Endalok Ingall´s fjölskyldunnar!

húsið á sléttunniÍ aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga voru lóðamálin aðal baráttumál sjálfstæðismanna. Þeir fordæmdu leið R-lista flokkanna við að deila út byggingarlandi sem fólst í að allir hefðu jafnan rétt til að bjóða í lóðirnar. Þeir töldu ósanngjarnt að fólk fengi ekki einfaldlega lóðirnar á kostnaðarverði, þ.e. strípuðum gatnagerðargjöldum.

Þeir náðu með aðdáunarverðum hætti að skapa þá stemningu að það væri réttur hvers frjálsborins Íslendings að fá við sjálfræðisaldur úthlutað ókeypis landi til að reisa sér hús á. Það var eins þeir hefðu náð að vekja í brjóstum fólks gamlan draum Ingall´s fjölskyldunnar um Húsið á sléttunni. Kannski gekk þeim það svona vel einmitt af því sú kynslóð sem ólst upp við þættina um Húsið á sléttunni er á húsbyggingaraldri núna.

En nú er íhaldið búið að skipta um skoðun. Búið að afskrifa draum hins frjálsborna Íslendings um húsið á sléttunni. Búið að afskrifa Ingall´s fjölskylduna. Nú á að selja lóðir á sama verði og fékkst fyrir þær að meðaltali með hinni alræmdu uppboðsleið fyrri meirihluta á sérstöku þensluskeiði á húsnæðismarkaði. Nú hafa íhaldsmenn skipt um skoðun að sögn eins stuðningsmanna íhaldsins sem oft skrifar á þessa síðu. 

Ég held að réttara væri að segja að þeir hafi skipt um sannfæringu. Opinberlega a.m.k. Ég held að þeir hafi reyndar aldrei haft sannfæringu í þessari predikun sinni um ókeypis byggingarland. Það hentaði þeim bara vel. Nú hentar þeim það illa. 

Í Kópavogi voru lóðir seldar á hinu svokallaða kostnaðarverði þegar húsnæði fór að hækka í kjölfar 90% lánanna. Það var langt undir markaðsvirði og þess vegna kom fáum á óvart þegar kannað var hve margir í Salahverfi áttu enn eignir sínar tveimur árum eftir úthlutun. Um 80% höfðu selt eignir sínar og stungið hagnaðinum í vasann. Á sama tíma þurfti Gunnar Birgisson að loka leikskóladeildum af því bærinn gat ekki hækkað kaupið hjá lægst launaða starfsfólkinu eins og Steinunn Valdís gerði í borginni.

Í Fréttablaðinu í dag segir frá því að í Garðabæ séu lóðir seldar á markaðsverði og nefnt sem dæmi að lóð sem þar er seld á 16,2 milljónir fengist á 4,1 á Akureyri og 2,5 milljónir á Egilsstöðum. Það er ástæða fyrir því sem fólk með skilning á frjálsum markaði þekkir vel. Það er sama ástæðan og ástæðan fyrir því að hús Ingall´s fjölskyldunnar stóð á sléttunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dofri Hermannsson

Engin rök, bara staðhæfingar. Hvaða gjöld voru það sem voru lögð á verktaka í Reykjavík en ekki annars staðar? Það er harla billegt að slá svona fram.

Það er ekki rétt að kostnaðarverð hafi ekki legið fyrir í tíð R-listans. Villi reiknaði það sjálfur út 2005 og komst að því að það væru 2-2,5 milljónir á hverja íbúð í fjölbýli, hugsanlega lægra. Nú rukkar hann 4,5 milljónir fyrir sömu þjónustu.

Af athugasemd Gísla má ráða að allt hafi verið í blóma fyrir ´94 en eftir það í rúst. Ég er alinn upp í Grafarvoginum frá ´84 og þekki uppbyggingu hverfisins vel. Var reyndar sjálfur á samningi sem nemi í húsasmíði samhliða menntaskóla og vann við byggingar í hverfinu nokkur sumur. ´85 og árin fram til ´90 var svo mikið stopp í byggingarbransanum að Davíð gaf einkavinum sínum fjölda lóða til að byggja á.

Það var hins vegar eftir að R-listinn tók við sem uppbygging hófst fyrir alvöru í Rimahverfi, Engjahverfi, Húsahverfi, Borgahverfi, Víkurhverfi og Staðarhverfi. Í þessum hverfum Grafarvogs búa rúmlega 20 þúsund manns. Það væri víða talið sæmilega stórt bæjarfélag.

Allt byggðist þetta upp í tíð R-listans auk Grafarholtsins og að byrjað var í Norðlingaholtinu. Að ekki sé talað um þéttingu byggðar í grónum hverfum eins og Skuggahverfinu eða byggingu þúsunda íbúða fyrir námsmenn út um alla borg. Að segja að stopp hafi ríkt í byggingarbransanum á þessum árum lýsir annað hvort fáfræði eða pólitískri blindu, nema hvort tveggja sé.

Góðir og gegnir sjálfstæðismenn hafa hreinlega hrist hausinn yfir þessum Sovétstíl Villa Vill á lóðaúthlutunum. Þeir vita sem er að munurinn á markaðsvirði lóðar og útlögðum kostnaði við hana er eign borgarinnar - okkar allra. Mismunurinn er til kominn af því það fylgja því ákveðin gæði að búa í borg. Þau gæði hefur borgin, samfélag hennar, búið til og verðmætin sem í þeim felast eru sameiginleg eign íbúanna. Það er einfaldlega rugl að gefa þá fjármuni einkaaðilum úti í bæ í staðinn fyrir að nota þá til að greiða niður þjónustuna.

Vilja sjálfstæðismenn kannski hækka skatta til að vega upp á móti þeim milljörðum sem tapast þegar einkaaðilar fá mismuninn á markaðsverði og gatnagerðargjöldum borgað í vasann eins og gerðist í Salarhverfi?

Dofri Hermannsson, 3.5.2007 kl. 12:32

2 Smámynd: Dofri Hermannsson

Hagstofan gefur ekki upplýsingar um mannfjölda eftir hverfum lengra aftur en til 1997 en þá hafði Reykjavíkurlistinn verið við völd í 3 ár.

Frá 1997 til 2006 fjölgar um u.þ.b. 700 í Hamrahverfi, 800 í Rimahverfi, 1200 í Víkurhverfi, 1100 í Borgahverfi, 1300 í Staðahverfi og 5000 í Grafarholti.

Þetta er ekki skrýtið því það var ekki fyrr en Reykjavíkurlistinn tók við völdum að það var farið að byggja skóla, leikskóla og íþróttaaðstöðu fyrir Grafarvogsbúa.

Dofri Hermannsson, 3.5.2007 kl. 16:15

3 identicon

Sæll Dofri

Gaman að þessari Ingall líkingu hjá þér. Ég held að flestir hafi haft aðrar hugmyndir um komandi lóðaverð hjá Dlistanum heldur en nú er raunin.

Þú ert greinilega mikill áhugamaður um þetta mál og þess vegna langar mig að fá einhvern rökstuðning fyrir þeirri staðhæfingu þinni að lóðaverð í fyrstu úthlutunum í Úlfarsfelli hafi verið 11 milljónir að meðaltali.
Skv mínum heimildum sem ég sæki annars vegar í fréttir og svo í verktaka var hæsta verð á einstakri lóð 20 milljónir en lægsta verð 12,7. Hugsanlegt að að fólk hafi einnig skilað inn lóðinni eins og nokkrir aðrir gerðu en talað hefur verið um að meðalverðið þarna hafi verið 14-15 milljónir. Það kom reyndar í ljós að muni meiri jarðvegsvinna var nauðsynleg áður en hægt væri að byrja á grunninum á flestum þessara lóða.

Þannig að:
1. Mér þætti gaman að sjá einhver gögn fyrir þessar fullyrðingu þinni um að meðalverðið hafi verið 11milljónir. Þá leiðréttist þessi leiði misskilingur minn en annars sýnist mér þú fara með rangt mál. Þú situr í einhverjum ráðum í borginni og ættir að geta reddað þessu.

2. Kópavogur bauð fjölmargar lóðir á kostnaðarverði á fyrri hluta valdatíma R-listans.
R-listinn kaus hinsvegar, þrátt fyrir að hafa nóg land til boða, að takmarka mjög framboðið og láta hæstbjóðanda fá hverja lóð sbr Grafarholtið.
Þar sem Kópavogur og Reykjavík er nú sami sveitabærinn þá er augljóst að þarna skapaði R-listinn mikinn auð fyrir þá aðila sem fengu lóðir á kostnaðarverði í Kópavogi. R-listinn keyrði upp lóðaverð á höfuðborgarsvæðinu og augljóst að fólk sem fékk lóðir á kostnaðarverði í Kópavogi myndi nýta sér það.
jafnvel á síðasta ári R-listans þegar búið var að gagnrýna hann í mörg ár fyrir þessi mistök sín úthlutaði hann færri lóðum undir íbúðir en Kópavogur og reyndar  Hafnafjörður og Reykjanesbær líka.

3. 90% lán íbúðalánasjóðs (af brunabótamati  - 70-80% af markaðsvirði) komu mun seinna en þessar úthlutanir R-listans í Grafarholti og því ekki hægt að kenna því um. Sá sem heldur því fram að það sé íbúðalánasjóði að kenna að lóðaverð hafi hækkað svona mikið er ekkert sérlega vel að sér í þessum málum. Hámarkslán íbúðalánasjóðs duga rétt svo fyrir markaðsvirði á lóð á höfuðborgarsvæðinu í dag.
En þú mátt auðvitað trúa því að 70-80% lán af markaðsvirði að hámarki 18 milljónir valdi því að sæmilega stórt einbýlishús kosti í dag 50-70 milljónir en 100% lán af markaðsvirði með engu hámarki hafi bara alls ekki áhrif á íbúðaverðið.
Greiningar bankanna telja t.d. að íbúðaverð muni ná jafnvægi og jafnvel lækka eitthvað þegar nægt framboð verður tryggt. Það tókst R-listanum ekki. R-listinn tryggði að íbúðaverð hækkaði bara. Auðvitað spilar aukinn kaupmáttur og aðgengi að lánsfé þar líka inn í.

4. íbúðaverð tók mikinn kipp þegar vegnir vextir fasteignaveðlána lækkuðu úr 5.5% í byrjun árs 2004 í 4,5 % í lok árs 2004. Þetta virðast vera viðbrögð fólks þegar það getur fengið lán með lægri greiðslubyrði en áður. Ert þú á móti því að vextir lækki?  

5. Sá aðili sem keypti lóð af borginni í Úlfarsfelli á 14-17 milljónir í fyrra hefði sennilega farið í mál við borgina ef hún hefði boðið verðandi nágranna þessa manns lóð á 4,5 milljónir ári síðar.

6. Augljóst er að kostnaður per lóð í Lambaseli sem tengist fullgrónu hverfi og ekkert þarf að gera fyrir nema að jarðvegskipta og leggja ræsi og lagnir er miklu minni en í Úlfarsfelli suður þar sem ekkert er og öll gatnagerð í og úr hverfi er eftir auk uppbyggingar á þjónustuliðum á vegum borgarinnar. Hvort það er rétt að taka svoleiðis kostnað inn í verð á einstakri lóð er annað mál.

Það er auðvitað um að gera að hamra þetta mál meðan það er heitt en mér heyrist hinsvegar á flestum að þeir séu mjög ánægðir með þetta nýja fyrirkomulag hjá borginni. Nú er verið bjóða margar lóðir á föstu verði og þannig verður það næstu árin. Búið er að setja upp góða vefsíðu fyrir fólk sem hyggur á nýbyggingar á næstunni. Fólk sem vill byggja í Úlfarsfelli ætti að vera nokkuð öruggt um að fá lóð, ólíkt því sem gerðist í Lambaseli þegar það voru rúmlega 100 um hverja lóð.

ÞETTA ER AUÐVITAÐ 10X BETRA FYRIRKOMULAG OG SKIPULAG EN ÞEGAR R-LISTINN STUNDAÐI SÍNA LÓÐASKORTSSTEFNU OG ÞESSVEGNA ER FÓLK ALMENNT ÁNÆGT MEÐ ÞETTA NEMA AUÐVITAÐ ÞÚ. SKRIF ÞÍN BENDA MJÖG TIL ÞESS AÐ ÞÚ BÚIR ENNÞÁ HEIMA HJÁ MÖMMU OG PABBA án þess að ég viti nokkuð um það.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 17:18

4 identicon

Fyrst verið er að skoða tölur frá Hagstofunni þá þarf ekki snilling til að sjá eftirfarandi:

Frá árinu 1997 til 2006 fjölgaði íbúum Reykjavíkur úr 106617 í 116446 eða um 9829 (9,22%)
Frá árinu 1997 til 2006 fjölgaði íbúum Kópavogs úr 19802 í 27536 eða um 7734 (39,06%)

Fjölgun í öðrum Sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu var 21-43%

Með sama áframhaldi nær Kópavogur 200þús manna íbúafjölda eftir tæp 60 ár og það á undan Reykjavík, sem var 5x stærri en Kópavogur fyrir 10 árum.
Þetta hlýtur að vera út af því að góði R-listinn tryggði nægilegt framboð af lóðum fyrir unga, fátæka fólkið meðan vondi Kópavogur gerði það ekki, right?

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 17:24

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

 

Vá. Hákon Hrafn, Gísli og Dharma. Maður þarf bara að fara að taka sér frí í vinnunni!

1.  Meðalverð lóða á íbúð er fengið með því að leggja saman verð allra lóðanna og deila í með fjölda íbúða. Það gerir um 11 milljónir. Ein lóð fór á tæpar 20 milljónir aðrar mikið mun minna. Eins og meðaltalið sýnir.

2.  Kópavogur vildi keppa um nýtt fólk og kaus að gera það með því að bjóða lóðir undir markaðsverði. Ekkert við því að gera ef stefnan er fremur að þétta byggð en að dreifa henni og borgin vill láta markaðsvirði lóðanna skila sér til skattgreiðenda.

3-4.  90% húsnæðislán Íbúðalánasjóðs höfðu sáralítið með húsnæðishækkanir að gera, rétt eins og tilboðsaðferð í lóðaúthlutunum. Þarna var innkoma bankanna á húsnæðislánamarkaðinn aðal orsakavaldur þenslunnar og þar með stóraukinnar eftirspurnar eftir sérbýlislóðum. Auðvitað er enginn á móti lægri vöxtum en margir á móti því að þurfa að borga hærra verð. Hagnaðurinn af lægri vöxtum skilaði sér í hærra verði - allt leitar þetta jafnvægis og ekkert við því að gera.

Gagnrýni sjálfstæðismanna hafði sáralítið með uppboðsaðferð að gera, hún hafði aðallega með að gera þrána eftir völdum í Reykjavík. Þess vegna gagnrýndu þeir líka harðlega úthlutunina í Lambaseli en þá voru lóðir undir lítil og stór sérbýli 3,5 og 4,5 milljónir. Það kölluðu þeir lóðahappdrætti - sömu aðferð og þeir ætla sér núna að stunda - nema á þéttingarsvæðum þar sem þeir ætla að stunda lóðauppboð!

5.  Skil ekki að fólk geti höfðað mál, þetta var kosningamál af hálfu sjálfstæðismanna. Þeir hreinlega lofuðu lóðum á kostnaðarverði - og sviku það.

6.  Það er ekki verið að bera saman lóðir í Lambaseli og Úlfarsfelli þegar rætt er um 2-2,5 milljónir í lóðakostnað á íbúð (eða lægra skv. VÞV) heldur útreikninginga sérfræðinga sjálfstæðismanna sem þá höfðu nýverið tilkynnt um svokallaða Eyjabyggð sína, sem þeir Villi og Gísli Marteinn kepptust svo við skömmu síðar að sverja af sér og kenna hvor öðrum. Þar var því aldeilis ekki fyrir að fara hagræði af grónu hverfi. Langt frá því.

Ég á mjög erfitt með að trúa að þeir sem kusu sjálfstæðismenn út á lóðamálin séu glaðir með þessi svik sinna manna. Nema það sé eitthvað eðlislægt að kyngja öllu sem bláa höndin réttir þeim.

Það verður líka að hafa í huga að þegar sjálfstæðismenn keyrðu sem harðast á óánægju með hátt húsnæðisverð var þensluástand á húsnæðismarkaði sem erfitt getur verið að spá fyrir um (ekki sá ríkisstjórnin það fyrir a.m.k.) og ómögulegt að vera ævinlega með fullbúin hverfi tilbúin undir bygginar. Það væri afar kostnaðarsamt að liggja með slíkar fjárfestingar ónotaðar - þætti ekki sérlega gott "just in time management" í þeirri rekstrarfræði sem ég kann a.m.k.

Það segir svo allt sem segja þarf að sjálfstæðismenn gagnrýndu bæði tilboðsaðferð og úthlutunaraðferð jafn harkalega en eru svo sjálfir að fara að taka hvort tveggja upp. Það er eiginlega það háðulegasta af þessu öllu og slær jafnvel út svikum þeirra á loforðum sínum um lóðir á kostnaðarverði.

Dofri Hermannsson, 3.5.2007 kl. 22:12

6 identicon

Takk fyrir svarið Dofri.

Þú vinnur hjá Samfylkingunni og ættir að hafa tíma til að svara þegar þú setur fram vafasamar fullyrðingar sem auðvelt er að hrekja.

ég var að kalla eftir einhverjum gögnum sem styðja það að meðalverðið hafi verið 11 milljónir. Skv mínum upplýsingum sem ég hef eftir verktaka sem þekkir þessi mál nokkuð vel þá fór allar lóðirnar á meira en 11 milljónir þannig að meðaltalið liggur varla þar (takk samt fyrir að kenna mér að reikna út meðalverð).

Til að rifja upp málið fyrir þér þá var lágmarksverð á þeim 10 einbýlishúsalóðum sem ekki gengu út í fyrsta útboði sett 10,5 milljónir í apríl 2006.
Það var lágmarksverðið á ódýrustu einbýlishúsalóðunum þannig að meðan þú getur ekki sýnt nein gögn sem sanna þitt mál sem ætti að vera mjög auðvelt þá fullyrði ég að þú farir með rangt mál hvort sem það er vísvitandi eða vegna vankunnáttu þinnar. Það hljóta að vera stórkostleg mistök hjá R-listanum að fá langt undir 11 milljónir fyrir gras sem má ekki selja undir 10,5 milljónir eins og þú heldur fram.

Ef þú getur sýnt þessi opinberu gögn þá skal ég draga mína fullyrðingu til baka en hún stendur þangað til.

Ég hélt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi alltaf láta hæstbjóðanda (eða vini sína) fá lóðina enda er um takmörkuð gæði að ræða sem margir myndu segja að væri eðlilegt að fá sem hæst verð fyrir, annað væri tap fyrir borgarbúa. Þessa leið kaus hinsvegar R-listinn sem þó kenndi sig við félagshyggju sama hvað þú segir núna. það er ekki í anda félagshyggjuflokka að útiloka sína kjósendur frá því að geta tekið þátt í lóðaútboði með því að setja 10,5 milljónir sem lágmark á lóð fyrir ári síðan. Nægt lóðaframboð hefði tryggt að markaðsverð væri nálægt gatnagerðargjöldum en vegna þekkingarleysis R-listans á skipulagsmálum varð þróunin eins og allir vita.


Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 4.5.2007 kl. 00:09

7 Smámynd: Ingólfur

Verjendur Villa, hjálpið mér að skilja.
Samkvæmt ykkur að þá pressaði R-listinn upp fasteignaverð með því að nánast ekkert var byggt í hans stjórn en á meðan hafði Kópavogur ævinlega nóg framboð á lóðum.

  1. Ef það var svona mikið framboð af nýjum lóðum í Kópavogi (og líka hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu), ætti fasteignaverð þar þá ekki að hafa staðið í stað eða jafnvel lækkað?
  2. Ef það hefur hækkað þar vegna þess að þetta er eitt markaðssvæði, hverju skiptir þá lóðaskortur í Reykjavík á meðan hin sveitarfélögin hafa nóg framboð? Af hverju hefur verðið hækkað svona þegar nægt lóðaframboð var á markaðssvæðinu?
  3. Og síðast en ekki síst: Ef að það var nánast ekkert byggt í Reykjavík á meðan byggt var á fullu í Kópavogi, Hvernig stóð þá á því að það fjölgaði um 25% fleiri í Reykjavík en í Kópavogi á þeim 9 árum sem Hákon Hrafn tiltekur? Hvar flutti allt þetta fólk inn ef það var svona lítið var byggt?
    Eða teljið þið kannski æskilegt að Reykjavík með yfir 100þús íbúa stækki hlutfallslega jafn hratt og minni bær eins og Kópavogur.
    Til glöggvunnar að þá þyrfti að byggja 11 ný Rimahverfi (lang fjölmennasta hverfið í Grafarvogi) á samsvarandi tímabili til þess að ná þessari hlutfallsfjölgun sem var í Kópavogi.

Og svo ein bónusspurning:
Ef "kostnaðarverðið" er lægra þegar er verið að bæta við gróin hverfi, hvers vegna ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að bjóða upp slíkar lóðir og fá fyrir þær ennþá hærra verð, í stað þess að leyfa húsbyggendum að njóta lægra verðs?

Ég bara er ekki að ná þessari röksemdafærslu hjá ykkur, en það er þó skiljanlegt að þið grípið til hennar, því ekki getið þið skýrt hvers vegna kostnaðarverðið hjá Villa hefur hækkað svona mikið.

Ingólfur, 4.5.2007 kl. 00:28

8 identicon

Fyrst vil ég segja að ég ætla ekki að verja Villa neitt. 11 milljónir er ekki það sem fólk sá fyrir sér sem kostnaðarverð fyrir ári síðan þó það sé það núna þegar búið er að reikna inn í verðið kostnað við allar tengibrautir og aðra uppbyggingu sem ekki tengist hverri lóð beint.
Íbúum hefur fjölgað um 1000 í Reykjavík á ári síðustu 10 ár en nú ætlar nýr meirihluti að bjóða amk 1000 íbúðir út á ári og má því reikna með 3-4000 íbúa fjölgun. Sérðu ekki neinn mun á þessu ? Auk þess sem R-listinn seldi þessar sömu lóðir á hærra verði en núverandi meirihluti ætlar að gera.

Það er mjög furðulegt að sjá menn eins og Dofra nöldra yfir þessu marga daga í röð. Nöldra þegar bæði verða boðnar mun fleiri lóðir og á lægra verði en í tíð R-listans. Yfir hverju nöldra menn þá ekki ?

Ef við skoðum Reykjavík og Kópavog sem var 5x minna bæjarfélag og báðir bæir hafa nægilegt landrými árið 1997 þá hefði Reykjavík með 5x stærri stjórnsýslu átt að geta boðið mun fleiri lóðir en Kópavogur. Íbúum fjölgaði um ca 8000 í Kóp á síðustu 10 árum en um ca 10000 í Reykjavík eins og fram hefur komið. Ef við bætum Garðabæ við Kópavog þá ná þessir tveir sveitabæir að bjóða fleiri lóðir á 10 árum heldur Reykjavík sem var greinilega með skipulagsmálin í rúst.

punktar no 1 og 2 eru þeir sömu hjá þér. Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið skortur á lóðum í mörg ár. Kópavogur, Garðabær og Hafnafjörður sem höfðu helming íbúafjölda Reykjavíkur fyrir 10 árum gátu fjölgað íbúum sínum mun meira heldur en Reykjavík með því að tryggja meira framboð heldur en Reykjavík. Ekki nægilegt framboð en samt meira. Varla ætlast þú til þess að Raufarhöfn geti byggt 1 Rimahverfi bara af því Reykjavík gat það ?
Ef Reykjavík hefði tryggt hlutfallslega jafn mikið framboð og litlu sveitabæirnir þá hefði verið meira samræmi milli eftirspurnar og framboðs og þal lægra verð á lóðum. Vonandi er það skýrt.

3. já eins og fram hefur komið hjá mér þá tel ég eðlilegt að borgin bjóði tölvuert meira magn lóða heldur en litlu sveitabæirnir í nágrenninu fyrst borgin á nægilegt land. Að skipuleggja íbúðabyggð á óbyggðu landi krefst tímafrekrar vinnu og augljóst að það er mun erfiðara fyrir smáþorp að skipuleggja íbúðabyggð á 10 árum fyrir 40% fleiri íbúa en þar búa heldur en fyrir litlla borg að skipuleggja íbúabyggð fyrir amk 20% fleiri íbúa á sama tímabili. Samt fjölgaði bara um 10% í rvk á þessu tímabili.

Þetta er það sama og að gera kröfu um að forritarar hjá 100 manna fyrirtæki skili 5x meiri afköstum á sama tíma og 20 forritarar hjá öðru fyrirtæki. Nema þegar R-listinn stjórnaði. þá virðist vera hægt að gera þá kröfu að þessir 100 forritarar skili bara 25% meiri afköstum en þessir 20 hjá hinu fyrirækinu.

Þetta er einföld röksemdafærsla og hún tengist því ekki af hverju Villi hækkaði verðið svona mikið á þessu stutta tímabili. Villi hefði bara átt að segja það í fyrra að þeirra kostnaðarverð væri ekki bara gatnagerðargjöld. En auðvitað þagði hann yfir því. Orð hans virðast bara jafn trúanleg og þegar ljóskan í samfó sagðist ekki á leið í landsmálin. Þannig er nú það.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 4.5.2007 kl. 01:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband