Er bannað að spyrja?

Það hefur verið dálítið magnað að fylgjast með þessu máli. Auðvitað vekur það spurningar þegar stúlka nátengd ráðherra fær tafarlausa afgreiðslu um íslenskt ríkisfang vegna óþæginda við að ferðast á milli skóla í Bretlandi og tendafjölskyldunnar á meðan fjöldi manns sem hafa mun ríkari rök fyrir óskum sínum þarf að bíða árum saman. Og mega þá fjölmiðlar ekki spyrja? Það er undarlegt.

Kastljós færir hér mjög góð rök fyrir sínu máli og skilur okkur eftir með ýmsar spurningar.

Yfirlýsing Kastljóss:

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra sendir frá sér yfirlýsingu þar sem hún segist hafa setið undir ásökunum Kastljóss. Hún spyr hvort Kastljósið láti misnota sig með því að koma höggi á hana og Framsóknarflokkinn í aðdraganda kosninga.

Því er fyrst til að svara að Kastljós er ekki misnotað af neinum.

Í Kastljósi var bent á að ung stúlka frá Gvatemala sem er búsett á heimili ráðherrans fékk ríkisborgararétt á aðeins 10 dögum þegar venjan er að slík afgreiðsla taki fimm til tólf mánuði.

Í þættinum kom fram að stúlkan taldi að íslenskur ríkisborgararéttur gæti auðveldað henni að stunda nám erlendis því það skapaði henni vandamál að þurfa að sækja um dvalarleyfi í hvert skipti sem hún kæmi hingað til lands í skólafríum.

Í Kastljósi var sýnt fram á það að stúlkan hefði dvalið í landinu í 15 mánuði þegar hún fékk íslenskt ríkisfang.

Einnig kom fram að fólki með veigameiri ástæður var hafnað á sama tíma.

Aldrei var sagt að Jónína hefði beitt sér í málinu heldur vakin athygli á óvenjulegri afgreiðslu málsins. Þegar við bætist að stúlkan býr á heimili umhverfisráðherra er full ástæða fyrir fjölmiðla að spyrja spurninga.

Rétt er hjá Jónínu að stúlkan fékk ríkisborgararéttinn á grundvelli „skerts ferðafrelsis" og er þar í hópi 22 annara einstaklinga sem fengu íslenskt ríkisfang á sömu forsendum á þessu kjörtímabili. Hún gleymir hinsvegar að geta þess að 20 þeirra höfðu dvalið lengur en tvö ár í landinu þegar þeir öðluðust sinn ríkisborgararétt.

Jónína bætir svo við að 30 einstaklingar hafi fengið íslenskt ríkisfang á þessu kjörtímabili eftir að hafa dvalið hér skemur en 1 ár. Hún getur þess hinsvegar ekki að enginn þeirra fékk íslenskan ríkisborgararétt vegna skerts ferðafrelsis.

Jónína hallar réttu máli þegar hún segir að Kastljós hafi látið að því liggja að aðalega börn fengju ríkisborgararétt með lögum frá alþingi. Kastljós benti hinsvegar á að oft væri um börn að ræða, afreksmenn í íþróttum ogfólk sem sótti um af mannúðarástæðum. Jónína kýs hinsvegar að sleppa því að nefna tvö af þessum atriðum sem Kastljós tiltók. Þess má geta að umrædd stúlka frá Gvatemala fékk ekki íslenskan ríkisborgararétt af þeim ástæðum sem eru tilgreindar hér að ofan.

Jónína telur að Kastljós hefði átt að láta svör Bjarna Benediktssonar, Guðrúnar Ögmundsdóttur og Guðjóns Ólafs Jónssonar nægja en kýs að horfa fram hjá því að þau afgreiddu þessa umdeildu umsókn.

Jónína hefur ekki útskýrt hvers vegna hún veifaði gögnum um mannréttindabrot í Gvatemala í viðtali í Kastljósi þegar ljóst er samkvæmt umsókninni að stúlkan þurfti ekki að þola mannréttindabrot í sínu heimalandi.

Jónína Bjartmarz spyr í lokin „hvar er trúverðugleikinn"? Því er til að svara að Kastljós stendur við sína umfjöllun um málið.

Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss.


mbl.is Kastljós svarar Jónínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinar Örn

Nei nei Dofri minn það má alveg spyrja. Það má bara ekki spyrja að því sem allir vilja vita

Steinar Örn, 3.5.2007 kl. 15:54

2 Smámynd: Gaukur Úlfarsson

Vandamálið er einfaldlega það að það eru ekki nógu margir framsóknarmenn á RUV. Ef t.d. Þórhallur, Simmi og Helgi Seljan væru frammarar þá væri þetta ekkert vandamál, þetta væri ekki einu sinni til umfjöllunar. Sést best á hvernig Ísland í dag tæklar málið, þar er nú góður og gildur framsóknarmaður ritstjóri og ekki heyrir maður neitt um þetta mál þar á bæ. S.s. það vantar meiri framsóknarmenn á RUV!

Gaukur Úlfarsson, 3.5.2007 kl. 16:43

3 identicon

Þetta mál lyktar en hinsvegar er best fyrir þig Dofri að spurja bara Guðrúnu Ögmunds um málið. Hún er í sama liði og þú og hefur hingað til verið þekkt fyrir heiðarleika og sanngirni. 

Hvað segir hún um málið ? 

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 17:29

4 identicon

Málið er:

það var spurt
það var svarað
það var þrætt
það var malað

og svo gæti maður haldið áfram endalaust

En málið er (og nú rímar það ekki) að kastljósið gat greinilega ekki sætt sig við það að það átti ekkert gruggugt sér stað þarna og gróf sína gröf alltaf dýpra og dýpra.
Þetta kalla ég ekkert nema lélega tilraun til að sverta stjórnmálaflokk fyrir kosningar

Einar Freyr (IP-tala skráð) 4.5.2007 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband