Hvað ætli margir í stjórn Strætó bs taki strætó?

Ég efast um að margir í stjórn Strætó bstaki strætó reglulega, ef nokkur.

Mér líkar stórvel að nota strætó til og frá vinnu enda stoppar hann bæði skammt frá vinnu og heimili. Stundum hef ég samt lent illa í því þegar ferðir falla út á álagstímum. Það er afar bagalegt því það munar býsna mikið um það að vera 20 mínútum (30 mínútur eftir að ferðum var fækkað) lengur að komast á milli staða fyrir utan að veðráttan hér er yfirleitt ekki það góð að maður njóti biðarinnar.

Ég hef stundum rætt þetta við vagnstjórana sem segja sínar farir hreint ekki sléttar. Í kerfinu er alls ekki nægilegt svigrúm til að mæta aukinni umferð á álagstímum og þetta skapar mikla streitu vagnstjóra auk þess að ferðir falla niður.

Því miður virðist manni að Strætó bs sé einhver óskapnaður. Rekstrarsamlag nokkurra sveitarfélaga sem ekki tíma að borga það sem það kostar að halda uppi þessari þjónustu. Frægt er þegar önnur sveitarfélög en Reykjavík neituðu að auka fjármagn til rekstursins vegna launaskriðs. Í staðinn var Strætó bs skilað með miklum halla og þjónustan skorin niður.

Þriðja júní nk verður ferðum enn fækkað og allar ferðir  í sumar hafðar á hálftímafrestinema einhverjar sem verða á klukkustundar fresti. Þetta eru kaldar kveðjur til þeirra sem hafa treyst á að borgarstjórn meinti eitthvað með því að hvetja til aukinnar notkunar á almenningssamgöngum.

Afstaða sveitarfélaganna til Strætó bs minnir á söguna um litlu gulu hænuna. Enginn vill leggja í verkið en allir vilja borða brauðið. Það er mikið talað um hæga umferð til Reykavíkur frá suðri á álagstímum. Sveitarfélögin þar kalla eftir úrbótum. Sjá þau ekki að góðar almenningssamgöngur geta hæglega bætt úr þessum vanda ef þær eru boðlegar?

"Það borgar sig ekki að halda uppi ferðatíðninni, það koma svo fáir" segja þau hjá Strætó bs.

Þetta hljómar eins og vandi ferðaþjónustunnar á Grænlandi. Þar stendur skortur á gistirými mjög í vegi fyrir fjölgun ferðamanna og það er ekki fjárfest í gistirýmum af því það koma svo fáir ferðamenn!

Geri það að tillögu minni að öllum í stjórn Strætó bs verði uppálagt að nota strætó reglulega.


mbl.is Mikil óánægja meðal vagnstjóra hjá Strætó bs. um breytingar á vaktakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Stjórnarmenn Strætó taka pottþétt ekki strætó. Það virkar reyndar eins og stjórnendur strætó hafa gefist uppá að reka strætó. Meirihlutinn hefur nákvæmlega engann áhuga á strætó nema til að sýnast svona rétt fyrir kosningar. Bendi á fína umræðu um börnin sem virðast hafa meiri vit á þessum málum en núverandi meirihluti.

Kristján Kristjánsson, 29.5.2007 kl. 17:00

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ég hef ekki orðið var við mikinn raunverulegan ágreining milli okkar í meirihlutanum og minnihlutanum í borginni um mikilvægi almenningssamgangna. Þessi ákvörðun um minnkaða tíðni var því miður óhjákvæmileg afleiðing af því sem þú rekur sjálfur um aðkomu nágrannasveitarfélaganna að kostnaði við rekstur kerfisins.

ps. það er bannað að tala við vagnstjórana meðan þeir eru við akstur

Gestur Guðjónsson, 29.5.2007 kl. 22:39

3 Smámynd: Sigurjón

Ekki nóg með að ég sé viss um að enginn í stjórninni í dag taki strætó, heldur var það ekki heldur þannig þegar ég var vagnstjóri 2000 - 2001.  Ekki er nóg með það, heldur taka helstu stjórnendur strætisvagnstjóranna ekki heldur strætó.  Menn eins og forstöðumaður akstursdeildar, farþegaþjónustudeildar og svo framvegis.  Það er til háborinnar skammar!

Sigurjón, 29.5.2007 kl. 23:57

4 identicon

Alltaf verið að vísa til þess að Strætó eigi að vera rekinn með hagnaði skv. reglum um Ársreikninga.  Þ.e. eins og fyrirtæki.  Það er stóri misskilningurinn.  Góðar samgöngur er það sem gerir borgina hagkvæma, fyrir íbúa hennar og ferðamenn. 

Það sem ég óttast er að stefnan sé að einkavæða strætó með hörmungarafleiðingum. 

Guðmundur (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband