Sýndarmennska og útúrsnúningar

Um helgina fengu borgarbúar tvöfaldan skammt af sýndarmennsku meirihlutans hvað varðar leikskólamál og frístundaheimilin.

Björn ingiFormaður ÍTR kom sér í fréttir í laugardagsblaði Moggans og "fréttin" var sú að "Íþrótta- og tómstundaráð samþykkti í gær tillögu meirihlutans um að auka sveigjanleika frístundaheimila..."

Hvað var að gerast þarna? Jú, eftir 5 vikna fundahlé ákvað formaðurinn að tillögur Samfylkingarinnar um hlutavistun væru augljóslega besta einstaka ráðið í stöðunni. Þess vegna breytti hann bókun Samfylkingarinnar um málið frá síðasta fundi og kallaði hana tillögu meirihlutans.

Þetta er reyndar það sama og Samfylkingin mælti með og var hrint í framkvæmd í fyrra haust, eftir 6 vikna fundarhlé formanns ÍTR. Þegar farið var að bjóða foreldrum að kaupa vistun hluta úr vikunni fór að saxast á biðlistana. Meirihlutinn í ÍTR ákvað hins vegar í sumar af ráðkænsku sinni að hætta að bjóða upp á hlutavistun.

Það var nú helsta framlag meirihlutans til þessa málaflokks, fyrir utan að fella niður fundi á meðan hátt á annað þúsund börn bíða eftir plássi. Fyrir utan auðvitað núna að breyta orðalagi á bókun Samfylkingarinnar frá því á síðasta fundi 17. ágúst.

Kannski meirihlutinn komi líka fram sitt eigið orðalag á tillögu Samfylkingarinnar frá sama fundi um námsstyrki til starfsfólks frístundaheimila? Vonandi þarf samt ekki að bíða aðrar 5 vikur eftir því. Betra að meirihlutinn eigni sér tillöguna bara strax. Því fyrr kemst hún í framkvæmd.

Þorbjörg HelgaFormaður leikskólaráðs skeiðaði hins vegar fram á ritvöllinn í sunnudagsblaði Moggans í ritdeilu við Bryndísi Ísfold, fulltrúa Samfylkingarinnar í leikskólaráði. Fyrirsögn greinar hennar var "Af engum hugmyndum". Það var við hæfi.

Eins og foreldrar leikskólabarna í Reykjavík vita hefur formaður leikskólaráðs upp á síðkastið skellt fram einni og aðeins einni hugmynd um hvernig mætti leysa mannekluvandann á leikskólum borgarinnar. Hún vill gera það með því að fyrirtækin taki að sér að reka leikskólanna.

Út frá þessari hugmynd hafa sprottið upp umræður um einkavæðingu, um faglegt starf slíkra skóla, um þá stöðu sem foreldrar setja börn sín í ef foreldri vill skipta um vinnustað - eða er sagt upp.

Það sem gleymist er hins vegar sú staðreynd að eignarhald fyrirtækja á leikskólum býr ekki til peninga, að engar líkur eru á að þeim gangi betur að manna leikskólana en öðrum og síðast en ekki síst - að ólíklegt er að fyrirtæki hafi það mikinn áhuga á að yfirtaka leikskóla borgarinnar að það muni hafa nokkur áhrif á biðlistana eftir plássi á leikskóla í borginni.

Upp úr þessari umræðu um fyrirtækjaleikskóla hefur formaður leikskólaráðs hins vegar kosið að velta sér fram og aftur og þyrla með því upp moldviðri um aukaatriði. Líklega af þeirri einföldu ástæðu að hún hefur enga hugmynd um hvernig á að takast á við aðalatriðið - að eyða biðlistum barna eftir plássi á leikskólum.

Er þá ótalinn sá vandi sem foreldrar ungbarna standa frammi fyrir og lýst er í fréttinni sem er tilefni þessarar færslu. Hvar eru ungbarnadeildirnar sem Sjálfstæðisflokkurinn lofaði fyrir síðustu kosningar?
Kannski í Landsbankanum? Eða Krónunni?


mbl.is 60.000 fyrir vistun hjá dagforeldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Ég skil vel afstöðu foreldra sem ekki fá leikskóla fyrir börnin sín. En ég verð að benda á að það er engin lausn að byggja leikskóla í massavís- hvorki einkarekan né öðruvísi á meðan ekki er til fólk til að vinna þar. Það er einfaldlega ekki til nóg af fagfólki. En við skulum ekki gleyma að það eru fleiri ástæður fyrir að fólk finnist starfið ekki fýsilegur kostur, en launin. (þau hafa nú reyndar lagast tölvuert, þökk sé Steinunni Valdísi)

Það að fólk fæst ekki er ekki bara launamál, þó svo að þau spili auðvitað stórt hlutverk. En hitt sem er öllu alvarlegra er að starfsaðstæður í flestum leikskólum eru fyrir neðan allt. Þá á ég við þá skammarlega fáu fermetra sem börnum og starfsfólki er boðið upp á. Þann mikla hávaða sem er í flestum leikskólum. Og vel að merkja þegar deilt er í heildarfermetra töluna er fjöldi starfsmanna ekki þar inni í, þannig að í raun eru fermetrarnir enn færri.

En svo er nú gott að þið hafið áhrif og tillögur ykkar eru teknar til skoðunar jafnvel þó að þið fáið ekki rósina fyrir. Er það ekki í anda jafnaðarstefnunnar að vera ekki að setja slíka smámuni fyrir sig.

Kristín Dýrfjörð, 24.9.2007 kl. 23:22

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

það er alveg með ólíkindum Dharma að þú skulir ekki skilja það að á íslandi er 1 % atvinnuleysi og það fæst ekki fólk í láglaunastörf í dag.. nema að flytja það fólk inn !! Þetta er vandi sem er stofnað til af þenslu sjálfstæðismanna..

Óskar Þorkelsson, 25.9.2007 kl. 12:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband