Hjólreiðafólk afgangsstærð í umferðinni

Þó mikið hafi verið gert í að byggja upp hjóla- og göngustíga í borginni frá því sem var fyrir rúmum áratug er enn mjög langt í land. Hjólreiðafólk er afgangsstærð í samgöngumálum, fær 1 metra pláss á göngustígum borgarinnar fyrir umferð í báðar áttir og má vera innan um bílaumferðina sem öllum er ljóst að er ekki til þess fallið að lengja lífdaga hjólreiðafólks.

Það þarf að stórbæta hjólreiðastígakerfið, það á sem allra minnst að vera saman við göngustíga og það á að gilda þar reglan um hægri umferð eins og annars staðar. Þá reglu ætti líka að halda í heiðri þegar hjólað er eftir gangstéttum meðfram bílaumferð.

Það býður hættunni heim þegar hjólreiðafólk hjólar á gangstétt á móti umferð því ökumenn sem eru að beygja inn á aðalbraut líta yfirleitt bara í þá átt sem umferðin kemur úr en gá ekki að hjólandi umferð á gangstéttinni úr hinni áttinni. Það er öllum í hag að hjólandi umferð stefni í sömu átt og bílaumferðin.

Hér er verk að vinna.


mbl.is Ekið á hjólreiðamann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála, sammála og ööö sammála.. Hvorki R-listinn né D hafa staðið sig vel þarna... komast ekki einu sinni aftarlega á merina.. Að gera einhverja hjólreiðastíga meðfram ströndinni og halda því svo fram að það sé átt til að bæta hjólasamgöngur er auðvitað bara djók. Það eru ekki margir sem þurfa að hjóla meðfram ströndinni  nema þeir séu að gera það eingöngu útivistarinnar vegna.. það þarf hjólasamgöngur INNI í borginni..

Björg F (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 16:29

2 identicon

Þetta er alveg rétt. Það mætti komast í tísku að meina það sem sagt er, öllum stundum. Betri leið til minni mengunar og sparnaðar í mannvirkjagerð innan borgarinnar er ekki til. gra alvöru hjólreiðastíga. svo ekki sé minnst á frábæra hreyfingu.

Bjarni Rafn Ingvason (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 17:47

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég skil bara ekki hvað borgar- og bæjarmálayfirvöld eru að hugsa með því að draga endalaust lappirnar í þessu mikilvæga máli. Með því að leggja góða hjólreiðastíga er hægt að draga úr mengun og létta álaginu af vegakerfinu.

Theódór Norðkvist, 25.6.2007 kl. 18:38

4 identicon

Tek undir þetta Dorfi.Mér er það óskiljanlegt hvers vegna þessum málaflokk er ekki sinnt betur. Það sjá það allir að aukning á reiðhjólastígum, leiðir til þess að fleiri sjá sér það sem valkost að nýta sér reiðhjól til að komast á milli staða.

Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 23:49

5 identicon

Einu sinni fór ég til Rovaniemi í Finnlandi (Lappland heitir það raunar þar norður frá) vegna verkefnis sem ég tók þátt í. Þetta er nú ekki stór bær. Það búa tæplega 60.000 manns þar ef íbúar á öllu svæðinu eru reiknaðir saman. Við þurftum að keyra út í eitt úthverfið til að sækja konu sem var í vinnuhópi með mér og þar fannst mér ég sjá best hvað við erum ótrúlega stutt komin hér á Íslandi í göngu- og hjólastígum. Fyrir mér leit þetta út sem eitthvert lúxushverfi með fullkomnum samgönguæðum jafnt fyrir gangandi fólk sem hjólandi en þeim fannst þetta eðlilegasti hlutur í heimi. Hvenær komumst við eitthvað nálægt þessum þankagangi?

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 00:02

6 Smámynd: Magnús Bergsson

Það er þakkarvert þegar pólitískir fulltrúar tala vel um hjólreiðar. En ég get ekki verið sammála Dofra um að borgin hafi staðið sig vel í gerð “hjólastíga”. Borgin hefur staðið sig vel í gerð útivistarstíga en hefur nákvæmlega ekkert gert í að bæta samgöngur hjólreiðafólks. R-listinn með Samfylkinguna í broddi fylkingar hafði alla möguleika á því að leggja hjólreiðabrautir í Reykjavík í 12 ár. En það var svo merkilegt að R-listinn gerði ekkert fyrr en Árni Þór í VG barði það í gegn nokkrum mánuðum fyrir fall R-listans að leggja aðgreinda 96 metra hjólreiðabraut við Laugaveg, þá fyrstu á Íslandi. R-listinn vann bókstaflega gegn hagsmunum hjólreiðafólks (líklega væri best að segja Framkvæmdasvið Reykjavíkur). Þau vinnubrögð sem R-listinn hafði í frammi í raun enn í gangi þó nýir stjórnarherrar séu komnir í brúnna.

Landssamtök hjólreiðamanna http://hjol.org  hafa margsinnis reynt að fá í gegn breytingu á hönnun gatnamóta en án árangurs . Á ég þar við að ekki verði lagðar sérstakar slysagildrur með köntum og óþarfa beygjum eins og nú er (Pacman-syndrome), heldur verði lagðar beinar hjólreiðabrautir sem þveri akbrautir með eðlilegum hætti með stöðvunarlínum og umferðarljósum.

Verk borgarinnar og samgönguyfirvalda tala sínu máli. Þótt það standi ekki beinlínis í umferðaröryggisáætlun þá má lesa þetta milli línanna og skoða framkvæmdina.

Með því að gera ekkert fyrir hjólreiðafólk þá verður meira til skiptana fyrir vélknúna umferð. Öll hönnun samgöngumannvirkja þarf því ekki að taka mið af öðrum samgönguháttum nema vélknúinni umferð. Vélknúin umferð á því t.d. greiðari leið s.s. með hindrunar- og ljóslausum hægribeygjum framhjá öllum ljósagatnamótum þvert á leiðir gangandi (og hjólandi) vegfarenda. Útgangspunktur í samgönguáætlun gengur út á að greiða fyrir vélknúinni umferð. Til að auðvelda fjáraustur í þá framkvæmd nota menn orð eins og að “bæta umferðaröryggi”. Með því að gera hjólreiðar óaðlaðandi má halda hjólreiðamönnum í skefjum og þar með fækka slysum á þeim. Síðan hafa samgönguyfirvöld með aðstoð Umferðarstofu fengið almenning til að trúa því að ef fólk ætlar að hjóla þá eigi það að vera á gangstéttum þó umferðalög segi annað.  Nú er svo komið að flestir ökumenn telja að hjólreiðafólk eigi að vera á gangstéttum. Til að bæta gráu ofan á svart þá eru samgönguyfirvöld farin að kalla gangstéttir “hjóla- og göngustíga”.  Góð leið svo ekki þurfi að leggja sérstakar aðgreindar hjólreiðabrautir. R-listinn stóð svo í því að gefa út kort af gangstéttum á höfuðborgarsvæðinu og kalla það  “Hjóla- og göngustígakort”.  Á erlendum ráðstefnum og fyrir ókunnuga lítur þetta allt mjög vel út. Stórgott samgöngukerfi fyrir gangandi og hjólandi með ótrúlega lágri slysatíðni. 

Sannkallaður lygavefur á kostnað gangandi og hjólandi umferðar.

Þar sem ég kemst alltaf í vont skap við tilhugsunina um ástandið þá læt ég staðar numið en í lokin fylgja nokkrar krækjur.

Norsk skýrsla um arðsemi hjólreiðabrauta sé aðeins litið til heilbrigðisþátta.

Athugasemd Landssamtaka hjólreiðamanna við umferðaröryggisáætlun.

Umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna við vegalög

Umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna við Samgönguáætlun

Samgöngumál í Kaupmannahöfn (video)

Magnús Bergsson, 26.6.2007 kl. 11:07

7 identicon

Það er ein milljón bílastæða í henni Reykjavík einni og er hætt að duga til. Fjöldi bíla eykst ár frá ári..3-4 stk á heimili og núna um helgar myndast 60 - 80 km langar bílalestir á vegum út frá höfuðborginni ,þegar lagt er í ferðalög. Nú eru það risa jeppar með risa hjólhýsi aftan í sem sífellt tegja bílalestirnar lengra og lengra, 20-30 m. lengd/ökumann+farþega.

Sífellt stærri og stærri landsvæði eru tekin undir malbikaðar götur og dugir enganveginn til við að sinna þessum flota sem vex með ógnar hraða .

Síðan allir vöruflutningarnir með risabílum. Strandflutningar aflagðir.

Núverandi gatnakerfi er það vandinn ?

En ég tek undir að úrlausn fyrir hjólreiðafólk hefur orðið útundan...bílinn hefur algjöran forgang .

Þetta er svona innlegg í umræðuna

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 13:44

8 Smámynd: Dofri Hermannsson

Takk fyrir góðar athugasemdir. Sammála því Magnús að breytingarnar á gatnamótum eru hjólreiðamönnum stórhættulegar. Ég hef ekki tölu á öllum þeim skiptum sem ég steyptist á hausinn á Kri-Mi, stundum ofan í götuna þar sem bílarnir á leið upp Kringlumýri voru að beygja vestur Miklubraut. Ég myndi ekki álasa neinum hjólreiðamönnum sem mættu með höggbor að fjarlægja þessar slysagildrur.

Dofri Hermannsson, 26.6.2007 kl. 22:20

9 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Á Skaga er ágætt að hjóla, allur jafnsléttur, engar brekkur og dásamlegt að því leyti en það má margt bæta með stíga og sérstaklega tengingarnar í stígakerfinu. Ég er ekki viss um að mundi þora að hjóla lengur í Reykjavík, ekki nema þá á gangstéttum, það væri auðvitað gaman ef hægt væri að breyta þessu, ég bíð.

Edda Agnarsdóttir, 27.6.2007 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband