Öndum léttar

pallbíllMér finnst alveg frábært að það skuli nú vera þverpólitískur áhugi fyrir því að taka á þeirri mengun sem sívaxandi bílafloti borgarbúa veldur. Það er líka gleðilegt að orðið hafi almenn vitundarvakning í þessum málum því til að bæta ástandið er ekki nóg að einhver einn aðili eins og yfirvöld geri eitthvað eitt stórt - það er þetta litla sem margir geta gert sem vegur þyngst.

Umhverfissvið borgarinnar hefur unnið mjög gott starf undanfarin ár í baráttu við svifryksmengun en þar hefur verið við ramman reip að draga þar sem bílum fjölgar ár frá ári, vélar þeirra og dekk stækka ár frá ári og risatrukkar þykja núna sjálfsagðir í innanbæjarsnatt.

Það má þó alltaf finna leiðir til að gera betur og því lögum við fulltrúar Samfylkingarinnar til tvær tillögur á síðasta fundi Umhverfisráðs. Önnur tillagan var um frekari aðgerðir nú þegar og hin um að gera heildarúttekt á þeim kostnaði sem fellur á samfélagið vegna notkunar nagladekkja en talið er að sá kostnaður geti numið tugum þúsunda á hvern negldan bíl.

Báðar tillögur féllu í góðan jarðveg og var þeirri síðari vísað til umræðu á næsta fundi en þeirri fyrri breytt lítilsháttar og stóðu allir flokkar að tillögunni í þessari mynd:

Umhverfisráð samþykkir að fela sérfræðingum sínum á umhverfissviði að gera tillögur að frekari aðgerðum til að draga úr svifryksmengun í borginni. Tillögunum verði skilað á sérstökum fundi Umhverfisráðs að viku liðinni.

Ég er viss um að með einföldum hætti má ná miklum árangri í þessum málum - ekki síst með því að fá fjölmiðla í lið með okkur. Ég myndi vilja að talað væri um svifryk í öllum veðurfréttatímum, sjá spá um svifryksmengun næsta dags og því mætti þá gjarna fylgja hvatning til fólks að nota nagladekkjalausa bíl heimilisins ef þannig hagar til, að hjóla, ganga eða taka strætó í vinnu og skóla.

Við fulltrúar Samfylkingarinnar bættum reyndar einni tillögu við sem miðar að því að hvetja fólk til að taka Strætó. Hún skýrir sig sjálf og verður tekin til umræðu á næsta fundi Umhverfisráðs eftir viku. Það ber hins vegar að hafa í huga að Strætó bs lýtur sjálfstæðri stjórn skipaðri fulltrúum allra bæjarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu svo afgreiðsla Umhverfisráðs, hver svo sem hún verður, geta aðeins orðið tilmæli til stjórnar Strætó bs.

Tillaga Samfylkingarinnar um 100 kr. staðgreiðslugjald fyrir alla í Strætó í mars.

Mars er sá mánuður ársins sem mest svifryksmengun er í borginni. Einu raunhæfu leiðirnar til að draga úr þeirri mengun er að hvetja borgarana til að fækka ferðum á einkabílnum, einkum þeim bílum sem eru á nagladekkjum.

Ítrekað hefur verið bent á að staðgreiðslufargjöld séu ekki nógu hentug, óalgengt sé að fólk eigi nákvæmlega 280 kr. og þetta geti hamlað notkun strætisvagna.

Tillagan gerir ráð fyrir að hér yrði um tilraun að ræða sem hefði tvíþættan tilgang a) að draga úr svifryksmengun í mars og b) að kanna hvort einfaldara staðgreiðslugjald hefur áhrif á notkun almenningssamgangna.

Tillagan tekur mið af lægsta staðgreiðslufargjaldi og er nálægt greiddu meðalfargjaldi Strætó og ætti því að geta fengið samþykki í stjórn Strætó bs.


mbl.is Svifryksmengun fór yfir heilsuverndarmörk í höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Fjárinn Dofri, aldrei hélt ég að þú færir að ráðum mínum. Ef þú ferð ekki að verða reiður aftur og hafa allt á hornum þér og skammast vel og lengi út í stjórnarflokkana, þá er stór hætta á því að þú farir að krækja í eitthvað af atkvæðum fyrir samfó

Ágúst Dalkvist, 26.2.2007 kl. 22:06

2 Smámynd: Guttormur

Ég held að þetta með veðurfréttatímana sé mjög sterkur leikur. Sbr óveðursviðvaranir þær virka á fólk og meirihlutinn fer og athugar um lausa hluti útivið o.s.frv. Það sama gæti gerst með svifryksviðvaranir, stór hluti fólks myndi gera ráðstafanir. Því trúir að minnsta kosti Guttormur.

Guttormur, 27.2.2007 kl. 11:09

3 identicon

Sæll Dofri

Það er gott að stjórnmálamenn láta sér þetta mál varða enda er þetta stærsta umhverfismál höfuðborgarsvæðis. Í raun ótrúlegt hvað lítið hefur verið rætt og gert hingað til, en menn frekar verið að amast við nýtingu hreinna orkugjafa. En þetta veit á gott ! Nú þarf alvöru aðgerðir, banna nagladekk eða að viðkomandi borgi ríflega fyrir notkun. Ókeypis í strætó, t.d. í ár sem einskonar tilraun, eða ókeypis fyrir börn og eldri borgara til að minnka skutlið. Það sem snýr að samgöngum beint þarf að leggja fleiri hjólreiðastíga, þétta byggð (flugvöllinn til Keflavíkur þar sem næg aðstaða er nú þegar), sleppa öllum mislægum gatnamótum sem til stendur að leggja o.fl. Nú er spurning hvort pólitíkusar og meintir umhverfsverndarmenn hafi það þor og þann dug til að láta hendur standa fram úr ermum í þessu einu mesta hagsmunamáli borgarbúa. Nú segja margir að umhverfismál brenna á þjóðinni, því ætti það að vera létt verk að fá fólk til að samþykkja þessar aðgerðir. Það merkilega er að ég hef minnst á þetta á bloggsíðum Vinstri-græna, Ómars og fleiri góðra manna en aldrei fengið neinar undirtektir. Þau eyða alltaf öllum tímanum í það sama virkjanamál og stóriðju, nú síðast arðsemi Kárahnjúka !!!

Með bestu kveðju, Gísli Tryggvason

Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 11:26

4 identicon

Í ljósi þess að það er þverpólitísk samstaða um þetta mál, væri þá ekki upplagt að mana alþingismenn og ráðherra í að taka þátt í átakinu með okkur og taka strætó í vinnuna.  Hvað finnst ykkur um það?

Linda (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 13:19

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Það var mál til komið að umhverfisverndarsinnar í Samfylkingu færu að líta sér nær.

Allir í strætó.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 27.2.2007 kl. 15:14

6 Smámynd: Dofri Hermannsson

Mér finnst gott um það. Veit fyrir víst að Mörður Árnason mætir ætíð á hjóli í vinnuna og Össur Skarphéðinsson all oft. Sjálfur fæ ég að jafnaði far í vinnuna að morgni og tek svo leið S6 heim í Grafarvoginn að kvöldi. Hef svo hjólið í vinnunni til að snatta á það sem ég þarf að fara út fyrir 10 mínútna göngufæri.

Dofri Hermannsson, 27.2.2007 kl. 15:17

7 identicon

Styð heilshugar tillögu í anda Gísla Tryggvasonar - að bíleigendur í þéttbýlinu verði látnir (sækja um undanþágu og) borga fyrir notkun nagladekkja. Sömuleiðis verður að gera eitthvað fyrir þá sem vilja hjóla - en komast hvorki lönd né strönd því það eru aldrei lagðir neinir hjólreiðastígar (og hvaða djók er þetta í Lönguhlíðinni ?). Til viðbótar, sérstaklega fyrir okkur sem búum í Grafarvogi - hvernig væri nú að gera átak í að þrífa veggjakrot og rusl í hverfinu, Dofri ?

Lana Kolbrún Eddudóttir (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 16:11

8 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sæl Lana Kolbrún. Meirihlutinn blés í herlúðra gegn veggjakroti og síðan þá hafa veggjakrotarar færst allir í aukana. Held að það væri bara betra að þrífa þetta án sérstakrar stríðsyfirlýsingar. Bendi þér á að hringja í 4 11 11 11 og biðja um þrif á veggjakrotinu. Ef um er að ræða vegg í einkaeigu er það hins vegar ekki borgarinnar að þrífa krotið - desværre fyrir viðkomandi!

Dofri Hermannsson, 27.2.2007 kl. 17:26

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er alltaf þverpólitískur áhugi fyrir mjúkum málum í aðdraganda kosninga.  Það er lögmál en ekki undantekning.  Efndirnar láta svo yfirleitt á sér standa. Ég mundi ekki fagna fyrr en að leikslokum.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.2.2007 kl. 17:57

10 identicon

Hvað finnst þér um þá staðreynd að á landsfund vg mætti einn á hjóli ?
Eru þeir trúverðugir í umhverfismálum ( Mosfellsbær ) ?
Styður þú eins og Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra hefur kallað það "stopp stopp" stefnu vg ?

Óðinn (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 18:09

11 identicon

Jón Steinar. Gjald á nagladekkjanotkun og takmarkanir á einkabílinn hafa ekki verið auðveld baráttumál en eins og þú veist hafa Sjálfstæðismenn ævinlega beitt sér af hörku gegn "árásum vinstri manna á einkabílinn" í kosningum.

Í fyrra kvað svo rammt að þessu að dreift var bæklingum með Photoshoppuðum stöðumælum utan við leikskóla og Fjölbrautarskólann í Breiðholti tveimur dögum fyrir kosningar og sagt að Samfylkingin ætlaði að setja upp stöðumæla fyrir utan alla skóla í borginni.

Það fannst okkur ekki sérlega málefnalegt þar sem það hafði aldrei verið lagt til og auk þess ekki einu sinni í valdi borgarinnar að setja stöðumæla við framhalds- og háskóla þar sem lóðirnar eru ekki á forræði borgarinnar frekar en lóðir íbúa borgarinnar.

Því gleðst ég dag hvern yfir þeim viðsnúningi sem hefur a.m.k. orðið á fulltrúum meirihlutans í Umhverfisráði sem nú tala með opnum huga um margar lausnir í umferðarmálum sem við í Samfylkingunni höfum lengi talað fyrir.

Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 18:46

12 identicon

En hvað finnst þér Dofri um þessar tillögur sem ég nefndi? Sleppa nagladekkjum, ókeypis í strætó, þétta byggð, hætta við mislæg gatnamót? Það er rétt hjá þér að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf staðið sig illa þegar samgöngumál höfuðborgarsvæðis hafa verið á dagskrá, t.d. hvað varðar ofuráherslu á mislæg gatnamót og einkabílinn og verið algerlega á móti þéttingu byggðar. Sjáið bara í kringum Smáralind. Það er bara einfaldlega óhollt að ganga þar ! En hvað ætla hinar að gera ? Björn Ingi nefnir á heimasíðu sinni að VG ætli að banna nagladekk og finnst það eitthvað voðalegt! Hvað ætlar hann sjálfur að gera? Nagladekk bæði slíta götum óhóflega og menga gífurlega. Og þetta er alger óþarfi þar sem götur eru stráðar salti !

kveðja Gísli

Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 20:42

13 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sæll Gísli. Mér finnst hugmyndir þínar mjög áhugaverðar og þær eru alveg í takti við það sem við höfum verið að ræða í Samfylkingunni. Í mjög merkilegu stefnumótunarplaggi sem gert var fyrir borgarstjórnarkosningar, Reykjavík í mótun, er komið inn á margar hugmyndir í sama anda.

Mér finnst einsýnt að það þurfi að hugsa samgöngur upp á nýtt. Þetta er fyrst og fremst spurning um að komast á milli staða á þægilegan og hagkvæman hátt, bæði fyrir buddu einstaklingsins og fyrir samfélagið.

Ég held að ef sveitarfélögin fengju meira af verkefnum á sviði heilbrigðismála þá væri gengið skrefi (jafnvel nokkrum) lengra í að hvetja fólk til að stunda daglega hreyfingu. Það mætti gera með ýmsum hætti og t.d. með ívilnunum skattalega eða með öðrum hætti eins og víða eru fordæmi fyrir erlendis.

Að hljóla til og frá vinnu og að ganga styttri vegalendir s.s. út í sjoppu/búð/sund/bókasafn/kirkju/á völlin osfrv. er einföld og ódýr leið til að fá góða daglega hreyfingu - auk þess sem hún tekur mun styttri tíma en að fara í átaksþjálfun hjá einkaþjálfaranum

Ég reiknaði eitt sinn út að það tæki mig um þrjá tíma í vinnu á dag að vinna fyrir þeim "lúxus" að eiga fjölskyldubíl nr. 2 og fara í leikfimi þrisvar í viku til að halda mér í sæmilegu formi í stað þess að hjóla í vinnuna.

Dofri Hermannsson, 27.2.2007 kl. 21:06

14 identicon

Já það hlýtur að þurfa að hugsa samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu upp á nýtt. Fjölgun bíla er mun meiri heldur en fjölgun íbúa á svæðinu síðustu ár og það bendir til að
a) fólk hafi mikla peninga (sem er gott) og að
b) það sé gott að vera á bíl í Reykjavík

Annars langar mig að vitna í þig Dofri hér fyrir neðan og spurja af hverju gerðuð þið þá ekki neitt annað en að tala í öll þessi ár þegar þið höfðuð bæði tækifæri og völd til þess að framkvæma eitthvað af þessum góðu hugmyndum?
Nú stjórnar Sjáflstæðiflokkurinn og ekki er hann líklegur til afreka í þessum málaflokki (þó hann gæti reynst grænari en þið með umræðupólitikina þegar upp er staðið)

Quote:
Því gleðst ég dag hvern yfir þeim viðsnúningi sem hefur a.m.k. orðið á fulltrúum meirihlutans í Umhverfisráði sem nú tala með opnum huga um margar lausnir í umferðarmálum sem við í Samfylkingunni höfum lengi talað fyrir.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband