Að sjálfsögðu!

HrúturÞað er löngu tímabært að hefja heimaunnin matvæli til vegs og virðingar hér eins og í öðrum löndum.

Reyndar er með ólíkindum hvað okkur tekst ævinlega að vera kaþólskari en Páfinn þegar kemur að reglugerðum frá EB. Í Evrópu getur maður hvarvetna fengið heimagerða osta, vín og alls kyns kjötmeti. Þar er slátrari í öðru hverju þorpi og þeir koma jafnvel heim á bæina með sérútbúinn sláturbíl.

Á Íslandi er blessuðum skepnunum hins vegar ekið í misgóðum gripaflutningabílum fleiri hundruð kílómetra áður en þau komast á endastöð. Þá eru sum dýrin orðin södd lífdaga eftir erfitt ferðalag og jafnvel ýmis dæmi um að bæði lömb og hross hafi drepist í sláturbílnum.

Allt er þetta hins vegar gert til að uppfylla reglugerðir fyrir sama neytendasvæði og þýskir og franskir slátrar eru að þjóna með sinni sendibílaslátrun á meginlandinu.

Sjálfur hef ég verið svo heppinn að geta alltaf fengið heimaslátrað kjöt í frystikistuna á haustin og jólahangikjötið mitt er bæði heimaslátrað og heimareykt, enda besta hangikjöt í heimi. Fyrir jólin í fyrra heyrði ég á tal tveggja ónefndra þingmanna í mötuneyti Alþingis, umræðuefnið var vitaskuld hvaðan heimareykta hangikjötið þeirra væri.

Þetta skil ég vel, margir vilja gjarna vita hvaðan lambakjötið þeirra kemur, hvernig það hefur verið meðhöndlað og af hverjum. Eða svo ég vitni til ágætrar skáldkonu af Jökuldalnum sem sagði mér að hún borðaði nú helst ekki lömb sem hún þekkti ekki!


mbl.is Vilja slátra heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Algjörlega sammála þér Dofri og hef reyndar keypt heimaslátrað núna í nokkur ár. Besta kjöt sem ég fæ og það er engin tilviljun því fénu er slátrað við bestu aðstæður. Féð er rólegt, ólíkt því sem er í verksmiðjusláturhúsum, því eins og þú bendir á..."Á Íslandi er blessuðum skepnunum hins vegar ekið í misgóðum gripaflutningabílum fleiri hundruð kílómetra áður en þau komast á endastöð". Það er vísindalega sannað að af stressuðum skepnum kemur gjarnan seigt kjöt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.8.2007 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband