Rural Clusters 2007 á Akureyri

Er staddur á afar áhugaverðri alþjóðlegri ráðstefnu um klasasamstarf sem leið til að efla atvinnulíf í dreifðum byggðum. Í raun gengur hugmyndafræðin út á að fyrirtæki sem jafnvel eru í samkeppni hvert við annað vinna saman að ýmsum stærri verkefnum.

Með því að sameina krafta sína njóta þau stærðarhagkvæmni t.d. þegar kemur að markaðssetningu, geta sótt sameiginlega um styrki til rannsókna og þróunarstarfs, unnið sameiginlega að því að auka skilning fjárfesta á möguleikum í viðkomandi geira og skipst á mikilvægri þekkingu innbyrðis.

Klasafræðin eru ekki ný af nálinni en þau hafa verið vinsælt umræðuefni síðustu ár af því undanfarin ár hefur afrakstur 15-25 ára markvisst klasasamstarf víða verið að skila umtalsverðum árangri í nágrannalöndum okkar. Frægasta dæmið er eflaust hvernig tekist hefur að mynda þekkingarklasa í Finnlandi á sviði farsímatækni en mörg önnur góð dæmi mætti nefna.

Klasarækt (Cluster Development) er víða hluti af stærri áætlun dreifðra byggða við að efla samkeppnisstöðu sína. Yfirleitt er þá um að ræða heildstæða áætlun þar sem líka er lögð áhersla á að bæta það sem oft vantar mest - góðar samgöngur, góð fjarskipti, góður aðgangur að menntun, góð almenn þjónusta, fjölbreytt menning og atvinnutækifæri.

Á Íslandi hefur áhersla stjórnvalda nánast eingöngu beinst að því að skapa atvinnu. Hún er vissulega mikilvæg en eins og ég og fleiri höfum bent á stendur það upp úr hverjum einasta erlenda sérfræðingi á þessari ráðstefnu að ef ekki er hugað að þessum samfélagslegu þáttum samhliða því að efla atvinnu- og efnahagslífið á svæðinu - þá flytur fólk burt hvort sem er.

Við munum aldrei geta snúið við byggðaþróuninni ef við viðurkennum ekki þessa staðreynd. Við verðum að hætta að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau útvegi öllum vinnu. Við getum hins vegar, og eigum að gera, kröfu til þeirra um að þau skapi landsbyggðinni góð skilyrði til vaxtar.

Það besta sem stjórnvöld geta gert til þess er að bæta samgöngur, fjarskipti, fjölga tækifærum til menntunar, bæta almenna þjónustu og styðja við menningarstarfsemi og nýsköpun í atvinnulífinu. Fyrst þegar búið er að koma landsbyggðinni í viðunandi samkeppnisstöðu geta svæði landsins farið að keppa á jafnréttisgrundvelli um þróttmikið fólk og fyrirtæki.

Nú er mikið rætt um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Þar er 500 störfum í olíuiðnaði veifað framan í fólk sem hingað til hefur reitt sig nær alfarið á sjávarútveg - atvinnugrein sem nú á í vök að verjast. Calum Davidson rakti svipaða sögu frá Skotlandi. Þar eru það einmitt stóru fyrirtækin, allsherjarlausnirnar sem stjórnvöld réttu almúganum fyrir 15-25 árum, sem hafa verið að flytja burt með "lífsbjörgina".

Skotar hafa tekið þá afstöðu að hætta að hugsa um að búa til störf fyrir hinar dreifðu byggðir en einbeita sér þess í stað að því að skapa þar þekkingarsamfélög. Reynsla þeirra sýnir að þá koma störfin að sjálfu sér. Stór og lítil fyrirtæki spretta upp með þjónustu og framleiðslu sem enginn hafði fyrirfram látið sér detta í hug að væru "málið". Þar er fjölbreytnin "málið" í dag.

Ég býð fólki að tjá sig um það á þessari síðu hvort þeim finnst olíuhreinsunarstöð góð lausn fyrir Vestfirðinga. Hvort átak í samgöngumálum, fjarskiptum og stuðningur við framhalds- og háskóla væri heppilegri leið til að bæta ástandið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þetta er forvitnileg ráðstefna. Fyrir rúmum tveim áratugum voru fimm rækjuverksmiðjur á Ísafirði. Einn forsprakki þeirra viðraði þá hugmynd að það væri sniðugt að sameina verksmiðjurnar, fækka þeim.

Því miður náðist ekki samstaða um það. Smákóngahugsunarhátturinn var of sterkur. Framhaldið þekkja margir. Rækjuverksmiðjurnar sigldu í gjaldþrot, eða lögðu upp laupana, hver á eftir annarri. Nú er engin rækjuvinnsla á Ísafirði og aðeins ein bolfiskvinnsla.

Það hefði breytt miklu ef einhverjar af verksmiðjunum hefðu sameinast. Það er ljóst að það þarf allt að ganga upp til að fimm rækjuverksmiðjur í 2.500 manna bæjarfélagi geti staðið undir sig, hver og ein með miklar fjárfestingar í vélum, mannskap og jafnvel skipum, á bak við sig. Verðfall og minnkandi veiði gerði þeim auðvitað erfitt fyrir, en ég er viss um að staðan væri önnur í dag, hefðu verksmiðjurnar sameinast að einhverju leyti.

Ég er alfarið á móti olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Mengunarhættan er of mikil. Ég treysi ekki rússneskum skipstjórum að stýra risastórum olíuskipum inn í mjóa firði Vestfjarða. Það er heldur ekki sniðugt að olíufurstar í Rússlandi séu stærsti atvinnurekandinn á Vestfjörðum, ekki frekar en kanadískur auðhringur fyrir austan.

Átak í fjarskipta-, mennta- og samgöngumálum dugir ekki heldur eitt og sér. Sennilega verða einhverjar sértækar aðgerðir að koma til, til að draga úr fólksflóttanum, þó þær séu ekki endanlegar lausnir. 

Theódór Norðkvist, 12.6.2007 kl. 23:33

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvað eiga Akranes, Borgarnes, Reykjanesbær, Hveragerði, Selfoss, Hella og Akureyri sameiginlegt?

1. Á öllum stöðunum heldur byggðin velli.

2. Á öllum stöðunum er samsetning íbúa heppileg hvað snertir menntun og fjölbreytni starfa og menningar sem er nauðsynleg til að byggð haldi velli og fólk vilji búa þar.

3. Frá öllum stöðunum er innan við klukkustundar ferðalag til Reykjavíkur.

Ef Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður fellur niður helsta forsenda fyrir blómlegri byggð á Akureyri. Reykvíkingar missa 16 þúsund manna hluta hins raunverulega höfuðborgaráhrifasvæðis frá sér.  

Á Akranesi er gumað að því að án stórverksmiðjanna hefði byggðin verið dauðadæmd. Þar gleyma menn áhrifum Hvalfjarðarganganna sem hefur gert mögulega fjölbreytni mannlífs og menningar á Akranesi sem hluta af höfuðborgarsvæðinu.

Fyrir norðan er sagt að álver við Bakka sér forsenda fyrir byggð á norðausturhorninu og að álverið sé líka forsenda fyrir því að gera Vaðlaheiðargöng.

Fólki hættir enn til að sjá fyrst fyrir sér verksmiðju og að svo komi hitt á eftir í stað þess að breyta forgangsröðinni, sjá samgöngubæturnar og aðrar almennar umbætur og forsendur fyrir fjölbreyttu og skapandi nútímalífi verða að koma fyrst.

Með stóriðjustefnunni er stefnt að því að auka enn á þann menntunarmun landsbyggðarfólks og fólks á suðvesturhorninu sem sést á því að 60 prósent vinnandi fólks á norðausturhorninu hefur enga framhaldsmenntun.

Í upphafi skyldi endinn skoða, - draumsýn Jakobs Björnssonar og Geirs H. Haarde um minnst 2,5 milljóna tonna álframleiðslu á Íslandi mun valda óbætanlegum spjöllum á mesta verðmæti Íslands, einstæðri náttúru landsins, -  og allur afraksturinn af þessum stórkarlalegu sovésku aðgerðum aðeins verða um 2 prósent af vinnuafli landsmanna.

Að kalla þetta hina fullkomnu lausn í atvinnumálum er augljóslega fráleitt en samt er haldið áfram á þessari braut í raun.

Það segi ég því að enda þótt sjálfkrafa komi 2ja ára "stóriðjuhlé" meðan allur undirbúningurinn er á fullu þótt engar beinar framkvæmdir byrji fyrr en 2009, -  breytir það engu um framhaldið nema þau Þórunn og Össur standi í ístaðinu.

Vonandi gera þau það þótt það verði erfitt.  

Ómar Ragnarsson, 13.6.2007 kl. 00:03

3 identicon

Þessi hugmynd klasa og áhrif þeirra er vel þekkt og gaman að sjá að þessi hugmynd er enþá lifandi. Kenning Michael Porter um demantin sem í fjallar meðal annars um klasa og samkepnnishæfni svæða á svo sannarlega við rök að styðjast. Þetta er hugmyndafræði sem er mjög gott að menn skuli vera að vinna að, því hún byggist á því að skapa rekstrargrunn fyrir nýsköpun.

Þróuninn í íslenskum sjávarútvegi er hins vegar dæmi um hvernig má krafa undan áhrifa klasa og eyðileggja þá. Með þessu á ég við að breyta atvinnugrein í lénsgrein. Því er ekki mikið nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi lengur og greininn stendur höllum fæti.

Theodó , í guðana bænum kynntu þér hlutinu betur áður en þú byrjar að fara með rangfærslur. Miðfell er rækjuverksmiðja á Ísafirði sem er í fullum rekstri (Gamla ON Olsen - Ísfell - Básafell). Reyndar var það fyrsta verk nýja frystiskips Eimskipa að færa verksmiðjunni hráefni. Nú er Dhorn bankinn byrjaður að gefa smá rækju aftur. vandi hinna rækjuverksmiðjanna var hátt hráefnisverð og síðan hágengis stefna, sameinig og ekki sameiningar hefði ekki breytt neinu. Átak í samgöngu málum er líka eitt annað sem er algjört skilyrði fyrir landsbyggðina, sértækar aðgerðir eru ekki góð hugmynd þar sem þær hafa á sér ímynd ölmusu. Með sameiningarnar, þessir smákóngar þeir sameinuðust, en málið var að þeir voru smákóngar og misstu allt úr höndunum.

Prufið að horfa útum gluggana á leiðinni til Köben næst, svona yfir Noregi. Þá sjáiði hvernig ein svona olíuhreinsunarstöð lítur út, mér fannst þetta líta eins og Örfirisey og Straumsvík í einum pakka. Nokkuð sem maður sér hér daglega, án þess hugsa nokkuð um útlitið á þessu. 500 hundruð störf í frumvinnslu merkir margfeldi um 2,5 í öðrum störfum. Áhrif stóriðju er þar með þau sömu og menn eru leita að með kjölfestufjárfestingum. Ég er því hlynntur svona fjárfestingum, svo vestfirðir verði ekki bara sumarbústaðarland eins og Þorsteinn Pálsson spáði einhvern tíman.

Ég mann sérstaklega eftir einni frétt sem Ómar gerði, það var þegar hann var að segja frá gjaldþroti E.Guðfinnssonar í Bolungarvík. Enadaði með að segja að vestfirðir væru það landsvæði sem væri með minnstu atvinnuleysi og að það liti útfyrir að vera breyttast. Ég taldi þetta fráleit á sínum tíma en hann var svotil sannspár. Annar vinnur hans, Bubbi sagði þetta betur "síldin farinn, fer ég líka".

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 12:51

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Allt í lagi, mér yfirsást, ein rækjuverksmiðja enn á Ísafirði, voru fimm áður. Það breytir því ekki að það er mikil minnkun. Hvaða sameiningar urðu í rækjuiðnaðinum, geturðu frætt mig um það?

Theódór Norðkvist, 13.6.2007 kl. 20:31

5 identicon

Ein er miklu meira en ekki neitt. FYI Niðursuðan, Rit og Básafell, sameinuðust undir nafni þess síðast nefnda. Óhæfir stjórnendur klúðruðu síðan málum þar og spiluðu málin í hendur á Vísi og Guðmundar frá Rifi, sem strippuðu það kvótaheimildunum. Úr þessum brunnarústum varð svo til Miðfell sem byggir á áralangri reynslu starfsmanna. HG yfirtók Bakka í Hnífsdal og Súðavík. Hráefniskostnaður ( og skortur), gengi og markaðsaðstæður urðu síðan flestum þeirra að bana. Það sem hefur bjargað Miðfelli er framúrskarandi gæði, enda hafa þeir verið "prime supplier" Tesco. Síðan er ein verksmiðjan sem hefur verið starfandi á Hólmavík, hvernig staðan er þar núna veit ég ekki. Ég vona að þetta lýsi málinn aðeins.

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 16:31

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þakka þér fyrir þessar upplýsingar Magnús. Rækjuverksmiðjurnar sameinuðust að lokum, en sennilega 10 árum of seint.

Theódór Norðkvist, 15.6.2007 kl. 11:53

7 identicon

Kæri Theódór. Þú ert ekki að fatta þetta.

Ástandið í rækjunni hefur ekkert með sameiningar og ekki sameiningar að gera. Aðal áhrifin eru frá framboði og eftirspurn á hráefni og samkeppnisverð á mörkuðum. Vinnslan er keyrð á erlendu hráefni og er í samkeppni við erlendar vinnslur um sama hráefni og sömu viðskiptavini. Vinnslan þarf því að lúta markaðslögmálum, í þessari samkeppni þarf vinnslan að berjast við háan flutningskostnað, óhagstætt gengi og almennt hærri framleiðslu kostnað.  Það er því eðlilegt að einhverjar vinnslur hellist úr lestinni og aðeins þær arðsömustu lifi af (eða tóra réttara sagt).

Til að setja þetta í samband við klassa, þá myndaðist á Ísafirði klassi um rækjuvinnslu og í gegnum súrt og sætt hafa menn búið til samkeppnisforskot. Þarna koma líka inn aðila eins og 3X stál sem hafa búið til réttan búnaðinn fyrir vinnsluna.

Vona að þú lesir þetta, en það vonlaust að kommenta á svona "gamla" færslu. Hafðu það gott,

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband