Orð fjármálaráðherra standast ekki

árni mathiesenÍ fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld sagði fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, að ekkert lægi á að lýsa yfir vilja til stækkunar friðlands í Þjórsárverum því engar framkvæmdir væru fyrirhugaðar þar á næstunni.

Þessi orð ráðherrans standast ekki. Ráðagerðir Landsvirkjunar um byggingu "lítillar" útgáfu af Norðlingaöldulóni eru uppi á borðum þótt í orði kveðnu hafi þær verið "lagðar til hliðar". Í skýrslu sem Landsvirkjun vann að beiðni Álfheiðar Ingadóttur, sem þá var í stjórn Landsvirkjunar og er dagsett 21. nóv 2006 sjást svart á hvítu áform Landsvirkjunar á Þjórsárverasvæðinu. Í skýrslunni segir m.a.:

"Eftir samþykkt meirihluta Samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins þar sem lagst er gegn því að set- og veitulón norðaustan veranna verði sett inn á svæðisskipulag og einnig í ljósi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá júní sl. er gengur í sömu átt er nauðsynlegt að endurmeta fyrirkomulag Norðlingaölduveitu."

Síðan segir í skýrslunni að vart sé raunhæft annað en "að falla frá áformum um set- og veitulón og miða framkvæmdina við lítið lón við Norðlingaöldu". Það telja skýrsluhöfundar að muni auka kostnað um 10% en eftir sem áður verði veitan "hagkvæmur orkukostur".

Þá kemur nánari lýsing á "litla Norðlingaöldlóninu" sem að flatarmáli er áætlað 4,6 km2 en Norðlingaöldulón var áætlað 9,4 km2 að stærð.

Allir flokkar, nema Sjálfstæðisflokkurinn, hafa lýst vilja sínum til að stækka friðlandið í Þjórsárverum þannig að það nái til alls votlendis veranna. "Litla Norðlingaöldulónið" sem Landsvirkjun hefur nú á teikniborðinu yrði inni í miðju stækkuðu friðlandi Þjórsárvera.

Landsvirkjun segir í skýrslunni að þar sem "nánast allar stíflur Kvíslarveitu verða innan friðlandsmarkanna" samkvæmt þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar um stækkun friðlandsins, sé "augljóst að saman geta farið orkunýting og náttúruvernd".

Með þessum orðum eru skýrsluhöfundar að rökstyðja þá skoðun sína/Landsvirkjunar að "litla Norðlingaölduveitan" geti orðið smekklegur hluti friðlandsins í Þjórsárverum.

takkraxHæpið er, þó ekki sé það útilokað, að Árni Mathiesen viti ekki af áformum Landsvirkjunar því samkvæmt tillögu sem samþykkt var í stjórn Landsvirkjunar 28. ágúst 2006 var formanni stjórnar falið "að ræða við stjórnvöld um Norðlingaölduveitu og stefnu þeirra í þeim málum".

Í þessu sambandi er athyglisvert að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem ekki hefur lýst yfir vilja til að stækka friðland Þjórsárvera. Það verður ekki skilið öðru vísi en að stefna Sjálfstæðisflokksins sé að ráðast við fyrsta besta tækifæri í "litla Norðlingaöldulónið".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Takið endilega þátt í æsispennandi kosningagetraun: http://sigfus.blog.is/blog/sigfus/entry/207012/

Sigfús Þ. Sigmundsson, 11.5.2007 kl. 14:13

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Dofri Húsvíkingar fengu í dag pésa frá Samfylkingunni þar sem lofað er stuðningi við fyrirhugaða uppbyggingu á álveri á Bakka við Húsavík.

Þar segir eftirfarandi:

Við höfum í kosningarbaráttunni heitið Þingeyingum stuðningi við undirbúningsvinnu þeirra að nýtingu þingeyskrar orku til byggingar álvers á Bakka. Hugmyndir Þingeyinga í því máli fer því saman við áherslur okkar um  forgangsröðun stóriðjuverkefna, nátturuvernd, tímasetningu gagnvart efnahagskerfinu og öðrum þáttum. Við boðum enga stöðnun heldur uppbyggingu.

Reiknað er með því að ákvörðun um uppbyggingu hér á Bakka verði teknar á næstu mánuðum. Fellur það að stefnu Samfylkingarinnar að taka þessa ákvörðun og hefjast handa við framkvæmdirnar í beinu framhaldi?

Er þetta er einungis tilraun þeirra til að afla atkvæða á svæðinu. Það væri gaman að vita hversu stór hluti væntanlegra þingmanna Samfylkingarinnar verður tilbúinn að styðja þessa framkvæmd þegar á reynir.

Gestur Guðjónsson, 11.5.2007 kl. 20:32

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hafa orð fjármálaráðherra einhvern tíma staðist? Ég spyr nú bara eins og kjáni.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.5.2007 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband