5.10.2007 | 13:51
Manstu gamla daga....?
Í tíð síðasta meirihluta höfðu hverfisráð borgarinnar dálitla peninga til að veita til samfélagsverkefna, s.s. að stykja hverfisblöð og menningarlíf af ýmsu tagi. Þetta var fyrirkomulag sem R-listinn tók upp til að dreifa völdum og af því það var talið að hverfisráðin þekktu betur til í hverfum borgarinnar en rassvasinn á buxum borgarstjóra.
Eitt það fyrsta sem gamli góði Villi gerði sem borgarstjóri var að taka peninga hverfisráðanna til sín. Nú þurfa því allir sem áður gátu snúið sér til hverfisráðanna að koma bónarveg til hans, brosa blítt og taka í höndina á gamla góða Villa til að fá pening fyrir kórinn, eða hverfisblaðið. Svona eins og í gamla daga.
Gamla góða Villa finnst óþarfi að flækja málin með því að tala um þau við samstarfsfólk sitt í meirihlutanum, hvað þá í minnihlutanum. Þetta sést bæði í stóru og smáu, t.d. þegar hann við hátíðlegt tækifæri dró 50 milljóna aukaframlag borgarinnar til Leikfélags Reykjavíkur upp úr rassvasanum án þess að hafa minnst á það orði við samflokksmann sinn, formann menningar- og ferðamálaráðs. Það var svipuð stemning í karli þegar hann ákvað að færa spilasal úr Breiðholtinu, gefa Happdrætti HÍ lóð í vesturbænum og banna ÁTVR að kæla bjór í Vínbúðinni í Austurstræti. Engin samræðupólitík þar heldur verkin látin tala!
Gamli góði Villi hefur þó átt gott samband við einn aðila í meirihlutanum - 6% mann Framsóknarflokksins. Með blessun borgarstjóra hefur borgarfulltrúi Framsóknarflokksins undanfarnar vikur leikið sér með dótturfyrirtæki Orkuveitunnar eins og sitt prívatfyrirtæki. Í félagi við vin borgarstjóra, hefur hann gert fyrrverandi bankastjóra að stórum hluthafa án samráðs við stjórn Orkuveitunnar, skammtað sjálfum sér laun og fært kosningastjóra sínum og frænda borgarstjóra kaupréttarsamninga að verðmæti tugmilljóna án nokkurs rökstuðnings. Ber er hver á bakinu nema sér bróður eigi.
Þetta orðtak úr Grettlu minnir mann svo á annað áhugavert mál. Í maí á þessu ári greindu fjölmiðlar frá því að 6 daga gamalt fyrirtæki bróður borgarstjóra, Kvik ehf, hefði fengið lóð á 35 milljónir hjá Faxaflóahöfnum þar sem borgarfulltrúi Framsóknarflokksins er stjórnarformaður. Lóðin var eina eign fyrirtækisins og einu áformin þau að selja 80-90% í Kvik efh til annars fyrirtækis sem hafði áhuga á að reisa stálgrindarhús á hinni eftirsóttu lóð.
Að sjálfsögðu kom fram í fréttunum að borgarstjóri hafði ekki hugmynd um þetta allt saman og taldi þetta vera tilefni til að endurskoða reglur um úthlutun lóða fyrir atvinnuhúsnæði. Gaman væri að vita hvort sú endurskoðun hefur farið fram.
Það væri líka gaman að vita hvað hinir þegjandalegu sexmenningar í borgarstjórnarflokki gamla góða Villa eru að hugsa. Kannski óska þeir sér þess heitast að hann stígi skrefið til fulls og gangi til liðs við lyktarbróður sinn í gamla góða Framsóknarflokknum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:57 | Facebook
Athugasemdir
Þú þarft nú líka að tala við Össur eftir sjónvarpsviðtalinu að dæma við hann í gærkvöldi þá virtist honum vera fullkunnugt um að þetta hafi verið í farvatninu hjá Orkuveitunni og hafði ekki mikið út á það að setja!
María Kristjánsdóttir, 5.10.2007 kl. 14:54
Össur tjáði sig bara um sameininguna - ekki spillinguna.
Dofri Hermannsson, 5.10.2007 kl. 15:09
Ekki þótti mér ykkar fulltrúi koma sérstaklega vel útúr Kastljósþættinum. Hvers vegna samþykktuð þið þennan gjörning?
Nokkuð ljóst að undarlega var staðið að málinu, eiginlega deginum ljósara. En um leið og Samfylkingin samþykkir þetta þá leggur blessun sína yfir í leiðinni.
Hvað hefur breyst hjá Samfylkingunni?
Um leið og stjórnmálamenn fara að nota frasa eins og að það skili engu að vera að horfa í baksýnisspegilinn, nú verði að horfa frammá veginn og reyna að læra af þessu og hinu, þá tel ég vera hættu á ferðum.
Sýnist 6% gæinn ætla sér að verða forseti.
Jóhann (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 15:32
Var semsé ekkert athugavert við sameininguna? Þögn er veigamikið atriði í öllu tali einsog við bæðum vitum!
María Kristjánsdóttir, 5.10.2007 kl. 16:08
Það er rétt - þögn Sjálfstæðismanna í borgarstjórn er t.d. hávær núna. Þú ert hins vegar að misskilja þetta eitthvað með Össur, hann kemur hvergi að þessu máli og veit ekkert hvernig unnið hefur verið á bak við tjöldin. Ekki frekar en Samfylkingin, Vg, Borgarbyggð og sjálfstæðismennirnir 6 í borgarstjórn.
Dofri Hermannsson, 5.10.2007 kl. 16:50
Það eina sem Villi vinstri getur gert í þessari stöðu er að segja af sér
Óðinn Þórisson, 5.10.2007 kl. 17:58
Flott svar hjá þér Dharma, eins og þín er von og vísa en núna er ég þér 100 % sammála.
Óskar Þorkelsson, 5.10.2007 kl. 19:45
Afturhalds boðskapur gamla góða Villa hundavaðslegt yfirklór,sem flokkast undir fíflhyggju.Það setur að mönnum nábít og böggul fyrir brjósti að vera vitni að öðru eins.Orðalag Þórberg Þóðarsonar um afglapaverk.
Kristján Pétursson, 5.10.2007 kl. 21:59
Dharma, ég hef alltaf rétt fyrir mér!! Dofri, Össur hefði getað sagt að honum hugnaðist ekki hvernig væri staðið að þessari sameiningu, skoða þyrfti það mál allt og setja þyrfti strax lög um orkufyrirtækin. Hann lét nákvæmlega eins og hann gæti ekkert gert í málinu. (Björn Bjarnason hefur skoðun á málinu!) Mér segir svo hugur um að þú, umhverfisverndarsinninn, eigir eftir að eiga erfiða daga í þínu starfi.
María Kristjánsdóttir, 6.10.2007 kl. 00:07
Ber er hver að baki nema bróður eigi er ekkert úr Grettlu
! Kári Sölmundarson sagði þetta við Björn þegar þeir voru að hefna fyrir Njáls brennu.
Ég er hjartanlega sammála Dahrma í samb. við kaupréttinn. Kaupréttir í opinberu fyrirtæki er GJÖF af peningum almennings. Annars má fara að setja spurningarmerki við að kalla þetta opinbert fyrirtæki þegar svona hlutir bara gerast,,,,,, alls ekki mjög opinberlega.
Örvar Már Marteinsson, 6.10.2007 kl. 00:10
Ég get ekki annað séð en að Villi sé í góðum málum. Látum rykið setjast og þá vildu allir Lilju kveðið hafa :-)
Heimir Lárusson Fjeldsted, 6.10.2007 kl. 00:52
Örvar: Svo segir í Grettlu í kafla 82 sem fjallar um dráp Grettis og Illuga:
"Grettir hjó með saxinu til Víkars, fylgdarmanns Hjalta Þórðarsonar, og kom á öxlina vinstri í því er hann hljóp í tóftina og sneið um þverar herðarnar og út undir hina hægri síðuna og tók þar sundur þvert manninn og steyptist búkurinn ofan á Gretti í tvo hluti. Gat hann þá ekki upp rétt saxið svo skjótt sem hann vildi. Og í því lagði Þorbjörn Öngull á milli herða honum og var það mikið sár.
Þá mælti Grettir: Ber er hver á bakinu nema sér bróður eigi. Illugi kastaði skildi þá yfir hann og varði svo rösklega að allir menn ágættu vörn hans."
Það er hins vegar ekki útilokað að þetta hafi bara verið vinsæll frasi þarna í gamla daga jafnt norðan heiða sem sunnan - ekki síður en í dag.
Það var athyglisvert í fréttum í gær að hinir þegjandalegu sexmenningar skyldu senda Júlíus Vífil til að klaga borgarstjóra og lýsa yfir fullum stuðningi við hann í einum og sama fréttatímanum.
Ekki mikil reisn yfir þessu ólundarkasti þeirra þegar upp er staðið.
Dofri Hermannsson, 6.10.2007 kl. 12:01
Örvar Már Marteinsson, 6.10.2007 kl. 22:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.