25.2.2007 | 14:09
Fálki í felulitum og örvænting Moggans
Mér finnst alveg frábært að sjá hvernig fálkinn, ránfuglinn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur með stolti gert að merki sínu, er núna farinn að skipta litum eftir því hvernig best hentar hverju sinni. Ástæðan er þó ekki sú sama og hjá rjúpunni sem klæðist felubúningi til að verða síður étin - Sjálfstæðisflokkurinn á meira skylt með úlfi sem klæðist sauðargæru til að fá meira að éta.
Framlag Morgunblaðsins í þessum sjónhverfingum er umtalsvert en kemur ekki til af góðu. Morgunblaðið hefur eins og allir vita staðið sig vel í allri umfjöllun um náttúru og umhverfisvernd. Það hefur örugglega ekki alltaf verið auðvelt fyrir innmúraða ritstjórn að ganga svo augljóslega í berhögg við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Í raun hefur Morgunblaðið stillt sér upp við hlið stjórnarandstöðunnar og samtaka eins og Náttúruverndarsamtökum Íslands og Landverndar í þessum málum. Á móti Sjálfstæðisflokknum.
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn vill virkja hvern hver og sprænu til að skapa atvinnu í anda Kommúnistaflokksins sáluga þá vill Morgunblaðið vernda ósnortin víðerni hálendisins. Í því kapphlaupi sem Sjálfstæðisflokkurinn efndi til á meðal raforkufyrirtækja um orkuauðlindirnar og "Bachelorkeppni" sveitarfélaganna um hylli álrisanna kallar Morgunblaðið í kór við stjórnarandstöðuna eftir því að skjaldborg verði slegið um verðmæt náttúrusvæði landsins. Mogginn er í stjórnarandstöðu í þessum málum - og það er honum þungbært.
Þess vegna hefur blaðið ítrekað gripið til örvængingarfullra ráða. Það auglýsti sérstaklega á samtengdum rásum eins og um heimsviðburð væri að ræða, þegar Illugi Gunnarsson skrifaði í sumar dulitla grein í Lesbókina undir yfirskriftinni Hægri grænt. Það var þunnur þrettándi.
Illugi og Guðlaugur Þór reyndu svo báðir að mála sig græna í prófkjörsbaráttu sinni en báða vantar allan grundvallar skilning á málunum til að hægt sé að taka þá alvarlega. T.d. skrifar Guðlaugur grein í Mbl í gær undir yfirskriftinni "Ef öll lönd væru eins og Ísland þá væri ekkert loftslagsvandamál". Það væri athyglisvert að sjá svar Kínverja, Indverja og Afríkubúa við þessari grein.
Tilvistarkreppa Moggans kemur skýrt fram í þeirri staðreynd að á meðan blaðið fjallar af metnaði um loftslagsmál hefur Illugi Gunnarsson, sem blaðið teflir fram sem helstu vonarstjörnu hægri manna í umhverfismálum, enn ekki breytt þeirri afstöðu sinni að það sé fráleitt sannað að loftslagsbreytingar séu af manna völdum.
Það hlýtur að vera erfitt fyrir ritstjórann að hans grænasta von innan Sjálfstæðisflokksins skuli enn ekki hafa skipt um skoðun í þessum málum. Það er til lítils fyrir ritstjórann að skrifa Staksteinagreinar um meintar grænar áherslur Illuga þegar hann er opinberlega ennþá á sömu skoðun og aðkeyptir vísindamenn olíurisans ExxonMobile.
Örvænting Morgunblaðsins er beinlínis áþreifanleg síðustu daga. Á föstudaginn svindlar blaðið á lesendum sínum með því að gefa í skyn að Jónína Bjartmarz og Einar Oddur hafi af eigin frumkvæði sett fram yfirlýsingar um að eignarnám kæmi ekki til greina við virkjun neðri Þjórsár. Staðreyndin er sú að þetta sögðu þau tilneydd eftir sérlega vel flutta ræðu og spurningar Björgvins G Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Að sleppa því að geta þess hver hóf umræðuna eru ósvífin svik við lesendur blaðsins og ber örvæntingunni vitni.
Í gær náði þó örvæntingin nýjum hæðum þegar Morgunblaðið birtir merki Sjálfstæðisflokksins afbakað á forsíðu sinni - grænan fálka! "Fréttin" er dapurleg upptalning á meintum grænum mönnum, Illuga og Guðlaugi Þór, og þar sem ritstjórinn veit að þeir eru tæpast einnar messu virði þá splæsir hann líka nokkrum línum á tvær sjálfstæðiskonur sem miklu frekar eiga skilið að kallast grænar en Sjálstæðisflokkurinn hefur því miður hafnað.
Í dag halda þessi örvæntingarfullu skrif ritsjórans áfram, nú í Staksteinum þar sem hann telur upp "ekki fréttir" síðustu tveggja daga.
Ég finn til með ritstjóranum. Hann er í erfiðri stöðu, vill bæði landi sínu og flokki vel en flokkurinn hans er ógn við landið og náttúru þess. Í stað þess að skrifa "ekki fréttir" um meinta hægri græna og halda frá lesendum sínum sannleikanum um það hverjir segja hvað ætti ritstjórinn að nota blað sitt til að spyrja flokk sinn nærgöngulla spurninga. Hvetja fálkann til að koma úr felum og sýna sinn rétta lit.
- Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn að Ísland dragi mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum?
- Er Illugi Gunnarsson enn á þeirri skoðun að loftslagsbreytingar séu ekki af manna völdum?
- Vill Sjálfstæðisflokkurinn stefna út úr Kyoto og setja sig í þá stöðu að þurfa að biðja um frekari undanþágur vegna aukinnar losunnar frá stóriðju?
- Vill Sjálfstæðisflokkurinn vernda Jökulsá á Fjöllum, Skjálfandafljót, Jökulsár Skagafjarðar, Langasjó, Þjórsárver, Torfajökulssvæðið, Grændal, Kerlingarfjöll og Brennisteinsfjöll?
- Vill Sjálfstæðisflokkurinn fresta frekari stóriðjuframkvæmdum svo hægt sé að ráðast í Rammaáætlun um náttúruvernd, kortleggja verðmæt svæði og tryggja verndun þeirra áður en lengra er haldið?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:58 | Facebook
Athugasemdir
hva, ekki eitt orð um nýjustu skoðanakönnun Fréttablaðsins? fyrir tveimur vikum skrifaðir þú að Samfylkingin væri að að taka flugið en miðað við þá myndlíkingu má segja að hún hafi lækkað flugið nokkuð hver svosem skýringin er á því? Efast um að hræðsla kjósenda við Reyni Harðarson hafi nokkuð með það að gera. Kannski frekar vælið um ósanngjarnar árásir á ISG ?
Annars minnir þessa færsla núna nokkuð á vælið um Fréttablaðið fyrir kosningarnar 2003 þegar það átti að vera málgagn Samfylkingarinnar. Lesendur Moggans eru varla hálfvitar frekar en íbúar í Hafnarfirði.
Mér finnst það skína í gegn hjá þér að enginn má "stela" góðu málunum frá Samfylkingunni. Framsókn hefur sagt það núna að náttúran eigi að njóta vafans og mér sýnist styttast í það að Sjálfstæðisflokkurinn gefi eitthvað svipað út.
Þá verður engin munur á þessum þremur flokkum í umhverfismálum, allir hafa þeir tekið upp mildari stefnu VG í umhverfismálum en samt heyrist mér á þér að B og D megi ekki vera með.
Af því að við erum amk sammála um nauðsyn þess að draga úr svifryksmengun í borginni þá vilt þú meina að nú sé sú umræða á pólitiskum villigötum. Er það bara af því að nú eru allir flokkar sammála um að gera eitthvað? R-listinn gerði ekkert í að draga úr svifryksmengun enda hefur hún aukist ár frá ári síðustu ár en nú eru actual aðgerðir í gangi þegar B og D listi stjórna. ég veti að þið hafið lagt eitthvað fram í þessum málum og ekki er hægt að eigna þau D og B lista en þú getur þá varla sagt að þessir flokkar hugsi ekki á grænum nótum og reynt að þvo af þeim græna litinn þegar flokkarnir hafa raunverulega gert eitthvað í þessum málum.
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 16:26
Sleginn ótta?
Heimir Lárusson Fjeldsted, 25.2.2007 kl. 16:56
Eitthvað hefur nú verið liðið á laugardagskvöldið þegar þú litaðir alla fálkana og nefndir þá. Hverjir eru Gæningjar?
Viltu ekki bara koma með næsta pistil þegar þú ert ekki jafn þreyttur og eftir þig eftir erfið laugardagskvöld?
Nei, bara svona hugdetta sem ég fékk eftir að lesa nokkur svör þín til þeirra sem skrifað hafa athugasemdir hér inni.
JGJ
Jóhann Gunnar Jónsson, 25.2.2007 kl. 17:18
Greinilegt að sumum finnst það skelfileg tilhugsun að Sjálfstæðisflokkurinn sé umhverfisverndarflokkur.Hvernig gat það gerst að vinstri menn eignuðu sér umhverfismál?
Lítið gerðist í umhverfismálum hjá vinstri ríkisstjórnunum, en á síðustu 12 árum hafa stór skref verið stigin, svo sem í stækkun þjóðgarða og áherslu á umhverfismat í stjórnsýslunni.
Fáir bandarískir forsetar voru eins miklir umhverfisverndarsinnar og hægri maðurinn Teddy Rosevelt.
Fáir léku nátturuna eins grátt og Sovétmenn.
Eyþór Laxdal Arnalds, 25.2.2007 kl. 18:56
Dofri, viltu meina að Samfylkingin hafi ákveðna stefnu í þessum málum?? Ertu viss um að frú formaður myndi skrifa undir það??
Baldvin Jónsson, 25.2.2007 kl. 19:00
Sæll Hákon Hrafn.
Það er rétt að lesendur Moggans eru ekki skyni skroppnir frekar en Hafnfirðingar. Hins vegar eru þeir ekki gæddir fjarskynjun frekar en aðrir svo ef fréttin á forsíðunni fjallar bara um helminginn af því sem gerist fá þeir ekki allar forsendur til að mynda sér skoðun á málinu. Það gildir líka í Hafnarfirði þar sem annars vegar eru örfáir áhugamenn að benda á ókosti stækkunar en hins vegar risafyrirtæki með fulla vasa fjár að akitera fyrir stækkun.
Varðandi svifrykið þá gildir það sama, fólk þarf að vita hvað R-listinn hefur gert eða ekki gert í þeim málum til að geta fjallað um málið. Hér getur þú hins vegar ekki kennt því um að þú hafir ekki aðgang að réttum upplýsingum, hins vegar er ekki víst að þú hafir notað þær. Hér er þó slóð ef þú skildir fá áhuga á að vita hið rétta í málinu - að R-listinn setti þau mál á dagskrá við litlar sem engar undirtektir Sjálfstæðismanna sem fremur hafa haft áhyggjur af einkabílnum en mengun af umferð. Þannig er fátt um tillögur af þeirra hálfu til að minnka svifryk en Samfylkingin hefur, þótt í minnihluta sé látið þau mál til sín taka, m.a. með tveimur tillögum sem teknar verða til afgreiðslu á næsta fundi Umhverfisráðs. Áhugaleysi Sjálfstæðismanna er þó að breytast og nú virðist sem a.m.k. formaður Umhverfisráðs ætli að byggja á vinnu R-listans sem m.a. má sjá á þessu ágæta stefnumótunarskjali R-listans "Reykjavík í mótun". Þessu fögnum við í Samfylkingunni að sjálfsögðu innilega.
Varðandi það að eigna sér grænu málin eða óttast að einhver steli þeim þá er sú umræða að sjálfsögðu úti í hött. Ykkur í Sjálfstæðisflokknum er hjartanlega velkomið að "stela" Fagra Íslandi eins og það leggur sig. Það er bara sjálfsagt að láta ykkur í té alla þá hugmyndafræði og tillögur - ef þið eruð til í að leggja það fyrir flokksmenn ykkar til umræðu og samþykktar sem stimplaða stefnu flokksins.
Ég skora hér með á ykkur að gera það og lýsi mig reiðubúinn að mæta á fundi með stefnumótunaraðilum Sjálfstæðisflokksins til að upplýsa ykkur um helstu atriði málsins og aðstoða ykkur við að búa til sæmilega góðar tillögur fyrir Landsfund ykkar í vor.
Þegar þið eruð búnir að því (og búnir að fá Illuga til að viðurkenna að loftslagsbreytingar séu af manna völdum) þá getið þið þið farið að kalla ykkur flokk með græna stefnu. Þangað til eruð þið bara stóriðjuflokkur og eina græna glætan er sú sem ritstjóri Morgunblaðsins reynir af litlum efnum að varpa á ykkur.
Ágæti Eyþór, hvaða umræða er þetta um Sovétmenn? Einu skiptin sem Sovétríkin koma upp í umræðu um íslenska pólitík nútildags er þegar rætt er um Stalíníska stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokksins.
Kæri Baldvin. Stefnuna getur þú kynnt þér á http://samfylking.is/Forsida/Stefnan og umhverfismálin sérstaklega á http://samfylking.is/Forsida/Stefnan/FagraIsland/
Það þarf náttúrulega ekki að taka fram við neinn sem fylgist með að frú formaður skrifar undir það.
Að lokum. Takk fyrir athyglisverðar og mestan part uppbyggilegar og málefnalegar spurningar. Kv. Dofri.
Dofri Hermannsson, 25.2.2007 kl. 21:09
Þakka þér fyrir svarið Dofri
Þú virðist því miður ekki geta rætt hlutina við þá sem gagnrýna Samfylkinguna út frá eðli þeirra heldur verður þú fyrst að flokka hvern og einn eftir stjórnmálaflokk og svo afgreiðir þú út frá þeirri flokkun. Ég ætla ekki að fullyrða neitt en ég á ekki von á því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í vor. Ég hugsa að ég kjósi ekki Samfylkinguna heldur, sérstaklega ekki eftir að þið settuð mann, án prófkjörs, inn á listann sem framleiðir tölvuleiki og hótar því að fytja fyrirtækið úr landi ef krónan verði ekki veikt hið fyrsta með öllum ráðum. Á þetta að vera fengur ? fyrir hvern þá?
Ég þekki vef umhverfissviðs ágætlega og nota hann sæmilega. Ég hjóla líka daglega í borginni og hef gert það síðustu 6 árin og maður hugsar stundum hvort það sé ekki hreinlega heilsusamlegra að vera á bíl með hreinu lofti heldur en úti í menguninni. Skýrslur sýna að svifryksmengun hefur ekki minnkað síðustu 10 árin en fjöldi daga sem fara yfir heilsuverndarmörk er reyndar mjög háður úrkomu.
Þú gerir mér upp lítinn áhuga á málinu og bendir á slóð til að fræða mig, slóð á vef sem ég hef notað áður. Mér er alveg sama hvort Sjálfstæðismenn hafa sýnt tillögum R-listans lítinn áhuga eða ekki. Ég vil vita hvað R-listinn gerði til að draga úr svifryksmengun meðan sá listi stjórnaði í borginni. Fundargerðirnar eru ágætar en skýrslur sýna að svifryksmengun hefur ekki minnkað síðustu 10 ár í borginni (óvissa samt í gögnum vegna tengsla við úrkomu). Það er staðreyndin í málinu. Á móti mætti reyndar segja að hlutfallsleg sviryksmengun hafi minnkað vegna þess að bílaumferð hefur aukist mjög í borginni á síðustu árum.
Viltu ekki frekar svara því á málefnalegan hátt hvað R-listinn gerði til þess að draga úr svifryksmengun síðustu ár? Þetta eru varla svo viðamiklar aðgerðir að þeim verði ekki svarað hér með nokkrun línum ef þú hefur einhvern áhuga á því. Ekki reyna að gera lítið úr mínum áhuga á málinu eða reyna að setja mig í einhvern flokk til að forðast að svara því sem spurt er um.
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 21:55
Bendi á ummæli Geirs H.Haarde um þá framtíðarsýn sína að þrjú ný álver rísi 2015-2020. Sýnin hljóðar í raun upp á alls sex risaálver á Íslandi í næstu framtíð sem þurfa munu nær alla virkjanlega orku Íslands.
Meðan flokkur Geirs breytir þessari framtíðarsýn sinni er allt kvak um hægri grænt marklaust hjal til að slá ryki í augu fólks.
Ómar Ragnarsson, 25.2.2007 kl. 22:04
Hákon Hrafn. Biðst innilega afsökunar á að hafa ranglega kallað þig Sjálfstæðismann, það var sannarlega ekki fallegt af mér . Tek undir þetta sem þú segir um heilsubótina af því að hjóla, alla vega suma daga. Ég skal láta þess getið á síðunni hér á morgun hvernig fer fyrir tillögum okkar í Samfylkingunni í Umhverfisráði um aðgerðir gegn svifryksmenguninni. Annars er ágæt úttekt á verkum R-listans á heimasíðu Hrannars B Arnarsonar, sjá http://hrannarb.blog.is/blog/hrannarb/entry/123554/
Kv. Dofri.
Dofri Hermannsson, 25.2.2007 kl. 22:20
Þessi umræða um svifrykið og R-listann er svolítið kómísk.
Ein besta og auðveldasta leiðin til að minnka svifryk í Reykjavíkurborg og á landinu öllu (bendi mönnum á að vandamálið er mikið mun alvarlegra á Akureyri) er að banna negld dekk. Eiga borgaryfirvöld í Reykjavík, eða hvaða sveitafélag sem er, að banna negld dekk?
Nei.
Það er eitthvað sem þarf að gerast á landsvísu, vegna þess að ekki getur Reykjavíkurborg bannað sínum samfélagsþegnum að nota negld dekk meðan allir aðrir landsmenn nota negld dekk.
Þetta þarf að gerast á landsvísu, þar sem hið blá"græna" bandalag hefur verið við völd síðastliðin alltof mörg ár.
HB (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 22:59
Munurinn á hægrimönnum og vinstrimönnum í umhverfismálum er sá sami og í flestum, við hægrimenn framkvæmum og vinstrimenn tala út í eitt.
Við gerum góða hluti í umhverfismálum án þess að auglýsa þá upp eins og sumir flokkar já og meðan ég man samfylkingin hefur ekkert gert í umhverfismálum.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 01:31
Sæll Dofri
ég leyfi mér að afrita efni af heimasíðu Hrannars hér:
--------------
Desember 2000 - Samþykkt að tillögu minni að gera "úttekt á þeim úrræðum, sem borgaryfirvöld hafa tiltæk til að draga úr loftmengun í Reykjavík. "
Febrúar 2001 - Umhverfisstefna Reykjavíkur - staðardagskrá 21, samþykkt í Borgarstjórn með afar metnaðarfullum áherslum í loftgæðamálum "Reykjavík verði sú höfuðborg þar sem minnst loftmengun mælist í heiminum."
Maí 2001 - "Tillögur um aðgerðir til að minnka neikvæð áhrif svifryksmengunar" lagðar fram í borgarstjórn - framhald samþykktarinnar hér að ofan. Meðal tillagana voru stórauknar mælingar (sbr. hér að neðan) og að kannaðir yrðu möguleikar á gjaldtöku fyrir notkun nagladekkja.
Sept 2001 - Undirritaður samningur milli Hollustuverndar ríkisins og Reykjavíkurborgar um stórauknar loftgæðamælingar, fjárfestingar í mælitækjum og áframhaldandi samstarf um rannsóknir og upplýsingagjöf til almennings. Með samningnum var Íslandi gert kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar um þessi mál.
Fljótlega eftir þetta urðu rauntímaupplýsingar úr loftgæðamælingum aðgengilegar almenningi í gegnum Umhverfisvef borgarinnar sem settur var upp og hafa verið það æ síðan
--------------------
Ég ætla ekki að taka það af Hrannari að hann sé mikill áhugamaður um þessi mál og mjög líklega upphafsmaður þeirra í borginni. Það breytir ekki þeirri staðreynd að lítið var gert til þess að draga úr svifryksmenguninni en auðvitað þarf fyrst að safna gögnum um hana (eins og Hrannar var duglegur að leggja til) áður en farið er af stað í aðgerðir.
Tillögur Gatnamálastjóra og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur lágu fyrir árið 2000/2001 í skýrslu sem þá kom út en ekki virtist vera farið eftir því sem þar var lagt til. Eru ykkar tillögur nú eitthvað frábrugnar því sem þar kemur fram?
Einhverstaðar sá ég að nú væri verið að gera tilraunir með að auka bindingu á þessu svifryki með einhverri efnablöndu auk einhverra annarra aðgerða sem snérumst um þrif. Það væri mjög fínt ef þú gætir sett inn hérna á morgun einhverja punkta af þessum fundi og þá helst þá sem ekki munu birtast í fundargerðinni.
Við HB (óskráður) vil ég segja að það er mjög kómiskt að sjá þitt innlegg í þessa umræðu.
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 02:58
Í gamla daga hafði það einhverja merkingu að tala um hægri og vinstri í stjórnmálum. Vinstri var kennt við forsjárhyggju og hægri við frelsi einstaklingsins til að velja. Í dag eru það bara Samfylkingin sem stendur fyrir eitthvað hægra megin.
Ég vil fara þess á leit við sjálfstæðismenn þá sem kalla sig hægrimenn að þeir hætti þeim ósóma. Það er ekkert til hægri í stefnu Sjálfstæðisflokksins, aðeins valdníðslan, einokunarstefnan, einkavinavæðingin og þjófnaðarmálin standa upp úr valdaferli þeirra. Þeir ættu að fara fram undir kjörorðinu
"Þjófar á Þing"
Kormakur H. Hermannsson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 08:27
Vilhjálmur Andri. Það er sannarlega gaman að sjá verkin tala hjá eðalsjallanum og athafnastjórnmálamanninum Gunnari Birgissyni þessa dagana. Umhverfisfrömuðurinn Friðrik Sóphusson hefur sannarlega lagt sín lóð á vogarskálar - og stefnir að gera það "umhverfis" Ísland ef að líkum lætur. Það er auðvelt fyrir þig að tala Samfylkinguna niður sem hefur ekki verið í ríkisstjórn. Flokkurinn hefur samt lagt fram ótal þingmál, um notkun vistvæns eldsneytis, um friðun Þjórsárvera, um djúpborun o.m.fl. Því miður hafa hinir svokölluðu athafnastjórnmálamenn fyrst og fremst virkjað, malbikað og steypt - erfitt er að finna nokkuð sem hægt er að kalla umhverfisvernd í verki.
Dofri Hermannsson, 26.2.2007 kl. 09:18
"lýsi mig reiðubúinn að mæta á fundi með stefnumótunaraðilum Sjálfstæðisflokksins"
ég held að það yrði lítið gagn í þér.
Óðinn (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.