29.3.2007 | 12:33
Er þetta loforð Rannveig?
Framganga Alcan í kosningabaráttu sinni hefur gengið fram af mörgum.
Fyrirtækið hefur reynt að kaupa upp allt sem er falt og hefur varið til þess tugum milljóna. Sumt af því hefur verið skot langt yfir markið eins og flestir vita.
Fyrirtækið hefur án vafa líka varið tugum milljóna í auglýsingar sínar nú þegar. Það er bókstaflega búið að veggfóðra blöð, netmiðla og flettiskilti með skilaboðum þeirra.
Sól í Straumi hefur úr hálfri milljón að spila.
Þetta finnst mörgum í meira lagi siðlaust þegar tilgangurinn með kosningunum er að bæjarbúar fái jöfn tækifæri til að kynna sér kosti og galla stækkunar.
Nú þegar stjórnmálaflokkarnir eru farnir að gefa upp hverju þeir eyða í kosningabaráttu og hafa samþykkt þak á auglýsingakostnað - er ekki sjálfsagt mál að Hafnfirðingar fái að vita hvað mörgum tugum milljóna Alcan er búið að eyða í sína kosningabaráttu? Fyrir laugardaginn!
Áróður Alcan hefur verið á mjög persónulegum nótum. Andlit fólksins sem vinnur í álverinu hafa verið send inn á hvert heimili í Firðinum um leið og sagt er upphátt og í hljóði að allt þetta góða fólk (sem það sannarlega er) missi vinnuna ef kjósendur segi ekki já við stækkun. Hræðsluáróður.
Rannveig Rist sagði í Kastljósi nýlega að fyrirtækið myndi fara eftir 6 ár ef það fengi ekki að stækka. Þetta stangast algerlega á við:
- að álframleiðendur bíða í röðum eftir því að fá að byggja frá grunni álver í svipaðri stærð og Straumsvíkurálverið
- ákvæði í samningum Alcan og Landsvirkjunar þess efnis að hvor aðilinn sem er geti einhliða framlengt samninginn um 10 ár
- það sem kom fram á heimasíðu Alcan fyrir 4 vikum...
Engar áætlanir eru uppi um lokun álversins ef ekki kemur til stækkunar, enda gengur verksmiðjan vel og árangurinn er góður
Það er því erfitt að skilja orð forstjórans í Kastljósi sem annað en kosningatrikk - aukinn hræðsluáróður um að fólk sé að svipta nágranna sína vinnunni ef það vill ekki þrefalda álverið.
Það er vaxandi hópur Hafnfirðinga sem er að komast á þá skoðun að best sé að álverið fari - ekki síst af því þeim leiðist að alþjóðlegt risafyrirtæki beiti sér gegn bæjarbúum eins og Alcan hefur gert að undanförnu.
Þótt ég sé af mörgum ástæðum á móti því að þrefalda álverið í Straumsvík hef ég persónulega engan áhuga á að losna við það. Ég held að það sé ágætur vinnustaður og ég skil vel þá sem finna ugg í brjósti við hótanir eins og þessa frá Rannveigu. Ég er þó sannfærður um að þær eru innantómar.
En ef það er misskilningur og álverið á köldum klaka ef það færi ekki að þrefaldast liggur beinast við að ég geri spurningu vaxandi hóps Hafnfirðinga að minni:
Rannveig - ertu að lofa að álverið fari ef stækkunin verður felld?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég bendi Þrymi á að fara að sjá leikrit Framtíðarlandsins í Hafnarfjarðarleikhúsinu
Björg F (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 13:06
Skuli.. þessi ræða er orðin svo þreytt og klisjukend að það má alveg fara að parkera henni. Marg búið að svara þessum spurningum.
Skiptir það engu máli að þetta mun auka á þennsluna í þjóðfélaginu? Auka verðbólgu og hækka verðtrygginguna á lánunum þínum?
Engu máli að Álverið er statt inn í miðri borg? Að þetta skapi aukna mengun? Má þéttbyggð með tilheyrandi bíla og skipaflota við því?
Er í lagi að nýta nýtanlega vatnsorku okkar í enn meiri álbræðslu en fyrir er? Veistu hvað er lítið eftir af raunhæfri nýtanlegri vatnsorku?
Þarf að stækka vegna atvinnuleysis? Nei þvert á móti.. Það er SKORTUR á vinnuafli..
Það er EKKI verið að kjósa Álverið í burtu eins og marg er búið að koma fram. Það er verið að kjósa um hvort að íbúar Hafnarfjarðar vilja hafa álverið 3 stærra en það er núna í sinni heimabyggð.
Hvort að álverið velji svo að hverfa héðan eftir 16 ár er svo algjörlega á þeirra valdi. Það hefur ekkert með þessa kosningu að gera. Að halda slíku fram er bara til þess gert að skapa ótta og örvæntingu hjá því fólki sem þar vinnur.
Almannahagsmunir eiga alltaf að koma fram fyrir hagsmuni einstaklingsins..
Eigið bjartan dag
Björg F (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 15:34
Reyndar skil ég ekki afhverju þið sjálfstæðismenn eruð ekki á móti þessari stækkun...? Ég er nú gamall Heimdællingur sjálf þó ég sé nú ekki virk í augnablikinu vegna augljósrar ástæðna.. Endalaus stóriðja er að sjálfsögðu ekki í anda stefnu Sjálfstæðisflokksins.. Stóriðja er í anda gamla kommúnistaflokksins.. Og ekki vilja Sjálfstæðismenn meiri þennslu í þjóðfélaginu en nú er með tilheyrandi halla og verðbólgu?
Gleðilegt að þú skulir eiga bjartan dag..
Björg F (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 16:38
Athyglisvert... og geturu þá gefið það upp..? Ertu fylgjandi þessari stækkun eða ekki?
Björg F (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 18:24
Ég held að Rannveig geti litlu svarað því hún ræður litlu. Raunverulegir stjórnendur Alcans beita sér bak við tjöldinn í gegnum íslenska starfsmenn sína. Stækkunin í Straumsvík er trúlega síðasti séns fyrir fyrirtækið til að komast í ódýra orku í þessum heimshluta. Álver eru á leiðinni út úr Evrópu vegna síhækkandi orkuverðs.
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 18:54
Sæll Dofri ! Fyrst samúðarkveðjur vegna allra þessarra geggjuðu kommenta sem staflast inn í kerfið hjá þér. Manni er nú eiginlega hætt að standa á sama um stóryrðin hjá sumu fólki, en betra er að hafa tjáningarfrelsi en ekki.
Mitt er erindi er annars eðlis, þú lítur kannski á það þegar um hægist hjá þér (og takk fyrir þarfa ábendingu um gamla góða Villa í Grafarvogsblaðinu - ekki veitir af aðhaldinu, spillingin er víst næg þó ekki sé á hana bætt).
Erindi mitt snýst um SUNDABRAUT. Í Grafarvogsblaðinu í dag (sem og flestum öðrum blöðum undanfarna daga) er loftmynd af fyrirhugaðri Sundabraut. EN HVAR ER SEINNI HELMINGURINN AF SUNDABRAUTINNI ? Það er aldrei sýnt lengra en upp í Gufunes. Hvar á afgangurinn að vera, í fjörunni í Eiðisvík og framhjá Leirvogi ? Verður umferðin sett í stokk eða göng, eða verður strandlengjan eyðilögð komplett fyrir Grafarvogsbúum ? Og hvað með Hallsveginn ? Stendur til að tvöfalda hann og skera hverfið í tvennt með hraðbraut ? Þetta er nú það sem ég er að velta fyrir mér þessa dagana.
Með bestu kveðjum. Lana Kolbrún Eddudóttir.
ps. Og hvað með allt veggjakrotið við Fjallkonuveginn ? Eiga húseigendur virkilega að þrífa það, en ekki borgin ? Hvar er réttlætið í því ?
Lana Kolbrún Eddudóttir (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 19:29
"Almannahagsmunir eiga alltaf að koma fram fyrir hagsmuni einstaklingsins." sagði Björg F.
Þetta er verulega hræðandi setning.
andri gunnarsson (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 20:40
Björg
Þú segir að þessi ræða sé orðin þreytt og klisjukennd. Hvað eru þá röksemdir þínar? Þær eru ekki pappírsins virði sem þú skrifar þær á. Hvort heldur sem er á síðu Alcan eða annarstaðar eru þessar röksemdir hraktar. Fyrir það fyrsta, álver inní miðri borg! Álverið er staðsett nærri tveimur kílómetrum fyrir utan Hafnarfjörð og nærri 20 fyrir utan Reykjavíkurborg. Hvernig þú ætlar að láta það líta út fyrir að vera inní miðri borg er algerlega óskiljanlegt. Það væri kanski hugmynd að rífa Lækjarskóla og setja stækkunina niður þar svo að þinn draumur verði að veruleika.
Annars er áhugavert hvernig nei liðið er búið að flýja frá því að tala um mengun eins og rottur frá sökkvandi skipi. Um leið og það varð ljóst að slík umræða myndi ekki skila neinu var hlaupið yfir í aðra sálma og sérfræðingar í rekstri álvera spruttu upp eins og gorkúlur. Reikna samt ekki með að þeir fái vinnu í stækkuðu álveri miðað við hversu góðir þeir eru í reikningi.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 29.3.2007 kl. 21:56
Þetta er nú reyndar bara lögfest.. sem sagt að Almannahagsmunir gangi fyrir einstaklingshagsmunum.. og þá er auðvitað verið að tala um að ekki megi hagsmunir einstaklingsins vera á kostnað almannaheilla.. í guðanna bænum.. ekki fara nú að snúa út úr þessu líka.. það væri þá eftir öðru svo sem..
Annars þá var hún ansi hressandi fréttin á stöð 2 í kvöld um gagnabankan. Það kom einmitt fram þar að hugsunin er sú að þeir verði dreifðir um landið og sé mjög atvinnuskapandi. Þarna er þá komið svarið um þetta "eitthvað annað"
Við þurfum auðvitað að eiga afgangsorku fyrir slík fyrirtæki sem hafa hug á að koma hingað... þá er nú orðið ennþá mikilvægara að stoppa frekari Stóriðjuframkvæmdir.
Annars þá er þetta auðvitað á byrjunarstigi og of snemmt að fara að fagna.. viðurkenni það
Björg F (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 22:03
Ætlaru að rekja þá þær röksemdir mínar að þennsla og verðbólgan mun aukast? Var ekki Seðlabankinn sjálfur að nefna það í dag? þætti vænt um að heyra hvernig þú ætlar rekja það..
Ætlaru að rekja það að lítið sé eftir af raunhæfri nýtanlegri orku? Þætti vænt að heyra þau rök..
Þetta með mengunina er bara svo augljóst mál.. skil ekki hvernig þið nennið að neita því.. en það er nú einu sinni svo að þegar fólk vill vera blint þá er það blint..
Byggðin er að þéttast í kringum álverið.. það þarf nú ekki neinn snilling til að sjá það.
Björg F (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 22:13
Gíslí; Þar er ég þér svo hjartanlega sammála
Góða nótt..
Björg F (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 23:50
Ég bendi á grein mína í Mogganum i morgun og blogg nú í kvöld þess efnis að í stað álvers gæti komið mengunarlaus starfsemi af hæsta gæðaflokki.
Ómar Ragnarsson, 29.3.2007 kl. 23:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.