Kælivísur

kalt kampavínUndanfarið hefur mikið verið rætt um ástandið í miðbænum sem vekur borgarstjóranum jafnvel ugg í brjósti um hábjartan dag. Það eru þá fyrst og fremst hinir ölþyrstu útigangsmenn sem vekja borgarstjóranum ótta og því hefur hann gripið til ýmissa ráðstafana. Þessar ráðstafanir hafa síðan verið mikið ræddar af ótrúlegustu aðilum og sýnist sitt hverjum.

Eitt sjónarhorn á þetta alvarlega mál hefur þó tilfinnanlega vantað í umræðuna og það er hverjum augum útigangsfólkið sjálft lítur þær aðgerðir sem gripið hefur verið til. Hér er gerð tilraun til að bæta úr því.

Þegar bjór ég þamba vil
í því ég mikið pæli
hvort varan skyldi vera til
volg eða beint úr kæli.

ÁTVR einlægt ég
ákaflega hæli.
Þar fást ölin yndisleg
ísköld beint úr kæli.

Herðir Bakkus hald á mér
og hefur mig að þræli.
Háður víst ég orðinn er
öli beint úr kæli.

Eina von mín víst er sú
að Villi burtu fæli
fíkn mína og fari nú
að fjarlægja þennan kæli.

Öls í vímu er ég víst
enn og von ég skæli.
Vínþörfina vantar síst
þótt vanti þennan kæli.

Villi hann er vinur minn
og von að breitt ég smæli.
Hann endurreisa ætlar sinn
ÁTVR kæli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

Keisarinn og Kaffi Aust,

kvalið var úr bænum.

Sötri róna sigað laust,

á siðmenntaðan Völlinn.

Geir Ágústsson, 24.8.2007 kl. 11:43

2 Smámynd: Billi bilaði

Takk fyrir flottar vísur.

Billi bilaði, 24.8.2007 kl. 17:03

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Harkaðu af þér heillin mín

og hættu þessu væli.

fáð´ér bjór og freyðivín

og farðu svo á hæli!

Árni Gunnarsson, 25.8.2007 kl. 09:49

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Eigra ég um Austurstræti

og bjórinn mér í næli

Ekki verð með mikil læti

ef mjöðinn fæ úr kæli

Anna Einarsdóttir, 25.8.2007 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband