Gamla góða upphrópunarpólitíkin

Gamli góði VilliBorgarstjórinn í Reykjavík, "gamli góði Villi" eins og hann kallar sig sjálfur, er sannarlega gamaldags pólitíkus. Hann vill stjórna borginni eins og hreppstjórar gerðu hér áður fyrr í litlum sveitum, hafa alla þræði í hendi sér og hafa puttana í jafnvel allra smæstu málum.

Stóra bjórkælismálið er dæmigert viðfangsefni fyrir stjórnmálamenn af þessari gerð. Á rölti sínu um Austurvöll hefur hann séð að á daginn hafast þar við útigangsmenn, gjarna dálítið rakir. Af þeim er stundum ónæði sem gamaldags stjórnmálamaður sér að er akkúrat mátulega stórt verkefni fyrir hann, verkefni sem gæti höfðað til fjölda fólks og styrkt ímynd hans sem verndara saklausra borgara í miðbænum.

Borgarstjórinn var ekki lengi að leggja saman tvo og tvo, róna og ÁTVR, og sjá að það yrði að fjarlægja vínið. Einhverjir hafa líklega hvíslað að honum að það væri ekki líklegt til vinsælda að svipta þá sem búa og starfa í miðborginni þessari eðlilegu þjónustu og því breytti hann áherslum sínu aðeins - hann vill að það verði hætt að selja bjór í stykkjatali og að það verði alla vega ekki hægt að fá keyptan kaldan bjór. Fyrir röggsama baráttu borgarstjórans hefur því hinum stórhættulega bjórkæli þegar verið kippt úr sambandi.

Eitthvað hefur þessi krossferð borgarstjórans gegn köldum bjór snúist gegn honum og til að gera baráttu sína ögn hetjulegri og dramatískari skaust borgarstjórinn í sjónvarpsfréttir í gærkvöld og sagði nauðsynlegt að grípa til aðgerða því það sé óviðunandi að borgarbúar séu hræddir við að ganga um miðborgina um hábjartan daginn.

Vegna vinnu minnar geng ég þessar "hættulegu slóðir" daglega og ég verð að viðurkenna að ótti borgaranna við að ganga um miðborgina hefur algerlega farið framhjá mér. Þvert á móti get ég ekki annað séð en að miðborgin sé full af lífi upp á nánast hvern einasta dag - hvert sem litið er má sjá brosandi og glaðlegt fólk.

Hræðslublik hef ég hreinlega ekki séð augum nokkurs manns, nema ef vera skyldi veitingamanna í miðbænum í morgun af því borgarstjóri notaði fréttatíma gærkvöldsins til að hræða fólk frá því að fara niður í bæ.

Í gær mætti ég útigangsmönnunum sem vekja borgarstjóranum svo mikinn ugg í brjósti. Þeir spurðu hvort ég ætti eitthvað klink og ég spurði á móti hvort þeir væru ekki alveg hættir að drekka eftir að það hætti að fást kaldur bjór í Austurstrætinu. Þeim var skemmt. "Við erum ekki hérna út af bjórnum vinur, það er alls staðar hægt að fá hann, það er aurinn - áttu eitthvað smá?"

Það skyldi þó aldrei vera að lækninguna á ótta borgarstjórans væri fremur að finna í úrræðum fyrir útigangsfólkið en að taka kælinn í ÁTVR úr sambandi og hræða fólk frá því að fara niður í bæ? En það er kannski allt of flókið úrlausnarefni fyrir gamaldags pólitíkus?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Upprétti Apinn

Er ekki tilvalið að banna klink í miðborginni þá?

Enginn getur þá borgað í stöðumæla, og borginn græðir á sektunum.  Það er ekki oft sem menn græða tvisvar á einni ákvörðun.

Upprétti Apinn, 23.8.2007 kl. 12:38

2 Smámynd: Guðmundur Björn

Bíddu!!  Er Samfylkingarmaður að saka aðra flokka um upphrópunarpólitík??

Þetta kemur úr hörðustu átt.

Guðmundur Björn, 23.8.2007 kl. 19:39

3 Smámynd: Björg Árnadóttir

Svona bjórkælismál er akkúrat það sem hentar Villa. Hann hefur marg sýnt það og sannað. Ekki taka á því sem skiptir máli. Frekar á einhverjum smámunum sem koma manni í blöðin.

Björg Árnadóttir, 23.8.2007 kl. 21:07

4 Smámynd: Steinn Hafliðason

Villi fær okkur öll til að hlæja

Steinn Hafliðason, 24.8.2007 kl. 08:57

5 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ekki ætla ég að verja Vilhjálm í þessu máli og ég treysti á að fólk muni gleyma þessu máli mjög fljótt.

Óðinn Þórisson, 24.8.2007 kl. 18:57

6 Smámynd: Einar Ólafsson

Ég tek heils hugar undir þetta. Flesta daga á ég leið um Austurstræti og hef aldrei orðið fyrir ónæði af völdum útigangsmanna, þótt þeir hafi stundum beðið mig um klink. Ef ég verð fyrir ónæði, þá er það annars staðar og af annarra völdum, og frekar þeirra sem betur mega sín - sem er önnur saga.  Og þó svo væri, þá er snýst málið auðvitað um allt annað en kæliskáp, lausasölu á bjór eða vínbúðina yfirleitt. Einhversstaðar þurfa heimilislausir alkóhólistar að vera meðan þeir fá ekki hjálp og þak yfir höfðuðið. Um það snýst málið auðvitað - og svo snýst það auðvitað líka um skinhelgina.

Einar Ólafsson, 25.8.2007 kl. 01:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband