11.9.2007 | 12:48
Hvers virði er Esjan?
(birt í Viðskiptablaðinu 7.9.)
Undanfarið hefur fátt verið meira rætt en verðmæti náttúrunnar og umhverfisins. Til að alhæfa dálítið má segja að í náttúruvernd hafi tekist á þeir sem allt vilja virkja og þeir sem allt vilja friða og í loftslagsmálum þeir sem segja loftslagsvandann eintómar ýkjur og þeir sem telja hann stærsta vandamál mannkyns.
Þarna takast á afar ólík viðhorf og sumir segja það tímanna tákn að eini sameiginilegi samræðugrunnurinn virðist vera að reikna þetta allt út í peningum. Þannig var það fyrst þegar vísindamenn fóru að benda á að þjóðir heims myndu stórtapa á yfirvofandi hlýnun að veruleg hreyfing komst á baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Á sama hátt hefur jafnan gefist best í baráttunni gegn óafturkræfum framkvæmdum á verðmætum náttúrusvæðum að sýna fram á meiri hagnað af verndun þeirra í beinhörðum peningum. Hér er ekki ætlunin að meta hvort þetta er góður samræðugrunnur eða slæmur, heldur frekar að reyna til gamans að meta náttúrufyrirbæri sem flestir þekkja nokkuð vel, fjallið Esjuna.
Til að gera okkur grein fyrir verðmæti Esjunnar skulum við segja að Esja Group hafi sótt um rannsóknarleyfi fyrir þeirri auðlind sem Esjan er - að sjálfsögðu með það í huga að fá síðan einkaleyfi á því að nýta þá auðlind.
Til að rannsaka verð Esjunnar væri hægt að beita mati á þjónustuþáttum Esjunnar en þeir eru afar margir og margvíslegir.
Augljóslega eru mikil verðmæti fólgin í Esjunni sem útivistarsvæði en hundruð manna ganga upp á hana á degi hverjum allan ársins hring. Þarna er trúlega vannýtt auðlind því telja má líklegt að fólk væri tilbúið að greiða einhvern aðgangseyri fyrir afnot af gönguleiðinni. Ofan af Esjunni er mikið útsýni og fyrir það er líka sjálfsagt að taka hóflegt gjald, auk þess að ferja mætti fólk upp með bíl eða kláfi sem ekki vill eða getur gengið alla leið upp - einnig gegn hóflegu gjaldi.
Esjan er, líkt og önnur fjöll, gríðarlegt vatnsforðabúr og niður hlíðar hennar rennur víða vatn sem meta þarf til fjár. Beinast liggur við að bjóða þennan þjónustuþátt Esjunnar út og þá fá þeir einfaldlega vatnið sem hæst bjóða, hvort sem það eru landeigendur í nágrenninu eða aðilar í vatnsútflutningi, svo dæmi séu tekin.
Verðmæti útsýnis til Esjunnar hefur áhrif á húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu og niðurstaða könnunar sýnir að þessi þjónustuþáttur Esjunnar hækkar verðmæti húseigna talsvert. Þarna er í raun fé án hirðis og eðlilegt að sá sem fengi einkaleyfi á nýtingu Esjunnar fengi talsvert gjald fyrir þennan þjónustuþátt. Til að hafa greiðslu fyrir þjónustuna einfalda væri t.d. hægt að innheimta útsýni-til-Esjunnar-gjald sem viðbót við fasteignagjöld.
Fasteignamarkaðurinn leiðir hugann að annarri þjónustu sem Esjan gæti veitt sístækkandi borg, en það er efniviður í vegi, hús, landfyllingar o.fl.þ.h. Til að eyðileggja ekki útsýnisþáttinn yrði að sjálfsögðu að gæta þess að hreyfa sem minnst við þeirri hlið sem snýr að höfuðborginni. Bakhlið Esjunnar sjá hins vegar mun færri og því vandræðalaust að nýta a.m.k. þann helming Esjunnar sem byggingarefni.
Hér er auðvitað ekki um tæmandi upptalningu á þjónustuþáttum Esjunnar að ræða og ljóst að í henni felast ýmis fleiri peningaleg verðmæti. T.d. nýtur fjöldi fólks útsýnis til Esjunnar frá öðrum stöðum en íbúðum sínum án þess að greiða fyrir það nokkurt gjald. Ljósmyndarar og málarar hafa einnig fengið að mynda og mála Esjuna án endurgjalds og hún hefur orðið ýmsum yrkisefni. Ljóst er að sá sem fengi einkaleyfi til að nýta auðlindina Esjuna ætti heimtingu á stefgjöldum fyrir hvert skipti sem lögin "Svífur yfir Esjunni..." og "Finnst þér ekki Esjan vera sjúkleg..." heyrast á öldum ljósvakans. Annað væri ekki sanngjarnt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Esjan hefur einhvera þýðingu fyrir okkur flest og það er einhvers virði. Ég er Esjunni ætíð þakklát því eitt sinn er ég hafði verið langdvölum í útlöndum fannst mér hún svo stór og tignarleg, þá áttaði ég mig á því að ég hafði verið of lengi í burtu.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 11.9.2007 kl. 23:45
Svo væri hinn möguleikinn.
Að sprengja fjallið niður og mala það í hæfilega smátt. Aka því svo út sem landfyllingu og byggja á henni fasteignir. Það væri t.d. hægt að fylla upp og gera beina línu frá Kjalarnesinu að Seltjarnarnesi. Þá yrði t.d. Viðey bara hóll.
Þannig skapaðist byggingarland sem væri mörg hundruð milljarða virði. Svo ekki sé talað um það byggingarland sem svo skapaðist þegar Esjan væri farinn.
Júlíus Sigurþórsson, 12.9.2007 kl. 00:24
Góð og verð hugleiðing. Skemmtileg lesning. Við ættum kannski að fela Reykjavik Energy Enron...fyrirgefðu...Invest, þetta merka fjall til ávöxtunnar?
Annars varðandi flug okkar um The Tipping Point, hér á undan, þá langaði mér að deila með þér ÞESSARI gömlu færslu, þar sem ég nefni fyrirbrigðið og lít frá sjónarhóli gerandans (mín). Þetta er þó algerlega ópólitískt innlegg...frekar í húmanískum anda, myndi ég ætla.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.9.2007 kl. 05:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.