Tafir á gangsetningu Kárahnjúkavirkjunar

Gerð aðrennslisganga fyrir Kárahnjúkavirkjun hefur seinkað svo að gangsetning virkjunarinnar og sala orkunnar frá henni tefst um a.m.k. 7 mánuði. Talsmenn framkvæmdanna segja það engin áhrif hafa á arðsemi virkjunarinnar. Það er ekki rétt. Allur aukalegur kostnaður hefur áhrif, ekki síst hækkun stofnkostnaðar. Hæpið er að mikið sé eftir í liðnum "ófyrirséð" og enn eiga aukareikningar Impregilo eftir að bætast við - ekki síst vegna erfiðleika við borun fyrrnefndra aðrennslisganga.

Leyniskýrslan
Glöggir menn muna e.t.v. að það var m.a. þetta misgengi sem Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur varaði við í skýrslunni sem Valgerður Sverrisdóttir lét stinga undir stól þegar heimildarlög um Kárahnjúkavirkjun voru til umræðu á Alþingi.
Rétt eins og Skipulagsstofnun, benti Grímur á að það væri verið að fara of hratt, fleira þyrfti að rannsaka og nefndi t.d. að betur þyrfti að kanna bergið þar sem bora ætti aðrennslisgöngin. Á hann var ekki hlustað og Skipulagsstofnun var snúin niður.

Leyndarmál
Í stuttan tíma átti ég sæti sem varamaður í stjórn Landsvirkjunar fyrir hönd borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar. Ég óskaði eftir því að vera leiddur í sanninn um hið ógurlega leyndarmál um verðið á raforkunni og arðsemi virkjunarinnar. Án þess að rjúfa trúnað get ég sagt að arðsemin stendur tæpt. Virkjunin þarf ekki að fara marga milljarða fram úr áætlun til að arðsemi eigin fjár fari niður fyrir þau mörk sem sett voru. Þá skiptir miklu máli hvernig gengi gjaldmiðla þróast, ekki síst dollars.

Þekkt verkfæri ekki notuð
Í arðsemisútreikningum var fórnarkostnaður náttúrverðmæta aldrei tekinn með í reikninginn. Það var stjórnvöldum ekki þóknanlegt sem sögðu slíka útreikninga er ómögulega. Eitt af því fyrsta sem ég las í umhverfishagfræðinni voru þó 40 ára gömul bandarísk kostnaðarhagkvæmni módel sérstaklega hönnuð til að takast á við ákvarðanir um óafturkræfar framkvæmdir á verðmætum náttúrusvæðum. Þekkt verkfæri og mikið notuð við ákvarðanatöku af þessu tagi. Hefði það verið gert leyfi ég mér að fullyrða að gríðarleg óvissa hefði verið talin á að arðsemin yrði viðunandi.

Aldrei raunhæfur kostur sem sjálfstæð framkvæmd
Athyglisverðast við uppfræðslu Landsvirkjunar um efnahagslegar forsendur Kárahnjúkavirkjunar var þó að fá staðfestingu á að aldrei hefði verið möguleiki að láta virkjunina standa undir sér sem sjálfstæða framkvæmd. Til að virkjunin mjakaðist upp fyrir lágmarks arðsemi var nauðsynlegt að taka veð í öllum eignum Landsvirkjunar og fá uppáskrift hjá ríkissjóði!

Þótt óþægilegum staðreyndum hafi verið sleppt í útreikninum, eignir almennings í fyrirtækinu veðsettar í topp og ríkið látið ábyrgjast framkvæmdina er enn stórkostlegt vafamál að Kárahnjúkavirkjun nái viðunandi arðsemi.

Þetta er dýr lexía og áríðandi framtíðarinnar vegna að við lærum hana upp á 10.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Fróðlegur pistill hjá þér ,Dofri. Þessar tafir við framkvæmdina er kannski ekki stærsta málið.. Hver verður lokareikningurinn frá verktakanum , þeim ítalska ? Mér skilst að þeir séu vel þekktir fyrir að koma með feita bakreikninga við verklok. Þeir séu með mjög hæft lögfræðingagengi sem fullsmíðar þau mál.

Ekki er langt síðan Danir þurftu heldur betur að taka upp budduna vegna framkvæmda þessa verktaka við neðanjarðarlestakerfi Kaupmannahafnar.

Kostnaðaraukinn var uppá 300% frá tilboðinu. Við skulum vona að við sleppum betur og liggjum ekki í því eins og Danir. 

Sævar Helgason, 24.9.2007 kl. 11:41

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hjörleifur Guttormsson fór ekki þeim niðrandi orðum um Hálsinn og Brúardali sem látið er í veðri vaka. Þótt Hjörleifur hafi verið fágætur afreksmaður hvað snerti yfirferð á stórum hluta landsins í gerð bóka sinna gat hann ekki uppgötvað allt. 

Þá er alveg sleppt að meta virði tuga fossa í Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá sem verða þurrkaðir upp, - tveir samliggjandi á hæð við Gullfoss.

Sem dæmi um meðferð staðreynda má nefna að á kortum Landmælinga Íslands var Hálsinn sýndur sem auðn og það passaði við þá mynd sem stýring Landsvirkjunar á ferðamönnum að virkjunarsvæðinu gaf, - að 15 kílómetra löng græn bogadregin hlíð með 2-4 metra þykkum jarðvegi væri urð og grjót.  

Þegar vísindamenn fóru að rannsaka lónstæði Hálslóns og fleiri að kanna svæðið komu í ljós verðmæti sem þjóðin á vonandi eftir að sjá betur þegar heimildarmyndin Örkin verður sýnd.

Koma mun í ljós þótt um síðir verði að þegar litið er til lengri tíma var hægt að verja þeim 130 milljörðum króna sem eytt hefur verið í Kárahnjúkavirkjun á miklu betri hátt.  

Bestu vísindamenn heims um 1400 vissu ekki betur en að jörðin væri flöt og að sól og stjörnur snerust um hana. Síðar kom fram ný vitneskja. Samkvæmt rökum þeirra sem vilja að hin eldri vitneskja Hjörleifs verði látin ráða meiru en það sem sannara hefur reynst nú myndu vaflaust getað vitnað í mætustu vísindamenn fjórtándu aldar um jörðina og alheiminn.

Trúnaðarrof Dofra er ekki meira en það að á sínum tíma fann Sveinn Aðalsteinsson það út í einfaldri þríliðu hvert orkuverðið væri. Vitað var hver arðprósentan þyrfti að vera, hvert orkumagnið væri og hvað virkjunin átti að kosta.

Sveinn sagði frá þessu á eftirminnilegum fundi þar sem einn af helstu forsvarsmönnum virkjanaæðisins brást svo reiður við að hemja þurfti manninn.

Það hefur verið erfitt verk til þessa fyrir þann ágæta heiðursmann Sigurð Arnalds að útdeila jafnan þeim upplýsingum og þegja um aðrar sem yfirmenn hans hafa þrýst á hann að gera.

Hann var samt nógu heiðarlegur til að segja þá setningu sem lifa mun lengst um hugarfarið að baki virkjuninni þegar hann var spurður af hverju það 3-5 kílómetra breiða belti sem sást úr lofti að var verst til borunar hefði ekki verið rannsakað . Hann rökstuddi þá ákvörðun að láta það vera með orðunum: "Það þurfti að fara þarna í gegn hvort eð var." 

Ómar Ragnarsson, 24.9.2007 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband