafmagnið.

Ágæti Óðinn. Það er nú þeirra stíll á andríki að slíta hluti úr samhengi, því miður. Fyrri setninguna sagði Ingibjörg Sólrún þegar hún var að ræða íbúakosningu um hvort skipulag Hafnfirðinga á að gera ráð fyrir stækkun álvers eða ekki. Hún sagði m.ö.o. að hún teldi ekki rétt að flokkurinn á landsvísu hlutaðist til um hvað Hafnfirðingar velja.

Hin setningin er ekkert annað en ítrekun á því sem Ingibjörg Sólrún og aðrir í Samfylkingunni hafa sagt lengi - að það sé óráðlegt að ráðast í frekari stóriðjuframkvæmdir á næstu árum, bæði af efnahagslegum og umhverfislegum ástæðum.

Það er hins vegar ekkert vit í því, hvorki fyrir Hafnfirðinga eða aðra landsmenn, að kynda hér enn meira undir þenslu og verðbólgu sem hækkar skuldir okkar um hundruð þúsunda á ári.

Mér er hins vegar til efs að það sé hægt að stöðva stækkun í Straumsvík ef Hafnfirðingar samþykkja hana, stóriðjuríkisstjórnin er búin að stimpla allt í bak og fyrir og ekkert eftir nema að kría JÁið út úr Hafnfirðingum.

Stóriðjustjórnin hefur ekki einu sinni sett reglur um útblástur gróðurhúsalofttegunda svo hún hefur ekki stjórn á því hvort Alcan gerir Ísland brotlegt gagnvart alþjóðasamfélaginu með því að fara fram úr Kyoto heimildunum. Allt bendir til að stækkunin í Straumsvík rúmist ekki innan Kyoto heimildarinnar. En það er von að andríkis krakkarnir vilji ekki skrifa um það - þeir hafa enn ekki viðurkennt að hlýnun andrúmsloftsins sé af manna völdum.

Svona rétt í lokin. Það er ágætis ábending hjá Hafnfirðingi að hin frábæru "almennu og öruggu" störf hafa ekki verið eintóm hamingja. Á núverandi samningatíma við Alcan hefur 9 manns verið sagt upp störfum fyrirvaralaust án nokkurra skýringa. Viðkomandi einstaklingar áttu það sameiginlegt að vera alveg að ná starfsaldri sem veitti þeim hagstæð kjör. Réttindi sem þeir höfðu áunnið sér með um og yfir 30 ára þjónustu við fyrirtækið. Frábært öryggi það.

Alcan rauk til núna í janúar og samdi við þá þrjá sem mest höfðu sig í frammi. Borgaði þeim einfaldlega til að þeir myndu hætta að tala um þetta. Viðurkenndu enga sök hjá sér en skrifuðu feitan tékka. Eftir sitja hinir 6 sem ekki höfðu náð að setja þrýsting á fyrirtækið. Þeir fá auðvitað ekkert. Það þarf ekki að eyða peningum í að þagga niður í þeim. Svei mér skemmtilegt fyrirtæki.

Dofri Hermannsson, 9.2.2007 kl. 21:08

14 identicon

Sæll Dofri.

Takk fyrir svörin en ertu að "djóka"?

Áttu ekki bara við 4% af rannsóknarstarfsemi, sem eingöngu er gjaldfærð sem kostnaður unnin á eigin rannsóknastofum? Segir slíkt nokkurn skapaðan hlut?

Mér er minnisstætt að fyrir nokkrum árum sagði Jón Hjaltalín Magnússon, verkfræðingur, að hann hefði unnið að verulegum tækniumbótum í vinnsluferli í álverum í samvinnu við álverið í Straumsvík, þ.e. hönnun "róbota" í vinnslu fyrir slíka eða sambærilega iðnaðarframleiðslu. Er það ekki hátækniiðnaður eða hvað?

Fyrst þú ert farin að kalla störf manna með venjubundna iðnmenntun hátæknistörf, þ.e. píparans míns, smiðsins, múrarans og málarans, og eru þeir alls góðs maklegir, þá held ég nú að stutt verði í það að kalla öll störf í iðnaði hátæknistörf. Skv. þinni skilgreiningu, þá er það fólk sem vinnur við að pakka pillum hjá Actavis, líta eftir færibandaframleiðslu hjá Marel og Össuri eða jafnvel hjá gosdrykkja- eða mjólkurframleiðanda að vinna við hátæknistörf, af því að í þeirra fyrirtækjum er m.a. gjaldfærður a.m.k. 4% kostnaður við að "finna upp" nýjar pillur eða nýjar mjólkurafurðir, en þeir sem vinna við stóriðju, t.d. álframleiðslu, og verða að nota við það "hátæknibúnað, vinna ekki hátæknistörf. Ja, heyr á endemi, en sú þvæla.

En þetta er ekki aðalmálið í mínum huga. Í mínum huga er það aðalmálið að fólkið í landinu hafi næg störf með þokkalega góðum kjörum. Í þeim efnum hefur áliðnaðurinn á Íslandi staðið sig ákaflega vel, það sýnir reynslan.

Það er svo skrítið að framboðið á erlendum fjárfestingum í atvinnustarfsemi á Íslandi hefur enginn verið á undanförnum áratugum nema í áliðnaði. Og flestir hafa virst verið sammála um það að bráðnauðsynlegt sé fyrir íslenska þjóð að laða til landsins erlenda fjárfesta í íslenska atvinnustarfsemi. Af hverju skyldi það vera? Af hverju streyma ekki inn til Íslands erlendir fjárfestar í þúsundatali úr því að orkan er nánast gefin að ykkar sögn? Af hverju? Við höfum hámenntaða þjóð. Samt streyma ekki inn erlendir fjárfestar. Við höfum nægt vatn, gott hreinlæti, sveigjanlegt vinnuafl, hátt menntunarstig, lága skatta og margt margt margt fleira, samt sýna engir aðrir útlendingar áhuga á því að fjárfesta í íslenskum atvinnuvegum nema álframleiðendur. Af hverju?

Ég get ekki annað en gefið alþjóðlegt "fokk" merki um alla þessa "aðra" atvinnustarfsemi, sem þið teljið að, að sé rétt handan við hornið og standi öllum íslendingum auðveldlega til boða. Þeir "fuglar" í skógi eru og verða léttir og þunnir í veski venjulegra íslenskra launþega.

Þér til upplýsingar þá er fjárfestingarkostnaðurinn í Fjarðaráli alls ekki kr. 500 milljónir á starf. Það er rangt. Því til viðbótar fjárfestu íslendingar ekki í verksmiðjunni, það gerðu útlendingar á sinn kostnað, andvirði þess kom hins vegar að verulegu leyti inn í íslenskt hagkerfi, sem betur fer. Við íslendingar fjárfestum einungis í virkjuninni, hún verður greidd niður á 30/40 árum og mun því til viðbótar mala okkur gull um ófyrirsjánlega framtíð. Tíumilljónkróna störfin í kringum Flugvöllinn eru hið besta mál, en varla verða þau talin hátæknistörf eða hvað? Eða það er kannski skilgreiningin. Flestir starfsmenn sem eru þar á stjái frá degi til dags, ágætis fólk, er nú í almennum íslenskum málskilningi ekki talið sinna hátæknistörfum.

Svo er þetta með "einhæfnina" í álverunum, sem þið reynið ítrekað að ljúga að íslendingum að sé til staðar. Hún er nú ekki meiri en svo, né störfin svo leiðinleg og illa launuð, að meira að segja á þenslutímum, þar sem allir eru sagðir geta fengið vinnu nánast hvar sem er og við hvað sem er, þá er nánast enginn sem hættir eða vill hætta að vinna við álverin og fara að vinna í þessum í þessum óskilgreindu öðrum gullnu störfum, sem eiga að vera til staðar fyrir alla.

Og þetta með samþykkta stefnuskrá Samfylkingarinnar í stóriðjumálum er nú enn eitt djókið. Spurðu bara Gunnar Svavarsson, Lúðvík Geirsson, Kristján Möller, Einar Sigurðsson, Jóhönnu Sigurðardóttur, varaþingmanninn á Húsavík, já meiri hluta þingflokksins. Dettur þér virkilega í hug, að þegar á reynir, þá muni þessir menn standa gegn fjölgun atvinnutækifæra í áliðnaði? Þeir gætu alveg eins framkvæmt Hara-Kiri strax.

Ja, svei.

Kveðja.

Guðm. R. Ingvason

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 21:45

15 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sæll aftur Guðmundur.

Gaman að sjá fjölskylduna sameinast svona yfir heimshöfin í heitum skrifum á blogginu hjá mér. Ég verð nú að viðurkenna að mér finnst dóttir þín mun málefnalegri en þú. Ekki veit ég hvort ástæðuna fyrir æsingnum í þér er að finna í því að nú er áliðið á föstudagskvöldi en mér þykir þú fara með himinskautum félagi sæll. Nú skal ég útskýra þetta með hátæknina einu sinni enn, þú skalt lesa það á morgun þegar þú hefur fengið góðan nætursvefn.

Hátæknifyrirtæki eru þau fyrirtæki sem verja a.m.k. 4% af heildarveltu sinni í rannsóknir og þróunarvinnu. Svo einfalt er það nú. Það getur vel verið að róbótahönnunin sem þú segir að einhver hafi unnið fyrir álverið hafi einmitt verið unnin af fyrirtæki sem brúkar meira en 4% af veltu sinni í R&D. Ef svo er þá fellur það fyrirtæki undir skilgreininguna um hátæknifyrirtæki.

Varðandi erlenda fjármagnið þá veit ég ekki annað en að t.d. fyrirtæki í fjármálaþjónustu og hátækniiðnaði hafi með góðum árangri sótt erlent fjármagn. M.a. rannsóknarfé sem notað hefur verið hér og margir hafa haft vinnu af. Kolómöguleg efnahagsstjórn sem kynt hefur undir þenslu, m.a. með stóriðju, en líka með hrikalegum glappaskotum á húsnæðislánamarkaði og haldið genginu svo háu að fyrirtæki með tekjur erlendis frá hafa orðið illa úti.

Eins og þú bendir réttilega á erum við hér með allt til alls - nema stöðugan gjaldmiðil. Það er nauðsynlegt að bæta úr því en erlendir fjárfestar taka margir til fótanna þegar farið er að kenna þeim á þetta séríslenska fyrirbæri - verðtryggða íslenska krónu. Mér skilst að um 40 þjóðríki séu með færri en 1.000.000 íbúa. Aðeins einni þeirra dettur í hug að vera með sérstaka peninga fyrir svo fátt fólk. Það er þessi norður í hafi með 300.000 íbúana.

Varðandi það ágæta fólk sem þú nefndir - viltu ekki bara spyrja þau sjálfur (bíddu með það til morguns samt;-) Ég veit að sjálfsögðu hvaða svör þú færð.

Vil að lokum hvetja þig til að taka þessu bara rólega. Það er verið að kjósa um það hvort núverandi álver á að vera í bænum til ca 2020 eða hvort þrefalt stærra álver á að vera inni í miðjum bæ til a.m.k. 2050. Hafnfirðingar munu eiga um þetta síðasta orðið núna í lok mars. Mér finnst trúlegt að þeir hafni stækkun. Sérstaklega unga fólkið sem að mínu mati eiga ríkari rétt til að ákveða þetta en þeir sem að öllum líkindum verða komnir annað árið 2050.

Kv. Dofri.

Dofri Hermannsson, 9.2.2007 kl. 22:55

16 identicon

Sæll Dofri.

 Takk fyrir góð og upplýsandi skrif - gaman að fylgjast með þér. 

Ég bara get samt ekki orða bundist og verða að benda henni Unni Stellu á það er engan vegin hægt að bera saman fegurð tærra heiðarvatna og lóna sem mynduð eru úr gruggugu jökulvatni.  Og eins og þú eflaust veist eru flest uppistöðulón á Íslandi úr jökulvatni. Því verða  bakkar Hálslóns  aldrei fallegir og snyrtilegir, þrátt fyrir að LV hafi lagt þangað vegi og sett upp upplýsingaskilti, á þurrum sumardögum er ólíklegt að sjáist til fjalla vegna foks úr tuga metra breiðri "strönd" lónsins.  Það verður einmitt verkefni framtíðarverkfræðinga þessa lands að reyna að hemja og hefta fokið á fínum jökulleir lónsins.  Er það heillandi viðfangsefni fyrir tilvonandi verkfræðinga? Að hreinsa upp vandann sem núverandi kynslóð skapaði?

 Auðvitað hafa orkufyrirtæki og álver á Íslandi skapað mörg störf fyrir verkfræðinga, en ættu ungir verkfræðingar ekki að horfa til nýrra tækifæra og nota hugvit sitt og þekkingu til að skapa störf sem ekki krefjast svo mikilla fórna af náttúru okkar, sérstaklega þar sem enn hefur ekki verið gerð áætlun um hvaða hvað skuli vernda og hvað skuli nýta.  Vel menntaðir verkfræðingar eiga ekki að þurfa að hræðast atvinnuleysi ef ekki verða reist fleiri álver á næstunni, þeir eiga að sjá önnur tækifæri með menntun sinni, ástandið er ekki það sama nú og blasti við verkfræðingum sem útskrifuðust um miðja síðustu öld.  Það er nokkur ár  síðan 21. öldin brast á - allavega samkvæmt tímatali mínu :)

RutK.

Rut (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 22:57

17 identicon

að vera að nefna actavis sem hátæknifyrirtæki er algert bull, þetta er færibandavinna sem er stunduð þar, mikil starfsmannavelta, léleg laun, en hjá alcan er sama sem engin velta á starfsfólki borga vel og hafa stóriðjuskola sem flestir starfsmenn hafa sótt og eru mikið þakklátir fyrir, margir sem flosnuðu upp í skóla en gátu sýnt hvað í þeim býr í skólanum,  (bíður draumafyrirtækið þitt sem er actavis upp á það) svo ekki vera að tala um álverið í straumsvík sem einhvern vinnustað fyrir lúsera

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 00:55

18 identicon

Sæll Dofri
"andríkis krakkarnir", ég hefði sleppt þessi þetta hjálpar þínum málfluning ekki neitt.
Mikilvægi þess að Lúðvík og Gunnar vinni stækkun álversins er gríðarleg ef haft er í huga þær tekjur sem tapast úr bænum ef sú sorgarstaða kemur upp ef Hafnfirðingar hafni þessu.
Hvað með tekjurnar sem tapast ef Alcan fær ekki að stækka ?
Ég hef mikla trú á Hafnfirðingum að þeir taki rétta ákvörðun fyrir framtíð bæjarfélagsins. 
Það hefði verið mjög skynsamlegt hjá Lúðvík að fara sömu leið og Árni Sigfússon og taka ákvöðunina fyrir sitt fólk þar sem eins og hann segir sjálfur þá liggur fyrir mikill meirihluti fyrir því að menn vilja fara í þetta verk.

"Sérstaklega unga fólkið sem að mínu mati eiga ríkari rétt til að ákveða þetta en þeir sem að öllum líkindum verða komnir annað árið 2050."
Lastu þessa setningu yfir áður en þú ýttir á sendtakkann !

En Dorfi þú átt hrós skilið fyrir hvað þú ert duglegur að svara okkur sem rita hér þó svo að seint verði ég einhversstaðar nálægt því að vera sammála þér í einu eða neinu, kanski er það þessvegna sem ég hef svo gaman af því að lesa þína pistla.



Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 10:07

19 identicon

Sæll aftur Dofri, Mér finnst nú margt af því sem hér hefur komið fram bæði málefnalegt og merkileg og miðað við stafsetningu og orðaval þitt Dofri í þínum síðustu færslum, þá er ekki hægt að segja að þú hafir ekki sjálfur fengið að finna fyrir því að áliðið var orðið, hvaða dagur vikunnar svo sem var. Menn eru þó sem betur fer ósammála og verð ég að vera sammála Óðni í því að það er langt þar til ég verð með nokkru móti sammála þér í þínum skoðunum. Hins vegar Rut vil ég benda þér á þar sem þú talar um slæmt umhverfi virkjanalóna og sandrok, hvað með Þórisvatn, Laxárstöðvarnar, umhverfi Ljósafossvirkjunar, umhverfi Sogstöðvanna og miðlunarlón Hrauneyjarfossstöðvar? Hefur þú nokkurntíman komið á þessa staði og skoðað umhverfið? Hvað með Kárahnjúkasvæðið? Fórstu þangað áður en vinna hófst við virkjun? Hvaða grænu grasbalar og litríka lífríki hefur virkilega verið þar til staðar? Ég hef ekki nokkra trú á að þessi fullyrðing þín varðandi sandrok og svarta sýn á framtíðina á því svæði muni með nokkru móti standast þegar fram í sækir. Ef við nefnum dæmi um jökulár með fallegt og skemmtilegt umhverfi sem ekki einkennist af jökulleir og sandroki þá er hægt að minnast á ár eins og Þjórsá sem rennur meðal annars um Þjórsárver og útvegar Búrfellsvirkjun og Sultartangavirkjun nauðsynlegt vatn, Hvítá sem rennur um Húsafell, Jökulsá á Dal um Héraðsdalinn og Krossá í Þórsmörk. Eru þetta staðir sem þú telur líta illa út eða hafa mikið sandrok vegna þess að um þá rennur jökulá?  Ungir verkfræðingar og annað ungt fólk þarf sem betur fer ekki að óttast atvinnuleysi á Íslandi í dag, en hverju er það að þakka? Núverandi stjórn eða stjórnarandstöðu? Hvernig voru atvinnumálin á Íslandi síðast þegar þeir flokkar sem í dag sitja í stjórn sátu í stjórnarandstöðu? Það að ekki sé stundaður hátækniiðnaður eða þróun í stóriðjufyrirtækjum á heldur ekki við nein rök að standast. Hvaða störf telur þú að séu í boði innan fyrirtækis eins og álvers? Hvað heldur þú að þar vinni margir verkfræðingar og fleira gott fólk á degi hverjum við hönnun og þróun á framleiðslu og ferli í fyrirtækinu? Hversu mikil þróun er í sambandi við t.d. hreinsun á útblæstri og þróun á “hreinum málmi”? Vitið þið að t.d. hjá Alcan í Straumsvík er starfrækt rannsóknarstöð sem vinnur að þróun og stöðugum endurbótum á hreinsun og eftirliti útblástursefna frá fyrirtækinu? Eða haldiði að sú gríðarlega framför sem hefur orðið í þessum efnum gerist að sjálfu sér? Það krefst mikillar rannsóknarvinnu og þróunar á bæði hátæknibúnaði og ýmsum efnafræðilegum hugtökum. Flokkast þessi vinna hvorki undir nýsköpun, hönnun eða þróun? Framfarir í kertækni, þróun á betur nýtanlegum málmi, framfarir í raforkunotkun og svo má lengi fram telja eru allt afleiðingar af hátækniiðnaði, nýsköpun og þróun á þeirri starfsemi sem er í gangi í álverum. Og komi til stækkunar álversins í Straumsvík, sem ég vona innilega að geri, þá er þar rætt um að leggja háspennustreng í jörðu í stað lofti sem er gríðarlegt vandamál og kostnaðarsamt og þarfnast mikillar hátækniþekkingar og þróunar á sviði raforkuflutnings til að það sé geranlegt. Þetta hefur ISAL sagst ætla að borga að stórum hluta, til að koma í veg fyrir það sem margir telja sjónmengun af völdum háspennulína. Það að ekki hafi verið lokað á annarskonar orkuframleiðslufyrirtæki sem notast við t.d. kola og olíubruna vegna Fjarðaráls er fullkomlega rétt. En venjulega er ekki lokað á eldri raforkuver þegar ný stóriðjufyrirtæki er tekin í notkun, heldur eru ný raforkuver byggð. Hefði Alcoa ekki ákveðið að reysa álver fyrir austan, hverskonar raforkuver hefði þá verið byggt í stað þess sem verið er að byggja nú? Miðað við kostnað á byggingu og notkun raforkunnar þá tel ég mjög hæpið að raforkuver með grænni orku hefði orðið fyrir valinu, sem nýtt ver til að þjónusta álverið. Þar sem Kyoto sáttmálinn á að ná til allra, ekki bara okkar á Íslandi, var þetta þá ekki liður í að minnka mengun í heiminum, þar sem Kárahnjúkavirkjun gefur ekki frá sér þau efni sem stangast á við sáttmálann og álver á borð við Fjarðarál hefur ekki útblástursmengun sem kemst með tærnar í námunda við hælanna á þeirri mengun sem hlýst af kola- eða olíuorkuverum. Sjálf á ég íbúð í Holtahverfinu í Hafnarfirði, sem snýr að álverinu þar. Og ég get fyrir mína hönd fullyrt að heldur vil ég hafa þrefalt stærra álver til ársins 2050 og að öllum líkindum mun lengur, með þrefalt fleiri atvinnutækifærum og töluvert meiri innkomu fyrir bæinn en núverandi álver í fá ár til viðbótar. Fyrir utan það að allir sem hafa skoðað skipulag bygginga hins nýja og stækkaða álvers geta auðveldlega séð að það er langt frá því að vera þrisvar sinnum stærra að flatarmáli en núverandi álver. Fyrir utan það að stækki álverið og aukist tekjurnar til muna, þá klingir ekki bara í peningabuddum hafnfirskra starfsmanna og í bæjarbauknum, heldur munu þau íþrótta- og tómstundarfélög sem nú þegar njóta góðs af fyrirtækinu geta styrkt sína stöðu. Og það er eitthvað sem ég get mjög vel hugsað mér í framtíð uppeldis minna barna.

Unnur Stella (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 12:17

20 identicon

Þið verðið að afsaka flæðið á textanum mínum hérna fyrir ofan, en línubil hafa því miður eitthvað farið á mis hjá mér.

Innihaldið er þó mjög skýrt og skilaboð mín munu því vonandi komast ágætlega til skila.

Kveðja,

Unnur Stella

Unnur Stella (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 12:25

21 identicon

Aðeins að benda Unni Stellu á að Hálslón verður myndað úr aurkenndasta fljóti landsins.Þar er gríðarlegur framburður sem  fór út í Héraðsflóann .Þessi framburður kemur til með að stöðvast í Hálslóni og setjast þar til.

Hæðarmunur á fullu lóni í september og síðan að vetri loknum í lok maí , er um 60 metrar. Á öllu því svæði sem kemur undan vetri verður botnfall síðasta árs. Þetta svæði er langt í frá með bröttum halla landsins, sumstaðar munar kílómetrum og tiltölulega flatt.

Á meðan lónið er síðan að fyllast frá júníbyrjun og fram í september, þá er  þessi drulluleir berskjaldaður fyrir sól og vindi ,ansi margir ferkílómetar.

Að hefta fok frá þessu svæði  er ofurmannlegt  og það á ári hverju.Bófi

Þetta er einn af stóru óvissuþáttunum við Kárahnjúkavirkjun  í umhverfismálum.

Ekki er hægt að líkja þessum tiltölulega nýfallna leir við gömul og vinbarin svæði til margra alda.

Þetta er nú fyrst og fremst sett fram til að viðhalda góðri og fróðlegri mumræðu sem hér hefur farið fram. Ulla

Hafnfirðingur (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 13:53

22 Smámynd: Kristján Pétursson

Virkjum hausinn,verndun náttúruna.Vel mælt.Hvernig í ósköpunum er hægt að virkja ráðherrahausa ríkisstjórnarinnar í þágu lands og þjóðar.Er ekki frjálshyggjan og græðgin búin að rugla svo heilabú þessara manna,að afruglarar duga ekki til.Þjóðin á aðeins eitt svar burt með þá.

Kristján Pétursson, 10.2.2007 kl. 13:58

23 identicon

Jæja. Það fór svo að ég drógst inn í bloggheima og mig langar aðeins að svara henni Unni Stellu - sem kemur skoðunum sínum ágætlega á framfæri !

Já, ég held að ég hafi komið að flestum þessum virkjunum (og inn í þær sumar) og hef ekkert út á frágang eða umgengni LV eða annarra orkufyrirtækja að setja - þó mér finnist blómabeð með stjúpum uppi á hálendinu dáldið fyndin sýn (en það er nú bara mitt vandamál).

Það sem hefur þó vakið athygli mína að flestir vegir í nágrenni virkjananna eru lokaðir almenningi, sem liggja t.d. í kringum Hrauneyjafossvirkjun, en þar í kring er mjög fallegt útsýni yfir til Heklu og svo hrikalegt gljúfur þar sem áin rann áður).   Eins er vegur sem liggur upp á Búrfell lokaður almennri umferð.  Því er það svo að virkjanaframkvæmdir greiða ekki endilega leið manna um landið, nema þá bara upp að stöðvarhúsunum, sem eru e.t.v ekki það sem fólk vill fyrst og fremst skoða á ferðum sínum um landið.  Svo má auðvitað velta fyrir sér með hvaða hætti orkufyrirtækin eignast þetta land, með eignarnámi og öllum þeim ósvöruðu spurningum sem því fylgir....geymum þá umræðu.

Og já, ég fór á Kárahnúkasvæðið áður en framkvæmdir hófust og gekk svo lónsstæði Hálslóns síðastliðið haust nokkrum dögum áður en lokað var á rennsli Jöklu.  Þá eiginlega var ég alveg viss um að það væru mistök að fórna þessum stað fyrir þessa virkjun, fram að þeim tíma hafði ég eiginlega innst inni vonað að þetta væru ekki svo mikil verðmæti sem færu forgörðum.  Leyfi mér að setja þennan tengil hér með sem sýna einmitt myndir úr þessari ferð, tekna af fararstjórum hálendisferða - tek fram að þó að ég eigi ekki eins góða myndavél, eru myndirnar mínar líka svona fallegar, þær eru sumsé ekki "photoshopperaðar".  http://halendisferdir.is/page4/page25/page25.html

Þetta með fokið Unnur Stella, er bara nokkuð sem kemur ítrekað fram í umhverfismatsskýrslum um virkjunina og hugmyndir um útfærslur á verkfræðilegum mótvægisaðgerðum gegn því voru nauðsynlegar svo að Siv og umhverfisráðuneytið gætu réttlætt því að snúa við úrskurði Skiplagsstofnunar á sínum tíma.  Þar er næstum því óskað eftir nokkrum hugmyndaríkum verkfræðingum í vinnu við þetta.....

Ég veit ýmislegt um sérfræðingavinnu í álverum og þeir hjá Alcan hafa verið með ýmsa vinnu í gangi til að minnka t.d mengun frá kerjunum o.fl sem bætir auðvitað loftgæði í skálunum og e.t.v út fyrir það. 

En eins og ég sagði þá er bara hægt að láta sér detta svo margt annað í hug en að vinna í stóriðju, sérstaklega fyrir unga nýútskrifaða verkfræðinga. Tek því undir með Dofra - virkjum hausinn (eða höfuðið), það fer betur með náttúruna.  Náttúruna endursköpum við ekki þrátt fyrir allt hugvit verkfræðinga og fjármagn bankanna. 

Læt þetta duga.. RutK

Rut (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 14:13

24 identicon

Alveg stórkostlegt að fá að sjá þessar myndir þínar, Rut K.   Takk fyrir.

Að allt þetta sem þarna kemur fram og er  aðeins augnabliksbrot  þess sem hverfur undir aurugt vatn Jöklu í "Hálslón" að eilífu , er fyrir mig a.m.k. , eins og að missa  móður sína. Hún er að eilífu horfin og minningarnar eru einar eftir , allt sem var er horfið .  Sár söknuður sem ekki hverfur meðan líf leynist í brjósti.

Hvað erum við að gera eiginlega ?  Er samviskuleysið algjört ?

Ef við værum  þjóð við  hungurmörk og ekkert væri í augsýn , þá væri smá skilningur

 Enn og aftur takk fyrir allar þessar fróðlegu og upplýsandi umræðrur sem hér hafa farið framhjá ykkur sem hafið tjáð ykkur hér..allt skiptir máli.

Sem fyrr sagði neyðist ég til að tjá mig kendan við bæjarnafn--- Kannski er það sem koma skal með auknum áhrifum sróriðjunnar á okkar líf i þessu landi, að við fáum smátt og smátt hugarfar þrælsins

Við getum breytt þessu nú í vor. 

Hafnfirðingur (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 17:04

25 identicon

Vil ítreka að þetta eru ekki myndirnar mínar...ég á mjög sambærilegar myndir.  Þessar vísa tengil  Hálendisferða og voru teknar af fararstjórum þeirra.

Er sammála því að umræðan hér er nokkuð málefnaleg, enda nauðsynlegt fyrir bæði þá sem eru með og móti stóriðju að halda sig á málefnalegu nótunum. Ætla samt að láta af bloggi mínu hér inni á síðunni hans Dofra í bili!

RutK

Rut (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 18:37

26 identicon

Hvað flokkast sem hátækni hlýtur að breyttast með tímanum. Hestvagnar flokkuðust áður fyrr sem hátækni en ekki í dag. Rafgreining á áli hefur ekkert breyst frá því álverið var reist í Straumsvík.

Vigfús Eyjólfsson (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband