Barnalán

Ég var í vafa um hafa þessa fyrirsögn - hún gæti misskilist og lesendur haldið að ég væri að tala um einhverja nýja tegund af bankaláni. Láni sem þjónustufulltrúar bankanna bjóða verðandi foreldrum sem grunlaus um skerðingarmörk barnabóta og verð á tannlæknaþjónustu brosa framan í heiminn.

Auðvitað ekki. Það er mikið lán að eignast börn, það auðgar líf manns og gerir mann oftar en ekki að betri manneskju. (Unglingar gætu reyndar átt það til að mótmæla þessari fullyrðingu). Hér áður var það talið happ að eignast mikið af börnum af því það var trygging foreldranna fyrir umhyggju í ellinni. Nú höfum við sem betur fer velferðarkerfi (eldri borgarar mótmæla eflaust þessari fullyrðingu - en við erum að fara kippa því í liðinn) en eftir sem áður eru börnin framtíð okkar og trygging þjóðarinnar fyrir því að henni gangi vel á komandi áratugum.

Íslendingar eignast þjóða mest af börnum og því eigum við barnaláni að fagna. Okkur í Samfylkingunni er mjög umhugað um börn og barnafjölskyldur og kynntum þess vegna í gær tillögur að aðgerðum til að bæta hag þeirra. Að baki tillögunum liggur afar mikil og góð vinna með ýmsum sérfræðingum á sviði barnamála. Samráðspólitík sem sagt. (Athafnastjórnmálamenn ath. það er engu að síður mikið af tillögum um "raunverulegar" aðgerðir, svo endilega lesið áfram!)

börnUnga Ísland - áherslur Samfylkingarinnar

Meðal þess sem við viljum er foreldraráðgjöf í öllum sveitarfélögum sem miðist við mismunandi aldursskeið barna, frí tannvernd og afsláttarkort vegna tannviðgerða barna, hækkun barnabóta og vaxtabóta og ókeypis námsbækur í framhaldsskólum.

Það sem ekki skiptir minna máli er að gefa barnafjölskyldunni meiri tíma til að vera saman og þess vegna vill Samfylkingin leita samráðs við aðila vinnumarkaðarins um leiðir til að auka sveigjanleika á vinnumarkaði og stytta vinnutíma foreldra en vinnuvika Íslendinga er ein sú lengsta í allri Evrópu og þótt víðar væri leitað.

Helstu atriði aðgerðaáætlunar Samfylkingarinnar eru þessi

  • Bæta hag barnafjölskyldna
  • Auka stuðning við foreldra til að sinna uppeldishlutverki sínu
  • Virkja og styrkja hæfileika allra nemenda í skólakerfinu
  • Leita allra leiða til að draga úr fátækt barna
  • Auka vernd barna gegn kynferðisafbrotum
  • Auka stuðning við börn innflytjenda
  • Auka stuðning við börn og fjölskyldur barna og ungmenna, sem eiga í vanda vegna vímuefna eða hegðunarerfiðleika, og einnig við börn foreldra sem eiga við sama vanda að etja
  • Bæta lagaumhverfi í málefnum barna og réttarstöðu þeirra

Ég skora á alla sem hafa áhuga á málefnum barna og barnafjölskyldna að kíkja nánar á þetta hér!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru óskup venjuleg kosningaloforð um hvað eigi að gera ef að Samfylkingin kemst í stjórn.

Það er þó von að þú tortryggir þetta þar sem nú búum við ríkisstjórn sem efnir ekki kosningaloforðin heldur lofar hún fyrir næstu kosningar að næsta ríkisstjórn standi við gömlu loforðin þeirra.

Annars sýnist mér þetta vera frekar skynsamlegar tillögur.
Það hefði t.d. verið auðvellt að lofa ókeypis tannviðgerðum en þarna er lagt áhersla á tannverndin sé ókeypis þannig að það verða færri skemmdir til þess að laga.

Ingólfur (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband