Á að einkavæða Orkuveituna!!?

Í fréttatilkynningu frá Degi B Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn, segir að fyrir fundi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sem á að hefjast núna kl. 13 liggi tillaga um hlutafélagavæðingu fyrirtækisins. Í tilkynningu Dags segir m.a.:

Engin umræða um þessa hugmynd hefur farið fram og málinu var ekki hreyft á nýafstöðnum aðalfundi. Tveir aðalmenn í stjórn Orkuveitunnar, Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir eru stödd á stjórnarfundi Sambandsins íslenskra sveitarfélaga á Ísafirði. Hvorugt þeirra fékk send fundargögn vegna málsins. Nú laust fyrir hádegið hafnaði stjórnarformaður Orkuveitunnar rökstuddri ósk um að fresta afgreiðslu málsins. Þetta er fordæmislaust og freklegt brot gegn eðlilegum vinnubrögðum í stjórn fyrirtækisins. Þessu mótmæla undirritaðir stjórnarmenn harðlega.

Sérstaka athygli vekur að rökstuðningur tillögunnar er með vísan til þess að "tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja." Erfitt er því að skilja þessa atburðarrás öðru vísi en sem upptakt að einkavæðingarferli OR.

Einkavæðing Orkuveitunnar væri þvert á margítrekaðar yfirlýsingar borgarstjóra og meirihlutans í Reykjavík. Offorsið sem einkennir hins vegar ofangreinda málsmeðferð hlýtur hins vegar að vekja fjölmargar spurningar og tortryggni um að einkavæða eigi Orkuveituna á hlaupum. Þetta er stórmál sem þarfnast víðtækrar samfélagslegrar umræðu. Samfylkingin og VG munu óska eftir því að rekstrarform Orkuveitunnar verði sett á dagskrá borgarstjórnarfundar á þriðjudaginn í næstu viku.

Undanfarin misseri hefur fátt verið jafn mikið rætt og eignarhald á orkuauðlindum þjóðarinnar. Þar hefur mörgum þótt orkufyrirtækin fara offari og að heimildir þeirra til að hrifsa til sýn þessi verðmæti, oft til mikils skaða fyrir umhverfi og aðra nýtingarhagsmuni, vera allt of rúmar. 

Fram til þessa hefur orkufyrirtækjunum þó liðist þessi framganga af einni ástæðu eingöngu - að orkufyrirtækin hafa verið í almannaeigu. Einkavæðing á Hitaveitu Suðurnesja í sumar boðaði breytta tíma og nú lítur út fyrir að öll loforð Sjálfstæðismanna í borginni um að Orkuveitan yrði áfram í almannaeigu verði svikin. 

Þessu má svo bæta við að í frekjulegu kapphlaupi sínu um orkuauðlindir þjóðarinnar hafa orkufyrirtækin gengið svo langt í að lofa orkunni til álbræðslna að önnur stórfyrirtæki sem hingað vilja koma með mengunarfrían iðnað og hundruð starfa hafa hætt við. Orkunni mun allri hafa verið lofað í ál - hún er á þrotum! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða Eyland

Það er barasta allt að komast í einkaeign hér á landi, einka vatansból til dæmis. Var nú svo heimsk framanaf að ég hélt að sumt ættum við saman, þetta byrjaði fiskikvótum og bankaútsölum til klíkumeðlima.

Ég tel að við rvk hérna..hljótum öll að eiga einn hlut og það beri að bera þennan gjörning undir okkur eigendurna.

Svikinn loforð eru ekkert nýtt samt alltaf jafn skítt að við stöndum aldrei saman, röflandi þetta okkar á millum en þorum ekki að standa saman t.d. á austurvelli.

það fór t.d. í taugarnar á mér þegar Herra Össur, benti á að rífa bæri Valhöll á þingvöllum vegna þess að húsið væri hættulegt og byggja nýtt hús sem alþingi gæti notað, nefndi líka opinberar heimsóknir.....

Lítil ilmur af Samfylkingunn fyrir alla hvað! sorry en svona kóngahugsunaháttur er óþolandi.

Fríða Eyland, 30.8.2007 kl. 13:14

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Utan við efnið: Gaman að sjá, hvað þú ert hagmæltur (Vísnahorn Mbl. í dag).

Jón Valur Jensson, 30.8.2007 kl. 15:27

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það yrði mjög jákvætt ef Orkuveitan yrði einkavædd. Menn ættu ekki að láta orð dbe trufla sig í að klára málið - því fyrr því betra.

Óðinn Þórisson, 30.8.2007 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband